17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

133. mál, Fiskiðja ríkisins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það, sem ég sagði, þegar ég fylgdi frv. þessu úr hlaði við 1. umr. né heldur það, sem hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan. Ég stend upp til þess að þakka honum fyrir stuðning við frv., en eins og hann sagði, er þetta gamalt mál okkar Alþb: manna. Og ég verð að segja það um afgreiðslu sjútvn., að hún er að því leyti röggsamlegri nú en áður, að í þau þrjú skipti, sem frv. var flutt áður, sofnaði það í n., en nú er þó tekið til hendinni og lagt til, að það verði fellt. Hv. frsm. meiri hl. hefur að líkindum ekki fjallað um þetta frv. fyrr, trúi ég, hér á þingi og mér virðist, að tilkoma hans í hv. sjútvn. valdi því, að nú er svona röggsamlega til verks gengið, því að eins og kunnugt er, er hann einna einarðastur andstæðingur alls ríkisrekstrar og þá um leið talsmaður einkahagsmunanna í þessu landi.

Helzta ástæðan til þess, að hv. frsm. meiri hl. vill fella frv., skilst manni, að sé — eftir því sem hann talaði hér áðan — sú, að nú sé í undirbúningi löggjöf um niðurlagningarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, svo kallaða Siglóverksmiðju, þar sem verður sú breyting á stjórn hennar, að henni verður ekki lengur stjórnað af stjórn síldarverksmiðjanna, heldur fái hún sérstaka stjórn, sem vænta mætti þá af meiri driftar í þessum efnum. Ekki þar fyrir, að það sé við stjórn síldarverk­-smiðjanna að sakast, að rekstur þessarar verksmiðju hefur lengst af verið í hinum mesta ólestri, heldur er ástæðan að sjálfsögðu sú, að þetta verkefni hefur ekki komið heim við mörg önnur verkefni stjórnar Síldarverksmiðjanna og hún hefur varla annað þessu. En eins og kunnugt er, hefur það næstum frá byrjun verið krafa fólks norður á Siglufirði, að á þessu verði breyting og þessum málum verði þannig skipað, að einhvers megi vænta af þessari verksmiðju.

Sú breyting yrði þá helzt með því, að henni yrði sett ný og sérstök stjórn. Það eru nú gefin mörg fyrirheitin um frv., sem aldrei sjást hér á hinu háa Alþ., en sannarlega mundi maður fagna því, ef þessum málum yrði skipað að óskum og vilja fólks þar nyrðra. En það vil ég segja í þessu sambandi, að ég hygg, að sá árangur, sem þá fengist, yrði ekki hvað sízt því að þakka, að þessu máli hefur verið haldið hér vakandi af hálfu Alþb.—manna með þessu frv. m.a. og þá ekki hvað sízt af hálfu Ragnars Arnalds, sem flutti þetta frv. þrisvar áður.

Ég ætla ekki að bæta neinu frekar við það, sem ég hef áður sagt um þetta frv. og nauðsyn þess, eða það, sem hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan. En mér virðist ljóst, að það sé síður en svo vanþörf á því, heldur eigi þetta frv. fullan rétt á sér, ekki hvað sízt með tilliti til þess, hvað allur niðursuðuiðnaður hefur löngum verið vanræktur hér á Íslandi og þar er þörf skipulagningar, sem yrði náttúrlega að vera í höndum einhverrar stofnunar slíkrar sem þeirrar, sem lagt er til, að komið verði á fót með þessu frv. Þá er ekki síður mikil þörfin á markaðsöflun, þannig að þessi iðnaður geti átt öruggan markað fyrir sína vöru og þá um leið að framleiðsla hans aukist að fjölbreytni og batni.