11.11.1970
Efri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

105. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt hv. 3. landsk. þm. frv. til l. um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Eins og hv. dm. mun reka minni til, voru lög um þetta efni samþ. á síðasta Alþ. til staðfestingar á yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstjórn hafði gefið í sambandi við kjarasamninga vorið 1969. Það var ljóst, að þegar þessi yfirlýsing var gefin og það samkomulag gert, sem að baki þessum l. lá, þá væri verið að fara að ýmsu leyti út á nýja braut í tryggingamálum og rétt er einnig að hafa það í huga, að yfirlýsingin um þetta samkomulag var gerð í önnum dagsins, á meðan erfiðir samningar stóðu yfir og þess varla að vænta, að séðir yrðu fyrir allir þeir annmarkar, sem kynnu að koma fram við framkvæmd l. Einnig má segja, að menn hafi ekki getað gert sér fullkomna grein fyrir því, hve miklar þær bætur væru, sem ákveðnar voru samkvæmt þessum l. En tilgangur samkomulagsins og l. var sá að brúa það bil, sem skapaðist annars vegar milli þess fólks í verkalýðsfélögunum, sem var enn á góðum aldri og gat farið að vonast til, að hinir nýju lífeyrissjóðir, sem samkomulag var einnig um, mundu færa því bætur á eðlilegum tíma og hins vegar gamla fólksins, sem var þrotið að starfsorku og komið á þann aldur, að þess var ekki að vænta, að það gæti unnið sér neinn lífeyrisrétt í lífeyrissjóðum. Menn gerðu sér sem sagt ljóst, að við framkvæmd l. mundu geta komið fram ýmsir annmarkar, sem síðar þyrfti að laga og þess vegna var það ákvæði sett inn, að eftir nokkra byrjunarreynslu yrðu l. endurskoðuð, eins og þar segir og vissulega hefur sú orðið raunin á, að ýmislegt þarfnast bóta í þessum l.

Það er kannske fyrsta og stærsta atriðið, að bætur samkvæmt þessum l. hafa í reynd orðið miklu lægri, en menn gerðu sér vonir um og reiknuðu með. Menn höfðu sýnilega ekki gert sér fulla grein fyrir því, að þegar það skilyrði er sett, að menn hefðu náð sjötugsaldri og verið í starfi til ársins 1967, þá leiðir það af sér, að menn hafa haft síðustu árin miklu lægri tekjur heldur en eðlilegt getur talizt, miklu lægri en meðaltekjur verkafólks eru. En þegar svo er ákveðið, að eftirlaunin skuli miðuð við meðaltal síðustu starfsáranna og ekkert annað, þá gefur það í raun og veru auga leið og hefur orðið augljóst í enn ríkara mæli, en þá var, að þessar bætur verða mjög lágar. Auk þess kemur það svo til, að ekki var ákveðið í l., að neinar verðlagsbætur yrðu greiddar á þessar upphæðir, þannig að það er fyrirsjáanlegt, að í því verðbólguflóði, sem nú hefur orðið og enn geysist yfir, verða þessar upphæðir stöðugt áverulegri. Það hefur líka komið í ljós, að allar áætlanir, sem gerðar voru af tryggingafræðingum, þegar þetta samkomulag var gert og l. sett, um hvað heildarbæturnar yrðu miklar, hafa verið mjög langt frá því að standast. Þær hafa orðið mörgum sinnum minni, en gert var ráð fyrir. Þó að bæturnar væru nú eitthvað hækkaðar, er síður en svo verið að gera ráð fyrir því, að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs í sambandi við bæturnar verði meiri, en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Og þó að bæturnar yrðu hækkaðar, eins og hér er gert ráð fyrir í 3. gr. frv., hygg ég, að þær mundu vera langt frá því að ná þeim upphæðum, sem tryggingafræðingar gerðu ráð fyrir, að þessar bætur mundu kosta, er samkomulagið var gert.

Til þess að menn fái ofurlitla hugmynd um það, hverjar þessar bætur eru og hvað þær eru óverulegar, ætla ég að leyfa mér að nefna tölur um bæturnar í mínu stéttarfélagi, verkalýðsfélaginu Einingu, en það er félag, sem telur nokkuð á þriðja þús. manns. Þar hafa fram til þessa verið ákveðnar bætur til tæplega 50 manna og bótaupphæðin er lægst 148 kr. á mánuði. Allmargir eru með 2—3 hundruð kr. greiðslu á mánuði, en hæstu bæturnar, sem unnt er að fá samkvæmt ákvæðum 1., hafa reynzt í þessu fé1agi 1.986 kr. á mán. En lang algengustu upphæðirnar hjá þessu félagi og ég hygg, að það sé ekkert sérstakt, eru þá 500—1.000 kr. á mán. Ég held, að af þessu sé það auðsætt, að það er svona nánast, að það sé verið að gera þetta að hégómamáli og sæmi það þó sízt gagnvart því fólki, sem hefur unnið langan og strangan starfsdag og þrotið er að kröftum í ellinni. Ég held því, að það sé ekki sæmandi annað en gera hér verulega bragarbót á og tel, að það sé farið vægilega í sakirnar með þeirri till., sem hér liggur frammi, að bæturnar verði hækkaðar í 2.000 kr. og síðan komi verðlagsuppbót á þá upphæð miðað við 1. jan. 1970.

Þá eru tvær breyt. aðrar, sem ég og hv. 3. landsk. þm. leggjum til, að verði gerðar og sem við teljum all veigamiklar. Það er í fyrsta lagi, að það sé ekki ófrávíkjanlegt skilyrði, eins og gert er ráð fyrir í l., að menn hafi verið í starfi í árslok 1967, heldur sé það látið nægja, að menn hafi 10 ára lágmarks starfstíma á því tíma bili, sem l. annars gera ráð fyrir, að sé grundvallandi fyrir bætur, þ.e.a.s. tímabilið frá 1955 til þess tíma, að maður geti notið bótaréttinda. Þetta þýðir það í reyndinni, að það skiptir ekki máli, hvenær á þessu tímabili menn hafi unnið sér þennan rétt, þannig að það gæti hugsazt, að maður, sem vinnur frá 1955 til ársloka 1964, mundi fá bætur, samkvæmt þessari breyt. En nú er það ekki svo. Hins vegar er það svo, samkv. l. nú, að maður, sem ekki hefur unnið neitt lengur, heldur aðeins unnið seinni hlutann af tímabilinu — hann mundi fá bætur. Þetta teljum við vera misræmi. Ef menn hafa á þessu ákveðna tímabili, sem tekið er til viðmiðunar, unnið jafnlangan tíma, þá ætti það ekki að skipta máli, hvenær á tímabilinu vinnan var framkvæmd, en á því er ekki vafi, að þetta mundi fjölga bótaþegum nokkuð. Að athuguðu máli verður að telja það fullkomið sanngirnismál, að þessi breyting verði gerð.

Þá er í öðru lagi lagt til, að sú breyting verði gerð á 1. málsgr. 4. gr. laganna, þar sem segir, að til réttindatíma félaga skuli einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955, sem hann hefur verið að störfum, sem verið hefðu tryggingaskyld sbr. 7. lið 2. gr., svo og þann tíma, sem hann hefur verið fullgildur félagi stéttarfélags, sbr. 1. gr. Þ.e.a.s. lögin gera ráð fyrir því, að menn geti aðeins notið bótaréttar þann tíma, sem viðkomandi hefur verið fullgildur félagi í stéttarfélagi. Það kann að vera, að þetta ákvæði sé almennt réttmætt, en það getur verið álitamál, vegna þess að hafi menn ekki verið í stéttarfélaginu, en átt þess þó kost, þá er það oft, að það er ekki einstaklingnum að kenna, það getur allt eins verið vanræksla af hálfu viðkomandi félags, að maðurinn er þar ekki félagsbundinn. En hér ber að líta á það, að í ýmsum tilvikum átti viðkomandi maður ekki kost á því að vera í neinu stéttarfélagi og þetta kemur þannig út í reyndinni, að mjög mikill hluti af iðnaðarmönnum, sem hafa þó bæði aldur og starf að baki til að fullnægja ákvæðum laganna, kemur ekki til greina í sambandi við úthlutun þessa viðbótar ellilífeyris, vegna þess að viðeigandi félög voru þá ekki starfandi, þar sem þeir áttu heima.

Varðandi iðnaðarmennina er það svo, að þeirra samtök hafa verið að byggjast upp utan höfuðborgarsvæðisins og allra stærstu bæjanna aðeins nú á allra síðustu árum, þannig að miki1l hluti iðnaðarmannanna víða um land er útilokaður frá því að njóta þess réttar, sem þarna er um að ræða, vegna þess að ekkert verkalýðsfélag getur gefið þeim vottorð um, að þeir hafi verið þar félagar. Í sumum tilfellum er líka um það að ræða, að verkalýðsfélög hafa ekki verið starfandi, a.m.k. ekki nema að nafninu til og ekkert eftirlit haft með því og engar skýrslur um það gefnar, hverjir hafa verið meðlimir þar á vissu tímabili, sem starf þeirra hefur legið að mestu niðri, þó það hafi kannske verið til að nafninu til og ber hér allt að þeim brunni, að sú undantekning skuli gerð frá þessari almennu kröfu um, að menn hafi verið í verkalýðsfélagi, að viðkomandi hafi átt þess kost miðað við þá búsetu og aðstöðu, sem hann á hverjum tíma hafði. Vel má vera, að það ætti að ganga enn þá lengra í þessu efni og rýmka þetta enn frekar og mundi ég sízt hafa á móti því, en við höfum þó ekki talið rétt að ganga lengra í þessu efni, en hér er raunin á. Það eru sem sagt aðeins þessi þrjú atriði, sem við leggjum til, að nú þegar verði breytt í lögunum.

Við lítum ekki svo á, að hér sé um neina heildarendurskoðun laganna að ræða og vel komi til greina, að fleira þurfi nauðsynlega að laga nú þegar og erum örugglega opnir fyrir breytingartillögum, sem kynnu að ganga í þá átt, en hér er um þau atriði að ræða, sem mestu misrétti hafa valdið við framkvæmd laganna og vænti ég þess, að hv. þd. og hv. Alþ. taki á því þannig, að sæmd sé að.