10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

105. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hér við 1. umr. um þetta frv., felast í því þrjú breytingaatriði á gildandi lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum. Það er í fyrsta lagi, að l. gera nú ráð fyrir því ófrávíkjanlega skilyrði fyrir bótarétti, að verkafólk hafi verið í starfi í árslok 1967, en hins vegar ekki, að það hafi verið í starfi lengur en 10 ár frá árinu 1955, en nú verði bótaréttur miðaður víð 10 ára lágmarksstörf, hvenær sem þau hafa verið unnin á framangreindu tímabili. Í öðru lagi er það ekki lengur alfarið gert að skyldu fyrir bótarétti, að viðkomandi hafi allan tímann verið fullgildur félagi í stéttarfélagi, þ.e.a.s. ekki í þeim tilvikum, sem svo stóð á, að viðkomandi maður hafði ekki tækifæri til þess, vegna þess að ekki var starfandi neitt stéttarfélag í hans atvinnugrein. Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því, að lágmarksbætur verði hækkaðar í 2.000 kr. að viðbættri vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta eru meginatriði frv. og þau atriði, að ég hygg, sem mestur styrr hefur staðið um og mestir vankantar hafa komið fram á við framkvæmd þessara laga. Þetta reifaði ég við 1. umr. og tel í raun og veru ekki mikla ástæðu til þess að bæta þar miklu við.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv. og leitað um það umsagnar, m.a. Alþýðusambands Íslands. Niðurstaða n. varð sú, að athuguðum öllum málavöxtum; að hún er samþykk efnisatriðum frv. í reynd og einróma þeirrar skoðunar, að breyta beri l. í þá átt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En á hinn bóginn hafa þessi mál fyrir tilverknað Alþýðusambands Íslands þróazt þannig, frá því að þetta frv. var lagt fram, að lög þessi eru nú í athugun hjá n., sem skipuð hefur verið af ríkisstj. og með fulltrúum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. En eins og kunnugt er, var þetta mál samningamál við samningsgerð verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda 1969.

Enn fremur hefur það gerzt í málinu, að viðbrögð þess ráðh., sem með þessi mál fer, hafa verið mjög jákvæð og á flokksþingi Alþfl., sem haldið var á s.l. hausti, var einróma samþykkt að vinna að því, að nauðsynlegar breytingar fengjust fram í þessari löggjöf. Loks kemur svo þetta álit, sem ef samþykkt verður, sýnir að hv. þd. er sama sinnis og flm. um nauðsyn þess, að þarna verði gerðar á gagngerar breytingar.

Með hliðsjón af þessu þótti n., að miklar líkur væru til þess og sterkar vonir, að endurskoðun á þessum l. í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir og e.t.v. á fleiri atriðum, sem kemur til greina, að væri til bóta að breyta, næði fram að ganga á þessu þingi. Varð því samkomulag um að bíða eftir því starfi þeirrar n., sem um þetta fjallar og vísa málinu til ríkisstj. Að sjálfsögðu hefði ég sem flm. fremur óskað eftir því, að frv. hefði verið samþykkt, eins og það var lagt hér fram, en eftir öllum atvikum sýnist mér þessi afgreiðsla vera viðunanleg og gefa vonir um það, að málið nái í öllum aðalatriðum fram að ganga og auðvitað er það aðalatriðið.

Það er sem sagt einróma till. heilbr.—g félmn., að málinu verði vísað til ríkisstj. með þeim rökstuðningi, sem í nál. segir.