29.10.1970
Efri deild: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

65. mál, orkulög

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. shlj. því, sem hér liggur fyrir til 1. umr., var flutt á síðasta þingi, en var fram borið svo seint á þinginu, að það varð ekki útrætt. Við flm. höfum því leyft okkur að leggja málið fram enn að nýju í þeirri von, að nú fái það endanlega afgreiðslu.

Rafmagn er eitt af þeim gæðum, sem menn telja sér ekki hægt að vera án, eins og nú er háttað bæði atvinnurekstri og þörfum á heimilum, hvar sem er á landinu. Þetta er almennt viðurkennt og löggjafinn hefur í ýmsum greinum miðað afgreiðslu lagasetningar við, að því marki verði náð, að öll heimili fái rafmagn. Það má segja, að stefnan í orkul. sé við þetta miðuð og lagðar eru fram allmiklar fjárhæðir til þess að koma rafmagninu sem víðast út um land, þó að þær framkvæmdir gangi því miður hægar í mörgum héruðum, en æskilegt væri. Flestir landsmenn fá rafmagnið frá samveitum og það hefur að undanförnu verið miðað við ákveðin mörk um meðalfjarlægðir milli notenda á þeim svæðum, þar sem rafmagn frá samveitum er lagt. Samkv. 10 ára raforkuáætluninni, sem unnið var eftir fyrir nokkrum árum, var við það miðað, að lagt yrði rafmagn frá samveitum í byggðarlög, þar sem meðalfjarlægð milli notenda var 1 km eða minna. Nú um þessar mundir er unnið að því að leggja rafmagnslínur, þar sem meðalfjarlægð milli notenda er 1—1 1/2 km. og það hefur komið fram í umr. hér á þingi, að stefnt er að því, að næsta skrefið í þessu efni verði að leggja línur um þau byggðarlög, þar sem meðal fjarlægð milli notenda er á bilinu 1 1/2—2 km. Ég vil vona, að áður en mjög mörg ár líða, verði stigið enn stærra skref í þessa átt og línur frá samveitum verði teygðar lengra út um landsbyggðina heldur en á þau svæði, þar sem meðalfjarlægð er 2 km eða minna. En eins og þessi mál horfa nú og jafnvel þó að gengið yrði eitthvað lengra í því að leggja línur frá samveitum, heldur en menn hafa nú sett sér að marki, þá verða samt sem áður byggðarlög á ýmsum stöðum á landinu, sem ekki geta fengið rafmagn á þennan hátt.

Þetta litla frv., sem hér er til umr., miðar að því að bæta aðstöðu þeirra heimila eða byggðarlaga, sem svo eru í sveit sett að geta ekki fengið rafmagn frá samveitum. Þetta er því vissulega mjög lítill þáttur af sjálfu raforkumálinu, þegar litið er á það í heild og þáttur, sem ekki kostar mikla fjármuni, en er þó þess eðlis að dómi okkar flm., að það er nauðsynlegt að gefa þessum þætti gaum jafnframt því, sem unnið er á öðrum sviðum í þessu efni. En þeir, sem svo eru í sveit settir eða geta ekki fengið eða átt von á því að fá rafmagn frá samveitum, verða að afla þessara gæða með því að koma upp litlum rafstöðvum til heimilisnota og þá er um tvennt að ræða, annaðhvort mótorrafstöðvar eða þá litlar vatnsaflsstöðvar, þar sem skilyrði eru fyrir hendi til þess að virkja vatnsafl í þessu skyni. Samkv. orkulögunum er orkusjóði heimilt að veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa mótorrafstöðvar lán, er nemi allt að 4/5 stofukostnaðar rafstöðvarinnar. Það er enn fremur ákveðið í orkul., að úr orkusjóði sé heimilt að veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan við það svæði, sem héraðs rafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán að upphæð allt að 2/3 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg. Hér er gerður nokkuð mikill munur á og okkur flm. þessa frv. virðist, að þessi munur sé óeðlilega mikill, eins og lagaákvæðin eru nú. Vatnsaflsstöðvar eru fullkomnari og endast að jafnaði lengur, en mótorrafstöðvar, ef virkjunarskilyrði eru sæmileg og víða þarf að leggja alllanga línu frá vatnsafli, sem virkjað er, heim að bæjarvegg, en mótorrafstöð er yfirleitt hægt að reisa heima við bæ. Það eru líka takmörk fyrir því, hvað hægt er að leggja lágspennt rafmagn langan veg frá virkjunarstað og heim að bæ, og ef sú vegalengd fer yfir ákveðið mark, þá reynist óhjákvæmilegt að koma upp spennistöð við heimilisrafstöðina til þess að lækka spennuna og koma henni á það stig að vera nothæf fyrir heimilistæki. En þar sem slíkt þarf að gera, hleypir það vitanlega mjög upp kostnaði við þessi mannvirki.

Eins og reglurnar eru nú, er það hámark, svo sem ég hef áður tekið fram, að út á vatnsaflsstöð sé lánað 67% stofnkostnaðar, en hinn hlutann verður sá, er mannvirkið reisir, að leggja fram úr eigin vasa. Að því er stefnt með þessu frv. að leiðrétta þetta misræmi og lagt er til, að lán út á vatnsaflsstöð megi nema allt að 75% stofnkostnaðar og enn fremur, að heimilt verði að veita úr orkusjóði óafturkræft framlag til þeirra vatnsaflsstöðva til heimilisnota, sem reistar eru utan þess svæðis, er héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, þannig að lán og framlag megi nema samtals allt að 90% af stofnkostnaði rafstöðva og línu heim að bæjarvegg.

Orkul., sem nú eru í gildi, voru afgreidd hér á hv. Alþ. 18. apríl 1967. Þegar frv. til þessara l. var hér til umr. í þessari hv. d., komu fram við það allmargar brtt. og m.a. var þá flutt brtt., sem hneig í sömu átt og þetta frv., sem ég er nú að mæla fyrir. Þessu atriði málsins var þá í raun og veru mjög vel tekið og sá ráðh., sem þá fór með orkumál, tók það fram í umr., að hann teldi vel koma til greina að lögfesta ákvæði svipuð eða á sama hátt og hér er lagt til. En það var þá talið sérstaklega standa í vegi að samþykkja þær brtt., sem fyrir lágu, að komið væri að þinglokum og tvísýnt yrði um framgang löggjafarinnar í heild, ef málið yrði hrakið milli deilda. Við flm. höfum nú viljað rifja þetta upp og freista þess að fá þetta skoðað að nýju og við væntum þess, að sú n., sem fær málið til athugunar og hv. þd. líti á þetta með fullum skilningi.

Ég vil endurtaka, að hér er vissulega um lítinn þátt að ræða af hinu stóra raforkumáli, ef litið er á landið í heild, en þetta er þá jafnframt sá þáttur, sem kostar tiltölulega litið, en er mikilsverður fyrir einstök heimili og einstök byggðarlög, sem geta ekki átt von á því að fá rafmagn frá samveitum. Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.