10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

65. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu frsm. hv. meiri hl. iðnn., þá var nokkur ágreiningur um afgreiðslu þessa máls. Við hv. þm. Gils Guðmundsson og Einar Ágústsson skipum minni hl. n. í þessu máli, sem ekki er stórt í sniðum, en hins vegar þykir okkur mikilsvert, að það nái fram að ganga.

Eins og kunnugt er, er mikill meiri hluti bænda, sem hafa rafmagn á annað borð, kominn inn á svo kallað samveitusvæði. Því er ekki að leyna, að það hefur gengið misjafnlega í seinni tíð að koma fleiri býlum inn á samveitusvæði og um mörg býli háttar þannig, að það verður langur tími þar til þau ná að komast inn á slíkt svæði. Þeim bændum, sem þannig stendur á um, hefur verið veittur styrkur og önnur fyrirgreiðsla, a.m.k. fyrirgreiðslulán til þess að þeir kæmu upp hjá sér annaðhvort mótorrafstöðvum eða vatnsaflsstöðvum til raforkuvinnslu. Í lögum eru greinileg ákvæði um það, hverja aðstoð þessir bændur geta fengið. Þeir sem reisa mótorstöðvar hjá sér, geta fengið lán úr orkusjóði allt að 80% af stofnkostnaði, en bændur, sem reisa vatnsaflsstöðvar, geta fengið lán allt að 67% af stofnkostnaði og ekki aðra fyrirgreiðslu. Það er einmitt hlutskipti þessara bænda, sem ætla sér og þurfa að reisa vatnsaflsstöðvar, sem með þessu frv. á að rétta að nokkru leyti og bæta. Frv. gerir ráð fyrir því, að þeir bændur fái allt að 75% lán í stað 67% og þar að auki framlag úr orkusjóði, þannig að samanlagt geti lán og framlög numið allt að 90% af kostnaði við stofn vatnsvirkjunar og línulagna að bæjarvegg. Þetta er efni frv. Það lá fyrir í fyrra, en kom það seint fram, að það náði ekki afgreiðslu. Ég hef ekki trú á öðru heldur en við í hv. d. getum verið þekktir fyrir að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir.

Það er alveg augljóst mál, að það getur orðið æðilangur tími, þar til margir þeirra bænda, sem þannig er ástatt um sem ég hef rætt, komast inn á samveitusvæðin, og kannske eru þó nokkuð mörg býli, sem alls ekki komast inn á samveitusvæðin fyrr en þá einhvern tíman langt inni í framtíðinni. Það er fyrir þetta fólk, sem frv. er ætlað að vinna. Ég sé ekki neitt í bréfi því, sem lá fyrir n., frá rafveitustjóra ríkisins, að hann mæli þar beinlínis gegn því, að frv. verði samþykkt. Hann segir aðeins á einum stað, að það bæti ekki svo mjög úr og það er alveg rétt, að það er ekki stigið stórt spor í átt til hjálpar þessum hluta bænda, en þó er komið að nokkru til móts við hann. Á öðrum stað segir rafveitustjóri, og það eru lokaorð hans í bréfinu, ef ég fer rétt með, að það sé réttara að bíða heildarskipulags um raforkumálin. En eins og ég sagði áður, geri ég ráð fyrir því og við fleiri, að það geti orðið æði langt að bíða þess, að slíkt heildarskipulag verði gert og bændum almennt komið inn á samveitusvæði. Þess vegna væri það til hagsbóta fyrir bændur, sem vilja reisa vatnsaflsstöðvar á næstu árum, að þeir geri það og því fremur þarf þessi hluti bænda að fá fyrirgreiðslu og því fremur sem það er mun dýrara að koma slíkum stöðvum upp heldur en t.d. diezelstöðvunum. Oft er það, að þannig stendur á með vatnsaflsstöðvar, að það er hægt að reisa þær fyrir fleiri bændur í senn og það er að sjálfsögðu mikils virði. Ég held, að orkusjóði verði ekki of ætlun að standa undir þessum auknu fyrirgreiðslum og við í minni hl. væntum þess fastlega, að frv., eins og það liggur fyrir, geti orðið samþykkt.