27.10.1970
Efri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

39. mál, ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. nr. 39 flyt ég ásamt hv. 2. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, og hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni, frv. til 1. um ráðgjafar— og rannsóknarstofnun skólamála. Frv. þetta fluttum við einnig á síðasta þingi, en það náði þá eigi fram að ganga. Við freistumst þess vegna til að leggja þetta frv. fram að nýju til þess að reyna að hafa áhrif á að koma fastari skipan á mál þessi, en verið hefur til þessa.

Það má segja, að verkefni þessarar fyrirhuguðu stofnunar sé samkvæmt frv. fjórþætt: Í fyrsta lagi á stofnunin að annast fræðslu og leiðbeiningar varðandi náms— og starfsval nemenda. Starfsfræðsla mun eiga upptök sín í Bandaríkjum N —Ameríku og ekki vera tiltakanlega gömul, en þaðan hefur hún borizt a.m.k. um alla Evrópu og er orðinn þar mikilvægur þáttur í fræðslustarfi flestra og ég hygg nú raunar allra landa utan Íslands. Hér á að vera um að ræða hlutlausa fræðslu um þau störf, sem til greina koma fyrir æskufólk að velja sér að ævistarfi og hvaða námsleiðir standa til boða fyrir það í einstökum tilvikum. Starf þetta ætti að vera og er þar sem því er bezt fyrir komið, í nánum tengslum við atvinnulifið, þannig að þrátt fyrir hlutleysi þeirra upplýsinga, sem leiðbeinendurnir veita, þá geta þeir þó vakið áhuga nemenda á þeim þáttum atvinnulífsins, þar sem það fer saman, að í boði eru lífvænleg kjör og þörf fyrir starfskraftana.

Ég hef fengið nokkrar upplýsingar um starfsfræðslu frá Norðurlöndum. Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með því að fara að lesa upp úr þeim skjölum, en starfsfræðslan er samkvæmt þessum upplýsingum veigamikill þáttur í skólastarfinu á öllum Norðurlöndum. Allir unglingaskólarnir hafa starfskynningarkennara, sem fræðir ungmennin um náms— og starfsleiðir og skipuleggur í samráði við vinnuveitendur starfsdvalir unglinga á vinnustöðum, þar sem þeir geta fengið að reyna sig í þeim störfum, sem þeir hafa áhuga á. Þessar starfsdvalir eru unglingunum að kostnaðarlausu. Þeir fá ekki laun fyrir það, sem þeir gera á vinnustöðunum, og vinnuveitendurnir fá enga þóknun fyrir þær leiðbeiningar, sem þeir láta í té.

Fyrir nokkrum árum voru hér talsverðir tilburðir í þá átt að halda uppi starfsfræðslu Það var aðallega framkvæmt undir forystu Ólafs Gunnarssonar, sálfræðings og íslenzkir vinnuveitendur sýndu starfsfræðslunni þá mikinn áhuga og þeir lögðu margir fram verulega krafta í þágu æskufólksins með þessum hætti. Slíkt hygg ég, að íslenzkir atvinnurekendur vilji enn gera, ef þessari starfsemi yrði á fót komið að nýju. Sú reynsla, sem fékkst af starfsfræðslunni fyrr á árum, sannar, að ég hygg, svo að ekki verði um villzt, að þessarar fræðslu er mikil þörf hér á landi ekki síður, en annars staðar og almenningur kann vel að meta hana.

Annað meginverkefni frv. okkar þriggja eru rannsóknir og leiðbeiningar varðandi sálfræðiþjónustu, þar á meðal við afbrigðilega nemendur og þá, sem hafa skerta geðheilsu. Sálfræðiþjónusta í skólum uppeldisstigsins, þ.e. barna –og unglingaskólum og kennslufræðilegar rannsóknir eru nú reknar í stórum stíl í flestum þróuðum þjóðfélögum, einkum mun það vera eftir síðari heimsstyrjöldina, sem meira hefur verið gert af þessu. Sálfræðiþjónustan hefur að margra dómi um of einangraðzt við vandamál afbrigðilegra nemenda, en félagsleg ráðgjöf og náms handleiðsla er nú talin nauðsynleg hverjum nemanda, svo að hann fái notið sem bezt hæfni sinnar og geti fundið sem beztan lífsgrundvöll fyrir sig og þjóðfélagið. Þessu marki verður ekki náð, nema að í skólunum sjálfum eða fræðsluhéruðunum sé sérmenntað fólk til þessara starfa, er hafi sem bakhjarl stofnun, er veitt geti aðstoð við þau vandamál, er ekki verða leyst í skólunum sjálfum.

Þegar ég flutti framsögu fyrir þessu máli 27. október í fyrra, fyrir réttu ári síðan, þá rakti ég talsvert þá sálfræðiþjónustu, sem haldið hefur verið uppi hér á landi, það er þá fyrst og fremst í Reykjavík og á Reykjanesi og hér áður fyrr í Kópavogi sérstaklega og ég skal ekki endurtaka þetta. Það hefur ekki mikið breytzt frá því, sem því var lýst í fyrra og þm. mun vafalaust í fersku minni, auk þess sem þeir þekkja þessi mál meira og minna af eigin athugun. En ég vil aðeins bæta því við það, sem ég sagði þá, að aðstoð við afbrigðilega nemendur er mjög mikill þáttur í skólastarfi og starfsfræðslu nágrannalanda okkar og þá ekki sízt nágranna okkar á Norðurlöndum. Það er við mikinn vanda að etja, sem ekki verður leystur, nema að til komi veruleg sérþekkingu, mannúð og fjármunir. Það er vandasamt verk að gera treggreind börn og unglinga fullgilda verkmenn á tækniöld, en það er þó í mörgum tilfellum hægt með þolinmæði og þrautseigju og það er vissulega verðugt markmið að forða þessum andlegu lítilmögnum frá þrautagöngu styrkþeganna. Þó verða menn að gera sér alveg ljóst, að slíku starfi lýkur ekki og getur ekki lokið með skólagöngunni í öllum tilfellum. Möguleikar til að nota takmarkaða hæfileika þessa fólks verða einnig að vera til á vinnumarkaði og það getur í mörgum tilfellum verið erfitt að hafa þá möguleika fyrir hendi og tækniþróun og vélvæðingu hefur í sumum löndum gert störf, sem þannig voru sérstaklega ætluð þessu fólki, óþörf og lagt þau niður, en þá ríður á að finna önnur, sem í staðinn geta komið.

Þriðja atriði þessa frv. fjallar um framhald á starfsemi, sem hér á landi hefur verið nefnd skólarannsóknir, þ.e. að framkvæma stöðugar rannsóknir á því, hvernig námsefni skólanna, kennsluaðferðir, próftilhögun, námsbækur, skólaskyldualdur nemenda, skólabyggingar o.fl. samrýmist að kallandi þörfum þjóðlífsins. Ég benti á það hér í fyrra og rifjaði það upp, að nokkuð hefur verið að starfi þessu unnið undanfarin ár. Það var árið 1966, sem menntmrn. fól Andra Ísakssyni sálfræðingi að starfa að því verkefni, eins og segir í bréfinu: „að annast fræðilega rannsókn á íslenzka skólakerfinu og verði hún undirstaða tillögugerðar um nauðsynlegar breytingar til að samræma skólakerfið breyttum þjóðfélagsháttum og nýjum sjónarmiðum í skóla— og uppeldismálum.“ Það orkar vart tvímælis, að mesta nauðsyn er á starfi því, sem samkvæmt þessu bréfi er verkefni skólarannsóknard. menntmrn. Þetta starf þarf að auka og efla, skapa grundvöll þess og viðurkenningu með lagasetningu og reglugerðarákvæðum, eftir því sem við á. Það þarf ekki langan málflutning til að rökstyðja þetta. Vísir að þessari starfsemi er til, en að dómi okkar flm. þarf að setja honum fastari skorður og koma þessu fyrir með l. og reglugerðum, en ekki fríhendis, ef svo mætti segja, eins og nú er gert, þar sem aðeins eitt bréf menntmrn. liggur til grundvallar allri þessari starfsemi.

Á landsfundi, sem Samband ísl. sveitarfélaga hélt hér í haust í Reykjavík, var af hálfu hæstv. menntmrh. og þeirra starfsmanna hans, sem að skólarannsóknum vinna, gerð grein fyrir því, í hverju þær hafi verið fólgnar að undanförnu og hvaða verkefni séu næst á dagskrá. Þessar upplýsingar eða skýringar voru birtar í blöðum og ég skal ekki endurtaka þær frásagnir, þær geta menn kynnt sér.

Fjórða atriði þessa frv. vil ég nefna, þar sem segir í b–lið 2. gr., að verkefni stofnunarinnar skuli vera að rannsaka, á hvern hátt því verði við komið, að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir búa á landinu. Um þetta atriði er það að segja, að síðan frv. var fyrst flutt fyrir réttu ári síðan hefur gerzt tvennt: Annars vegar það, að upp í fjárl. 1970 var tekin greiðsla í þessu skyni, 10 millj. kr., og á fjárlagafrv. fyrir næsta ár, 1971, er ráðgerð 12 millj. kr. greiðsla í þessu skyni. Þetta er annað, sem hefur gerzt, og auðvitað hið mikilvægara. Hitt hefur svo einnig gerzt, að flutt hefur verið frv. um námskostnaðarsjóð, sem til umr. var í hv. Nd. í gær og gerir ráð fyrir því, að myndaður verði nýr tekjustofn til þess að standa undir kostnaði við þessa fyrirgreiðslu, og sem samkvæmt ályktun flm. þess frv. nemur um það bil 100 millj. kr. á ári.

Þetta mál er engan veginn komið í höfn, þó að segja megi, að nokkur, örlítill væri kannske réttara orð — skriður sé kominn á úrbætur í því efni, en hann er samt ekki meiri en það, að þeir, sem fengið hafa fjármunina til ráðstöfunar, treysta sér ekki til að skipta þeim upp, vegna þess hve þörfin er margföld á við fjármagnið, sem veitt er til hennar. Og þrautalending þessara manna hefur verið sú — eftir upplýsingum, sem mér hafa verið gefnar — að geyma úthlutun til næsta árs og safna saman framlögum tveggja ára, til þess að einhver von sé til að leysa viðfangsefnið, eða byrja að leysa viðfangsefnið.

Með tilliti til þessa þá höfum við flm. þessa frv., sem hér um ræðir, ekki séð ástæðu til þess að fella þetta ákvæði úr því. Þar til viðbótar kemur svo, að jafnvel þótt eftir öðrum leiðum yrði útvegað fjármagn til þess að leysa þetta mál, sem allir viðurkenna, að er réttlætismál og allir vilja leysa, að ég hygg — þó að þær aðferðir fyndust nú eftir fjárl. eða öðrum l. en þeim, sem hér er rætt um, að hugsanlega yrðu lög, þá sýnist okkur það geta hentað vel, að ráðstöfun þessa fjár sé verkefni þessarar stofnunar, ef hún kæmist á fót, því að við hana eiga þeir menn að starfa, sem öðrum fremur fylgjast með einmitt þessum þörfum og þessum vandkvæðum, sem eru á jafnri menntunaraðstöðu, því að samkv. okkar till. á stofnunin að starfa nokkuð svipað og námsstjórarnir gera eftir gildandi l. Þannig að hér verður sem sagt gott og náið samband milli einstakra fræðsluhéraða og starfsmanna þeirrar stofnunar, sem við erum hér að leggja til, að sett verði á stofn og ég er að tala hér um.

Þegar þetta mál var rætt hér í fyrra, tók hæstv. menntmrh. til máls og tók vel í þær hugmyndir, sem hér voru settar fram um aukna starfsemi í þessum greinum, þótt hann hefði vitanlega ýmislegt við frv. að athuga samkv. þeirri venju, sem skapazt hefur, að mannanna verk og þá sérstaklega manna í stjórnarandstöðu séu ófullkomin. Aðalmótbára menntmrh. við frv. var sú, að hingað til hefðu skólarannsóknirnar að vísu verið verkefni ríkisvaldsins, en sálfræðiþjónustan hefði algerlega verið á vegum sveitarfélaganna og ætti að vera það samkv. hans skýringum. Rétt er það, að þetta hefur verið svona. En hvaða afleiðingar hefur það haft? Það hefur haft þær afleiðingar, eftir því sem ég fæ bezt séð, að þessi þjónusta er lítil sem engin. Það kann að vera, að ég hafi ekki alveg nýjustu upplýsingar um það, hvaða sálfræðiþjónusta er innt af höndum hér á landi, en þó hygg ég, að það skeiki ekki miklu og samkv. mínum upplýsingum er það svo, að eini staðurinn utan Reykjavíkur, sem heldur uppi sálfræðiþjónustu, eru sveitarfálögin í Reykjaneskjördæmi, sem í fyrra réðu einn sálfræðing til starfa og hafa á þessu ári ráðið sama sálfræðinginn til þessara starfa og honum til aðstoðar sérmenntaðan kennara. Fyrir utan þetta, hygg ég, að engin sálfræðiþjónusta sé framkvæmd í skólum á Íslandi, nema þá hér í Reykjavík að sjálfsögðu, en hér hefur sálfræðiþjónustu verið haldið uppi um nokkurt skeið. Mig langar til þess að fá að vitna hér í umsögn forstöðumanns sálfræðiþjónustunnar í Reykjavík um það, hver sé að hans dómi framtíð þeirrar starfsemi, sem hann hefur veitt forstöðu. Í grein, sem kom í Morgunblaðinu í fyrra, segir hann um sálfræðiþjónustu í Reykjavík, með leyfi forseta:

„Ég held, að mikilvægasta staðreyndin um sálfræðideild skóla, sem rekin er sem deild í fræðsluskrifstofu Reykjavíkur, sé einfaldlega, að hún er þó enn þá til. Hún hefur þrátt fyrir allt ekki verið lögð niður. Starfsfólkið hefur flest þraukað hið sama s.l. 6—8 ár. Stjórnunarmenn borgarinnar hafa lagt fé til starfsins og stutt það myndarlega á ýmsa lund, sem ber að þakka og viðurkenna. Mörgu hefur þó verið stórlega áfátt um starfsgrundvöll af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík. Það er örugg sannfæring mín, að nú nálgist tímamót. Sú tegund starfsemi, sem ég og mitt nánasta samstarfsfólk hefur reynt að byggja upp, mun renna út í sandinn og týnast, ef ekki verður hafizt handa um að styrkja og efla starfið á marga vegu án tafar.“

Og síðar segir hann, með leyfi forseta: „Vöntun á viðurkenningu hefur sýnilega ýmisleg áhrif á sérfræðingana sjálfa, hugmynd þeirra um hlutverk sitt og ekki síður, hverjum augum aðrir líta á verk þeirra, foreldrar, kennarar og almenningur. Skýr ákvæði um hlutverk sálfræðiþjónustu í skólum, skyldur og réttindi starfsmanna hennar er helzta verkefnið, sem liggur fyrir á þessu sviði, ef tryggja á faglegar framfarir og endurnýjun sálfræðiráðgjafar í samræmi við örar breytingar skólastarfs og samfélagshátta.“

Ég skal ekki lesa meira úr þessari grein Jónasar Pálssonar, forstöðumanns sálfræðiþjónustu í skólum Reykjavíkurborgar. Ég hygg, að þetta sé nóg til þess að sýna fram á það, að einhvers konar fyrirkomulags breytingu þarf á þessum málum að gera, t.d. þá, sem við flm. þessa frv. leggjum til. Þó vil ég engan veginn halda því fram, að við höfum fundið hina einu réttu lausn, en ef menn vildu taka þetta frv. til athugunar í n., sem mér finnst nú raunar n. bera skylda til að gera, þá mætti kannske finna heppilegri fleti, en við höfum sett hér fram. A.m.k. væri þá tryggt, að sami doðinn ríkti ekki í þessum málum og nú gerir.

Verkefnaskipting ríkis og sveitarfédaga er í stöðugri endurskoðun og einnig tekjustofnar þessara tveggja aðila. Það er auðvitað engin ástæða til þess, að þó að málum hafi verið svo skipað, að eitt væri hlutverk ríkis og annað sveitarfélags fram að þessu, að það skuli endilega þurfa að vera svo. Þessu má auðveldlega breyta og ég held, með hliðsjón af því, sem ég vitnaði til hér áðan um sálfræðiþjónustuna í Reykjavík, að óhjákvæmilegt sé að breyta þessu.

Í 4. gr. frv. er ráð fyrir því gert, að menntmrn. og menntmrh. setji reglur um störf stofnunarinnar, því að hér er, eins og allir sjá, aðeins um rammalagasetningu að ræða, þó að þetta frv. yrði samþ. Það eru mörg atriði, sem ráða þarf fram úr og í reglugerð þyrfti að kveða á um fjölda þeirra sérfræðinga, sem vinna að sálfræðiþjónustu og viðfangsefnum þeirra í einstökum skólum og fræðsluhéruðum. Það leiðir af eðli málsins, að þau störf, sem hér um ræðir, a.m.k. í a—lið 2. gr., verða að vinnast á staðnum. Þau verða að vinnast í skólunum sjálfum að verulegu leyti og okkur flm. finnst eðlilegt að hafa hliðsjón af umdæmum námsstjóra, sem eru 6 eftir gildandi lögum, þó að ekki starfi menn í þeim öllum. Það er eðlilegt, að stefnt verði að því, að sérfræðingar þeir, sem hér um ræðir, verði, þegar fram í sækir a.m.k., búsettir á sínum starfssvæðum. Það er ein af eðlilegum kröfum þeirra, sem í dreifbýlinu búa, að þeir sérfræðingar og aðrir opinberir starfsmenn, sem þeirra málum sinna öðrum fremur, séu búsettir á því svæði, þar sem þeir starfa. Það getur, án þess að neitt annað komi til, orðið til þess að jafna búsetuna í landinu, því að vitað er, að svona menn, menntamenn, vísindamenn og sérfræðingar, gera umhverfí sitt byggilegra. Þeir laða aðra að, sem vilja fremur búa á slíkum stöðum, eftir að þessir menn hafa setzt þar að.

Ég hef þá, að ég hygg, herra forseti, lokið þessari framsögu, þó að vissulega mætti margt um málið segja til viðbótar því, sem ég hef nú sagt, en ég læt duga að vísa til þeirrar talsvert ítarlegu framsöguræðu, sem ég flutti um málið fyrir ári. Ég skal taka það fram nú eins og þá, að þetta frv. er ekki flutt til þess að gera lítið úr því, sem unnið hefur verið að þessum verkefnum, heldur til þess að leggja áherzlu á, að þetta starf þarf einmitt að auka og koma í fastara form.

Ég dreg svo að lokum saman það, sem ég hef verið að reyna að segja:

1. Náms— og starfsaðstöðu þarf að taka upp að nýju í stórauknum mæli.

2. Sálfræðiþjónustu í skólum ber að efla. Það er einróma krafa allra skólamanna og ótal raddir hafa komið fram um það.

3. Rannsóknarstörf á námsefni, kennsluaðferðum, próftilhögun, námsbókum, skólaskyldualdri, skólabyggingum o.fl. þess háttar þarf að stórauka.

4. Þessar greinar eru það skyldar, að hagkvæmt og heppilegt er, að þeim sé stjórnað frá einni stofnun, sem við flm. höfum nefnt í frv. ráðgjafar— og rannsóknarstofnun skólamála.

5. Koma þarf málum þannig fyrir, að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir búa á landinu og eðlilegt gæti verið, að þetta verkefni væri enn fremur falið stofnuninni.

6. Menntmrh. setji reglur um störf stofnunarinnar, þ.á.m. um fjölda þeirra sálfræðinga og félagsráðgjafa, sem að sálfræðiþjónustu vinna og viðfangsefni þeirra í hinum einstöku skólum og fræðsluhéruðum landsins.

7. Hafa skal hliðsjón af umdæmum námsstjóra, þegar ákveðin eru starfssvæði þessara manna og stefnt að því, að þeir verði búsettir hver á sínu starfssvæði.

8. Kostnaður af störfum stofnunarinnar mun fást að verulegu leyti uppi borinn í bættri kennslutilhögun, ef frv. verður að lögum.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.