08.03.1971
Efri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

39. mál, ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og eins og nál. á þskj. 445 ber með sér hefur hún eða þeir, sem viðstaddir voru á þeim fundi, þegar n. afgreiddi málið, orðið sammála um að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj.

Eins og fram kemur í nál. og hv. þdm. mun kunnugt, er í frv. því um grunnskóla, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþ., gert ráð fyrir því, að þjónustu af því tagi, sem hér er um að ræða, verði komið á fót. Nú hef ég út af fyrir sig ekki krufið það til mergjar, hvort þær hugmyndir, sem þar koma fram, eru nákvæmlega þær sömu og fyrir flm. frv. vakir. Ég geri ráð fyrir, að svo sé ekki, tel það sennilegt, en það skiptir ekki höfuðmáli, því með tilliti til þess, að mér skilst að ekki sé gert ráð fyrir, að frv. um grunnskóla verði afgreitt á því þingi, sem nú situr, taldi n. eðlilegt, að málinu yrði að svo stöddu vísað til ríkisstj., þannig að hugmyndir þær, sem í því felast ásamt öðrum hugmyndum um framkvæmd þeirrar þjónustu, sem hér er um að ræða, verði þá til athugunar þar til þetta mál verður lagt fyrir næsta þing.