10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skil þá grg., sem hér liggur fyrir í nál. hæstv. heilbr.—og félmn. fyrir því að vísa þessu máli til ríkisstj., á þá lund, að það sé skynsamlegt og eðlilegt að fresta þessu máli, á meðan það sé til athugunar hjá aðilum vinnumarkaðarins, en sú athugun beinist að vísu ekki einvörðungu að hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja, heldur öllu fremur að stofnun svokallaðra samstarfsnefnda, sem að vísu er skylt málefni. Ég er þeirrar skoðunar, að sú hugsun, að starfsmenn eigi hlutdeild í stjórn atvinnufyrirtækja, sé enn sem komið er ýmsum framandi og það reyndar jafnvel launþegum, svo að ekki sé nú minnzt á vinnuveitendur, sem margir eru nú haldnir gamaldags sjónarmiðum um yfirráðarétt sinn yfir atvinnufyrirtækjum. En ég hygg nú jafnvel, ef dýpra er skoðað, að þá væri það nú einnig ávinningur fyrir þá, að starfsmennirnir öðluðust hlutdeild í stjórn atvinnufyrirtækja og það er nú mín persónulega skoðun, að samstarfsnefndir geti aldrei komið í staðinn fyrir það, að starfsmennirnir öðlist beina aðild að stjórn atvinnufyrirtækjanna. Og ég er líka þeirra skoðunar, að, að lyktum sé mjög eðlilegt, að þetta málefni komi til kasta löggjafans og Alþ., en ég get vel fallizt á það með hæstv. n., að það sé vissulega rétt, að aðilar vinnumarkaðarins skoði þetta mál betur og að beðið sé eftir því, hvað kemur út úr þeim viðræðum, sem þar fara fram og það væri ekki fyrr en að þeim loknum, sem þetta mál yrði þá síðar tekið upp á nýjan leik.