30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þess gerist ekki þörf, að ég fylgi þessu frv. eftir með langri ræðu. Vandamál námsmanna hafa verið rædd hér á hverju þingi að undanförnu og allar staðreyndir um þau mál ættu að vera mönnum augljósar. Hér hafa legið fyrir hverju þingi seinustu árin till. um aukna aðstoð til námsmanna og einnig utan þings hefur þetta orðið að miklu hitamáli, eins og alkunnugt er. Meginefni þessa vandamáls er það, hvernig hægt sé að styrkja Lánasjóð námsmanna, þannig að hann gegni hlutverki sínu að fullu og ég tel, að það sé brýnasta verkefnið, sem hægt er að ráðast í nú þegar á þessu sviði á að tryggja það, að þessi sjóður gegni hlutverki sínu. Það sé brýnasta verkefnið til að tryggja raunverulegt jafnrétti til menntunar á Íslandi. Að vísu nægir þetta kerfi engan veginn til að tryggja það, en engu að síður er þetta sú leið, sem er nærtækust og mikilvirkust, eins og sakir standa.

Ég spurðist fyrir um það hér á þingi fyrir nokkrum dögum, hvenær hæstv. ríkisstj. ráðgerði, að sjóðurinn yrði orðinn það öflugur, að hann gæti fullnægt því markmiði, sem ráð er gert fyrir í lögum, þ.e. að lána námsmönnum það fé, sem þeir þurfa á að halda umfram þær tekjur, sem þeir hafa sjálfir árlega. Hæstv. menntmrh. gerði þar grein fyrir allverulegri hækkun, sem nú hefur verið ákveðin á fjármagni til sjóðsins og sagði í framhaldi af því:

„Með sama áframhaldi mundi ekki taka nema um þrjú ár til viðbótar að ná þessu markmiði að fullu. Svo sem jafnan hefur verið lögð áherzla á af hálfu ríkisstj., er það að sjálfsögðu undir Alþ. komið með ákvörðun fjárveitinga, hversu hratt þeirri sókn miðar, en ég tel, að, að þessu marki eigi að stefna, þ.e.a.s. að halda þeim vaxtarhraða í fjárveitingu til sjóðsins, sem markaður hefur verið í fjárlagafrv. fyrir 1971.“

Ég tel þetta vera ákaflega mikilvæga yfirlýsingu hjá hæstv. ráðh. Hann lýsir þarna yfir því og væntanlega þá í samráði við ríkisstj. í heild, að það væri eðlilegt, að fjárveitingar til sjóðsins væru auknar svo mjög, að hann næði upphaflegu markmiði sínu á næstu þremur árum. Hæstv. ráðh. bendir á það, að það sé undir Alþ. komið með ákvörðun fjárveitinga, hvort unnt verði að ná þessu marki. Að sjálfsögðu er það formlega rétt hjá hæstv. ráðh., fjárveitingar verða að vera ákveðnar hér á þingi. En það er kannske svolítið auðvelt að segja svona, því að eins og við vitum allir þm., þá er afstaða okkar til fjárlagafrv. ekki alltaf frjáls. Fjárlagafrv. er til komið með ákveðnum samningum milli þeirra flokka, sem eru í stjórn hverju sinni og reynslan sýnir, að meiri hl. þm. telur sig vera æði mikið bundinn af fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir. Það er mjög erfitt fyrir einstaka þm. að fá fram meiri háttar breyt. á fjárlagafrv., jafnvel í málum, þar sem meiri hl. þm. kann í sjálfu sér að vera samþ. breytingum. Þess vegna held ég, að það væri forsenda fyrir því að tryggja það, að fjárlagafrv. næstu árin verði þannig, að þau geri ráð fyrir þessari aukningu sjóðsins og að Alþ. lýsi því nú yfir sem stefnu sinni, að þessu marki beri að ná.

Það er tilgangurinn með frv. okkar hv. þm., Þórarins Þórarinssonar, að það verði fest í lögum sem vilji Alþ., að tekjur Lánasjóðsins verði auknar í áföngum að því marki, að frá og með námsárinu 1974—1975 verði unnt að fullnægja allri fjárþörf námsmanna umfram eigin tekjur þeirra. Hér er sem sagt lagt til, að það verði sett í lög, sem hæstv. menntmrh. taldi fyrir nokkrum dögum, að væri stefna hæstv. ríkisstj., svo að ég vil vænta þess, að um þetta mál geti tekizt góð samstaða hér á þingi og þá einnig tryggt, að framkvæmdin verði á þessa leið, svo að deilur um þetta mál þurfi ekki að valda örðugleikum, hvorki innan þings né utan. Ég vil svo leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til hv. menntmn.