08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er auðheyrt á hv. þm., að hann er lítið lukkulegur yfir því, hversu ríkisstj. hefur tekið myndarlega á fjárhagsvandamálum íslenzkra námsmanna heima og erlendis. Þess er skemmst að minnast, að hann hafði hér á undanförnum árum hvað eftir annað haldið uppi háværum kröfum um aukið fé til þessara sannarlega nauðsynlegu þarfa og það eru hans ær og kýr. Hann vill geta haldið hér uppi slíkum kröfum ár eftir ár og þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að hann hafi orðið fyrir raunverulegum og sárum vonbrigðum, þegar ríkisstj. varð við öllum óskum stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna á s.l. ári. Það hefur aldrei .komið fyrir áður, síðan sjóðurinn var stofnaður, að hægt hafi verið með fullu samkomulagi innan ríkisstj. að verða við öllu því, sem óskað var eftir handa íslenzkum námsmönnum heima og erlendis og það er þetta, sem hefur valdið þessum hv. þm. sárum vonbrigðum. Þess vegna býr hann sér til nýjan kröfuvettvang, nýtt atriði til þess að gagnrýna og búa sér til nýjar kröfur. Krafa hans í þessu efni núna er sú, að Alþ, setji inn í sjálf l. um aðstoð við íslenzka námsmenn heima og erlendis ákveðið tímatakmark um það, hvenær framtíðaróskum stjórnar lánasjóðsins skuli fullnægt.

Bak við það, sem ég sagði í fyrra, er fyllsta alvara og fullkomin samstaða í ríkisstj. — að það væri skoðun mín og allrar ríkisstj. að verða skyldi við þeim kröfum um tímamark, sem stjórn Lánasjóðsins hafði sett fram. Sem sagt að fullnægja þeim kröfum á 3–4 árum. Ég hafði heimild ríkisstj. til þess að gefa þá yfirlýsingu, sem ég gaf og það var full alvara og ekkert alvöruleysi að baki henni. Það, sem ég hins vegar sagði, að endanlega valdið væri ekki í höndum ríkisstj., heldur Alþ., þá átti ég auðvitað við, að endanlega fjárveitingavaldið væri í höndum Alþ., þ.e.a.s. við afgreiðslu fjárlaga, því að þar eru framlögin ákveðin, en ekki í einstökum l.

Það var sammæli allra, þegar l. um lánasjóðinn voru sett á sínum tíma, að ekki skyldi vera ákveðið áramark í l. sjálfum. Í 2. gr. er sett fram almennt takmark að hverju skuli stefnt, en öll menntmn. og allir, sem sömdu frv., þar á meðal fulltrúi flokks hv. þm., voru á því, að það væri rétt að orða þetta svona, en hafa ekki ákveðið áramark í l. sjálfum. Það hlyti að fara eftir skoðun fjárveitingavaldsins á hverjum tíma, hversu ört því markmiði væri náð og óhyggilegt væri að binda árabilið í almennum l. Það, sem velviljuð ríkisstj. getur gert og núv. ríkisstj. hefur gert, er að lýsa yfir sínum vilja á því að fara að óskum stjórnar Lánasjóðsins í þessum efnum. En sérhver ríkisstj. hefur sitt umboð til ákveðins tíma. Umboð þessarar ríkisstj. er til næsta sumars og það, sem við getum gert og höfum gert, er að lýsa yfir okkar skoðun, að á meðan við höfum tillögurétt til fjárveitingavaldsins um þetta, þá skuli eftir óskum stjórnar Lánasjóðsins farið og við það tímamark miðað, sem hún hefur miðað við í sínum bréfum til menntmrn.

Ég fellst alveg á það sjónarmið hv. menntmn. eða meiri hl. hennar, sem hv. frsm. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni áðan, að til viðbótar þessum almennu rökum, sem ég hef áður gert grein fyrir oftar en einu sinni hér á hinu háa Alþ., þá er nauðsynlegt og fullkomlega tímabært að endurskoða l. að ýmsu öðru mjög mikilvægu leyti og þá alveg sérstaklega með hliðsjón af því, til hverra aðila l. eiga að taka. Það var heldur ekki rétt hjá hv. þm., sem hann sagði áðan í ræðu sinni, að enginn undirbúningur væri hafinn að athugun á því máli. Sá undirbúningur er hafin og það er fullur vilji minn, að það verði tekið til alvarlegrar athugunar, með hvaða hætti helzt verði hægt að koma við námsaðstoð eða einhvers konar námslaunakerfi fyrir framhaldsskólanemendur. Það mál er þegar í athugun og sjálfsagt að láta almennar breytingar á þessum l. bíða, þangað til sú athugun er lengra komin en nú er. Ég get að sjálfsögðu engin fyrirheit gefið um það, að ég muni leggja till. um slíkt fyrir hið háa Alþingi, vegna þess að enginn veit, hvað við tekur eftir næstu kosningarnar. En í öllu falli mundi ég skilja eftir í menntmrn. rækilegar athuganir á þessu máli, þar sem mínar skoðanir og minna embættismanna munu koma fram, svo að það var einnig algerlega tilhæfulaust af þessum hv. þm., að við í rn. höfum ekkert sinnt þessu máli, sem ég líka viðurkenni, að er mjög mikilvægt. Hitt er mergurinn málsins, að á yfirstandandi ári hefur í fyrsta skipti verið orðið að fullu við einróma till. stjórnar Lánasjóðsins, sem fulltrúar námsmanna stóðu einnig að og ég hef þegar gefið yfirlýsingu fyrir hönd núv. ríkisstj., að a.m.k. meðan hennar tillöguréttar og áhrifa nýtur við, þá mun verða orðið við þeim till., sem frá stjórn Lánasjóðsins berast.