04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

32. mál, orkulög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 32 höfum við nokkrir þm. Framsfl. hér í hv. d. leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á orkulögum. Fyrsti flm. þessa frv. er hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, en vegna fjarveru hans úr þinginu hefur svo ráðizt, að ég gerði grein fyrir þessu frv.

Efni þessa frv. er tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til, að gerð verði áætlun um það, hvernig hægt verði að ljúka raforkuframkvæmdum í dreifbýli landsins. Þessi áætlun á að miðast við það, að verkinu verði lokið í síðasta lagi í árslok 1973. Við teljum hina mestu nauðsyn bera til, að nú verði gerð heildaráætlun um að ljúka raforkuframkvæmdum í landinu, hvað viðvíkur því að dreifa raforkunni út um sveitir landsins. Við höfum áður hér á hv. Alþ. flutt frv. um þetta efni, sem því miður hefur ekki náð fram að ganga, en við viljum nú freista þess einu sinni enn að fá slíkt frv. afgreitt hér á hv. Alþ., svo að þessum málum verði komið í viðunandi horf. Því að eins og nú er komið, ber mikil nauðsyn til að gera heildaráætlun um, hvernig og hvenær dreifingu á raforkunni verði lokið.

Í öðru lagi er það efni þessa frv., að gert er ráð fyrir, að sett verði bráðabirgðaákvæði við raforkulögin, um að þegar fyrir liggur þessi áætlanagerð, þá verði gerð áætlun um það, hvernig útvega eigi fé til þess að koma henni í framkvæmd.

Á þessum árum, sem raforkuframkvæmdirnar hafa staðið yfir, eða um 19 ára tímabil, er búið að tengja samveitum 3.752 býli. 1.153 býli munu hafa raforku frá einkarafstöðvum, þ.e. bæði vatnsaflsrafstöðvum og dísilrafstöðvum. En 400 býli eru enn alveg óraflýst. Mjög er þetta misjafnt í hinum einstöku héruðum. t.d. er búið að virkja í Eyjafirði allt nema 2.6% af býlunum, en aftur í Barðastrandarsýslu og Norður-Múlasýslu eru um 72% óraflýst. Þess vegna ber mikla nauðsyn til að jafna þessa aðstöðu og þá jafnframt að ákveða, hvenær henni skuli lokið.

Á árunum 1967, 1968 og 1969 eða sérstaklega á árunum 1968—1969 dró verulega úr framkvæmdum á dreifingu raforkunnar um sveitir landsins. Á þinginu í fyrra var hins vegar gert nokkurt átak í því að reyna að ná samstöðu um það að hraða þessum málum meira, en þá hafði verið gert og varð það þá að samkomulagi, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að á árinu 1971 yrði lokið að raflýsa þann áfanga, sem miðaður er við 11/2 km á milli bæja. Og í þeim fjárveitingum, sem nú er ætlazt til, að verði til þessara framkvæmda á næsta ári, er miðað við þessa áætlun.

Við hreyfðum því, bæði í sambandi við þetta frv., eða hliðstætt frv., sem við framsóknarmenn lögðum hér fram á síðasta þingi og við afgreiðslu á framkvæmdaáætlun ríkisstj., að nauðsyn bæri til að fara nú þegar að vinna að því að gera heildaráætlun um hvernig ætti að ljúka þessari dreifingu raforkunnar. Í því sambandi koma upp ýmis vandamál, sem hafa beðið afgreiðslu og ekki er hægt að komast hjá, eins og t.d. hvað gera skuli, þegar um er að ræða þéttbýlar sveitir, en nokkur vegalengd er frá næstu endastöð rafveitnanna til þessara byggðarlaga. Í þessu sambandi vil ég nefna byggðir eins og sveitirnar austan Mýrdalssands. Þegar komið er inn á það svæði, er svæðið innbyrðis tiltölulega hagkvæmt. En ef vegalengdin yfir Mýrdalssand er hins vegar tekin til viðbótar vegalengd milli býla fyrir austan og deilt á þau, þá er, eins og nú er, óframkvæmanlegt að tengja svæðið samveitu. Sama er að segja um Barðaströnd í Barðastrandarsýslu. Innan þess sveitarfélags eru línulagnir tiltölulega mjög auðveldar og vegalengd milli bæja hagstæð. Hins vegar er nokkur vegalengd yfir Kleifaheiði, en þangað verður að sækja rafmagnið. Þegar hún er lögð við og bæjatölunni deilt í þá vegalengd, þá er hér um óhagstæða raflínu að ræða. Þetta mál verður að taka sérstaklega fyrir og eins og við höfum áður lýst yfir og skýrt, ber mikla nauðsyn til að taka dreifingu raforkunnar í heild og setja um það ákveðna áætlun, hvernig eigi að leysa þetta, sem eftir er og er ekki orðið neitt stórmál, nema síður sé. Samkv. lauslegri áætlun, sem ég hef fengið þar um, þá hefur það komið fram, að þó að farið væri upp í jafnvel 4 km, væri hægt að leysa þetta á næstu 5 árum með 60 millj. kr. fjárveitingu á ári, svoleiðis að hér er ekki um neitt stórmál að ræða, en hins vegar hið mesta nauðsynjamál, sem þarf að leysa.

Ég vil benda á það, að við Íslendingar höfum leyst hliðstæð mál, eins og t.d. dreifingu símans.

Það var á sínum tíma stórt átak, sem þurfti til þess að dreifa símanum út um allar sveitir. Þetta gerðum við þá og nú höfum við á síðari árum gert hann sjálfvirkan að mjög verulegu leyti. Sama er að segja um útvarpið og nú síðast sjónvarpið. Við höfum gert verulegt átak í því að dreifa þessu út um landið og þess vegna væri það óeðlilegt, ef við ætluðum nú að hætta við raflagnirnar, þegar við ættum ekki nema lítinn hluta eftir af því stóra átaki.

Þá vil ég einnig geta þess, að í sambandi við þetta frv. okkar á þskj. 32 höfum við einnig leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á orkulögum á þskj. 59 og ég treysti því, að ég megi, með leyfi hæstv. forseta, víkja að þessu frv. okkar, þar sem þetta mál er einnig á dagskrá hér, enda eru sömu flm. að því og það er liður í því máli, sem við hér erum með.

Einmitt á síðari árum, þegar dregið hefur úr fjárveitingum frá ríkisins hálfu til framkvæmda í raforkumálum, þá hafa byggðarlögin reynt að leysa þau með því að bjóða fram lán. Þau hafa gert það með þeim hætti, að þeim hefur í flestum tilfellum verið endurgreidd lánsupphæðin, en vextina hafa sveitarfélögin greitt. Þarna finnst okkur, að sé um hróplegt ranglæti að ræða, að einmitt þau byggðarlög, sem lengst bíða eftir raforkunni, skuli þurfa að leggja á sig þessa greiðslu. Þess vegna leggjum við til, að þeim verði endurgreiddar þær greiðslur, sem þau hafa innt af hendi vegna raforkuframkvæmda úr Orkusjóði og ætti það að koma inn í þá áætlun, sem við gerum hér ráð fyrir, að gerð verði. Ég vildi víkja að þessu af því að hér er um skylt mál að ræða og í beinum tengslum við þetta.

Ég skal svo ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í framsögu fyrir þessu frv., því að það kynnir sig að öðru leyti sjálft og málið er líka það þekkt hér á landi og áhugi fyrir að leysa það svo mikill, að það þarf ekki að kynna hann fyrir hv. alþm. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr., og til hv. fjhn.