10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

32. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 32, er það, að bætt verði inn í orkulögin frá 1967 ákvæði til bráðabirgða í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er þess efnis, að lagt er fyrir Orkustofnun að gera áætlun um það, hvernig hagkvæmast verði að ljúka rafvæðingu landsins eigi síðar, en fyrir árslok 1973 og er gert ráð fyrir, að Orkustofnunin leggi till. sínar fyrir ráðh. eigi síðar, en þrem mánuðum eftir gildistöku þessara l., þ.e.a.s. ef frv. verður að lögum.

Í öðru lagi eru svo ákvæði um það, að þegar áætlun Orkustofnunar hefur verið gerð, skuli ráðh. undirbúa till. um öflun þess fjár, sem talið er þurfa til þess að ljúka framkvæmdum innan þeirra tímatakmarka, sem um getur í 1. tölul. og leggja þær fyrir Alþ. svo fljótt sem við verður komið.

Þetta frv. var, eins og nr. þskj. ber með sér, lagt fram í byrjun þings, en því miður hefur afgreiðsla þess dregizt í nokkra mánuði. Í áliti meiri hl. n. segir, að nú hafi ráðh. gert ráðstafanir til þess að framkvæma þann undirbúning, sem frv. gerir ráð fyrir og ekki sé eðlilegt að ákveða nánar um framkvæmd rafvæðingarinnar fyrr en að loknum þeim undirbúningsrannsóknum, sem fram fari og leggur meiri hl. því til, að málinu sé vísað til ríkisstj. Um þann undirbúning, sem þarna er um að ræða, er nánar fjallað í nál. og sagt, að þar sé um að ræða áætlun þá, sem frv. gerir ráð fyrir. Nú er það að vísu svo, að frv. er ekki aðeins um þessa áætlunargerð, heldur einnig um það, að ráðh. geri till. um fjáröflun til þess að framkvæma áætlunina. Og í frv. eru einnig sett ákveðin tíma mörk, þar sem gert er ráð fyrir, að áætlunin feli það í sér, að rafvæðingunni verði lokið ekki síðar, en fyrir árslok 1973. Ekkert liggur fyrir um það, að fyrirmæli ráðh. um áætlunargerð séu miðuð við þessi tímamörk, en það skiptir auðvitað mjög miklu máli, á hve löngum tíma gert er ráð fyrir, að áætlunin verði framkvæmd og rafvæðingunni þar með lokið.

Það er náttúrlega ekki nema gott um það að segja, að þessi áætlunargerð skuli vera hafin og er þá vel, ef frv., sem var lagt fram í haust, hefur eitthvað flýtt fyrir því, að það verkefni yrði tekið fyrir. Ég geri nú satt að segja ráð fyrir því, að úr því að þessi vinna er þegar hafin og af því að þær upplýsingar, sem þörf er á til þess að gera svona áætlun, hljóta að liggja að mestu leyti hjá Orkustofnuninni, þá hljóti það að vera vel framkvæmanlegt að ljúka áætluninni á mjög stuttum tíma, eða á þeim þremur mánuðum, sem gert er ráð fyrir í frv. En ef frv. yrði að lögum nú í marz eða apríl, þá ætti áætlunargerðinni að vera lokið 5 mánuðum síðar eða í ágúst eða september; þá gæti ráðh. lagt sínar till. um fjáröflun fram í byrjun næsta þings og væri þá um það að ræða að framkvæma áætlunina á tveimur árum.

Á Búnaðarþingi, sem nú situr, flutti rafveitustjóri ríkisins, Valgarð Thoroddsen, erindi um rafvæðingar málin. Hann gerði þar lauslega grein fyrir því, hvernig hann taldi, að þessi mál stæðu og samkv. því voru býli, sem hafa fengið rafmagn á vegum Rafmagnsveitna ríkisins í lok s.l. árs 3.814. Í þessari skýrslu er gengið út frá því, að býli, sem talin eru í þessu sambandi, séu tæplega 5.100 talsins, en þess er að gæta, að nokkur af þessum býlum hafa raforku frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Rafveitu Hafnarfjarðar. Það eru þá um 860 býli, sem rafveitustjóri hefur gert mjög lauslega áætlun eða ágizkun um og gerir hann ráð fyrir, að kostnaðurinn miðað við núgildandi verðlag sé hátt á 4. hundrað millj. kr. Það má segja, að þetta sé því ekki ákaflega mikið fjárhagslegt átak að ljúka þessari rafvæðingu og það væri eðlilegt, að Alþ. gæti hugsað sér að gera það á tveimur árum eða svo.

Nú vill minni hl. n. ekki fallast á það, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, heldur telur hann sjálfsagt, að Alþ. láti í ljós vilja sinn í þessu máli um áætlunargerðina og um það, að gerðar verði ráðstafanir til fjáröflunarinnar. En út af fyrir sig er áætlunargerðin ekki nóg, heldur þarf féð einnig til að koma og ég hef ekki trú á því, að hæstv. raforkumálaráðh. eða ríkisstj. geti haft á móti því að fá stuðning Alþ. við þetta mál, ef það er í raun og veru vilji stjórnvalda að gera þessa áætlun og framkvæma hana. Það er því till. minni hl., að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 32.