11.02.1971
Efri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

203. mál, Hagstofnun launþegasamtakanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. mikið. Ég geri ráð fyrir því, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til annarrar hvorrar þeirrar n., sem ég á sæti í hér í hv. þd. og ég mun þá hafa tækifæri til þess að fara út í einstök smærri atriði málsins og ætla ekki að teygja lopann um það. En ég tel rétt nú strax að leiðrétta ofurlítinn misskilning, sem vel má vera að hafi verið minni framsetningu að kenna, en ekki misskilningi hv. 1. flm. Mín hugmynd var ekki sú, sem ég varpaði hér fram, að atvinnurekendasamtökin ættu aðild að Hagstofnun launþega, ef sett yrði á laggirnar. Það, sem ég átti við, var það, að mér þætti líklegt, að upp kæmi krafa, kannske meira eða minna eðlileg, sem mætti styðja ýmsum rökum, um hliðstæða aðstoð við atvinnurekendasamtökin. En hitt hefur mér aldrei dottið í hug, ef slík stofnun væri sett á laggirnar, að atvinnurekendur ættu neina aðild að henni.

Ég ætla ekki að fara út í almennar rökræður um launajöfnuð og annað þvílíkt hér. Það er nægur annar vettvangur til þess að ræða um þau mál. Þó vil ég segja það, að ég tel, að okkar þjóðfélag sé að ýmsu leyti þeirrar gerðar, að það þoli ekki að hér sé jafnmikill launamismunur og með stærri og ríkari þjóðum. Við verðum að sætta okkur við það að hafa þar á talsvert annan hátt. Og ég vil nú í því sambandi minna á það, sem hv. flm. sagði hér í gær, er hann fór að mínu viti réttilega nokkuð háðulegum orðum um þá aðila í þjóðfélaginu, sem teldu, að eigingirni væri bezta hreyfiaflið í þjóðfélaginu. Auðvitað snertir þessi stefna líka sjálf kjaramálin. Hitt er svo auðvitað annað mál, að við erum settir í vissan og kannske illleysanlegan vanda, ef við viljum hafa meiri launajöfnuð, sem ég held, að við verðum að finna einhverja leið til að hafa, varðandi þá menn, sem geta boðið vinnuafl sitt á alþjóðlegum markaði, þ.e.a.s. nema þjóðfélagið geti komið því inn hjá sínum þegnum, að eigingirnin og ágirndin sé ekki það, sem eigi að ráða ferðinni. Ég held líka, að tilvitnun til Sovétríkjanna og annarra slíkra ríkja hafi ekki sannfært einn eða neinn um, að sú skipan mála, sem er á launamálum þar, sé eitthvað nærri lagi. Ég hef sjálfur komið til Sovétríkjanna og kynnti mér það af eigin raun. Ég þurfti að kaupa mér skó og þeir kostuðu rétt ein mánaðarlaun verkamanns eins og okkur var sagt, að þau væru að meðaltali. Það var að vísu áður en rúblan var hækkuð, en skórnir kostuðu 650 rúblur, en meðallaun verkamanna, að sögn opinberra aðila voru þá 450 – 600 rúblur á mánuði. Og ég sá líka, hvernig aðrir komu með úttroðin veskin sín silkiklæddir inn í stórverzlanir og höfðu þar búntin af stærstu mynt, sem til var í landinu, en á næsta torgi við stóðu gamlar konur með kreppta fingur prúttandi um nokkra kópeka fyrir skemmdar kartöflur. Ég held, að það sé ekki slíkt þjóðfélag, sem okkur langar til þess að byggja upp hér og ég veit, að hv. ræðumaður er mér sammála um það.