01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

203. mál, Hagstofnun launþegasamtakanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar og eins og nál. á þskj. 751 ber með sér hefur n. orðið sammála um, að vísa frv. til ríkisstj., en eins og það er orðað í nál., í trausti þess, að hún láti fyrir næsta reglulegt Alþ. undirbúa löggjöf um þetta efni og verði þar haft samráð við launþegasamtökin og Vinnuveitendasambandið, með hliðsjón af þeim hugmyndum, sem fram koma í frv., svo og þeim umsögnum, sem borizt hafa. En fjhn. hefur sent öllum þeim heildarsamtökum launþega, sem þetta frv. snertir, svo og Vinnuveitendasambandinu málið til umsagnar og tel ég rétt, með leyfi hæstv. forseta, að kynna hv. dm. þessar umsagnir, því það tekur ekki langan tíma, þar sem þær eru yfirleitt stuttorðar og gagnorðar. Mun ég þá lesa þessar umsagnir í þeirri röð, sem þær hafa komið. Það er í fyrsta lagi umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem þannig hljóðar:

„Stjórn BSRB hefur móttekið bréf frá fjhn. Ed. Alþ., dags. 18. feb. s.l. þar sem óskað er umsagnar um frv. til laga um Hagstofnun launþegasamtakanna. Stjórn BSRB hefur rætt þetta mál og mælir eindregið með því, að frv. verði samþ. á yfirstandandi Alþ.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja,

Kristján Thorlacius, form.,

Guðjón B. Baldvinsson, ritari.“

Þá er í öðru lagi umsögn frá Sambandi ísl. bankamanna, svohljóðandi:

„Vér viðurkennum móttöku bréfs hinnar hv. fjhn. dags. 18. þ.m. og látum ekki hjá líða að tilkynna yður, að vér höfum fyrir vort leyti áhuga á því að standa að Hagstofnun launþegasamtakanna, ef af stofnun hennar skyldi verða. Virðingarfyllst,

Samband ísl. bankamanna,

Sigurður Guttormsson.“

Þá er næst umsögn stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem er svohljóðandi :

„Á fundi stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 25.02.1971 var tekið fyrir bréf Ed. Alþ., þar sem beiðzt er umsagnar um frv. til l. um Hagstofnun launþegasamtakanna. Samþykkti fundurinn að mæla með frv. í öllum aðalatriðum og lagði til, að það næði fram að ganga.

Virðingarfyllst, f. h.

Farmanna- og fiskimannasambands Íslands,

Ingólfur Stefánsson.“

Þá er næst umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, sem hljóðar þannig:

„Vér höfum móttekið heiðrað bréf hv. fjhn. Ed. Alþ. dags. 18. f.m., þar sem beiðzt er umsagnar vorrar um frv. til l. um Hagstofnun launþegasamtakanna. Af þessu tilefni viljum við taka fram eftirfarandi: Vinnuveitendasamband Íslands telur, að hér sé hreyft athyglisverðu máli, enda mjög skort á, að aðilar vinnumarkaðarins hefðu greiðan aðgang að sérfræðilegum upplýsingum og áætlunum um efnahagsmálin fram í tímann. Þá hefur þess og gætt, að samtök launþega tortryggðu gögn, sem legið hafa fyrir í þessu efni. Með stofnun kjararannsóknan. var þó gerð fyrsta alvarlega tilraunin til að sinna þessum málum á hlutlægan hátt og teljum við þá reynslu, sem þar hefur fengizt, jákvæða. Nú standa yfir viðræður milli aðila um starfsemi .og skipulagningu kjararannsóknan. í framtíðinni og er það skoðun vor, að fyrst og fremst beri að efla starfsemi hennar. og m.a. spanna yfir þau svið, sem Hagstofnun launþegasamtakanna er ætlað að sinna samkv. frv. Vér teljum þess vegna ekki rétt að samþykkja frv., a.m.k. ekki á þessu stigi, en heppilegra sé að bíða og sjá, hver framtíð kjararannsóknan. verður.

Virðingarfyllst,

Björgvin Sigurðsson,

f. h. Vinnuveitendasambands Íslands.“

Svo er að síðustu umsögn Alþýðusambands Íslands, dags. 17. marz 1971:

Fjhn. Ed. Alþ. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur athugað frv. til l. um Hagstofnun launþegasamtakanna og vill að athugun lokinni taka fram eftirfarandi: Það hefur verið áhugamál Alþýðusambandsins að koma upp eigin hagdeild, sem hefði svipuðu hlutverki að gegna í þess þágu, sem hin fyrirhugaða Hagstofnun launþegasamtakanna. Að svo komnu máli hefur það þó verið og er álit sambandsins, að ekki sé tímabært að slík stofnun væri sameiginleg á vegum fleiri samtaka sameiginlega með Alþýðusambandinu, m.a. vegna annarrar stöðu Alþýðusambandsins en t.d. BSRB, sem ekki hefur verkfallsrétt fyrir félaga sína, og vegna nokkuð annarrar stefnu í launamálum.

Nú nýlega hefur Alþýðusamband Íslands farið þess á leit við Vinnuveitendasamband Íslands, að það hefji viðræður við það, um framtíðarstarfsemi kjararannsóknanefndar og eru þar uppi m.a. þær hugmyndir, að þeirri stofnun verði breytt í hagdeild ASÍ annars vegar og þeirra vinnuveitendasamtaka, sem aðild eiga að henni, hins vegar. Slíka breytingu væri þó ekki unnt að gera, nema til komi stuðningur ríkisstj. við hana. Yrði hins vegar í þessum efnum um að ræða samvinnu við önnur launþegasamtök, telur miðstjórn ASÍ, að um það yrðu að fara fram sérstakir samningar milli aðila, fremur en lagaboð. Af framansögðu leiðir, að miðstjórn ASÍ mælir með frekari athugun málsins á vegum réttra aðila og telur ekki tímabært að lögfesta umrætt frv. nú.

F. h. Alþýðusambands Íslands,

Björn Jónsson.“

Þannig hljóða þessar umsagnir.

Nú vil ég aðeins segja það, en það er frá eigin brjósti og ekki á ábyrgð annarra hv. fjhn: manna, því mér finnst gæta dálítils misskilnings bæði í umsögn Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins, þar sem talað er um kjararannsóknanefnd og starfsemi hennar í þessu sambandi. Kjararannsóknanefnd hefur að mínu áliti mjög mikilvægu hlutverki að gegna, og sjálfsagt er að halda þeirri starfsemi áfram, sem hún hefur með höndum. En eins og ég held, að ég hafi tekið fram í framsöguræðu minni fyrir þessu máli, tel ég, að a.m.k. að óbreyttri starfstilhögun kjararannsóknanefndar, þá geti hún ekki komið í stað Hagstofnunarinnar. Kjararannsóknanefnd lýtur sameiginlega yfirstjórn vinnuveitenda og Alþýðusambandsins. Það er mjög gagnlegt, að hún reyni að fá upplýsingar um staðreyndir, sem málið geta skýrt við gerð kjarasamninga. Enn fremur er það mjög gagnlegt, ef í kjararannsóknanefnd getur orðið samkomulag um atriði eins og það, hvernig skuli meta breytingar, sem verða á kaupmætti launa, því það er fræðilega séð mjög mikið álitamál og ekki hægt að slá þar fastri einni reglu, sem undir öllum kringumstæðum sé einmitt sú rétta, þannig að það getur verið mjög mikilvægt, ef vinnuveitendur og launþegar geta komið sér saman í þessu efni. Hagstofnun launþegasamtakanna samkv. hugsun okkar flm. frv., hv. 6. þm. Sunnl. og mín, átti hins vegar viðtækara hlutverki að gegna, þar sem það átti að vera stofnun til ráðuneytis launþegasamtökunum í gerð áætlana og till., ef þau teldu það æskilegt. Auðvitað fyrst og fremst varðandi kjaramál þeirra sjálfra, en vel gæti komið til greina, að álits launþegasamtakanna yrði leitað um efnahagsmál almennt o.s.frv. Stofnun, sem lýtur sameiginlegri yfirstjórn atvinnurekenda og launþega getur ekki, að áliti okkar flm., sinnt þessu hlutverki nema þá í undantekningartilfellum og að mjög takmörkuðu leyti, því að þó að ég vilji sízt gera meira úr hagsmunaárekstrum milli vinnuveltenda og launþega, en efni standa til, þá má ekki loka fyrir því augunum, að slíkur hagsmunaágreiningur hlýtur alltaf að verða fyrir hendi að vissu marki.

Hitt er svo auðvitað annað mál, að með því að gjörbreyta starfsgrundvelli kjararannsóknanefndar frá því sem hann nú er, þannig að kjararannsóknanefnd yrði skipt í tvær deildir, eins og fram kemur í áliti Alþýðusambandsins, þá er auðvitað vel hugsanlegt, að þá leið mætti fara til þess að koma á stofnun í ætt við þá, sem við flm. höfðum hugsað okkur og er látið að því liggja í áliti Alþýðusambandsins, að það kunni vel til greina að koma, að önnur launþegasamtök fái þar aðild að. Hins vegar tel ég það á misskilningi byggt, þó að það sé aukaatriði í þessu sambandi, þegar talað er um, að samningar milli aðila eigi þar frekar við, en lagaboð. Það hefur aldrei verið hugsun okkar flm. þessa frv., að neinn aðili yrði þvingaður til aðildar að þessari stofnun gegn sínum vilja. Ég tel, að það komi nægilega skýrt fram í frv., að um slíkt verður ekki að ræða. Hins vegar er ríkið skyldað til þess skv. frv. að leggja fram 2/3 hluta kostnaðarins við þessa stofnun, en auðvitað er það komið undir frjálsum ákvörðunarrétti hinna einstöku launþegasamtaka, hvort þau óska aðildar hennar eða ekki.

Hvað sem öllu þessu líður, þá hefur fjhn., eins og álit hennar, ber með sér, orðið sammála um á þessu stigi málsins, að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar með grg., sem í nál. felst, og ég hef þegar lýst.