22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Sá hæstv. ráðh., sem gefið hefur út þau brbl., sem hér eru til umr., hefur margoft áður staðið í þeim sporum hér, að eiga að verja slíka lagasetningu, brbl., sem grípa inn í löglega boðaðar og reknar vinnudeilur. Ég harma það, að þessi ráðh. skuli hafa lent í þeirri ógæfu hvað eftir annað að þurfa að standa frammi fyrir Alþ. Íslendinga í slíkum sporum. Það, sem mér þykir þó ískyggilegast, er það, að enn þá virðist þessi hæstv. ráðh. trúa því, að það hafi tilgang að fara af stað með slíka lagasetningu sem þessa, hafandi þó þreifað á því hvað eftir annað, að það er vita tilgangslaust í viðkvæmum vinnudeilum að beita slíkri aðferð, að ætla að beita lögþvingun. Það hefur hvorki tekizt fyrr né síðar að leysa vanda með slíkri lagasetningu. Og það liggur augljóslega á borðinu, að þessi lagasetning leysti engan vanda.

Rétt í þann mund, sem Alþ. Íslendinga var að koma saman núna, var þessi lagasetning vissulega í gildi, en það vofði yfir stöðvun á öllum flotanum, af því að málið var óleyst, þrátt fyrir lagasetninguna. Hinir starfandi menn höfðu sagt upp störfum og skipin gátu ekki haldið úr höfn yfirmannalaus. Vandinn var svo gersamlega og augljóslega óleystur, þrátt fyrir að l. höfðu verið í gildi frá því í sumar. Þetta sér ráðh. ekki enn og telur, að þau hafi leyst vanda og komið að gagni, innt af hendi það hlutverk, sem þeim var ætlað, segir hann. Það er þvert á móti staðreyndum. Deilan var óleyst, skipin voru að stöðvast og þau stöðvuðust hér hvert á fætur öðru í höfninni, þrátt fyrir brbl., sem voru í fullu gildi, af því að vandinn var óleystur. Ágreiningurinn um launakjörin hafði ekki fengið neina lausn. Þetta er eins augljóst eins og verða má. En samt virðist ráðh. vera sanntrúaður á, að þetta sé aðferðin, sem eigi að beita, en ég fullyrði, að svo er ekki. Það mun hvergi fremur en í þetta skipti, sem það liggur eins augljóslega fyrir, að það leysti ekki deiluatriðin að setja þessi brbl.

En það þótti mér furðulegt að heyra, að hæstv. ráðh. sagðist nú geta sætt sig við það, að málið yrði svæft í n. Er hæstv. ráðh. kannske hræddur, um það, að brbl. fengju ekki staðfestingu á Alþ. Íslendinga, ef þau gengju sinn eðlilega, þinglega gang í gegnum löggjafarsamkomuna? Ég fer að halda það. En hvert er eðli brbl.? Mér finnst það því miður hafa komið fram í ræðum bæði hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar og Þórarins Þórarinssonar, að það væri eiginlega ósvinna, að brbl. væru lögð fyrir Alþingi Íslendinga og Þórarinn Þórarinsson sagðist eiginlega geta sætt sig við það, að það yrði svæft í n., þetta væri lögleysa hin mesta, brot á stjórnskipun landsins. Það hefur enginn aðili í íslenzku þjóðfélagi rétt til þess að gefa út lög nema Alþ. Íslendinga og ráðh. aðeins til bráðabirgða, eins og heitið gefur til kynna. En af hverju til bráðabirgða? Af því að það er bara tíma bundinn réttur ráðh. til þess að gerast löggjafi. Og hans lagasetning fellur niður, ef hún er ekki staðfest með meiri hl. ákvörðun á Alþingi Íslendinga, á löggjafarsamkomunni. Það hefur meira að segja verið tekið fram í kennslubók í þjóðfélagsfræði, sem Bjarni heitinn Benediktsson hafði lesið yfir og þannig staðfest, að rétt væri farið með stjórnskipuleg atriði í þeirri kennslubók, að brbl. verði að leggja undir staðfestingu Alþingis og ef það komi í ljós, að ráðh. hafi gefið út brbl., sem ekki styðjist við meiri hl. löggjafarsamkomunnar, þá hafi hann hrifsað til sín löggjafarvald, sem hann hafi ekki haft og gripið þannig fram fyrir hendur löggjafarsamkomunnar og eigi að segja af sér á þeirri stundu, sem það verður ljóst, að hann hafi sett brbl., sem ekki styðjist við meiri hl. Alþ. Og það ætti hæstv. ráðh. að gera, ef hann vill bara sætta sig við það, að frv. sofni í n., af því að hann veit sig ekki hafa meiri hl. á bak við þessa bráðabirgðalagasetningu.

En hitt er rétt, að það er skylda hans að leggja slíka lagasetningu fyrir Alþ. og hann er ekki sloppinn úr vanda þeirrar lagasetningar, fyrr en það hefur komið í ljós, að meiri hl. Alþ. staðfestir hans brbl. Að öðrum kosti hefur hann brotið svo af sér, að hann á að segja af sér tafarlaust, ef slíkt kæmi í ljós. Þetta held ég, að sé alveg ótvírætt og a.m.k. liggur það í augum uppi, að það getur enginn ráðh. haft löggjafarvald óháð löggjafarsamkomunni sjálfri. Hans verk verða að leggjast undir dóm Alþ. og ef það er svo, sem ég gæti vel trúað, að það væru fleiri eða færri í hinum tæpa meiri hl. stjórnarinnar á Alþ. Íslendinga, sem fyndu sig hafa flekkaðar hendur af því að standa að slíkri lagasetningu sem þessari og þeir vildu komast hjá því að þurfa að rétta upp hendurnar hér til staðfestingar slíkri löggjöf, þá eiga þeir ekki að sleppa með það. Það á að sannprófa það, — það á þar með ekki að svæfa þetta mál í n., það á að sannprófa það, hvort hver einasti þm. stjórnarliðsins er reiðubúinn til þess að staðfesta þessi brbl. Ef ráðh. getur ekki komið þeim fram, þá hefur hann brotið svo af sér, að hann á að segja af sér.