22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú verið stuttorður, af því að ég hef talið, að það væri rétt, að málið væri jafnvel sett í n. á þessum degi eða a.m.k. að umr. væri lokið. En hv. þm., sem var að tala hér áðan, segir, að það eigi að staðfesta þessi brbl. eins og önnur lög. Hann segir, að það sé tvímælalaus skylda að leggja þau fram á Alþ. Það vissi ég og þess vegna var það gert. Það væri líka tvímælalaus skylda að taka þau til umr. og það hefur verið gert. Ég hef hins vegar talað við lögfróðan mann um þetta og hann fullyrti, að með því að búið væri að semja um kaup og kjör á milli þeirra deiluaðila, sem hér um ræðir, væri búið að semja til miklu lengri tíma heldur en brbl. náðu til, þá þyrfti ekki að láta þetta mál ganga í gegnum Alþ. eins og sjálfsagt var í fyrra um marg umtöluð brbl. um lausn á vinnudeilu flugliða. Nú ætla ég ekki að karpa um þetta við hv. þm. Mér finnst alveg sjálfsagt að hafa það, sem sannara reynist og það, sem löglegt er. Ef það verður talið eðlilegt og sjálfsagt lögum samkv. að láta þetta frv. ganga í gegnum sex umr. í Alþ., þá verður það gert. Verði það hins vegar úrskurðað af lögfróðari mönnum en mér og hv. þm., að það sé ekki þörf á því, þá er það alveg ástæðulaust. Og um það, held ég, að við verðum sammála.