27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

184. mál, skólakerfi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst vera hægt að fallast á það, sem hæstv. ráðh. stakk upp á, að rædd séu hér í einu lagi tvö frv., frv. til l. um skólakerfi og frv. til l. um grunnskólann, þau eru svo skyld. Ég hef haft aðstöðu til þess að skoða þessi frv: í þinghléinu og ég ætla því að segja um þau örfá orð og láta í ljós álit mitt á sumum atriðum, en að sjálfsögðu er hér um svo veigamikil og flókin mál að ræða og margþætt, að það kemur ekki til mála, að það sé hægt að taka afstöðu við 1. umr. nema um örfá meginatriði.

En ég vil segja það strax, að ég er fyrir mitt leyti samþykkur meginstefnu frv. til l. um skólakerfi og er samþykkur þeim breytingum í megin atriðum, sem þar er stungið upp á, en eftir því sem ég fæ bezt séð, má greina þær í þrjá þætti, en innan hvers þáttar koma svo mýmörg atriði.

Fyrsta breytingin er að lengja skólaskylduna um eitt ár og hafa 9 ára skólaskyldu í staðinn fyrir 8. Þetta sýnist mér skynsamlegt að gera, eins og nú er komið málum og ég fellst fyrir mitt leyti á þau rök, sem færð eru fyrir þessu í grg. frv. og fram komu hjá hæstv. ráðh. Við þurfum orðið á því að halda, að menn gangi í skóla þennan tíma og það er skynsamlegt að gera þetta að skyldu til þess að tryggja það, að menn verði ekki útundan. En nú er komið svo, að það eru svo margir, sem ganga þessa leið, að það nær 80—90% í ýmsum byggðarlögum, en er lægri prósenta í öðrum byggðarlögum. Það er sýnilegt, að með núverandi kerfi verða menn óhæfilega út undan sums staðar og er það ákaflega hættulegt. Mér sýnist því rétt, að við stigum nú þetta skref að hafa lögboðna skólaskyldu í 9 ár.

Þá er, enn fremur gert ráð fyrir því, að lokapróf á skyldustigi eftir 9 ára nám verði framvegis lykill að framhaldsskólum í stað þess, að nú má segja, að nokkuð flóknar reglur gildi um þessi efni, þar sem við höfum ýmis próf, svo sem unglingapróf, gagnfræðapróf og landspróf og þau veita mjög mismunandi réttindi. Það er því, eins og jarðfræðingarnir mundu segja, æðimikið misgengi í kerfinu í sambandi við þessi prófstig. En þarna er hugsunin, að það komi eitt lokapróf á skyldustigi, sem er inngangur að framhaldsskólum. Þetta tel ég mjög til bóta frá því, sem nú er, að innleiða þessa reglu. Þá falla að sjálfsögðu niður gagnfræðapróf, unglingapróf og landspróf og þetta kemur í staðinn — einar inngöngudyr í þá margvíslegu skóla, eða við getum sagt einar útgöngudyr frá skyldustiginu, sem jafnframt leiða beint í inngöngudyr í einhverjum af hinum mörgu framhaldsskólum.

Loks má telja, að þriðji stærsti nýi þátturinn í þessu frv. væri 7. gr., þar sem stendur, að ríki og sveitarfélögum sé skylt að tryggja nemendum, hvar sem er á landinu, sem jafnasta aðstöðu til menntunar samkvæmt nánari ákvörðun, er sett verði í reglugerð. Þetta tel ég þýðingarmikla stefnuyfirlýsingu. En þetta er ekki heldur nema stefnuyfirlýsing, eins og þetta er sett fram í frv., það er ekki meira og ég bið menn að veita því vel athygli og þetta gæti vel orðið aðeins pappírsbókstafur, ef þetta stæði áfram svona, þó að þetta væri sett í löggjöfina, eins og þarna er gert ráð fyrir. En ég vil þó taka þetta alvarlega, ég vil taka þetta sem stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj., sem leggur þetta mál fram og ég vil líta þannig á, að það sé ætlunin að framkvæma þessa stefnu. Sé svo, þá hefur hér gerzt æðistór atburður. En þá er eftir að útfæra þessa stefnu, sem þarna er sett fram í gr., því að ekki er hægt að hafa lagagr. af þessu tagi aðeins sem stefnuyfirlýsingu og ætla svo að nota eingöngu reglugerðir um framkvæmd á svo stórfelldu máli.

Ég vil benda á, að það er því meiri nauðsyn að gera þetta skýrt, svo að úr þessu verði meira en orðin tóm, að það verður í raun og veru ekki hægt, — ég vil biðja menn að taka eftir þessu — að það verður ekki hægt að framkvæma 9 ára skólaskyldu á öllu Íslandi, nema þessi gr. verði svikalaust framkvæmd. Það er ekki hægt. Það er þegar svo komið, að það er ekki hægt að framfylgja þeirri skólaskyldu, sem við höfum nú í dag, víða úti um landið vegna erfiðleika með að standa undir skólakostnaðinum,— og erfiðleika fyrir einstaklingana að rísa undir sínum hluta, hvað þá ef einu ári yrði bætt við, sem ég tel að sé rétt og skynsamleg stefna. En þá verður það líka að fylgja með, að efni þessarar 7. gr. verði útfært þannig, að það verði raunverulega jafnaður sá mismunur, sem menn eiga þarna við að berjast, sá aðstöðumunur, sem menn eiga þarna við að stríða.

Ég skal ekki fara út í það á þessu stigi að rekja, hvernig frá því ætti að ganga, það er vandasamt mál og það liggja meira að segja fyrir Alþ. ýmis frv. og till., sem ganga í þá átt. En þarna er mál, sem alveg tvímælalaust verður að kryfja betur til mergjar, áður en þetta frv. verður gert að lögum. Og ég vil í því sambandi benda á grg. fyrir þessari gr., sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, því að hún hefur að geyma kjarna þessa máls:

„Í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna sinna, hlýtur opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum, að bera afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur nemenda og forráðamanna þeirra valdi ekki misrétti um aðstöðu ungmenna til menntunar. Þessi skylda mun vera almennt viðurkennd í landinu, bæði af almenningi og kjörnum leiðtogum þjóðarinnar.“ Við skulum vona, að svo sé, það er innskot mitt. „Hins vegar er, um það deilt, hvort aðgerðir til lausnar vandanum séu í samræmi við þörfina.“ Ég held, að það geti nú ekki verið neitt um það deilt. Enn sem komið er hefur þessu ekki verið framfylgt. „En slíkar deilur“, stendur hér, „eru ekki óeðlilegar, meðan það misrétti, sem um ræðir, hefur ekki verið betur og nákvæmar skilgreint en nú er.“ Síðan kemur: „Eðlilegt virðist, að lög um skólakerfi og fræðsluskyldu kveði á um skyldu opinberra aðila í umræddu efni, en til þess að slík lagaskylda verði raunhæf,“ — ég bið menn að taka eftir því — til þess að hún verði raunhæf, „þarf að skilgreina þörfina betur, en lög geta gert og grundvalla síðan aðgerðir á þeirri skilgreiningu. Því er nauðsynlegt, að reglugerð verði sett um þessa grein frv.“

Þetta segir í grg. Sem sagt, hér eru sterkar yfirlýsingar um stefnuna, en því er jafnframt lýst yfir, að það sé ekki búið að láta fara fram þær athuganir, sem geri mögulegt að leggja fram frambærilegt lagaákvæði. Í raun og veru sýnist mér því, eins og ég hef marg tekið fram, að hér sé aðeins um stefnuyfirlýsingu að ræða. En í það verður að leggja vinnu að undirbúa skýrari ákvæði. Það verður að leggja fram þessa vinnu nú þegar í framhaldi af því ágæta verki, sem sýnilega hefur hér verið unnið, leggja sig fram um að nota vel þann tíma , sem eðlilega hlýtur að líða, á meðan Alþ. skoðar þetta mál, til þess að kryfja þennan þátt fullkomlega til mergjar og koma inn í þessi frv. viðeigandi ákvæðum til tryggingar því, að jafnað verði misréttið, sem menn nú eiga við að búa. Og þetta er ekki minnsti þáttur þessa máls. Eins og ég sagði áðan, þá er það mín persónulega skoðun, að ákvæði þessara frv. um skólaskyldu og nám á framhaldsskólastigi verði með öllu óframkvæmanleg, nema 7. gr. komi til framkvæmda. Í því sambandi vil ég einnig nú þegar benda á að ég held það sé ákaflega hæpið að gera ráð fyrir því, að sveitarfélögin geti gengið langt í því að leggja fram mikla fjármuni til þess að jafna aðstöðumun í námi. Það yrði að vera ríkið, sem tæki á sig þær byrðar, sem þarna koma til greina. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. gerði ekki ráð fyrir neinum kostnaði samkv. 7. gr., þegar hann gerði upp kostnaðaraukann af frumvörpunum. Ég vona, að það sé ekki merki þess að hún eigi aðeins að vera pappírsgagn. Ég vil ekki leggja það þannig út. En vitaskuld er nauðsynlegt að skoða þá grein í sambandi við kostnað og fjármál, ekki síður en aðrar gr. frv. Hafi ég misskilið þetta, þá mun hæstv. ráðh. að sjálfsögðu leiðrétta það.

Auðvitað gæti verið ástæða til þess að ræða fjölmörg atriði þessara frv., en bæði er það, að ég hef ekki, þó að ég hafi haft aðstöðu til þess að skoða þau nokkuð, haft aðstöðu til þess að kryfja þau til mergjar í einstökum atriðum og svo hitt, að það er tæpast viðeigandi við 1. umr. að leggja út í það að ræða málin þannig. Heppilegra er því, að það bíði þess, að málin verði skoðuð í n. En ég vil benda á, að mér sýnist alveg nauðsynlegt að senda þessi mál mjög víða til umsagnar. Hér er um stórkostlegt nýmæli að ræða í sambandi við bæði frv. Má vera, að þetta hafi nú þegar verið gert, það kom ekki fram í máli hæstv. ráðh., en þá sýnist mér a.m.k. mjög nauðsynlegt, að Alþ. fái umsagnir æði víða frá, t.d. frá sveitarfélögum, um þessi efni, svo mjög sem þetta snertir allt líf manna heima í héruðunum, heima í sveitarfélögunum og sjálf sveitarstjórnarmálin, því að hér er að verulegu leyti um sameiginleg mál ríkis og sveitarfélaga að ræða.

Það kemur fram í þessu frv., að það er ætlunin að byggja framhaldsskólana ofan á þetta grunnskólakerfi. Þar eiga að koma margir framhaldsskólar til greina að sjálfsögðu og vil ég ekki fara langt út í að ræða það. En ég get ekki stillt mig um að benda á, að það er mjög mikil nauðsyn að endurskoða framhaldsskólakerfið ýtarlega og það stendur mjög til bóta í sumum greinum. Það er að vísu nýbúið að setja lög um menntaskóla og kannske ekki mjög langt síðan sett hafa verið lög um aðra framhaldsskóla, en samt er okkar framhaldsskólakerfi æði götótt. Ég vil í því sambandi, af því að ég hef haft sérstaka aðstöðu til að kynnast því, minnast á viðskiptamenntun. Þannig er mál með vexti, að nú um nokkra hríð hefur verið samstarfsnefnd sitjandi frá samvinnuhreyfingunni annars vegar og einkaverzluninni hins vegar til þess að skoða ástand viðskiptamenntunar. Þetta hefur verið gert vegna þess, að þarna kallar þörfin mjög að, að fá viðskiptamenntað fólk til starfa. Þá hafa þessir aðilar báðir haft nokkra viðskiptamenntun með höndum hvor í sínu lagi, samvinnuhreyfingin og einkaverzlunin. Við þessa athugun hefur komið í ljós, að það skortir mjög á, að menn eigi hér nauðsynlegan aðgang að viðskiptamenntun. Skólar þeir, sem starfa hér að viðskiptamenntun, geta ekki tekið nema sárafátt af því fólki, sem þarf að fá slíka fræðslu. Okkur hefur sýnzt, að í nálægum löndum mundu það vera allt að 20% af framhaldsskólanemendum, sem eru í viðskiptaskólum eða á námsbrautum í framhaldsskólum, sem hafa viðskiptakjörsvið — hvorki meira né minna en 20%. Hér skortir hins vegar stórkostlega á námsmöguleikana í þessari grein, enda hefur ríkið ekki á sínum vegum neina viðskiptafræðslu nema á háskólastigi og örfáar valgreinar í framhaldsnámi gagnfræðinga, sem er ný tilkomið. Þessi samstarfsnefnd hefur því nýlega, — ég held, að það sé ekkert leyndarmál, — óskað eftir því, að sett yrði á fót sameiginleg athugun þessara mála á vegum ríkisins og verzlunar aðilanna, til þess að menn beri saman bækur sínar um það, hvernig eigi að ráða fram úr þessu. En ástandið er afleitt. Fólk hefur t.d. hrúgazt inn í Kennaraskólann og marga aðra skóla, beinlínis með það fyrir augum að fá sér þar almenna menntun og ganga síðan inn í ýmiss konar viðskiptastörf. Sumpart hefur þessi þróun orðið fyrir það, að hér vantar viðskiptaskóla og námsbrautir. Hvort það eiga að vera sérstakir skólar eða hvort það eiga að vera námsbrautir í öðrum skólum, það er álitamál. Sennilega kemur þarna hvort tveggja til greina. En þegar ég tala hér um viðskiptafræðslu, á ég ekki bara við verzlunarmenntun, heldur þá menntun, sem hentar vel fyrir verzlun og viðskipti og almenn störf á skrifstofum og öðrum vinnustöðvum, sem hliðstæðar mega teljast.

Fyrst ég er kominn hingað og farinn að tala um menntamálin, má ég til með að vekja athygli manna á vissum þætti þessara mála, sem alltaf er mjög ofarlega í huga mér, síðan ég fór ögn meira að skoða þessi efni í annað sinn, en það hóf ég um þær mundir, sem ég létti af mér ýmsum öðrum störfum. Þá fór ég að skoða ýmis málefni, sem ég hafði ekki haft aðstöðu til að kynna mér áður, en hafði þó haft áhuga fyrir. Ég vil segja um þetta örfá orð, bæði við hæstv. menntmrh. og aðra þá, sem hér eru staddir. Hér eru t.d. ýmsir skólamenn, sem mig langar til að koma þessu á framfæri við og raunar landsmenn alla. Þetta er aðstaða nemendanna í skólunum. Mér finnst einhvern veginn, að það þurfi að hugsa það mál allt upp á nýjum nótum og reyna að finna í þeim efnum betra fyrirkomulag en það, sem við búum við. Hygg ég, að öðrum þjóðum hafi tekizt það, hvernig sem þær hafa farið að því. Til þess að vera ekki mjög langorður um þetta, ætla ég að demba mér beint í, hvað ég meina.

Í fjöldamörgum íslenzkum framhaldsskólum eru kenndar 36 stundir á viku, kannske stundum 38, þar sem ýtt er undir nemendur að taka aukafög og áhugi er í náminu. En við skulum segja 36 stundir. Síðan er gert ráð fyrir mikilli heimavinnu í öllum íslenzkum skólum, mikilli heimavinnu. Ég veit ekki vel, hvað gera má ráð fyrir mikilli heimavinnu, en ég hef heyrt suma af beztu skólamönnum okkar gera ráð fyrir, að flestir mundu þurfa að nota 3–4 stundir á dag, ef vel væri, í heimavinnu. Ef þetta er rétt, að slíka helmavinnu þurfi, er hér um mikið vandamál að ræða. Við getum ekki miðað okkar skólakerfi eða kröfur til námsfólks við einstaka afreksmenn, sízt af öllu þegar 80—90% af þjóðinni eiga að vera í skóla framvegis 10—20 ár. Það verður að miða þetta við, hvað venjulegum manni er hæfilegt að vinna. Mikinn hluta ævinnar verða menn að vinna í skólum, en nám er auðvitað ekkert annað en vinna.

Ef við skoðum þetta vel, kemur í ljós, að ætlazt er til, að unglingar vinni 9–10 tíma á dag. Og hvernig eru svo vinnuskilyrðin við heimavinnuna, sem langflest ungmennin búa við? Þau eru oft hreinlega engin. Menn eiga margir heima þar, sem íbúðin er tvö herbergi eða þrjú og eldhús og það er sjónvarp og æðimargt fólk og vinnuskilyrðin heima hreinlega engin til þess að leysa af höndum erfiða heimavinnu. Það er náttúrlega nokkuð annað, þar sem unglingurinn getur haft einkaherbergi og verið algerlega ótruflaður.

Þetta er allt svo geigvænlegt, að þegar farið er að vekja athygli á því, hljóta allir að sjá, að það er eitthvað meira en lítið bogið við þetta. Enda er sannleikurinn sá, að fjöldinn allur af ungu fólki kemst alls ekki óskemmt í gegnum þessa eldraun. Það verður að finna leiðir til þess að breyta þessu og þær hljóta að vera til, því að í löndunum í kringum okkur er þetta víða þannig, að þar fara unglingarnir á morgnana á venjulegum vinnutíma og koma heim eins og annað fólk úr vinnu (náminu) og eru þá búnir að vinna þann dag. Auðvitað verður þetta að komast í slíkt horf hjá fólki, sem á að búa við þetta í 10—-20 ár af ævinni. Það er kannske hægt að þola hina aðferðina í 1—3 ár, en að búa við hana í 10—20 ár hlýtur að fara illa með fólk. Kannske taka menn þann kostinn að reyna að draslast einhvern veginn í gegnum þetta og sleppa þá miklu af því, sem þeir raunverulega þurfa að vinna og vita að þeir þurfa að vinna. En hvernig leikur það fólk, að standa látlaust hálfa ævina frammi fyrir meiri verkefnum heldur, en með nokkurri skynsemi er hægt að ætlast til að það inni af höndum miðað við vinnuskilyrðin? Ég held, að vinnuskilyrðin, sem flestum unglingum eru boðin nú við nám, séu algerlega óverjandi. Þetta er sennilega mest fyrir það, að okkur vantar skólahúsnæði. Ég hef ekki trú á öðru en okkar skólastjórar og kennarar gætu skipulagt þetta á hliðstæðan hátt og bezt gerist annars staðar, ef þeir hefðu skilyrði til þess. Ég held, að þetta hljóti því að verulegu leyti að vera því að kenna, hversu ömurlega vantar skólahúsnæði, en sjálfsagt þurfa nýjar kennsluaðferðir að koma til. Fyrst menn geta í öðrum löndum gert námið að reglubundinni vinnu, sem mönnum er bjóðandi, hljótum við að geta það líka. En við verðum þá að horfast í augu við, hvað að er og reyna að finna út, hvað gera þarf.

Hvað er fullorðnu fólki ætlað að vinna lengi? 40 tímar á viku þykir mikið. Samt er sagt við unglingana við þessi skilyrði: Þið eigið að fylgjast með almennum málum, þið eigið að hafa félagslíf í skólunum, þið eigið að fylgjast með sjónvarpi, þið eigið að lesa bækur utan námsins og ég veit ekki hvað og hvað það er, sem þau eiga að gera. Þetta á að ganga svona í 10—20 ár. Þetta væri kannske bjóðandi stuttan tíma . Það verður að skoða, í hverju sá munur liggur, sem orðinn er hér og annars staðar. Ég treysti mér, ekki til þess að segja um það til hlítar, því að ég hef ekki nógu mikla þekkingu á þessu, en það, sem ég hef sagt, það hef ég séð eða a.m.k. sýnist mér þetta vera svona. Það má vera, að mér missýnist að einhverju leyti í þessu og það kann að vera, að ég ýki þetta eitthvað, en það er, þörf á því að mála þetta nokkuð sterkum litum, til þess að menn taki eftir vandanum. Við erum orðin svo samdauna þessu, að okkur finnst það líklega alveg sjálfsagður hlutur, að unglingarnir séu allan þennan tíma í skólanum og eigi svo eftir að vinna heilmikið, þegar þeir koma heim, en við búin með okkar vinnu. Þá er, eftir að minnast á, hvernig fer, þar sem unglingarnir geta ekki komizt að í skólanum fyrr en eftir hádegi. Hvernig haldið þið, að morgunninn nýtist hjá unglingunum? Ég held, að fullorðnu fólki gangi nú oft heldur illa að stjórna sér á morgnana til vinnu, hvað þá heldur unglingunum.

Auðvitað veit ég, að fjöldinn allur af skólamönnum hefur bent á þessi atriði, og hér er um mikið vandamál að ræða, sem sennilega stafar að verulegu leyti af húsnæðisskorti. En það verður að finna nýjar leiðir. Það verður að haga námsvinnunni öðruvísi, svo að námið verði eins og eðlileg vinna á eðlilegum tíma og geti farið fram eins og hver önnur eðlileg vinna. Þetta eru orðin 10–20 ár, sem á að búa við námið. Það verður að fara að líta á skólana eins og vinnustað fyrir dagsverkið. Það þýðir ekkert að líta á heimili lengur sem vinnustað í þessu tilliti. Við verðum einhvern veginn að komast út úr því. Hitt er að blekkja sjálfan sig.

Ég vil nú fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann beiti liði því, sem hann hefur á að skipa — og það er auðséð á því, sem hér liggur fyrir, að það getur margt vel gert — í framhaldi af þeirri endurskoðun, sem hér hefur farið fram, til að kryfja þetta vandamál til mergjar, að ryðja nýjar brautir með hjálp þeirrar reynslu, sem aðrar þjóðir hafa. Ég þekki fólk, sem á heima á Norðurlöndum, nemendur í unglingaskólum, sem eru þannig settir, að þeir fara á morgnana, ég held um kl. 8, koma heim um kl. 4 og hafa þá lokið dagsverki oftast nær. Þetta er eins og annað líf. Þetta er eðlilegt líf. Hjá okkur líkist þetta engu lífi. Það er hreinlega eins og martröð, þegar það er, rétt skoðað. Við erum náttúrlega samdauna þessu og þarf sjálfsagt mikið átak bara til þess, að við sjáum þetta. Það liggur hér í landi að ætla unglingum meira verk, en fullorðnu fólki og niðurstaðan er líka eftir því.

Ég skal svo láta hér staðar numið. Og þó vil ég segja að lokum, að ég var að glugga í þessar námsskrár, sem liggja fyrir í greinargerðinni, en ég á ákaflega erfitt með að átta mig á því, hvað þær boða mikla vinnu — 36 tíma á viku, látum það vera, en hvað á að gera á þessum 36 tímum og hvað er þá ætlazt til, að menn geri mikið heima? Á að hafa þetta eins og það hefur verið? Og það er gert ráð fyrir þarna að hafa fleiri tíma, en áður á einu stigi. Það hefur nú verið talað um, að skólarnir hafi verið of léttir til að byrja með og það er sjálfsagt eitthvað til í því. Allar auknar vinnukröfur þarf að skoða mjög vandlega. Að lokum enn: Það hlýtur að vera hægt að koma námsvinnunni í framkvæmd hér svipað og í öðrum löndum. Það er brennandi spurningin: Hvað er það, sem vantar hér? Ég vil segja við skólamenn og forráðamenn skólamála, að þeim beri að láta okkur vita, hvað það er, sem vantar hér, til þess að hægt sé að koma þessu vel og skynsamlega fyrir, eins og gert er þar, sem námsvinnan fer eðlilega fram.