27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

184. mál, skólakerfi

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvö veigamikil frv. um skólamál, annað um skólakerfi ríkisins í heild og hitt um skyldunámið. Ég hef ekki hugsað mér við þessa 1. umr. að fjalla um einstök atriði þessara frv., ég hef ekki lesið þau svo gaumgæfilega, að ég hafi gert upp hug minn um öll atriði, sem þar er um að ræða af nýmælum og auk þess á ég sæti í þeirri þn., sem fær málið til meðferðar og get því fylgzt með vinnubrögðum í sambandi við málin næstu mánuðina. Hins vegar vildi ég nota þetta tækifæri við 1. umr. til þess að fagna því mjög, að þessi frv. eru komin fram.

Skólamálin hafa verið í deiglunni hjá okkur Íslendingum, að undanförnu og verða það vafalaust um allmörg ár enn. Skólamálin eru, sem kunnugt er, einhver mikilvægustu vandamál nútímaþjóðfélags og breytingar á skólamálum verða að haldast í hendur við breytingar á þjóðfélaginu og þjóðfélag okkar Íslendinga er nú í ákaflega örri mótun. Það er t.d. um það talað, að við verðum að iðnvæða Ísland, koma upp iðnaði, en sú iðnaðarvara, sem við getum flutt út fyrst og fremst, þegar undan eru skilin hráefnin í landinu, er verkmenning okkar sjálfra. En því aðeins getum við komið okkur upp slíkri verkmenningu, að við höfum skólakerfi, sem stuðlar að því, að hún verði til í landinu; Undirstaða skólakerfisins alls er hins vegar skyldunámið, sem annar lagabálkurinn fjallar um og ég hygg, að ástandið þar hafi verið það staðnað nú um langt skeið, að ákaflega mikil þörf sé á að endurskoða það. Ég hef heyrt marga reynda skólamenn halda því fram, að við höfum einmitt dregizt mest aftur úr ýmsum grannþjóðum okkar að því er varðar kennsluna á skyldunámsstigi og ekki sízt í barnaskólunum — að sú kennsla, sem látin er í té í barnaskólum hér, sé orðin til muna minni en í hliðstæðum skólum í nágrannalöndunum.

Ég hef séð það við yfirlestur á þessum frv., að þau hafa að geyma mörg nýmæli og mér sýnist mörg þeirra vera mjög til bóta. Þarna er verið að gera kerfi okkar samfelldara, en einnig sveigjanlegra. Hins vegar er þarna um að ræða mörg álitamál og ég vil taka mjög undir það, sem hér hefur komið fram í umr., að það þurfi að fjalla mjög gaumgæfilega um þetta mál, ekki aðeins hér á þingi, heldur einnig úti á meðal almennings.

Það er alkunna, að um skólamálin hefur mikið verið rætt og deilt á undanförnum árum hér á Íslandi og einnig í nágrannalöndum okkar. Og það er ákaflega stór hópur manna, sem hefur hugsað um þau mál og myndað sér skoðanir á ýmsum þáttum þeirra. Ég held, að við eigum að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að mismunandi sjónarmið um þetta mál nái til okkar og þá held ég, að það sé ekki nægilegt að senda þessi mál út til umsagnar, eins og mér skilst, að hæstv. ríkisstj. hafi nú þegar gert og menntmn. mun vafalaust gera einnig. Ég held, að það væri athugandi, að við gerðum einhverjar sérstakar og verulegar ráðstafanir til þess að ná til sem flestra í sambandi við þetta. Mér dettur t.d. í hug, að Alþ. eða menntmn. Alþ. gæti hreinlega kallað saman ráðstefnu — sem opnasta ráðstefnu. Menn hefðu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og deila, þegar um slíka hluti er að ræða. Ég held, að þetta gætu verið ákaflega gagnleg vinnubrögð og mundu þá einnig stuðla að því að tengja störf okkar hér á þingi saman við skoðanir og áhugamál þess fólks, sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér og hefur áhuga á þeim.

Það er alkunna, að uppi eru núna ýmsar hugmyndir um nýskipan skólamála og sumar býsna byltingarkenndar og ég tel sjálfsagt, að við tökum það mið af þeim, sem við teljum skynsamlegt.

Í tilefni af því, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson sagði hér áðan um vinnutilhögun í skólum, þá vil ég taka mjög undir það, sem hann sagði. Ég tel, að hans sjónarmið séu alveg nákvæmlega rétt. En þá vil ég benda á það í því sambandi, að þarna er fyrst og fremst um fjárhagsatriði að ræða. Það er ekki hægt að taka upp vinnubrögð, sem hann leggur til og ég tel vera rétt, í skólum, nema með því ,að skólahúsnæði verði miklu meira og betur úr garði gert, en það er nú. Og þegar við erum að setja lög um þessi efni, þá verðum við ævinlega að minnast þess, að lagabálkurinn sjálfur verður ekki nema orðin tóm, ef við fylgjum honum ekki eftir með nauðsynlegum fjárveitingum. Ég er sannfærður um það, að ef við ætlum að láta þennan lagabálk ná tilgangi sínum — það úr honum, sem við kunnum að fallast á, eða það, sem við kunnum að breyta — þá verður það aðeins gert, ef við gerum okkur um leið ljóst, að við verðum að leggja fram mjög verulegt fjármagn til þess að koma upp nútímalegu skólakerfi á Íslandi.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vildi aðeins lýsa yfir ánægju með það, að þessi mál skuli vera komin á dagskrá og lýsa yfir því fyrir hönd Alþb., að það muni að sínu leyti stuðla að því, að sem bezt verði unnið að þessum málum innan þings og utan.