27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

184. mál, skólakerfi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki ofsagt, að hér er eitt af mestu stórmálum, sem þingið fjallar um, til meðferðar og vafalaust er það hyggilegt, sem hér hefur verið sagt, að hraða ekki allt of mikið afgreiðslu málsins, — ætla sér góðan tíma til þess. Enda þótt hér hafi lagt hönd að verki við þessa samningu þessara tveggja frv., sem nú eru til umr. — frv. um skólakerfi og frv. um grunnskóla — margir ágætir fræðimenn í uppeldismálum og að auki mjög reyndir og ágætir skólamenn, sem gjör þekkja þessi mál fræðilega og í framkvæmd, þá er samt sem áður full ástæða til þess að gefa sem flestum reyndum skólamönnum og foreldrum, sem leggja sig fram um að hugsa þessi mál og hafa kynnzt þeim vegna skólaveru sinna barna, einnig sem beztan kost þess að kynnast þessum málum, áður en þau eru orðin að lögum.

Ég tek eftir því, að menn gera sér ljóst, að þessi mál verða ekki framkvæmd í samræmi við heimildir lagabókstafsins, í einu hendingskasti. Í frv. um skólakerfið er sagt, að það sé ætlunin að koma því til framkvæmda svo fljótt sem aðstæður leyfa og eigi síðar en 10 árum eftir gildistöku þeirra. Það er sem sé áratugur, sem menn hafa í huga við að koma málinu í framkvæmd. Og ég er ekkert hneykslaður á þessu. Ég tel þetta bara raunsæi og þætti í raun og veru gott, ef áratugurinn entist til þess að koma hinum beztu nýmælum þessara frv. í framkvæmd, þegar við lítum til reynslunnar og minnumst skólalöggjafarinnar frá 1946 og aðgerða þar, að nú eru 25 ár liðin, síðan sú löggjöf var sett og þó verðum við að játa, að ýmis stærstu nýmæli þeirrar löggjafar eru ekki enn komin til framkvæmda að aldarfjórðungi liðnum og ber margt til, bæði það, að ekki hafa fengizt fjárveitingar til þess að framkvæma ýmis nýmæli þeirrar löggjafar og sízt af öllu til þess að veita fjármagninu út um alla landsbyggðina, þannig að löggjöfin yrði framkvæmd, gert mögulegt að framkvæma hana. Það vita allir, að í sveitum landsins hefur hún að mjög litlu leyti komið til framkvæmda og búum við þar enn þá í aðalatriðum við þá kennsluháttu og þá kennslu— og uppeldisaðstöðu, sem skólalöggjöfin frá 1908 markaði — þ.e.a.s. enn þá á nokkrum stöðum við farskólakennsluna. Og það er náttúrlega bein afleiðing af því, að ekki hefur verið nógu kröftuglega að verki verið, að svo seint hefur gengið um framkvæmd þeirrar löggjafar.

Hvað sem þessu máli líður að öðru leyti, þá vil ég taka undir það, að það er gott, að frv. eru komin fram. Sú vinna sérfræðinga og reyndra kennara, sem verkið hafa unnið, liggur hér fyrir og hefur verið mótuð — málið er komið til meðferðar, á Alþ. En samt tel ég mestu máli varða að flýta sér ekki svo mjög að keyra frv. fram og gera þau að lögum, að ekki gefist fullt tóm til þess að gefa áhugamönnum og reyndu skólafólki úti um landsbyggðina kost þess að kynnast frv. og koma sínum hugmyndum og till. á framfæri til athugunar bæði við höfunda frv., menntamálastjórnina og Alþingi.

Ég efa ekki, að það er mýmargt góðra nýmæla í þessari löggjöf, sem hér er fyrirhugað að setja. En samt er ég alveg sannfærður um það, að það eru líka ýmiss konar, gallar við þessa fyrirhuguðu lagasmíð og það er náttúrlega hlutverk Alþ. að reyna að koma auga á slíka vankanta og sníða þá af. Menn segja: Það er mjög mikils virði að lengja skólaskyldualdurinn úr 8 árum í 9 ár. Já, ég er á því, að það sé gott fyrir það fólk á þessum aldri, sem er bóknámsfólk. En að vera búinn að pína þá unglinga, sem ekki hafa bóknámsgáfur, í bókskóla í 8 ár er ærin þolraun og fyrir það fólk er níunda árinu ekki bætandi við. Hvort það er gott eða illt að hafa 9 ára skólaskyldu í staðinn fyrir 8 ára skólaskyldu, fer þess vegna eftir því, hvort skólinn hefur, verið mótaður svo á þessu tímabili, að hann henti bæði þeim, sem hafa bóknámsgáfur og öðrum, sem hafa engu þýðingarminni gáfur, sem ekki fá notið sín við bóklegt nám ár eftir ár. Ef skólinn, sem mótaður verður, á grundvelli þessara frv., gefur þroskamöguleika bæði fólkinu, sem er bóknámsfólk og hinu, sem frekar er verknámsfólk, sem er ekkert þýðingar minna að efla og mennta, ef skólakerfið gefur hvorum tveggja þessara meginhópa, að ég ekki skilgreini það nánar og fari í nánari aðgreiningu á námsfólki, þá er það gott fyrir hvorn tveggja að eiga kost á 9. árinu. En það fer alveg eftir því, hvernig skólinn er mótaður. Ef hann er búinn að vera 8 ára plága fyrir unglinga, af því að hann er ekki miðaður við þeirra andlegu hæfileika, þá er verr farið að bæta 9. árinu við það fólk.

Hins vegar verð ég að vona það, að heimildir séu nægar til þess í þessum frv. að móta skólann bæði fyrir fólk, sem það liggur vel fyrir að stunda bóklegt nám, og eins fyrir fólk, sem betur þroskast við annað en bóklegt nám — við verklegt nám. Ef þessi löggjöf, sem hér er til umr., er svo rúmgóð, að eftir henni verði mótaðir skólar, sem ekki verði eingöngu bóknámsskólar, heldur einnig gefi menntunar— og þroskamöguleika á verklegu sviði fyrir þá, sem þar hafa gáfurnar, hæfileikana, þá er vel. En ef þessi frv. miða eingöngu við bókskóla, bóklegt nám allan þennan tíma, þá verða einhver góð mannsefni úti hjá íslenzku þjóðinni á næstu áratugum.

Ég vona, að það verði ekki höfuðeinkenni þeirra skóla, sem mótast á grundvelli hinnar nýju löggjafar, sem nú verður sett, að það séu eingöngu bóknámsskólar og prófskólar, því að þá er framförin ekki mikil frá því, sem eldri skólalöggjöf okkar, hefur veitt möguleika til. Sannleikurinn er sá, að það voru uppörvandi heimildir í skólalöggjöfinni frá 1946 um það að sinna ekki aðeins bóknæma fólkinu, með bóklegri kennslu, heldur voru einnig heimildir til þess að sinna þeim, sem betur hentaði verklegt nám. En hvar hafa þær, heimildir verið notaðar? Á örfáum stöðum og að mjög litlu leyti. Handavinna í gömlu formi er kannske í flestum skólum, en er allt of þröng, allt of lítil mótleg í því sambandi að nota vinnuna sem þroskameðal fyrir þá, sem ekki eru bóknámsfólk, en aðeins gerðar tilraunir á nokkrum stöðum til þess að tengja verklega námið atvinnulífinu. Á nokkrum stöðum er tekið upp meira en smíðar, tekin upp uppsetning veiðarfæra, kynning á helztu vinnubrögðum aðalatvinnuvega þjóðarinnar, á þeim helztu gerðum veiðarfæra og þar fram eftir götunum, til að gefa nemendunum örlitla innsýn í atvinnulíf þjóðarinnar og koma þeim í snertingu við þau störf á skólaárunum. En ég segi: Þetta hefur gerzt afar óvíða. Hér í Reykjavík, eftir því sem ég bezt veit, hefur aðeins verið starfræktur einn skóli, í stað þess að öllum gagnfræðaskólum var ætlað að sinna þessum málum að verulegu leyti — einn verknámsskóli á gagnfræðastiginu, — og það sjá allir, að þeim mikla fjölda, sem ekki er bóknámsfólk, verður ekki komið öllum fyrir í einum skóla í Reykjavíkurborg. Þessi hlið var vanrækt, þó að lagaheimildir væru fyrir hendi samkv. gildandi skólalöggjöf og ég er afar hræddur um, að sú íhaldssemi ríki í framkvæmd á skólamálum okkar yfirleitt, að menn leggi ekki á sig það erfiði, sem því fylgir að reyna nýjar praktiskar námsbrautir, sem mest líkjast starfi, en fari hinar troðnu götur með bókina og prófin sitjandi á sínum kennarastól. Það er auðveldast og þannig hafa flestir farið hinar troðnu slóðir.

Það má segja, að það sé kannske aldrei hægt að tryggja framkvæmdina fyllilega með lagasetningunni. Það er alveg hárrétt, að lagasetningin er eitt — hún þarf að veita sem víðtækastar heimildir til þess að beita hinum beztu, árangursríkustu aðferðum, má ekki vera of þröng að því leyti — en framkvæmdin er allt annað og framkvæmdin er mörgu háð. Hún er fyrst og fremst komin undir kennaranum. Hún er í annan stað komin undir því fjármagni, sem veitt er til að búa skólana út með hinum fjölbreytilegustu tækjum og þar verður fleira að koma til heldur en bókin ein. Góðar nútímalegar námsbækur eru ágæt kennslutæki, en ekki viðhlítandi, ekki fullnægjandi. Þar verður margt annað að koma til. Við verðum t.d. að játa það með sárri blygðun, að við höfum ekki á gagnfræðastiginu, ekki á menntaskólastiginu heldur, haft nokkra verulega viðhlítandi aðstöðu til kennslu í eðlis– og efnafræði. Ég hef kynnzt því sjálfur, að við erum miklir eftirbátar frænda okkar Færeyinga á þessu sviði. Í Færeyjum hef ég komið í gagnfræðaskóla, þar sem voru hinar fullkomnustu tilraunastofur í eðlis— og efnafræði. En þeir eru fáir., gagnfræðaskólarnir á Íslandi, sem hafa haft fullkomna tilraunastofur í eðlis— og efnafræði, ekki bara möguleika fyrir kennarann á sínu kennarapúlti að gera tilraunir í greininni, heldur hvert einasta skólaborð fyrir nemendurna til þess að gera tilraunirnar sjálfir. Og þá er það orðin lífræn kennsla. En þarna er vissulega mikið komið undir fjárveitingum til skólanna. Og ég trúi því ekki, að við séum þeim mun fátækari, en Færeyingar, nema þá í andanum, að við getum ekki komið upp þessari grein í kennslu okkar, sem miðar þó mjög að nútíð og framtíð betur en raun ber vitni um. Þar höfum við legið eftir og ekki komið okkar málum í lag. Það er fyrst núna á allra seinustu árum, að slíkar rannsóknarstofur eru til í menntaskólum okkar. En það var svo sannarlega langt fram eftir árum, sem engin slík viðhlítandi aðstaða var í gamla menntaskólanum í Reykjavík.

Það var eitt, sem hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, kom hér inn á um námið, starfið. Námið er auðvitað ekkert nema starf. Það er alveg hárrétt hjá honum og það að ætla unglingum 36 stunda skólasetu í skólastofunni, kyrrsetu við litla hreyfingu, þó að sá tími sé hlutaður í sundur með frímínútum, það er ærin þolraun fyrir ungling. Og vinnutími hans er orðinn óhæfilegur, ef þar við bætist, þótt ekki væri nema tveggja stunda heimavinna dag hvern. Ég hrópa þess vegna ekki húrra fyrir því, þó að í frv. sé hægt að benda á, að það verði fleiri kennslumínútur í sambandi við nýja kerfið heldur en samkv. hinu gamla. Það er útfært hér með töflu, allar tölurnar samkv. frv. eru hærri en samkv. núv. löggjöf: á fyrsta skólaári samkv. gamla kerfinu 27.200 kennslumínútur, 32.640 kennslumínútur samkv. hinni væntanlegu löggjöf og á tíunda skólaári 54.400 kennslumínútur samkv. nýja kerfinu, mun hærra, en á síðasta skólaári núna. Það er lengri námstími, bæði að því er snertir daglaga kennslu og að því er snertir tímann á ári á vissum námsárum þarna.

Ég er sannfærður um, að það er hægt að nota betur tímann á vissum aldursstigum, sérstaklega í neðri bekkjunum í barnaskólunum, en gert hefur verið og þar má auka álag eitthvað. Þar er heimavinnan líka mjög lítil og nemendurnir þá ferskir og áhugasamir. En það sýnir okkur aftur, að það er, eitthvað bogið við framkvæmdina hjá okkur almennt, þegar áhugi ungmennanna fer dvínandi, eftir því sem þeir sitja lengur í skóla. Og þá duga mínúturnar ekki og ekki klukkustundirnar heldur. Við vitum það, að þó að hörmung hafi verið til þess að vita, að gáfaðir unglingar í sveitum hafi aðeins átt kost á nokkurra vikna eða mánaða kennslu á vetri, þá er samt niðurstaðan sú, að gott námsfólk hefur komið úr sveitunum með svona undirbúning og klárað sig í framhaldsskólunum á móts við hina, sem hafa setið mörg hundruð prósent lengur, að því er mínútufjölda og klukkustundafjölda snertir. Það er fjarri því, að það sé aðalatriði til þess að undirbyggja þekkingu og menntun, að ungt fólk eigi þess kost að sitja sem lengst á degi hverjum í skóla og mestan hluta ársins í skóla. Ég er mjög efagjarn um, hvort það er rétt, að láta nemendur almennt, einkanlega þá, sem eiga þess kost að taka þátt í lífrænu starfi í staðinn, sitja miklu lengur á skólabekk en 7 mánuði á ári. Ég efast um, að 8. mánuðurinn bæti nokkru verulegu við og undir þeim kringumstæðum, þar sem ungmenni ættu þess kost að taka þátt í lifandi starfi í staðinn, þá efast ég um, að 9. mánuðurinn gerði nokkuð gott. Það yrði venjulega til þess, að a.m.k. fólkið á menntaskólastiginu og að verulegu leyti líka á gagnfræðastiginu útilokaðist frá því að verða aðnjótandi þess þroska, sem lifandi starf með þjálfuðu starfsfólki veitir Við útilokum okkar menntaskólanemendur æ meir frá því að taka þátt í atvinnulífi þjóðarinnar, ekki aðeins til þess að bjarga sér fjárhagslega, heldur er bæði tjón þjóðfélagsins nokkuð og ég held, að tjón menntamanna okkar sé ærið mikið, af því að þeir útilokast meir og meir frá þátttöku í lifandi starfi.

Það er mér kunnugt, að margir danskir skólamenn litu svo á, að það væri sýnt, að Íslendingar eignuðust þroskaðri námsmenn við Kaupmannahafnarháskóla heldur en dönsku stúdentarnir yfirleitt voru, af því að þeir væru meira þjálfaðir í lifandi starfi og hefðu, vegna þess að við höfðum styttri námstíma á ári hverju, öðlazt þar þroska, sem þeirra menn færu á mis við. Og ég held, að þessir skólamenn Dana hafi haft rétt fyrir sér með skólakerfið eins og það var, — nú miða ég við fyrir einum 30—40 árum, — og að þeir hafi þannig ekki vanmetið þann þátt, sem var gildari í íslenzku menntakerfi. Það var þátttakan í starfinu.

Ég sem sé tel ekki hækkandi tölur að því er snertir mínútufjölda og mánaðafjölda neitt aðalatriði og það vekur ekki mjög miklar vonir hjá mér um traustari menntunargrundvöll eða meiri þekkingu, þó að ég líti á þær einar út af fyrir sig. Það sem öllu máli skiptir, er það, hvort skólinn veitir nemendum möguleika til þess að helga sig bóklegu námi eða starfi, eftir því sem áhugi þeirra og hæfileikar benda til, því að sé ungum manni þröngvað til þess að vera við starf eða nám, sem er honum ógeðfellt eða um megn, þá verður hann aldrei fróður eða sannmenntaður maður af því.

Ég er alveg sannfærður um það, að þó að landsprófið hefði þann kost að opna námsleiðina inn í menntaskóla og gerði það jafnar og betur um landið heldur en áður voru möguleikar til, þegar allir urðu að fara til prófs í Reykjavík, þá beið kennslan, sem miðaðist við landsprófið, hnekki. Hún varð ekki eins þróttmikil, hún var ekki eins lifandi og frjálsleg. Hún varð bundin við alls konar sparðatínslu og smáatriði, sem kynnu að koma í landsprófinu næsta vor og varð þess vegna í mörgum tilfellum dauf. Þannig beið kennslan í mörgum námsgreinum í íslenzkum skólum í framkvæmdinni hnekki við landsprófsfyrirkomulagið, en hún jafnaði aðstöðuna —- það skal ég játa — og hafði þann kost að jafna aðstöðuna hjá fólkinu í gagnfræðaskólunum úti um landið til þess að þreyta þessa prófraun og opna sér leiðina inn í menntaskóla og það var vissulega mikils virði.

Mér líkar vel frv. um skólakerfið í öllum meginatriðum. Það er hnitmiðað að orðalagi, þar eru engar vangaveltur eða bollaleggingar, stuttar gr. og þær eru ekki nema 9 talsins. Þetta rúmast á einni bls. og gefur skýra mynd af því skólakerfi, sem fyrirhugað er. En þegar kemur að bókinni um frv. til l. um grunnskóla, ég hef í höndum bók upp á 88 bls. — það eru að vísu ekki allt frvgr., heldur ýmiss konar grg. og upplýsingar og töflur þar með, sem ég vanmet á engan hátt. — En frv. sjálft er 103. gr. og það er nærri 21 bls. í Stjórnartíðindabroti. Þar er brugðið upp ýmsum glæsimyndum um það, hvernig skólarnir eig að vera og verða, eftir því sem þarna er stefnt að með lagasetningunni. Og þær glæstu hugmyndir, sem þar koma fram — ég vil segja í ritgerðarformi, þetta er ekki líkt venjulegum lagagr., — það eru óskir fram settar um hinn væntanlega skóla og mér er það ljóst, að hverju höfundar frv. vilja stefna, hvernig þeir vilja, að skólarnir verði. En skýr og hnitmiðuð lagaákvæði eru þetta ekki að mínum dómi og geta þannig orðið ákaflega laus lagagrundvöllur, sem getur gefið möguleika til góðra framkvæmda, en tekur líka laust á hlutunum, þó að framkvæmdin liggi að einhverju meira eða minna leyti eftir.

Mér heyrðist, að hv. 1. þm. Austf., sem hér talaði áðan, teldi að þörf væri á, að ýmislegt væri ákveðnar orðað um framkvæmdir, skæri þannig algerlega úr, bókstafurinn í frv. gæfi ekki fulla vitneskju um það, hvernig framkvæmdin yrði, t.d. varðandi hina þýðingarmiklu 7. gr. í frv. um skólakerfi, sem þó hefur þann meginkost að vera stuttort og hnitmiðað. Við vitum náttúrlega ekki, hvernig framkvæmdin verður á því stórkostlega mikilsverða atriði að tryggja nemendunum, hvar sem eru á landinu, sem jafnasta aðstöðu til menntunar og það vaknar hjá mér sami efi og hjá honum, að ef sveitarfélög eiga að bera helming kostnaðar til þess að tryggja þessa framkvæmd, þá er ég afar hræddur um, ef ríkið ætlar sér ekki meirihluta en jafnan á móti sveitarfélögunum, að þá geti þarna orðið strand og framkvæmdin verði ekki svo sem bókstafurinn gefur vonir um. Hins vegar sýnist mér, að andi frv. gefi miklar vonir og t.d. í frv. um skólakerfi finnst mér vera mjög ákveðið og myndarlega á málinu tekið og það er ramminn, en hitt finnst mér öllu lausara í böndum — frv. um grunnskólann — og vera eiginlega safn lagagr., flestar þeirra smáritgerðir um málið. En ég lýsi því yfir fyrir hönd míns flokks, að það mun verða hjá okkur lögð vinna í það að rannsaka þessi frv., kynnast hugmyndunum, sem í þeim felast, meta þær, sem til bóta eru og gera athugasemdir við aðrar, sem okkur lýzt ekki á og við viljum, að sem allra flestir utan þings sem innan verði tilkvaddir að ræða um þessi mál, áður en þeim er veitt lagagildi. Það er, eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan, það er verið að leggja grundvöllinn að fræðslu— og menntunaraðstöðu ungu kynslóðarinnar, á Íslandi, kannske um mjög langa framtíð og stærra mál fjöllum við varla um á Alþingi Íslendinga.