11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

247. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var eitt atriði í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, sem ég vildi aðeins ræða. Að vísu kom hæstv. viðskrh. inn á það í lok ræðu sinnar. Það er sú breyting, sem verður á aðstöðu gjaldeyrisbankanna til lántöku erlendis. Meðan það var svo, og er svo að vísu enn, að það eru aðeins Landsbankinn og Útvegsbankinn, sem hafa leyfi til gjaldeyrissölu og gjaldeyrisviðskipta, þá höfðu þeir nokkuð fríar hendur um það að taka lán erlendis, ef þeir teldu sig þurfa á því að halda. Mér er um það kunnugt, sérstaklega í sambandi við sjávarútveginn, að þá kom þetta sér mjög vel iðulega, sérstaklega þegar harðnaði á dalnum eða erfiðar gekk, en kannske eðlilegt var, þá gripu bankarnir til þess ráðs til að halda viðskiptunum með eðlilegum hætti að taka lán til bráðabirgða hjá sínum erlendu viðskiptabönkum. Ég tel, að alla tíð hafi verið farið mjög hóflega í þetta. Það er langt frá því, að það hafi verið á nokkurn hátt misnotað, en aðeins gert í þeim tilfellum, þegar þurfti að greiða verulega úr í sambandi við viðskipti útflutningsatvinnuveganna, þegar harðnaði. Það má vel vera, að það þyki ekki fært, þegar fleiri bankar séu búnir að öðlast þessi réttindi, að þessi heimild fái að standa áfram, að bankarnir geti tekið lán erlendis án þess að fá til þess sérstök leyfi Seðlabankans eða viðskrn. En meðan svo er og ég hygg, að það hljóti að verða á næstunni, að þessir tveir bankar, Landsbankinn og Útvegsbankinn, þurfa aðallega að sinna viðskiptum útflutningsatvinnuveganna, þá teldi ég mjög eðlilegt, að það yrði skoðað, hvort ekki væri eðlilegt, að þeir fengju að halda þessari heimild áfram, a.m.k. innan einhverra eðlilegra marka. Ég tel þetta það mikilvægt atriði, að ég vildi hreyfa þessu hér, áður en málið fer til n., til þess að sú n., sem það fær til athugunar, gæti þá einnig skoðað þetta.

Þá hefur það komið fram hjá hæstv. viðskrh., að viðræður hefðu átt sér stað milli þessara banka og Seðlabankans um, hvernig því yrði komið fyrir að færa viðskipti útflutningsatvinnuveganna á milli banka, frá þessum bönkum, geri ég þá ráð fyrir og yfir til hinna bankanna, sem nú fá gjaldeyrisviðskiptin. Ég verð að viðurkenna, að ég þekki málið ekki nægilega til þess, að mér sé nægilega ljóst, hvernig þetta megi eiga sér stað. Ég tel, að það mundi verða mjög erfitt, ef bankarnir ætluðu að fara að fyrirskipa einhverjum viðskiptamönnum, sem kannske hafa verið þeirra viðskiptamenn í áratugi, að færa sig allt í einu yfir í annan viðskiptabanka. Það er að sjálfsögðu ekkert við það að athuga og væri eðlileg þróun, ef til hinna nýju gjaldeyrisbanka yrði leitað af þeim aðilum, sem við útflutning fást, að þeir færu þar í viðskipti. En ef á að fara að færa til í nokkuð róttækum mæli viðskiptamenn, sem áður hafa verið hjá Landsbanka eða Útvegsbanka, yfir til hinna nýju banka, þá hygg ég, að það gæti valdið röskun, sem ég mundi ekki telja eðlilega og tel, að það komi ekki til mála, að nokkur aðili verði þvingaður þannig með sín viðskipti á milli lánastofnana. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði frv., áður en það fer til þeirrar n., sem nú fær það til meðferðar, þannig að hún gæti skoðað þetta atriði sérstaklega nánar.