31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 678, en það er frv. til l. um stofnun hlutafélags til að reisa og reka niðursuðu– og niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að niðursuðu– og niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði verði á næstu haustmánuðum lögð niður, — ég held, að þau orð eigi hér við, — lögð niður sem ríkisfyrirtæki og við fyrirtækinu taki hlutafélag, sem yfirtaki reksturinn. Heimilt er ríkissjóði skv. 2. gr. frv. að leggja fram af fé ríkissjóðs allt að 30 millj. kr. eða jafnvirði þeirra í erlendri mynt og að kaupa af Síldarverksmiðjum ríkisins verksmiðjuhús, vélar og áhöld, sem nú eru notuð við rekstur síldarniðursuðu verksmiðjanna. Þessar eignir á ríkissjóður að leggja fram sem hluta af framlagi sínu. Ríkissjóði er svo heimilt að greiða eignir þessar Síldarverksmiðjum ríkisins með skuldajöfnuði.

Við fyrstu sýn virðist það allglæsilegt, að ríkissjóði sé heimilað að leggja fram allt að 30 millj. kr. í beinan rekstur. En þegar betur er að gáð, minna þessar millj. ofurlítið á nýju fötin keisarans, því framlag ríkissjóðs á ekki að vera í gallhörðum peningum, nema ef vera kynni að litlu leyti. Framlög ríkissjóðs til stofnunar hlutafélagsins eiga að vera andvirði vélanna, sem fyrir hendi eru, andvirði verksmiðjuhúss og ef til vill fleiri húsa, sem eru þegar byggð, og andvirði lóða, sem eru í eigu ríkisins og ekki má gleyma áhöldum verksmiðjunnar, sem kaupa á og leggja fram sem hlutafé. Ég vil ekkert fullyrða um og get það ekki, hve hátt söluverð yrði á þessum eignum úr vinstri ríkisvasanum í þann hægri. En upphæðin yrði matsverð, ef ekki næst samkomulag umráðamanna þessara ríkisvasa. Kunnugur maður hefur látið í ljós við mig, að umrætt verðmæti skipti tugum millj., e.t.v. þremur og þá fer nú að verða litið eftir af 30 millj. kr. framlagi ríkissjóðs sem blóðgjöf til hins nýja hlutafélags. Þegar þetta er vitað, er það furðulegt að rekast á setningu í 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisframlagið geti jafnvel orðið í erlendri mynt. Fyrst er ríkisframlagið takmarkað við 30 millj. kr., síðan á ríkissjóður að leggja fram vélar, áhöld, lóðir og hús, sem verður verulegur hluti framlagsins, ef ekki allt, svo er talað um, að jafnvirði hlutafjárframlags ríkissjóðs megi leggja fram í erlendri mynt.

Í 5. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til samvinnu um stofnun hlutafélagsins skal ríkisstj. heimilt að kveðja hvers konar aðila, sem áhuga hafa á fyrirtækinu. Skulu þeir aðilar og íslenzka ríkið vera fullgildir stofnendur að félaginu án tillits til ákvæða 2. mgr. 4. gr. l. nr. 77 1921, um hlutafélög. Tala stofnenda skal og óháð ákvæðum 1. málsl. þeirrar mgr.“ Síðan segir í þessari 5. gr.: „Við stofnun félagsins skal gefa Siglufjarðarkaupstað kost á hluttöku með framlagi, sem svarar a.m.k. 20% á móti framlögum ríkisins og annarra stofnenda, ef um er að ræða eða veita honum forkaupsrétt um tiltekinn tíma að samsvarandi hluta af því hlutafé, sem ríkissjóður er skrifaður fyrir.“

Þegar litið er til baka yfir rekstur Niðursuðu— og niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði, blasir þetta við: Fyrirtækið hefur greitt Siglfirðingum milljónir króna í vinnulaun á liðnum árum og afstýrt háskalegu árstíðabundnu atvinnuleysi að nokkru, en það hefur hins vegar ekki skilað hagnaði. Það hefur ekki heldur frá sjónarmiði ríkisrekstrar í heild — eða ég lít svo á málið — verið rekið með tapi, sem margir halda fram og nú síðast hæstv. forsrh. Að vísu sýna niðurstöðutölur reikninga það og því tapi hefur verið haldið á lofti, en ég minni á, að þetta fyrirtæki hefur greitt millj. kr. í útflutningsgjöld og tollgreiðslur til ríkisins, svo að þegar a11t er uppgert, þá mun ekki vera um tap að ræða.

Sem sagt ríkisfyrirtæki það, sem hér er á dagskrá, er eitt hið þarfasta í landinu. Það hefur stutt tugi heimila á erfiðum tímum og ég leyfi mér að halda því fram, að það hafi ekki bakað ríkissjóði í heild skaða, en það malar hins vegar ekki gull á annan hátt. Þegar þetta er haft í huga, spyr ég og sjálfsagt fleiri, sem lesa 5. gr. frv., hvaða aðilar hafi áhuga á hlutafélagsstofnun um þessa verksmiðju, eins og nú standa sakir.

Í niðurlagi greinarinnar er heimilað að gefa Siglufjarðarkaupstað kost á hluttöku með framlagi, sem svarar a.m.k. til 6 millj. kr. En þeim, sem eru kunnugir fjárhag Siglufjarðarkaupstaðar, finnst þetta ákvæði vera fjarstæða og mér finnst það. Hvaðan á Siglufjarðarkaupstaður að taka í dag 6 millj. kr. til að leggja í fyrirtæki, sem er til á staðnum og er nú í fullum gangi, eins og kallað er, stofnsett af ríkissjóði og rekið af ríkissjóði, í húseignum ríkissjóðs, með vélum, sem enginn á annar en íslenzka ríkið?

Sú var tíðin að ríkissjóður rak síldarfyrirtæki sín á Siglufirði með milljónahagnaði, tugmilljóna króna hagnaði. Þá datt engum hæstv. ráðh. í hug að stofna hlutafélag um þann rekstur og bjóða Siglufjarðarkaupstað þátttöku í rekstrinum. Það hvarflaði ekki að nokkrum einasta ráðh. Þvert á móti stöðvaði ríkisvaldið Siglfirðinga á sínum tíma í að byggja upp síldarverksmiðju sína á velgengis árum síldarverksmiðjanna í landinu. Hefði það ekki verið gert, hefði síldarverksmiðjan Rauðka verið skuldlaus í dag, í staðinn fyrir að liggja mánuðum og árum saman undir hamrinum.

Það er lengi búið að bíða eftir breytingum á lögum um Niðursuðu— eg niðurlagningarverksmiðju ríkísins. Fæstum hefur dottið í hug, að þegar þær loksins kæmu, yrðu þær eins og raun ber vitni á þskj. 678. Ég er á móti þessu frv. og tel rétt að gera grein fyrir þessari afstöðu minni nú við 1. umr. þessa máls. Ég er á móti því, að þetta ríkisfyrirtæki verði lagt niður og því breytt í hlutafélag, sem enginn veit hvern enda fær, því að í 7. gr. eru útgöngudyr fyrir ríkisstj., hverjir svo sem hana skipa á næstu árum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt skal að selja þau hlutabréf, sem ríkissjóður eignast í hlutafélaginu, öll eða að hluta, eftir því sem ríkisstj. ákveður hverju sinni.“ Skýrari geta útgönguákvæðin ekki verið. Ríkissjóður getur á næsta ári eða árum, ef stjórn landsins sýnist svo, verið laus allra mála um rekstur þessa fyrirtækis, sem það rekur í dag á Siglufirði, að mínum dómi hallalaust.

Nú kunna margir að spyrja: Hvers vegna á ríkissjóður ekki að vera laus við að reka Niðursuðu— og niðurlagningarverksmiðjuna og hví má ríkisvaldið ekki koma þessu fyrirtæki yfir á herðar fjárhagslega vanmáttugs bæjarfélags og aðila, sem áhuga hafa á fyrirtækinu, svo notað sé orðalag úr 1. mgr. 5. gr. frv.? Það er ósköp eðlilegt, að svona sé spurt. En mitt svar er þetta: Ríkisvaldið á að mínum dómi ekki að gera þetta. Það á að sjá sóma sinn í að reka þetta fyrirtæki áfram til að minnka árstíðabundið atvinnuleysi á Siglufirði. Síldarverksmiðjur ríkisins, sem eru eign ríkisins, eins og nafnið ber með sér, eignuðust bróðurpartinn af beztu sjávarlóðum á Siglufirði 1930 og síðar. Þær byggðu þar þrjár stórar síldarverksmiðjur á staðnum og keyptu þá fjórðu. Fólk víða að af landinu flykktist í hundraðatali til Siglufjarðar, m.a. til Síldarverksmiðja ríkisins, vann þar og setti sparifé sitt í húseignir á staðnum. Þar greiddi þetta fólk gjöld sín til bæjarins, sem byggði síðan upp myndarlega skóla, sjúkrahús, rafveitu, vatnsveitu, hafnarbryggju, gatnakerfi o.fl., o.fl. Þegar síldin hvarf og sýndi sig ekki meir norðanlands, sat þetta fólk fyrst og fremst uppi með sárt enni og bæjarfélagið með tóman kassa. Þess skal hér getið, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og ríkisstjórnir, sem hafa setið, frá því að síldarleysið skall á, hafa gert sitt til að mæta vaxandi vanda fyrirtækisins og fólksins. Breytt var stórri mjölskemmu S.R. í hraðfrystihús, en það hefur veitt fjölda manns vinnu og margnefnd Niðursuðu– og niðurlagningarverksmiðja var sett á stofn og hefur gert sitt gagn á liðnum árum, þó að rekstur hennar hafi verið gagnrýndur og á stundum bæði af mér og öðrum.

Ég endurtek það, að það er mín skoðun, að þessi verksmiðja og rekstur, sem þar fer fram, á að vera áfram rekin af ríkinu, en það þarf að setja ný lög um þetta fyrirtæki. Það þarf að fá sérstaka stjórn og sérstakan fjárhag. Að því mun ég víkja við 2. umr. þessa máls, ef til þess gefst tækifæri.