31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að flytja neina kosningaræðu við þessar umr., en ég leyfi mér að segja um síðustu ræðu, að þetta er hin aumasta kosningaræða, sem ég hef lengi heyrt flutta fyrir máli rétt fyrir kosningar og sannast að segja finnst mér nú bara sárt til þess að vita, að hér skuli hafa talað einn af forstjórum ríkisfyrirtækis. Það á einskis virði að vera að fá hlutafjárframlög, ef þau eru í fasteignum og vélum, ef þau eru ekki bara í beinhörðum peningum. Sumum þykja nú fasteignir og vélar ekkert minna virði, en beinharðir peningar. Við 2. umr. gæti hv. þm. gjarnan lagt fram brtt. um það, að hlutafjárframlagið væri ekki lagt fram í erlendri mynt. Það eru auðvitað smámunir, sem menn geta haft gaman af að fetta fingur út í. Það væri hægt að leiðrétta það.

Það á að vera eitthvað einkennilegt við það að stofna hlutafélag um fyrirtæki, sem er í fullum gangi. Í hvernig fullum gangi er þetta ríkisfyrirtæki? Það var eitt mitt fyrsta verk, á fyrstu mánuðunum eftir að þetta fyrirtæki féll undir iðnrn., að útvega því lán, 3 eða 4 millj. kr. úr ríkissjóði, sem áttu að borgast að haustinu, til þess að það gæti unnið á s.l. ári. Það lán er ógreitt enn þá. Ríkið hefur aflað því þess, sem það er nú að vinna úr. Ekkert ríkisfyrirtæki er svona rekið. Ekki fékk þessi hv. þm., sem er forstjóri ríkisfyrirtækis, ríkiskassann til að reka fyrirtækið og ég veit ekki til þess um önnur ríkisfyrirtæki. Þau verða að bjarga sér sjálf, ríkisfyrirtækin. En það er engin mynd á því fyrirtæki, sem á að reka þannig, að það á að setja því stjórn til þess að geta bara gengið í ríkissjóðina. Það á að reyna að koma þessu fyrirtæki á heilbrigðan grundvöll og ég álít, að aðstaða til þess sé fyrir hendi nú meiri en nokkru sinni áður og ríkið á með þeirri aðstöðu, sem það þarna hefur, að hjálpa til þess, að ríkisfyrirtæki geti verið án nokkurs halla. Þetta er einmitt það, sem ég vona, að hlutabréfin verði það mikils virði, að ríkissjóður geti farið hallalaus út úr þessu og aðilar sjái sér hag af því, annað hvort Siglufjarðarbær, einstaklingar eða félag einstaklinga, að kaupa hlutabréfin. En með því að láta þetta hjakka áfram í gamla farinu, eins og verið hefur, þá er þetta engu líkt, því það er ekkert ríkisfyrirtæki, sem þannig er rekið. Það þarf ekki að setja lög um það, að það þurfi að skipa einhverja sérstaka stjórn til þess að ganga suður til Reykjavíkur til að fá peninga úr ríkissjóði, til að reksturinn geti haldið áfram, því það hefur verið gert, án þess að nokkur stjórn væri yfir þessu fyrirtæki önnur en stjórn Síldarverksmiðja ríkisins.

Mér finnst anzi hart af mönnum, sem áður hafa verið hér fulltrúar á Alþ. fyrir þetta hérað, Siglufjörð og Norðurl. v., að rjúka hér upp með of forsi og skömmum, þegar verið er að reyna að koma atvinnufyrirtæki, sem er mikils virði að geti gengið, á réttan kjöl. Þetta fyrirtæki á að hafa borgað svo og svo mikil útflutningsgjöld og þess vegna sé alveg sama, hvernig fyrirtækið er. Ekkert af þessum útflutningsgjöldum fer í ríkissjóð. Ég hefði að sjálfsögðu tekið því mjög vel, ef menn hefðu viljað breyta einhverju í þessu frv., sbr. ákvæðið um hlutabréf í erlendri mynt og það hefur ekki staðið á mér. Eins hefði ég vel getað átt viðræður við hv. þm. og aðra um einhverja aðra skipan á málum í þessu frv., eins og öllum frv., eins og eðlilegt er. En hitt þykir mér hart, eingöngu vegna þess að kosningar eru fram undan, að fá bara skammir, þegar verið er að reyna að koma svona fyrirtæki á heilbrigðan grundvöll.