31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja hér við 1. umr. þessa máls.

Ég er algerlega andvígur þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að Niðurlagningarverksmiðju ríkisins á Siglufirði verði breytt í hlutafélag. Ég tek undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að það sé full þörf á því, að ríkið ræki eitt fyrirtæki af þessari tegund, vegna þess m.a. að hér hlýtur að vera um brautryðjandarekstur að ræða í mjög þýðingarmikilli atvinnugrein. Og ég tel mjög litlar líkur til þess, að hlutafélag af þeirri gerð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., geti tekið að sér slíkt verk. Mér sýnist líka , að verði farið eftir því, sem gert er ráð fyrir í frv., þá verði Niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði skilin eftir í miklum vandræðum. Það er greinilegt, að aðalframlagið, sem á að koma frá ríkinu, er í formi þess að leggja fram það húsnæði og þær eignir, sem verksmiðjan hefur haft til þessa frá Síldarverksmiðjum ríkisins. Það sem kann að verða umfram það, er í fullkominni óvissu, hversu mikið verður og þó að rætt sé um að veita verksmiðjunni allt að 10 millj. kr. ríkisábyrgð, þá er það varla meira, en gert hefur verið á beinan eða óbeinan hátt til þessa og hefur þó verksmiðjan verið í talsvert miklum vanda, eins og kunnugt er.

Ég verð að segja, að mér þykir þetta frv. koma einkennilega seint fram á þessu þingi. Það er búið margsinnis áður að gera fsp. hér á Alþ. um það, hvort ekki sé von á frv. af hálfu ríkisstj. um þetta efni og fyrirheit höfðu verið gefin um það hér fyrir löngu. En svo kemur fram frv. og þá í þessum búningi hér á síðustu dögum þingsins. Mér þykir alveg einsýnt, að ríkisstj. hafi varla ætlazt til þess, að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi. Það má kannske segja, að það skipti ekki ýkjamiklu máli, miðað við uppbyggingu frv., því það er beinlínis gert ráð fyrir því í þessu frv., að stofnun þessa nýja hlutafélags skuli fara fram á þessu ári og verða lokið, eins og segir í frv., fyrir árslok. Næsta þing gæti því í rauninni allt eins fjallað um þetta mál, miðað við það, sem ráðgert er í þessu frv.

Þá er þess einnig að geta, að það hafa ekki komið hér fram upplýsingar um það, að neinn aðili hafi verulegan hug á því að gerast hluthafi á móti ríkinu til þess að reka þessa verksmiðju. Ef eitthvað slíkt hefði legið fyrir um einhvern þann aðila, sem hefði verið virkilega líklegur til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins, þá gat þetta fyllilega komið til greina, ekki hvað sízt fyrir þá, sem lifa í þeirri trú, að ríkið eigi ekki að annast rekstur á neinum fyrirtækjum, heldur þurfi að koma öllum ríkisfyrirtækjum yfir í form hlutafélaga. Á meðan það liggur ekki einu sinni fyrir, að það sé neinn aðili til, sem óskar eftir því að taka þátt í að reka fyrirtækið á þessum grundvelli, þá sýnist mér, að með þessu sé hreinlega stefnt að því að leggja þetta fyrirtæki niður eða láta það vera áfram í þeirri óvissu, sem það hefur verið í.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. lagði nokkra áherzlu á þá gr. frv., sem um það fjallar, að ríkið geti síðar selt sín hlutabréf. Hann lagði á það nokkra áherzlu, velti því vissulega fyrir sér, að ríkið kæmist hallalaust helzt af öllu út úr þessum rekstri. Það er enginn vafi á því, að eins og þetta mál er flutt hér, þá ber það þess merki, að það sé efst í hugum þeirra, sem með málin fara af hálfu ríkisstj., að reyna að losa sig úr þessum vandræðarekstri. En ég álít, að það eigi að taka þannig á þessum málum, að það eigi að snúast mannlegar við og takast á við þann vanda, sem þarna er við að glíma og það eigi að koma þessu fyrirtæki sæmilega til lífs, því það er enginn vafi á því, að þetta fyrirtæki á rétt á sér, það er hægt að reka það og þetta fyrirtæki getur verið þjóðhagslega þýðingarmikið.

Ekki skal standa á mér að taka þátt í því að reyna að breyta þessu frv. á þann hátt, sem að gagni mætti koma og vinna að því, að það geti fengið hér endanlega afgreiðslu á þessum fáu dögum, sem eftir eru af þinghaldinu. En afstaða mín til þessa frv. er samt sem áður skýr, að ég er á móti því formi, sem hér er gert ráð fyrir. Ég mundi leggja til, að ríkið yrði áfram eigandi að verksmiðjunni, henni yrði hins vegar sett sérstök stjórn og ríkið ákvæði að leggja fyrirtækinu til í eitt skipti sæmilega álitlega fjárhæð, svo vonlegt sé, að það geti í rauninni annazt þann rekstur, sem það á að hafa með höndum. Þetta er í meginatriðum afstaða mín til þessa máls.