31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki mikið þessar umr. Það var þetta með skipasmíðastöðina í Larvík. Það var ekki ríkisfyrirtæki, það var hlutafélag eða e.t.v. einkafyrirtæki, eins og verið er að tala um að setja upp hérna. En hver er það, sem leggur fram stærsta hlutinn, nema ríkið, sem finnur skyldu sína til að koma til aðstoðar á erfiðum tímum og gerir það með því. Það er alveg rétt túlkað hjá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að það er einmitt með þessu móti, með því að koma fyrirtækinu á fjárhagslega sjálfstæðan grundvöll, með því að leggja því til eignirnar, að það getur aftur fengið lánsfé, sem það hefur átt erfitt með að fá. Og hvílíkur munur er nú þetta, að það á að leggja þarna fram 30 millj. kr., lóðir, hús og tæki, til þessa hlutafélags og síðan á að ábyrgjast fyrir það 10 millj. Það getur farið í bankana og fengið sér rekstrarlán út á þetta og það er eitthvað annað en það, sem veslings hv. 4. þm. Austf. þarf að standa í fyrir sitt hlutafélag, niðursuðuverksmiðjuna þar. (LJós: Ég ætla að biðja þig að kalla mig ekki vesaling). Út af þessum aths. vil ég taka það fram, að þetta var sagt í vinsamlegri merkingu.

Þess vegna segi ég það, að ég tel þetta á misskilningi byggt, að það, að hér sé um hlutafélag að ræða sýni, að þannig eigi það ekki að vera. Það hefur dugað vel á Norðfirði, bæði með niðursuðuverksmiðju, sem er að fara þar í gang og einnig með önnur fyrirtæki þar. Og oft er það svo, að formið skiptir ekki öllu máli. Það er oft þannig, að það veltur mest á einstaklingunum, sem starfa við þetta, hvort sem þeir eiga fyrirtækin eða eiga að stjórna þeim fyrir aðra, hluthafa eða ríki.

Það er rétt, að það er ekki vitað um neina væntanlega hluthafa, en ég hef haft þá trú, að þegar byggt er upp fyrirtæki eins og þetta með slíku framlagi og með þeim möguleikum, sem eru á markaðnum, að það væri ekkert óhugsandi, að menn hefðu áhuga á að gerast hluthafar í þessu fyrirtæki. Það reynir auðvitað á það. Ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur til þess að skipuleggja þetta væntanlega fyrirtæki í því formi, sem frv. segir til um, ef það nær lögfestingu. Og það reynir svo á það á næsta þingi, ef það ekki fær lögfestingu núna. Sjálfur hef ég trú á því, að þetta fyrirtæki geti með þeim ramma, sem því er sniðinn í þessu frv., orðið blómlegt fyrirtæki og mikils virði, bæði fyrir fólkið á staðnum, staðinn sjálfan, Siglufjörð og þjóðfélagið í heild.

Þótt nokkuð hafi kastazt í kekki milli manna hér um þetta frv., þá er auðvitað aðalatriðið, hvað verður um sjálfan reksturinn þarna. Ég hygg, að það megi nokkuð dæma það af þeim afskiptum, sem ég hef haft af þessu fyrirtæki, hver skoðun mín er á áframhaldi slíks rekstrar á Siglufirði. Ég ætla ekki að fara að rekja það, en það hefur verið mitt áhugamál, að fyrirtækið kæmist á sjálfstæðan og heilbrigðan grundvöll. Ég hef álitið, að það væri bezt gert með þessum hætti.

Hv. þm. Jón Kjartansson talaði um, að það hefði verið til annað frv. Það er alveg rétt. Ég hef látið útbúa í rn. fleiri valkosti, þegar mínir embættismenn hafa verið að undirbúa og stilla upp hlutunum. Og það er auðvitað rétt hjá honum líka, að það er mín ákvörðun að taka þennan valkost, sem hér er, að hafa þetta fyrirtæki í hlutafélagsformi. Um afstöðu bæjarstjóra Siglufjarðar veit ég ekki. Ég veit heldur ekki til þess, að hv. þm. hafi umboð til þess að lýsa því yfir fyrir hönd bæjarstjórans, að hann sé á móti þessu frv. Það kæmi mér mjög á óvart.