31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur gætt nokkurs hitaslæðings í þessum umr., eins og menn hafi fengið dálítinn „feber“. En þetta skeður nú ekki oft á Alþ., svo það er ekki ástæða til að sakast um það. Ég heyrði hv. þm. Jón Kjartansson flytja hér ræðu sína áðan, að vísu af nokkrum ákafa og sannfæringarkrafti, fannst mér, eins og jafnan þegar hann talar um mál Siglfirðinga og ekki gat ég fundið, að mikið væri athugavert við flutning eða efni ræðu hans. En ég tók eftir því, að þegar hæstv. forsrh. tók til andsvara, þá sagði hann það m.a., að þetta hefði verið skammaræða, sem væri ómaklegt, þegar ríkisstj. ætlaði að gera gott og gera vel við eitt fyrirtæki og tryggja því öruggan rekstursgrundvöll, að þá fengju menn skammir fyrir.

Þetta er gamla sagan um það, að laun heimsins eru vanþakklæti og er ekkert undarlegt, þó hæstv. ráðh. verði stundum að komast í kynni við þá reynslu. Það er svo algengt. Og góðverkið er nú þetta, að það á að leggja niður ríkisfyrirtæki og gera það að einkafyrirtæki.

Þetta kann að vera „prinsip“-mál hjá hæstv. ráðh. og ríkisstj., að gera slík góðverk, en það eru aðrir, sem telja þetta ekki heyra undir hugtakið góðverk, heldur, getur það verið heldur til hins verra og rangt frá sjónarmiði ýmissa annarra, að leggja niður ríkisfyrirtæki og trúa einstaklingum fyrir þeim. Og svo mikið er víst, að það var hugsað sem hjálp fyrir Siglfirðinga á sínum tíma, að ríkið rétti fram hönd til hjálpar í atvinnulífi þeirra með stofnun þessa ríkisfyrirtækis og ég á því bágt með að skilja, að það geti verið hjálp til þeirra líka að kippa hendinni að sér og svipta þá þeirri ríkisaðstoð, sem þeir hafa notið við rekstur þessa fyrirtækis, sem hefur verið þáttur í atvinnulífi bæjarins og bæjarbúa.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það, að ég er alveg andvígur því, að þetta ríkisfyrirtæki verði lagt niður og framtíð þess stofnað í nokkra óvissu með því að gera það að hlutafélagi, þar sem frv. tryggir engan veginn, að svo yrði að fyrirtækinu búið, að það yrði styrkari stoð í siglfirzku atvinnulífi undir því rekstrarformi. Ef hægt væri að sannfæra mig um það, að svo yrði og að ákvæði væru um það í frv., að vandi fyrirtækisins yrði leystur svo myndarlega, jafnframt því sem það yrði gert að einkafyrirtæki, að það risi betur undir sínu hlutverki, þá skyldi ég að þessu leyti skipta um skoðun. En ég sé ekkert það í frv., sem tryggir það, að þetta einkafyrirtæki eigi að verða svo úr garði gert, að það geti betur leyst það hlutverk af hendi en ríkisfyrirtæki, ef það nyti þá viðhlítandi aðstoðar af hendi ríkisins. En ég er þeirrar skoðunar, að ríkið hafi vangert við þetta fyrirtæki og að því miður hafi stjórnarform þess átt nokkurn þátt í því, að því hefur ekki vegnað svo vel sem skyldi við að leysa sitt hlutverk.

Það er vitað, að það eru margvíslegir risavaxnir erfiðleikar á vegi niðursuðufyrirtækja og niðurlagningarfyrirtækja í landinu. Þetta er atvinnugrein, sem við erum að þróa með okkur og erum á byrjunarstigi með og þar er við risavaxna erfiðleika að ræða, svo risavaxna, að það hefur öllum gengið misjafnlega, jafnt einkarekstri sem opinberum rekstri, sem við þetta hafa fengizt og þarf ekki að nefna annað en erfiðleikana við markaðsöflun, sem engir komast yfir, nema því aðeins að varið sé stórkostlegum fjárhæðum til þess að yfirstíga þá erfiðleika og þar ættu ríkinu að vera fleiri vegir færir en einstaklingum með takmarkað fjármagn.

Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið óheppilegt að hafa Niðurlagningarverksmiðjuna á Siglufirði undir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og að hún hafi löngum verið þar olnbogabarn. Ég þekki til sams konar fyrirkomulags með tvö ríkisfyrirtæki og ég er alveg viss um það, að þar hefur sama sagan gerzt, að annað þeirra hefur orðið útundan og verið af stjórn hins fyrirtækisins litið á stjórnarskyldurnar við minna fyrirtækið sem aukastarf. Hefur þó verið þar minna í húfi og minni vandi á ferðum heldur en með stjórn niðursuðuverksmiðju.

Ég held, að það eigi að halda áfram rekstri Niðurlagningarverksmiðju ríkisins á Siglufirði sem ríkisfyrirtækis og ríkisstj. eigi að hlutast til um það, að þetta ríkisfyrirtæki fái viðunandi og nauðsynlega fyrirgreiðslu í bankakerfinu eða því séu útveguð nægileg rekstrarlán til þess að geta staðið myndarlega að öllum sínum rekstri. Ég held, að það sé ekkert slíkt atvinnuástand á Siglufirði nú, að það sé rétti tíminn til þess, að ríkið kippi að sér hendinni með rekstur þessa fyrirtækis. Það kæmi mér mjög á óvart, ef það að skipta um rekstrarform þessa fyrirtækis gerði nokkurt kraftaverk, svo að fyrirtækið stæði betur undir sínu eigin hlutverki. Ég held, að það sé oftrú á einkarekstrinum, sem þar væri þá á bak við. Ég held jafnvel, að því verði ekki haldið fram, að það sé rekstrarformið, hvorki ríkisrekstur né einkarekstur, sem ráði örlögum, heldur það, hvernig að fyrirtækinu er búið, hvort því er sinnt, svo sem vera ber. Og það held ég að ríkisvaldið hafi nokkuð vanrækt.

Skoðun mín er sem sé sú, að þetta frv., eins og það er lagt fram nú undir þinglok, skipti engum örlögum, hvort það nær fram að ganga eða sofnar svefninum langa. Ég held, að ekkert fari úr skorðum við það og það væri gott, að það yrði athugað betur, áður en hlaupið yrði frá því að starfrækja þetta fyrirtæki sem ríkisfyrirtæki. Og ég tek alveg undir þær skoðanir, sem hér hafa komið fram, að það sé lágmark, að ríkið hafi veg og vanda af einu niðursuðu— eða niðurlagningarfyrirtæki í landinu. Einstaklingarnir hafa alveg næga möguleika til að spreyta sig á þessu verkefni, ef þeim finnst það vera sér viðráðanlegt eða girnilegt til gróða.

Mér finnst það gegna furðu, hversu lítt er vandað til búnings þessa frv., þar sem ekki er, einu sinni haft rétt heitið á fyrirtækinu, eins og það er samkv. lögum. Eftir því, sem ég man bezt, þá heitir það ekki Niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði heldur Niðurlagningarverksmiðja, en bæði í fyrirsögn og í 2. gr. frv. er heiti fyrirtækisins ekki einu sinni haft rétt, svo mikið hefur legið á að koma þessu máli inn í þingið, í málasyrpuna, sem hér flóir yfir alla bakka.

Í sambandi við það vildi ég nú gjarnan segja, að oft hefur verið málaflóð á A1þ. undir lokin, en aldrei þó, held ég, eins og nú og hefði ég þó talið, að ríkisstj. og hennar menn ættu ekki að auka á þetta flóð og skapa hér starfsöngþveiti. Það mundi nægja, að stjórnin væri eingöngu með þau mál á ferðinni, sem hún að vandlega athuguðu máli hefði komizt að niðurstöðu um, að væri knýjandi nauðsyn að koma fram núna í þinglokin. En þetta sýnir í raun og veru, að hæstv. ríkisstj. hefur enga stjórn á störfum þingsins og á þar einna gildastan hlut í sjálf, að hér fari allt úr böndum um afgreiðslu mála. Það er engin þingleg afgreiðsla á stórmálum, sem mögulegt er að koma hér við, eins og hér er nú um að ræða kapphlaup um að kasta fram stórmálum og lagabálkum til afgreiðslu. Það er hreint og beint eingöngu treyst á það, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi afl til þess að knýja málin fram, hvort sem nokkurt tóm gefst til þess af stjórnarliðinu eða öðrum að gaumgæfa málin eða kanna þau og slíkt er ekki nein þingleg starfsaðferð, heldur ekki til annars en vansæmdar fyrir Alþ. Þessu máli t.d. er kastað hér inn alveg að óþörfu í málaflóðið. Það er enginn, sem kemur hér og rökstyður, að það sé nauðsynlegt, að þetta verði að lögum. Þannig tekur þetta tíma frá nauðsynlegri athugun annarra mála, sem á að knýja fram og þarf að knýja fram.

Hv. frsm. gat þess áðan, að hann teldi ekki miklu máli skipta, þó að málið dagaði uppi á þessu þingi og er það vel, að hann 1eggi ekki áherzlu á það, að þingtímanum sé eytt frá öðrum nauðsynlegri málum til að fjalla um það. Þetta er nóg af minni hendi til að marka afstöðu mína og míns flokks til þessa máls. Ég tel, að í þessu tilfelli sé engin nauðsyn að hverfa frá ríkisrekstri til einkarekstrar og mun þess vegna, ef þetta mál sýnir sig aftur í þingsölunum, greiða atkv. gegn því.