31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Eyjólfur H. Jónsson:

Herra forseti. Ég tel þau ummæli hv. 9. þm. Reykv., að verið væri undir forustu iðnrh. að kippa að sér hendinni varðandi þetta fyrirtæki, mjög ómakleg og vil vekja á því sérstaka athygli, að síðan hæstv. forsrh. tók við yfirstjórn þessa fyrirtækis, hefur hann sinnt því mjög vel og leitazt við að greiða hag þess á einn veg og annan. Það var fyrir hans tilstuðlan, sem tókst að tryggja hráefni til vinnslu út þetta ár eða svo til. Að vísu mætti gjarnan hafa fleira starfsfólk við verksmiðjuna og hafa þar enn þá meiri vinnslu, en ég held, að hv. þm. viti eins og allir aðrir, að það var ekki sízt fyrir tilstuðlan hæstv. forsrh., sem þetta tókst og að bjartara er fram undan um rekstur þessa fyrirtækis nú en áður, eins og raunar hv. þm. Eysteinn Jónsson tók hér fram, er hann sagði, að aldrei hefði litið eins vel út með hráefni og rekstur fyrirtækisins eins og nú. En samt sem áður er mjög mikil þörf á því að efla þetta fyrirtæki enn og það verulega. Ég mundi telja, að það ætti að efla það svo, að allt að 200 manns gætu starfað þar, a.m.k. á þeim tímum þegar litil atvinna er á Siglufirði. Til þess þarf að fá þessu fyrirtæki öruggan rekstrargrundvöll og verulegt fjármagn, fyrst og fremst eigið fjármagn, en ekki lánsfé, eins og menn eru hér alltaf að tala um, að það eigi að hlaða miklum 1ánum á þetta fyrirtæki.

Auðvitað verður aðstaðan til reksturs þessa fyrirtækis miklu betri, ef það fær fjárframlag, án þess að þar sé um lánsfé að ræða. Og það má e.t.v. segja, að það væri ósanngjarn samkeppnisgrundvöllur, sem þetta fyrirtæki starfaði á t.d. við fyrirtæki hv. þm. Lúðviks Jósefssonar, hlutfélag hans, vegna þess að það fyrirtæki verður að standa undir vöxtum og afborgunum af öllum sínum lánum, en þarna á að leggja fyrirtækinu til allt stofnfé, ekki eingöngu húsnæði og vélar, heldur verulegar fjárhæðir í peningum, því að ég geri ekki ráð fyrir, að nokkrum detti í hug, að þessar eignir verði metnar á 30 millj. kr.

En ég vil sérstaklega leggja áherzlu á, að það er mjög ómaklegt að saka hæstv. forsrh. um það, að hann hafi ekki sinnt vel þessu fyrirtæki og gert það, sem í hans valdi hefur staðið til þess að greiða hag þess. Það hefur hann einmitt gert, og eftir að hann tók við yfirstjórn þessara mála, varð loksins bjartara fram undan.