31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil bera það algerlega til baka, að ég hafi í ræðu minni verið með nokkrar ásakanir á hæstv. forsrh. Það er meiri viðkvæmnin hjá stuðningsmönnum ríkisstj. að vera að búa sér það til, að það sé verið að vanþakka og ráðast á ráðherrana og ríkisstj., þó ekki sé hið minnsta tilefni til. (Gripið fram í.) Ég taldi, að það væri verið að kippa að sér þeirri hendi, sem ríkisvaldið hefði lagt fram til stuðnings þessu fyrirtæki, með því að hætta að styðja það og láta einstaklingana svo um framhaldið og ég færi hæstv. ráðh. ekkert þakkarávarp fyrir þetta. En ég er ekki að ásaka hann um neitt. Þetta er bara hans „prinsip“-mál, að losna við eitt ríkisfyrirtæki og koma fótum undir eitt einkafyrirtæki, sem hann hefur sjálfsagt trú á, að þjóni betur atvinnulífinu á Siglufirði, en ég hef aftur heldur minna álit á því.

En úr því að ég þurfti að koma og andmæla þessu, vil ég einmitt segja það í tilefni af fyrstu ræðu forsrh., þegar hann harmaði það, sagði að sér þætti það sárt, að forstjóri ríkisfyrirtækis hefði leyft sér að tala eins og hv. þm. Jón Kjartansson leyfði sér að tala — ég verð að segja það, að ég samþykki það ekki sem alþm., að hæstv. ríkisstj, geti fyrirskipað einum eða öðrum skoðanir á Alþ. eða lagt fram kvaðir á forstjóra ríkisfyrirtækja eða opinbera starfsmenn, að þeir megi ekki tala eins og þeim býr í hug. Og það er alger misskilningur, ef hæstv. forsrh. þarf að harma, að ríkisforstjórar leyfi sér að hafa hér málfrelsi sem aðrir þm. Og þetta vil ég segja, að ég harma, að hæstv. forsrh. skuli láta á því bera hér á Alþ., að menn hafi hér ekki allir jafnt skoðanafrelsi, hvort sem þeir eru í þjónustu ríkisins eða annarra.