22.02.1971
Efri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

211. mál, höfundalög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni höfundalaga er að veita réttarvernd á tilteknum andlegum verðmætum, þ.e.a.s. bókmenntum og listum. Tilgangur höfundalaga er að viðurkenna rétt höfunda til umráða yfir verki sínu, en slík umráð geta verið ýmist fjárhagslegs eða persónulegs eðlis. Þau verðmæti, sem menn geta haft tekjur af og njóta almennrar réttarverndar, geta verið með ýmsum hætti. Lögfræðingar greina þar m.a. á milli svonefndra líkamlegra hluta, þ.e.a.s. fasteigna og lausafjár og ólíkamlegra verðmæta, svo sem orku, auðkenna, t.d. vörumerkja, og hugverka, þ.e.a.s. verka á sviði bókmennta, lista, vísinda og tækni. Það er hlutverk höfundalaga að vernda meginhluta hugverka, þ.e.a.s. verka á sviði bókmennta og lista, vísinda og tækni.

Réttarreglur um eignarrétt á svonefndum líkamlegum hlutum eru ævafornar. Réttarvernd hugverka á sér hins vegar skamma sögu. Er það skiljanlegt með hliðsjón af því, að líkamleg og andleg verðmæti eru svo ólíks eðlis, að réttarreglur um meðferð þeirra og vernd hljóta að vera mjög ólíkar. Líkamlegir hlutir, sem eigandi á eignarrétt til, eru venjulega í vörzlu tiltekins aðila á vísum stað, þar sem þeir eru hagnýttir. Andleg verðmæti eru hins vegar hvorki bundin við stað né stund. Af þeim má hafa fjárhagsleg not og tekjur á mörgum stöðum samtímis. Um þau á ekki heldur við það, sem gildir um svonefnda líkamlega hluti, að þeir eyðist eða rýrni við notkun. Af öllu þessu leiðir, að lagareglur um eignarrétt á svokölluðum líkamlegum verðmætum og hugverkum hljóta að verða með ólíkum hætti og þá einnig reglur um vernd þeirra.

Enginn ágreiningur mun nú lengur vera um það meðal menningarþjóða að vernda beri með einhverjum hætti eignarrétt höfunda að hugverkum sínum. Enn eru hins vegar skiptar skoðanir um það, til hvers konar hugverka slík vernd skal ná, hversu langt hún skuli ganga og hversu lengi hún skuli vara. Smám saman hafa þó reglur ýmissa landa um þessi efni verið samræmdar og gerðir hafa verið alþjóðasáttmálar um höfundarétt. England var fyrst til að hefjast handa um setningu höfundalaga og var það árið 1709. Var þá bannað að gefa út rit án samþykkis höfunda, en opinber skráning ritsins gerð að skilyrði fyrir verndun. Á 18. öld settu ýmsar fleiri þjóðir sér lög um bókaútgáfu, en þau máttu fremur teljast í hag útgefendum, en höfundum. Á dögum frönsku stjórnarbyltingarinnar var komið á í Frakklandi höfundalöggjöf, sem var miklu fullkomnari en nokkur önnur löggjöf um slík efni, sem þá var í gildi. Á 19. öld bættust æ fleiri lönd í hóp þeirra, sem settu sér höfundalöggjöf og þegar kemur fram yfir miðja öldina, má segja, að höfundalöggjöfin sé orðin almenn.

Fyrst í stað tók höfundalöggjöf aðeins til bókmennta og tónsmíða yfirleitt, en síðar er hún einnig látin taka til fleiri listgreina, svo sem málaralistar og myndlistar. En þótt flestar menningarþjóðir hafi á síðari hluta 19. aldar þegar sett sér höfundalög, þá var vandinn á þessu sviði engan veginn leystur. Sérhver löggjöf hafði aðeins gildi í hlutaðeigandi landi. Hins vegar eru bókmenntir og listir hvers konar alþjóðlegar í eðli sínu og berast fljótt á milli landa. Reynslan sýndi, að torvelt var að koma á samningum milli einstakra ríkja um gagnkvæma vernd. Leiddi þetta til þess, að ýmis ríki komu sér saman um að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu í Bern árið 1886 í því skyni að koma á fót alþjóðasamþykkt um höfundarétt, sem öllum ríkjum skyldi heimilt að gerast aðili að, ef þau veittu höfundum í heimalandi sínu þá lágmarksvernd, sem gert væri ráð fyrir í alþjóðasamþykktinni. Náðist samkomulag um höfundaréttarsamþykkt, sem síðan hefur verið nefnd Bernarsáttmálinn, en samtök aðildar þjóðanna nefnd Bernarsambandið. Mjög mörg ríki hafa gengið í Bernarsambandið, en ýmsar þjóðir standa þó enn utan samtakanna, þar á meðal Bandaríkin og Ráðstjórnarríkin. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar beittu Sameinuðu þjóðirnar sér fyrir því, að gerður var nýr alþjóðasáttmáli um höfundarétt, fyrst og fremst með hliðsjón af því, að mörg ríki höfðu ekki gerzt aðilar að Bernarsambandinu.

Árið 1952 var haldin alþjóðaráðstefna í Genf og þar gerð ný höfundaréttarsamþykkt, sem nefnd er Genfarsáttmálinn. Gekk hann í gildi 1955. Fullgiltu hann mörg ríki, þar á meðal Bandaríkin. Ríki geta verið aðilar að báðum sáttmálunum samtímis, en séu tvö ríki aðilar að þeim báðum, skulu reglur Bernarsáttmálans gilda í skiptum þeirra. Þetta hefur þá þýðingu t.d., að í skiptum Íslands og hinna Norðurlandanna gilda reglur Bernarsáttmálans, en í skiptum Íslands og Bandaríkjanna gilda reglur Genfarsáttmálans.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Bernarsáttmálanum, síðan hann var upphaflega samþykktur árið 1886, þ.e.a.s. í París 1896, í Berlín 1908, í Róm 1928 og í Brüssel 1948. Árið 1961 var síðan gerður í Róm nýr sáttmáli um vernd listflytjenda o.fl. Voru þar í fyrsta skipti sett ákvæði í alþjóðasáttmála um vernd þeirra, sem flytja listaverk. Til þessa höfðu ákvæði höfundaréttarlaganna aðeins verið látin ná til höfundanna.

Fyrstu íslenzku lögin um höfundarétt voru sett 1905. Eru þau enn í gildi og eru í þeim höfuðákvæði íslenzks höfundaréttar. Þótt ýmsar mikilvægar breytingar hafi verið gerðar á þessum höfundalögum, eru þau samt orðin allsendis ófullnægjandi og ber því orðið brýna nauðsyn til þess, að sett séu ný höfundalög. Í lögum frá 1912 var ákveðið, að höfundaverndin í l. frá 1905 nái til hvers konar mynda og uppdrátta. 1941 voru sett lagaákvæði um sérstaka vernd :á ritum eftir lok höfundaréttar. Tveim árum síðar eða 1943 var vernd höfundaréttarins látin taka til hvers konar listgreina, sem eldri löggjöf náði ekki til. 1956 var síðan verndartímabil gagnvart þýðingum lengt úr 10 árum í 25 ár.

Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu 1947. Það gerðist einnig aðili að Genfarsáttmálanum 1953. Af Íslands hálfu hefur og verið samþykktur sáttmáli sá um vernd listflytjenda o.fl., sem gerður var í Róm 1961. Fullgilding hans hefur hins vegar ekki farið fram og getur ekki farið fram nema frv. það, sem hér er til umr. verði samþ.

Það hefur lengi verið ljóst, að gildandi ákvæði um höfundarétt væru ófullkomin og ekki nógu víðtæk. Þess vegna fól menntmrn. árið 1959 Þórði Eyjólfssyni þáv. hæstaréttardómara að semja frv. til höfundalaga, en hann er manna fróðastur á Íslandi um höfundarétt. Samdi hann ýtarlegt frv., sem var hliðstætt nýjum, norrænum höfundalögum frá árinu 1960—1961 og var þess gætt sérstaklega að hafa ákvæði frv. þannig, að þau fullnægðu kröfum Bernarsáttmálans, Genfarsáttmálans og hins nýja Rómarsáttmála um vernd listflytjenda og fleira. Var þetta frv. lagt fyrir Alþingi 1962—1963, en varð ekki útrætt. Enginn mun hafa dregið í efa, að frv. væri vel samið frá fræðilegu sjónarmiði, né heldur að þar væri mörkuð hliðstæð stefna og í norrænu höfundalögunum, sem hlotið höfðu ágætan undirbúning. Hins vegar fólst í frv. svo mikil aukning á vernd íslenzkra og erlendra höfunda og listflytjenda, að það hefði haft í för með sér verulega aukin útgjöld af íslenzkri hálfu og þú fyrst og fremst af hálfu ríkisútvarpsins.

Á s.1. ári fól menntmrn. þeim dr. Þórði Eyjólfssyni, fyrrv. hæstaréttardómara, Knúti Hallssyni, deildarstjóra í menntmrn., og Sigurði Reyni Péturssyni hrl. að taka frv. til endurskoðunar og hafa þá hliðsjón af þeim breytingum, sem orðið höfðu á höfundaréttarmálum í nálægum löndum, síðan frv. var samið. Norrænu höfundalögin, sem ég nefndi áðan, eru enn í gildi. Í sambandslýðveldinu Þýzkalandi voru sett ný höfundalög 1965 eftir langan undirbúningstíma, en frv. að þeim 1. hafði einnig verið haft til hliðsjónar við samningu frv. Mikilvægast er þó, að Bernarsáttmálinn var endurskoðaður á ráðstefnu Bernar sambandsríkjanna í Stokkhólmi 1967 og var þá gerð samþykkt um nýja gerð sáttmálans.

Það frv., sem hér er flutt, er að stofni til eins og frv. frá 1962, nema hvað gerðar hafa verið á því breytingar í samræmi við þá þróun, sem orðið hefur, síðan frv. var samið og þá sérstaklega með hliðsjón af ákvæðum Stokkhólmsgerðar Bernarsáttmálans. Frv. frá 1962 fylgdi mjög ýtarleg grg., samin af dr. Þórði Eyjólfssyni, um hlutverk og efni höfundalaga og nákvæmar skýringar á einstökum ákvæðum frv. Þessu frv. fylgja í grg. skýringar á þeim breytingum, sem felast í þessu frv. við ákvæði frv. frá 1962. Sé ég þess vegna ekki ástæðu til þess að rekja ákvæði frv. í einstökum atriðum. Ég læt mér nægja að taka fram, að ákvæði þessa frv. eru í samræmi við nýjustu gerð Bernarsáttmálans frá 1967, en að honum gerðist Ísland aðili 1947 og virðist því eðlilegt, að Íslendingar lagi nú löggjöf sína að nýjustu gerð sáttmálans. Þá er óhætt að staðhæfa, að ákvæði þessa frv. séu í öllum meginatriðum í samræmi við höfundalög þeirra nágrannaþjóða, sem við erum skyldastir að menningu og hliðstæðar réttarreglur gilda hjá að öðru leyti. Samtök íslenzkra listamanna og þá ekki sízt samtök íslenzkra rithöfunda, hafa á undanförnum árum lagt mikla áherzlu á, að ákvæði íslenzkra höfundalaga væru orðin ófullnægjandi og er það rétt. Af þeim sökum hefur verið efnt til þeirrar endurskoðunar á frv. frá 1962, sem nú hefur farið fram og er málið nú lagt fyrir hið háa Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.