24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Aðalkosturinn við þær breytingar, sem með þessu frv. er lagt til, að gerðar verði á lögunum um Stýrimannaskólann í Reykjavík, er að mínum dómi sá, að gert er ráð fyrir að samræmt verði námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar, þannig að sömu skipstjórnarréttindi fást eftir nám í þessum deildum og þeir, sem lokið hafa námi í fiskimannadeild, geta nú, ef þeir kjósa, haldið rakleitt áfram námi í farmannadeild og fengið þau réttindi, sem 3. stig farmanns veitir og 4. stig skipstjóraefna á varðskipum ríkisins. Áður nýttist þeim, sem tekið höfðu fiskimannagróf, ekki nám sitt á sama hátt, ef þeir kusu að snúa sér að námi farmanna.

Ég tel það líka mikinn kost, að sett séu ákvæði um að gagnfræðapróf skuli verða inntökuskilyrði í 1. bekk Stýrimannaskólans, en um þá ákvörðun geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir. Spurningin er sú, hvort miðskólapróf ætti ekki að nægja, en þá skuli þó jafnframt vera gert ráð fyrir heimild fyrir Stýrimannaskólann að halda námskeið í Reykjavík og á tilteknum stöðum úti á landi fyrir þá, sem ekki uppfylla þetta skilyrði, þannig að þeir, sem stæðust próf á því námskeiði, öðluðust rétt til náms við skólann. Hliðstæð ákvæði eru t.d. ekki um iðnskóla, að því er ég hygg.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs við 1. umr. um þetta frv., er þó ekki einkum þessi atriði, sem ég hef drepið hér á, heldur sú brtt., sem ég hef flutt við 15. gr. frv. og er prentuð á þskj. 640. Í upphafi 15. gr. er ákvæði um að undirbúningsnámskeið, svo og námskeið, sem veitir þá fræðslu, sem þarf til þess að standast fiskimannapróf 1. stigs og þar með réttindi til þess að setjast í 2. bekk stýrimannaskóla, skuli skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík láta halda árlega á Akureyri, Ísafirði og á Neskaupstað, þegar næg þátttaka er að dómi rn. Gert er þannig ráð fyrir, að fáist næg þátttaka, skuli á þessum stöðum halda árleg undirbúningsnámskeið undir1. bekk og starfrækja 1. bekkjar deildir. Hér er breytingin frá núgildandi lögum sú, að gert er ráð fyrir, að þessi námskeið séu haldin á hverju ári í stað þess að halda þau annað hvert ár, en þó er að sjálfsögðu sem fyrr, áskilið að þátttaka sé næg.

Brtt. mín á þskj. 640 er sú, að auk þess að sjá fyrir þessu námi á þeim stöðum, sem tilgreindir eru í 15. gr., skuli það einnig gert í Keflavík eða Njarðvík, þegar næg þátttaka fæst. Á Suðurnesjum er eins og allir vita, fjölmenn sjómannastétt, og jafnan hafa margir ungir piltar stundað nám í Stýrimannaskólanum. Brýn þörf er á að örva unga menn á þessum slóðum að hefja slíkt nám og gera sjómennsku að ævistarfi. Án efa mundu fleiri en ella leggja út á þá braut, ef þeir ættu þess kost að hefja námið á heimaslóðum og stytta þannig um helming og stundum riflega það, þann tíma, sem þeir þyrftu að sækja námið til Reykjavíkur. Ég tel ekki ástæðu til að slá því föstu í lögunum, hvort slíkt námskeið fyrir skipstjóraefni á Suðurnesjum yrði fremur haldið í Keflavík eða Njarðvík, hvor tveggja staðurinn kemur til greina. Þar yrðu að ráða hagkvæmnisástæður í sambandi við húsnæði og aðra aðstöðu, sem eðlilegt er að betur yrðu kannaðar. Aðalatriðið er að gefa ungum mönnum á Suðurnesjum kost á þessari námsaðstöðu á heimaslóðum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till., en ég vona, að sem flestir hv. alþm. geti fallizt á, að hún eigi rétt á sér og vænti þess, að hv. menntmn., sem fær þetta frv. til athugunar, taki till. vel.