24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2605)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við afgreiðslu þessa frv. í Ed., þegar það var afgreitt þaðan, en ég vil taka undir þau orð, sem hv. 7. þm. Reykv. lét falla hér um nauðsynlega breytingu, sem að mínu viti þarf að gera á 4. gr. frv. Það er að fella niður orðin „þá skal leitazt við“, að það verði alveg skýlaust, að það skal veita nemendum fiskimannadeildar fræðslu um fiskverkun og annað, er lýtur að geymslumeðferð fisks um borð í skipum. Þetta atriði er nánast staðfesting á því, sem í raunveruleikanum hefur verið undanfarin ár. Það hefur verið leitazt við að veita þarna takmarkaða fræðslu þó, en okkur ríður ekki á öðru meira í dag í sambandi við fisköflun úr sjó, en góðri meðferð á aflanum allt frá því, að hann kemur upp úr sjó og á fiskidekk og þar til hann kemst í hendur neytenda. Einn liðurinn í þessu er sá, að skipstjórar og stýrimenn hafa þarna frumkvæði og því verður síðan að fylgja eftir allt til fullvinnslu fisksins. Þess vegna tek ég mjög undir þá till. hv. 7. þm. Reykv., að orðin „leitazt við“ í 4. gr. verði felld niður og þetta verði tvímælalaust, að þarna skuli ákveðin og tiltekin fræðsla veitt. Hún hefur í takmörkuðum mæli, því miður, verið veitt á undanförnum árum — ég vil segja kannske of takmörkuðum mæli, en það hefur verið reynt að veita þá undirstöðufræðslu þarna, sem nauðsynlegust hefur verið talin. En ég tel, að það verði aldrei svo hart gengið eða hart fylgt eftir í þessum efnum, að við megum lina þar nokkuð á frá því, sem verið hefur, heldur bæta þar verulega við.

Ég tek enn fremur undir þá breytingu, sem hv. 7. þm. Reykv. talaði um í sambandi við aðild að yfirstjórn skólans, og tel eðlilegt, að Sjómannasambandið fái þar annan fulltrúa Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Svo mjög sem nauðsynlegt er, að samstarf sé milli yfir– og undirmanna um borð í hverju veiðiskipi, þá er eðlilegt, að þeir eigi fulltrúa í yfirstjórninni líka til að koma málum sínum fram.

Þessi orð vildi ég láta falla hér, vegna þess að ég gat ekki verið viðstaddur afgreiðslu málsins í hv. Ed.