11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

248. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er allmikið að vöxtum. Því var nú útbýtt fyrst í gær, og þess vegna hefur ekki unnizt mikill tími til þess að athuga það nákvæmlega. Það væri náttúrlega æskilegt, að þm. veittist kostur á því að kanna nokkru betur mál sem þetta, áður en það er tekið til 1. umr., af því að það er nokkurs um vert, að það geti komið fram aths. við 1. umr. málsins, sem n. getur þá tekið til athugunar. En ég mun hér gera aðeins örfáar aths., sem hafa komið í hugann við fljótlegan yfirlestur frv., en það verður ekki um að ræða af minni hálfu neinar tæmandi aths. við þetta mál. Vel má vera, að það, sem ég segi, beri þess merki, að mér hefur ekki unnizt tími til þess að lesa þetta nógu rækilega og þá bið ég fyrirfram velvirðingar á því.

Ég fagna því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki ætlunin, að þetta frv. yrði afgreitt á þessu þingi, heldur væri það lagt meira fram hér til sýnis og athugunar, en síðan biði endanleg afgreiðsla þess næsta Alþ. Ég held, að þetta séu laukrétt vinnubrögð og ég held vissulega, að það sé margt í þessu frv., sem þarf athugunar við.

Það er nú svo, að 1., sem nú gilda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38 1954, voru nýsmíði á sínum tíma. Löggjöf um opinbera starfsmenn hafði verið mjög í molum áður. Það hafði verið löggjöf um ýmsa gamla embættismannaflokka, en það má segja, að löggjöfin hafi ekki fylgzt með í þeim efnum, vegna þess að það höfðu komið til margir nýir starfshópar, sem eðlilegt var, að nú hlytu að gilda að ýmsu leyti aðrar reglur um en hina gömlu hefðbundnu embættismenn. Þess vegna var lagasetningin frá 1954 um starfsmenn ríkisins, réttindi þeirra og skyldur, vissulega tímabær. Það var hins vegar eðlilegt, að það kæmu í ljós ýmsir agnúar á þeirri löggjöf, þar sem hún var, eins og ég sagði áðan, nýsmíði. Sjálfsagt hefur að ýmsu leyti komið í ljós við framkvæmd þeirra 1., að þörf væri á rækilegri reglum um ýmis atriði og eins hitt, að það væri ástæða til þess að haga vissum atriðum á annan veg heldur en í þeim 1. segir. Þess vegna er það mjög eðlilegt, að þessi lög hafa verið tekin til endurskoðunar.

Eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, eru allmörg nýmæli í þessu frv., þó að það sé svo líka auðvitað að verulegu leyti endurtekning á ákvæðum gildandi löggjafar, þó að því viðbættu í sumum greinum, að það hafa verið tekin upp í frv. ákvæði, sem áður voru í reglugerðum og gerð þá kannske fyllri í frv. en í reglugerðum eins og t.d. ákvæðin um orlof og veikindaleyfi. Ég efast ekki um, að ýmislegt af þessum nýmælum er til bóta, en hins vegar held ég, að þar sé líka að finna nýmæli, sem eru mjög vafasöm, svo að ekki sé meira sagt. En ég held, að það séu mjög náin tengsl á milli 1. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og löggjafarinnar um kjarasamninga og það svo náin tengsl, að ég held satt að segja, að það væri mjög eðlilegt, að ég ekki segi nauðsynlegt, að endurskoðun þessara laga héldist nokkuð í hendur.

Það er vitað mál og margyfirlýst, að löggjöfin um kjarasamninga þarfnast endurskoðunar og hún hefur, ef ég man rétt, verið í nefndum, sem um hana hafa átt að fjalla og hana hafa átt að endurskoða, og alkunnugt er, að uppi eru af ýmissa hálfu óskir í sambandi við þá endurskoðun og löggjöf. Þær óskir sumar hverjar komu reyndar strax fram við setningu löggjafarinnar um kjarasamninga, eins og t.d. óskin frá Bandalagi háskólamanna um það að fá aðild að kjarasamningum. Þá þótti nú ekki fært að verða við þeirri ósk, og auðvitað er það skiljanlegt frá sjónarmiði ríkisins, að það er þægilegra að hafa einn aðila til þess að semja við. Það er alltaf þægilegra í samningum. Það þætti kannske þægilegra í öllum vinnusamningum að hafa bara einn aðila, sem gæti samið fyrir hönd allra stéttarfélaga í landinu, en ég er ósköp hræddur um, að það yrði skrýtið upplit á sumum meðlimum stéttarfélaga, t.d. ef það ætti að lögbjóða það, að Alþýðusamband Íslands skyldi hafa rétt til þess að semja fyrir þá alla og fara með umboð fyrir þá alla.

En þessi háttur var nú hafður á, þegar löggjöf um kjarasamninga var sett, að það var einum aðila, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, veitt samningsaðild fyrir alla starfsmenn ríkisins, enda þótt það liggi í augum uppi, að þar er um ákaflega mislita hjörð að ræða.

Það þarf ekki að rekja það hér og ég ætla ekki að fara að eyða orðum að því, að þær kröfur hafa verið uppi og þær raddir hafa gerzt æ háværari, að það þyrfti að gera breytingu á þessu skipulagi. Sérstaklega hefur það verið Bandalag háskólamanna, að ég held, sem hefur sótt á um það að verða viðurkenndur samningsaðili í kjarasamningum. Ég held, að sú krafa þess sé skiljanleg og eðlileg og ég fyrir mitt leyti dreg það mjög í efa, að það verði stætt á því í framtíðinni að ætla að halda við það skipulag, að aðeins einn aðili verði löggiltur sem samningsaðili fyrir alla opinbera starfsmenn. En auðvitað er það meginbreyting varðandi stöðu ríkisstarfsmanna, ef gerð verður breyting á því skipulagi og horfið frá þeirri skipun sem gilt hefur. Launakjörin og kjarasamningarnir eru náttúrlega eitt meginatriði í réttarstöðu opinberra starfsmanna, og þess vegna held ég, að það væri eðlilegt að skoða þessi tvö mál eða tvenn lög samtímis. Og ég held, að það verði enn nauðsynlegra, þegar það er haft í huga, hverjar breytingar eru fyrirhugaðar í þessu frv., sem hér liggur fyrir, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en mér virðist, að tilhneigingin í því sé að sumu leyti sú að hverfa frá þeirri sérstöku stöðu, sem lengst af hefur verið talið, að starfsmenn ríkisins nytu og setja þá fremur á bekk með almennum vinnuþegum. Ég fæ ekki betur séð en ýmis ákvæði í frv. beri því vitni, að þessi sé tilhneigingin, t.d. ákvæðin varðandi ráðningu o.fl., sem kemur fram í þessu frv.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því markmiði, sem stefna hefur átt sérstaklega að með þessu frv. og það er raunar skýrt tekið fram hér í aths. við þetta frv. Það má segja, að þar sé lögð áherzla á tvö meginatriði. Það er í fyrsta lagi það, að ríkið tryggi sér þá hæfustu starfskrafta til þess að leysa af hendi þau mikilvægu störf, sem stjórnsýslunni er ætlað að inna af hendi og til að framkvæma, eins og þar segir, þá stefnu, sem Alþ. og ríkisstj. marki á hverjum tíma, jafnframt því, sem ríkinu sé gert mögulegt að losna við úr þjónustu sinni starfsmenn, sem ekki reynast dugandi í starfi. Í öðru lagi það að kveða sem gleggst á um samskipti á milli ríkisins og starfsmanna þess, þannig að sem minnst óvissa þurfi þar um að ríkja. Þessi markmið eru góð. En ég held, að það hefði verið full ástæða til að minna á þriðja atriðið þarna, sem ég tel, að eigi að vera markmið góðrar stjórnsýslu og góð stjórnsýsla eigi að vera byggð upp einnig með það fyrir augum. Ekki vil ég draga úr því, að stjórnsýslan þurfi að vera „effektiv“ eða skilvirk. Það er auðvitað höfuðatriði og það markmið er réttilega sett hér fram sem nr. eitt. En annað atriði þarf jafnframt að hafa í hug, og það er réttaröryggi, réttaröryggi einstaklingsins, sem þarf að eiga skipti við stjórnsýslumennina og þarf að eiga málefni sín undir stjórnsýslumönnum. Það snertir í raun og veru stöðu starfsmannanna, af því að það, hvernig staða þeirra er, hversu örugg, hversu sjálfstæð o.s.frv., getur haft sitt að segja í sambandi við það, hvers réttaröryggis einstaklingarnir mega vænta í samskiptum við stjórnsýslumennina, t.d. að því er varðar mýmarga úrskurði, sem stjórnsýslumenn þurfa að kveða upp og margvíslegar ákvarðanir, sem þeir þurfa að taka, sem eru mjög þýðingarmiklar í nútímaþjóðfélagi og varða hagsmuni einstaklinganna oft ákaflega mikið. Þess vegna skiptir það auðvitað meginmáli, að það sé reynt að tryggja sem bezt, að það gæti hlutlægra sjónarmiða hjá stjórnsýslumönnunum. Ég er ekki að segja, að það sé í þessu frv. neitt, sem bendir í aðra átt. En ég bara skýt þessu fram sem höfuðmarkmiði við þessa lagasetningu og að það hefði nú kannske ekki sakað í sumum tilfellum, að höfundar frv. hefðu haft það ríkt í huga.

Þetta vildi ég nú segja almennt, en svo ætla ég að gera nokkrar aths. við einstök ákvæði í þessu frv. En þær eru, eins og ég áðan sagði, auðvitað byggðar á mjög fljótlegri athugun.

Um 1. gr. er það að segja, að þar er skilgreint til hverra þessi lög taki og sú skilgreining er að sumu leyti skýrari, en sú skilgreining sem nú er í lögum og hún er víðtækari. Það er auðvitað til bóta að því leyti til, sem þessi skilgreining er skýrari, en í núgildandi lögum. Það er auðvitað mjög til bóta, að það sé tekið skýrt fram, til hverra 1. er ætlað að ná. Það eru felld niður skilyrði, sem eru í núgildandi lögum eins og það, að maður gegni starfinu gegn föstum launum og starfið sé hans aðalstarf o.s.frv. og nú aðeins sett sem mark á þessu starfi, að það sé unnið í þágu ríkisins. Þar með er skorið úr heldur vafasamri réttarframkvæmd, sem ríkt hefur, að t.d. stórar ríkisstofnanir eins og bankarnir hafa talið sig vera undanþegna þessari löggjöf. Það liggur nú ljóst fyrir og skjalfest, að það var ekki ætlun þess höfundar, sem samdi 1. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í upphafi, heldur var einmitt ætlazt til þess, að bankastarfsmenn féllu þar undir, og þeir falla undir skilgreiningu þá, sem er í 1., en framkvæmdin hefur nú orðið á hinn veginn að mér skilst, að þeir hafa ekki talið sig vera setta undir þessi lög. Nú eru tekin af þarna öll tvímæli um það, að þeir eiga að komast undir þessi lög og allir starfsmenn allra ríkisstofnana. Þetta tel ég til bóta og er þessu sammála. Þar segir líka, að þarna komi undir starfsmenn sameignarfyrirtækja með ótakmarkaðri ábyrgð, þar sem ríkið á meira en helming. Þetta er sjálfsagt líka eðlileg regla, en þrátt fyrir þetta býst ég nú við því, að það geti risið ágreiningur í ýmsum tilfellum um það, hvort starfsmaður falli þarna undir eða ekki.

Það er ekki alveg ljóst fyrir mér, þó að það sé nú fellt niður þetta skilyrði, að þetta sé aðalstarf, hvort það sé meiningin, að hvers konar nefndarstörf, hvers konar ráðunautastörf, hvers konar aukastörf, sem um getur verið að ræða og unnin eru í þágu ríkisins, komi undir þessi væntanlegu lög. Enn fremur má segja, að það geti verið spurning um það, hvort ástæða sé til þess að gera þarna greinarmun á sameignarfyrirtækjum með ótakmarkaðri ábyrgð og hlutafélögum, sem ríkið kynni að eiga meiri hl. í, ef það félagsform væri valið frekar, en það félagsform virðist nú vera mjög í tízku. Þá segir í þessari gr. og það er í rauninni ekki nýtt, að ákvæði 1. taki ekki til starfsfólks að því leyti, sem kaup þess og kjör fari eftir kjarasamningum stéttarfélaga og atvinnurekenda. En það kemur í því sambandi í hug manns dómur, sem er alveg nýbúið að segja frá, um stöðu vélgæzlumanna hjá Landsvirkjun. Það getur verið spurning um það, finnst mér, hvort þeir starfsmenn komast undir þetta ákvæði eða ekki og ég hygg, að það geti verið ýmis fleiri tilvik þannig, að þar leiki vafi um. Þrátt fyrir þetta, sem þarna hefur verið reynt að kveða á skýrar en áður, þá held ég, að þetta sé ekki alveg endanlega skilgreint þannig, að ekki leiki neinn vafi á.

Þá er það 2. gr. frv. Þar er um verulega formlega breytingu að ræða frá því, sem talið hefur verið gilda. Til þessa hefur það verið talið, að réttarsamband starfsmanna ríkisins byggðist á stjórnarathöfnum en ekki samningi — að skipun og setning í ríkisstarf væri stjórnarathöfn, þó að umsókn starfsmanns þyrfti til að koma. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir því, að þar lægi neinn samningur til grundvallar, enda er ekki svo í raun og veru, því að þau kjör, sem starfsmaður gengur að, eru að nær öllu leyti fyrirfram ákveðin í l. En þarna er tekið upp þetta orðalag, sem ég fyrir mitt leyti dreg í efa, að sé til bóta og gefi réttari mynd af því, sem hér raunverulega er um að ræða, að það er talað um, að skipun starfsmanns til að gegna starfi í þágu ríkisins sé samningur. Það hefur ekki verið talað um slíkt hingað til.

Í gr. 2.2 er líka sagt: „Setning í starf í þágu ríkisins er samningur“. Þetta vildi ég aðeins nefna. Það má segja, að þetta sé ekki neitt meginatriði, hvaða heiti er haft á þessu. Aðalatriðið er auðvitað, að ef 1. ákveða réttarsambandið, þá fer það auðvitað eftir því og má segja, að það skipti svo sem ekki höfuðmáli, hvernig það er skilgreint að öðru leyti. En það, sem ég vil aðallega gera aths. við varðandi þessa 2. gr. er um setningu. Það hefur því miður tíðkazt hér nokkuð mikið og nokkuð lengi, að menn hafa verið settir í stöðu eða starf og það eiginlega í hvers konar stöðu, sem um hefur verið að tefla, og þessi setning hefur stundum staðið árum, vonandi ekki áratugum saman, en árum saman hefur hún staðið. Það liggur í augum uppi, að á meðan svo hefur verið, hefur staða þessa starfsmanns eða embættismanns, sem settur hefur verið, verið óviss. Það hefur almennt verið litið svo á, að ég held, að þetta væri mjög óheppilegt. Og þetta skipulag hefur verið gagnrýnt, að það væri hægt að hafa menn setta í embætti og störf, svo að árum skipti. En það er enn gert ráð fyrir þessu í 2. gr. Að vísu er það svo og það er nú reyndar til bóta, að það er gert ráð fyrir því, að eftir að maður hefur verið settur í starf í eitt ár, eigi hann rétt á því að fá úr því skorið, hvort hann eigi að fá skipun. Það má segja, að þetta sé góðra gjalda vert. En mér sýnist að öðru leyti allur andinn í gr. vera sá, að hún gerir ráð fyrir því, að það geti tíðkazt hér eftir sem hingað til og ekki síður, að menn séu settir í embætti og störf árum saman. Það hefur verið talað um það, að maður hafi verið settur í starf í 4 ár. Það er verið að tala um það í gr., að maður hafi verið settur í starf í 10 ár. Ég held, að þarna sé farið öfugt að, að vera að benda á þetta og vera að ýta undir þetta. Ég held einmitt, að í þessari væntanlegu löggjöf eigi að taka skýra afstöðu til þess og marka það alveg hreint og afdráttarlaust, að setning eigi ekki að standa nema mjög skamman tíma og eigi ekki að eiga sér stað nema í undantekningartilfellum. Mér finnst, að sumt í þessu sé líka dálítið einkennilega upp sett. Þarna er talað um það, að maður, sem hefur verið settur í 10 ár, skuli öðlast rétt sem skipaður maður og af því, sem á undan hefur farið, verður það ekki skilið á annan veg en þann, að hann þurfi þá ekki lengur að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru um sérmenntun og annað, sem segir í gr. 5.15. Það má vera, að þetta sé ekki alls kostar óeðlilegt að leggja þarna svona langa starfsreynslu til jafns við þá sérmenntun, sem í öndverðu hefur ekki verið krafizt. Það má vera, að það geti átt rétt á sér, en ákaflega finnst mér þetta óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að maður hafi verið settur svona í 10 ár og hann ávinni sér þá þessi réttindi með því að vera settur svona lengi. Nú bið ég enn afsökunar, ef ég skyldi misskilja þetta, af því að ég hef ekki enn getað lesið þetta nægilega rækilega. En meginatriðið er, að það á í löggjöf að tímabinda setningu, það á að útrýma þeim slæmu háttum, sem hafa tíðkazt hér á landi í þessu efni og setja því alveg fastar skorður. Það kann að vera, að í einstaka tilfellum geti verið eitthvað erfitt að tímabinda það, en ég held þó, að það eigi í öllum tilfellum að vera hægt að gera það.

Það má segja, að ég sé kominn að því ákvæði, sem virkilega gaf mér tilefni til þess að standa upp og gera aths. við og það er 3. gr. Þar er um nýmæli að ræða, sem n., sem frv. hefur samið, virðist gera æði mikið úr. Það er um það að ræða, sem hún kallar sérstaka skipun og hún segir í grg., að þegar nánari skilyrði eru fyrir hendi, sem þar segir, þá megi skipa mann, án þess að hann sé skipaður til þess að gegna nokkru sérstöku starfi. Það má bara skipa hann og svo getur ráðh. fært hann til eftir því, sem henta þykir. Starfsmaðurinn á ekki kröfu á því að vinna neitt ákveðið starf og ráðh. getur sent hann til þeirra endurreisnarstarfa, sem hann vill. Það er lögð sérstök áherzla á það, að þetta muni verða notað til þess að endurreisa og byggja upp fyrirtæki og eitthvað slíkt, endurskoða rekstur og koma honum í betra horf en verið hafi. En þessa skipun eigi ekki aðrir að hljóta en þeir, sem hafa sýnt í verki víðtæka þekkingu og reynslu á sviði stjórnsýslu og fræðistarfa. Svo má, þegar starfsmaður hefur verið í þessu farandsembætti, veita honum hvaða embætti sem er án undanfarandi auglýsingar, skilst mér.

Ég er þessu nýmæli algerlega andvígur. Ég hef nú deilt á þessa hæstv. ríkisstj. og það hefur oft áður verið deilt á ríkisstjórnir á hverjum tíma fyrir það, að þær umbunuðu sínum gæðingum með því að fela þeim ýmis störf, aðallega nefndastörf og bitlingastörf, sem kölluð hafa verið. En ég held, að með ákvæði sem þessu væri opnuð óeðlileg freisting fyrir hvaða ríkisstj. sem er til þess að umbuna mönnum, ,sem hún hefur að vísu traust á og setja þá á þennan hátt í starf — skipa þá, án þess að þar sé um nokkurt ákveðið starf að ræða. Ég felli mig ekki á neinn hátt við slík heimildarákvæði og ég tel þetta hina mestu fjarstæðu. Þó er líklega betra fyrir mig að tala varlega um þetta, því að ekki hafa þeir góðu menn þarna sett þetta út í bláinn — nei, ekki aldeilis. Það stendur í aths. við 3. gr., að þetta ákvæði sé efnislega sniðið eftir þeim hugmyndum um „Senior Civil Service“, sem nefnd nokkur, Commission on Organization of the Executive Branch of the Government, svokölluð Hoover-nefnd, hver sem það hefur nú verið, setti fram árið 1955 í till. til Bandaríkjaþings. Svo kemur nú að vísu rúsínan í pylsuendanum — hugmyndin var ekki innleidd þar. Ja, hún ríður ekki við einteyming þessi tilhneiging, sem er hér ákaflega rík í mönnum að apa allt eftir öðrum. Ég hefði satt að segja haldið, að aðstæðurnar væru talsvert aðrar í Bandaríkjunum en hérna, þannig að þó að einhverri nefnd þar hafi dottið í hug að setja upp þetta skipulag, þá finnst mér það nú svona fullfrjótt ímyndunarafl að fara að taka það upp hér. Ég held, að við verðum að vara okkur á því, að taka allt á öllum sviðum allt of mikið eftir öðrum. Ég held, að við þurfum að temja okkur meira þann hugsunarhátt, bæði á sviði stjórnsýslu og öðrum sviðum, að laga okkar kerfi eftir okkar aðstæðum, eftir okkar þörfum og eftir okkar reynslu. Og ég held, að miðað við okkar þarfir og okkar reynslu, þá eigi skipun, eins og hér er gert ráð fyrir, ekkert erindi inn í okkar stjórnsýslukerfi.

Það má segja, að það sé gott eitt, sem vakir fyrir höfundum þessa frv., eins og sjá má af aths., sem koma hér fram, þar sem þeir segja það, að skipun slíkra starfsmanna í þjónustu ríkisins mundi gera mögulegan meiri og æskilegri hreyfanleik í miðstjórn ríkiskerfisins, en nú er ríkjandi og að því marki beinist frvgr. — í þá átt að virkja þau auknu afköst, frumkvæði og ímyndunarafl sem tilbreyting í störfum leiðir til. Sjálfsagt hefðu ýmsir starfsmenn hins opinbera gott af því að tileinka sér meira ímyndunarafl. Ég gæti t.d. ímyndað mér það, að það mundi ekki saka, að bankastjórar færu að temja sér öllu meira ímyndunarafl, en maður verður stundum var við. En ég held, að þetta eigi ekki við hér heima og ég er algerlega andvígur þessari 3. gr. Og það er, eins og ég sagði, höfuðástæðan til þess, að ég stóð hér upp og fór að gera aths. við þetta núna. Ég tel þetta ákvæði alveg fráleitt. Ég tel, að þar væri opnuð leið fyrir óhlutvanda ríkisstj. til þess að hygla óeðlilega sínum gæðingum og fylgismönnum. Og þetta er enginn neyðarkostur, sem þessir menn, sem eiga að fá þessa sérstöku skipun, eiga að sitja við, því það er sérstaklega tekið fram, að þeir eiga að hafa launakjör ráðuneytisstjóra. Minna má nú ekki gagn gera.

Viðvíkjandi 6. gr., þá má segja það, að hún undirstrikar þá reglu, sem nú er í lögum, að opinbert starf skuli auglýsa. Það er ekki nema gott eitt um það að segja að setja nánari reglur um það efni og þess er þá að vænta, að eftir því verði farið, ef það verður að lögum. En þrátt fyrir þá reglu, sem um þetta gildir samkv. núgildandi lögum, þá má það undarlegt heita, ef ekki er sett eða ráðið í fleiri störf en þau, sem maður sér auglýst í Lögbirtingablaði laus til umsóknar. Ég held því miður, að það hafi orðið í framkvæmdinni verulegur misbrestur á því, að farið væri eftir þessum ákvæðum um auglýsingu. Þess vegna er vissulega þörf á því að undirstrika það og ég er því sammála. Af því, sem sagt hefur verið áður, t.d. um það, að þessi lög taki til banka, þá liggur það auðvitað í augum uppi, að stöður og störf í bönkum eiga hér eftir að lúta þeim reglum, sem í þessum lögum segir, að þau á að auglýsa og þar eru engir undanteknir. Eftir þessu frv. á, skilst mér, að auglýsa t.d. bankastjórastöður. Ég sé ekki, að það sé gerð nein undantekning um þær og ég er því alveg sammála.

Hins vegar held ég, að það ákvæði, sem segir þarna í 6.5, sé dálítið varhugavert, ekki fyrir þá sök, að ég vantreysti hæstv. fjmrh., en þar er fjmrh. sagt heimilt í samráði við hlutaðeigandi fyrirsvarsmenn starfsmanna að undanskilja tiltekin störf auglýsingaskyldu. Ég held, að það eigi ekki að vera að opna fyrir svona smugur. Ég held, að það sé hætta á því, að það verði sótt á fjmrh. hver svo sem hann verður, að nota svona heimild og ég held, að það sé mjög óskynsamlegt að vera að hafa svona undanþágumöguleika.

Ég hef síður en svo á móti því, að þessi lög séu látin taka til starfsmanna utanríkisþjónustunnar að því leyti, að þau störf eigi að auglýsa. Að vísu gilda sérstakar reglur samkv. þjóðaréttinum um forstöðumenn sendiráðanna og þeir eru líka undanþegnir hér. En mér skilst þá, að samkv. þessu ákvæði eigi hér eftir að auglýsa allar stöður í utanríkisþjónustunni aðrar en stöður sendiherra eða forstöðumanna sendiráða. Það eigi t.d. að auglýsa lausa ráðuneytisstjórastöðu í utanríkisráðuneytinu, það eigi að auglýsa lausa til umsóknar stöðu skrifstofustjóra þar, deildarstjóra o.s.frv. og svo auðvitað fulltrúa, sem erlendis starfa. En þó er rétt að geta þess, að þessi skilningur minn, sem mér virðist vera nokkuð augljós eftir orðalaginu á þessari 6. gr., fær kannske ekki með öllu samrýmzt þeim ráðagerðum, sem eru í aths. við 6. gr., en þar segir svo með leyfi hæstv. forseta í niðurlagi:

„Er því gert náð fyrir, að stöður, sem losna innan utanríkisþjónustunnar án þess að um starfsmannafjölgun sé að ræða, verði auglýstar innan utanríkisþjónustunnar, en um nýráðningar fari með sama hætti og önnur störf í þágu ríkisins.“

Ég sé ekki beint staf fyrir því þarna, að það eigi ekki að auglýsa stöður í utanríkisþjónustunni, ef það er hægt að segja, að það sé ekki um starfsmannafjölgun þar að ræða og ég held, að ef það er meiningin, þá sé ástæða til þess að breyta þessu ákvæði og gera það skýrt, að aðrir en þeir, sem eru komnir til starfa í þessu rn. og í þessari þjónustugrein, geti líka sótt um starf, sem losnar þar. Þetta held ég sem sagt, að þyrfti að koma skýrar fram.

Þá vil ég aðeins benda hér á 9. gr., en í henni felst nýmæli. Þar segir: „Starfsmenn ríkisins skulu taka laun eigi lægri en ákveðið er í samningum samkv. 1. nr. 55 frá 1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.“ Og í aths. við þessa gr. kemur það fram, að þetta er sett í gr. með ákveðið í huga, því að þar segir: „Orðalag gr. gefur til kynna, að heimilt er að greiða ríkisstarfsmanni hærri laun heldur en ákveðið er samkv. þeim 1.“, þ.e.a.s. þessum kjarasamningal. Ég hef alltaf skilið það svo, að kjarasamningalögin ætti að framkvæma eftir vissri jafnræðisreglu, þannig að það væri ekki hægt að fara að taka einn eða annan út úr því kerfi og fara að greiða honum hærri laun en honum ber samkv. þeirri stöðu og þeim samningi, sem gerður hefur verið. Ég held, að það geti leitt til misræmis og gæti verið óheppilegt að fara inn á þá braut að mismuna mönnum og fara að greiða einstökum starfsmönnum í einhverri grein, þótt góðir séu, hærri laun heldur en öðrum. Og ég held, að það sé ákaflega vafasamt að vera að hafa svona heimild.

Þá get ég aðeins nefnt 31. gr. 2. Hugsunin er sjálfsagt góð, en þar segir með leyfi hæstv. forseta: „Starfsmanni ber enn fremur að hafa vakandi auga með því, að sá rekstur, sem hann stundar, skili sem beztum árangri og fjármagn, sem til hans er varið, nýtist sem bezt og gera ráðstafanir til að koma á framfæri og í framkvæmd hugmyndum, sem orðið gætu til umbóta í því efni.“

Eins og ég sagði, þá er hugsunin sjálfsagt góð í þessu. En ætli þetta geti ekki orðið dálitið erfitt og vafasamt í framkvæmd að fara að gera þá kröfu með lagaboði til undirmanns í stofnun, að hann færi að gagnrýna yfirmann sinn, ef honum þætti hann halda að einhverju leyti slælega á málum stofnunarinnar og koma þeirri gagnrýni á framfæri, væntanlega við yfirmann þess yfirmanns, t.d. til ráðh. Mér finnst, að það geti verið nokkuð óeðlilegt að gera kröfur sem þessar til starfsmanns ríkisstofnunar.

32. gr. er náttúrlega óbreytt frá því, sem er í gildandi l. Þar segir: „Starfsmanni er skylt að hlýða löglegum fyrirmælum yfirmanns um starf sitt“ og ekkert við hana að athuga að því leyti til, að hún feli í sér neina breytingu. Hins vegar er það svo, að það er ákaflega óákveðið og óljóst, hvað í þessu felst. En það er nú viðurkennt og gert ráð fyrir því, að hlýðniskylda opinberra starfsmanna geti verið mismunandi eftir því, hvert starfið er. Þarna vantar alla nánari skilgreiningu á því og mér hefði þótt ástæða til, að við samningu á frv. sem þessu, hefði verið lagt í það að reyna að gera þessu eitthvað gleggri skil og marka það nánar, í hverju hlýðniskylda er fólgin, vegna þess að þetta er ekki algert hégómamál. T.d. getur hugsanlega reynt á það, hvernig ætti að fara með lægra settan starfsmann, sem fer eftir fyrirmælum forstjóra, en lægra setti starfsmaðurinn sér, að þetta eru röng fyrirmæli. Þarna er um villu að ræða, mistök skulum við segja. Hann ætti sjálfsagt að geta bent yfirmanni sínum, forstjóranum, á þetta. En hvað á hann að gera meira? Þetta held ég sem sagt, að þurfi meiri athugunar við.

Aðeins vil ég gera aths. við 39. gr. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, að það er bót að því höfuðákvæði, sem þar er, að það skuli veita 70 ára manni lausn miðað við fyrsta dag næsta mánaðar, eftir að hann verður 70 ára og þannig hefur sjálfsagt verið rétt að skilja þetta. En það hefur ekki alltaf verið gert og það hefur leitt til mismununar. Það er því til bóta, að það sé alveg skýrt. En þarna kemur enn eitt heimildarákvæðið í 39.2. Heimilt er að ráða mann, sem hefur náð hámarksaldri til að gegna starfi í þágu ríkisins um stundarsakir, meðan eigi er völ á öðrum færum manni í starfi, segir að vísu. Ég held, að þarna sé einmitt opnað aftur fyrir það, sem átti að fyrirbyggja með upphafsákvæðinu, að þá verði farið að liggja í ráðh. að ráða nú þennan mann ofurlitið áfram til viðbótar, eftir að 70 ára aldrinum er náð. Og ég held, að það hefði verið betra að komast hjá því.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð fleiri og þó kemst ég ekki hjá að minnast aðeins á 36. gr. Þar segir: „Stjórnendum ríkisstofnana er almennt skylt að gefa upplýsingar um einstök málefni, er stofnanir þeirra vinna að.“

Það mætti nú ætla, að mér þætti þetta gott, því að ég hef einmitt deilt mjög á það, að það væri of mikil leynd yfir ýmiss konar opinberri sýslu og það þyrfti að vera réttur fyrir almenning og sérstaklega blaðamenn til þess að fylgjast betur með ýmissi opinberri sýslu en átt hefur sér stað. Þess vegna mætti ætla, að ég tæki þessu fegins hendi. Auðvitað er ég sammála þessari hugsun, sem þarna kemur fram, en ég held bara, að það verði ekki leyst með einni stuttri setningu eins og í þessari lagagr. að setja reglur um réttindi almennings til upplýsinga hjá stjórnarvöldum. Ég held, að það þurfi að setja, eins og aðrar þjóðir hafa sett, sérstaka löggjöf um það efni, vegna þess að það verður auðvitað að undanþiggja ýmis málefni, sem þessi upplýsingaskylda getur ekki náð til og enn fremur geri ég ráð fyrir því, að það verði að marka það eitthvað, hverjir eigi rétt á því að fá upplýsingarnar. En á þetta bendi ég því aðeins, að ég held, að það málefni, sem við ýmsir höfum verið að hreyfa, varðandi opinberari stjórnsýslu en hér hefur verið, sé á engan hátt leyst með jafneinföldu móti eins og þarna er gert ráð fyrir í þessari einu setningu.

Eins og ég sagði, skal ég nú ekki hafa þessi orð fleiri og þetta er aðeins sagt eftir fljótlega athugun á þessu frv. Sjálfsagt er það ýmislegt fleira, sem ástæða væri til þess að ræða um, en það kemur þá ekki að sök, þó að það bíði, þar sem ekki er gengið eftir því, að þessu máli sé hraðað og það verða tækifæri til að athuga það.

Það eru tekin upp ný lagatæknileg vinnubrögð, ef svo má segja, við samningu þessa frv. Að vísu hefur það ekki gengið í gegnum tölvu, en það er samt með vissum talnalykli og þetta er ágætt. Við þekktum þetta áður — Norskulög 1, 22, 26, o.s.frv. Þetta er gamalþekkt og það er svo sem ekkert að því eftir nokkrar aldir að fara aftur að semja l. með þessum hætti. En það verður náttúrlega að gerast þannig, að það valdi ekki misskilningi. Og ég kemst ekki hjá því að benda á það, að það virðast einhver mistök hafa átt sér stað, eða ég get ekki ímyndað mér annað, í 5. gr. þ.e. 5.1 og svo kemur 5.11 o.s.frv. og það mætti nú segja, að þetta væri kannske augljós prentvilla, ef það væri ekki annars staðar, en það er vitnað í þessa gr. eins og t.d. í 2. gr., þá er vitnað í 5.15. (Fjmrh.: Þetta fellur inn í tölvuna líka, því að þetta er undirliður, þ.e. 5.l.l. og 5.1.2.) Já, þá kemur maður af fjöllum, en hún er að verða dýr, þessi tölva. (Fjmrh. Það er tvípunktur á undan þessari upptalningu.) En ekki :grunaði mig það, að þetta stæði nú í sambandi við tölvuna. En ég held, að það geti nú orðið vafasamt að fara að byggja lagasetningu yfirleitt á tölvunni.

Ennfremur vil ég þá líka benda á annað formsatriði og það getur nú varla verið úr tölvunni eða vegna hennar. Það er X. kafli. Þar hlýtur að eiga að koma nýr kafli á eftir „Starfsmönnum Alþingis“. Það getur ekki verið, að þeir séu settir í einn og sama kafla og ýmis ákvæði, sem á eftir fara. En það getur líka verið, að það sé bara prentvilla.