29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

261. mál, listamannalaun

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í lögum um listamannalaun frá 29. apríl 1967 segir svo í 1. gr.:

„Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn. Getur það bæði veitt tilteknum listamönnum ákveðin heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni eina upphæð, sem síðan skal skipt af nefnd sjö manna, kosinni af Sþ. að loknum alþingiskosningum, en í fyrsta skipti þegar eftir að lög þessi öðlast gildi. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Frv. það, sem hér er til umr., fjallar um breytingu á lögum þeim um listamannalaun, sem ég vitnaði til, gerir ráð fyrir að breyta 1. gr. laganna þannig, að hún hljóði á þessa leið:

„Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn. Getur það bæði veitt allt að 12 listamönnum ákveðin heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni eina upphæð, sem síðan skal skipt af nefnd sjö manna, kosinni af Sþ. að afloknum alþingiskosningum. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Sú eina breyting felst í raun réttri í þessu frv., að tala þeirra listamanna, sem geta hlotið heiðurslaun, er í frv. bundin við ákveðið hámark, þ.e.a.s. 12 listamenn. Í gildandi lögum frá 1967 er engin ákveðin tala tilgreind, en nú síðustu árin munu þeir listamenn, sem hafa notið þessara heiðurslauna, hafa verið 11 að tölu. Í þessu frv. felst því fyrst og fremst það eitt að takmarka þessa tölu, þannig að hún geti ekki orðið hærri en 12 og virðist það út af fyrir sig skynsamleg regla að hafa ákveðna hámarkstölu þeirra manna, sem heiðurslauna geta notið vegna listaafreka. Þessu frv. var vísað til menntmn., sem athugaði frv. og féllust nm. á það að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, svo sem fram kemur í nál. á þskj. 680.