23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

265. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Íþróttakennaraskóli Íslands er nú eins árs skóli og námstíminn 9 mánuðir. Það hefur verið mikið áhugamál forsvarsmanna Íþróttakennaraskólans og íþróttahreyfingarinnar í landinu, að námsefni og námskröfur í Íþróttakennaraskólanum verði aukin og skólinn gerður að 2 ára skóla. Þetta frv. er samið af Þorsteini Einarssyni íþróttafulltrúa, Árna Guðmundssyni, skólastjóra Íþróttakennaraskólans, Hermanni Guðmundssyni, framkvæmdastjóra ÍSÍ, Skúla Þorsteinssyni námsstjóra og Þóri Þorgeirssyni íþróttakennara og það er meginefni þess að verða við þessari ósk forráðamanna Íþróttakennaraskólans og íþróttahreyfingarinnar að breyta skólanum úr eins árs skóla í tveggja ára skóla og skuli námstíminn ekki vera skemmri en átta og hálfur mánuður hvort ár. Þá gerir frv. enn fremur ráð fyrir því, að á sumrinu milli hinna tveggja vetra starfi nemendur skólans við íþróttakennslu í 70 kennslustundir.

Nám íþróttakennara hefur tekið ýmsum breytingum undanfarna áratugi, þar sem um slíkt nám er að ræða. Yfirleitt hefur námsefni verið stóraukið og segja höfundar frv. að nám byggist nú meira og meira á staðreyndum, sem rannsóknir hafi leitt í ljós, auk þess sem íþróttakennarinn þurfi að búa við góða líkamsfærni, sem krefjist þjálfunar yfir lengri tíma. Þess vegna hafi þróunin í nálægum löndum orðið sú að lengja íþróttakennaranámið og sé það nú ekki eins árs nám í flestum nálægum löndum heldur lengra. Sé þessi breyting því gerð í samræmi við þá þróun, sem annars staðar hafi átt sér stað.

Þá gerir frv. enn fremur ráð fyrir því, að skólinn geti efnt til námskeiða fyrir starfandi íþróttakennara, þar sem endurmenntun fari fram og nýjungar í kennsluháttum verði kynntar. Þetta er í samræmi við þá stefnu, sem er yfirleitt uppi í skólamálum, að fela einstökum skólastofnunum að annast endurmenntun þeirra, sem starfa á því sviði, sem skólanum er ætlað að veita fræðslu á.

Jafnframt því sem skólinn er lengdur og gerður að tveggja ára skóla í stað eins árs skóla, er gert ráð fyrir því, að inntökuskilyrðum í skólann sé breytt frá því, sem er í gildandi lögum. Höfundar frv. telja og á það hefur menntmrh. fallizt, að miðskólapróf sé ekki lengur nægilegt, enda hafi þeim nemendum skólans fjölgað stórlega undanfarið, sem hafa meiri undirbúningsmenntun, þ.e.a.s. hafa áður verið í undirbúningsdeild sérnáms við Kennaraskóla Íslands, í menntaskóla eða hafa almennt kennarapróf. Í þessu frv. er lagt til, að nemendur skólans skuli hafa lokið prófi frá framhaldsdeildum gagnfræðaskóla með ákveðinni lágmarkseinkunn eða stundað nám í undirbúningsdeild sérnáms við kennaraskóla Íslands eða í þriðja lagi, að þeir hafi stúdentspróf, eða í fjórða og síðasta lagi, að þeir hafi almennt kennarapróf.

Í núgildandi lögum er mjög ófullkomin upptalning á námsgreinum, sem kenna skal við skólann og er reynt að gera bragarbót þar á í þessu frv. Hins vegar er ekki of góð reynsla af því að gefa tæmandi upptalningu á námsgreinum í lögum, og þess vegna er hér sá varnagli sleginn, að heimilt sé að fjölga eða fækka þessum greinum við skólann með samþykki yfirstjórnar hans, án þess að lagabreytingu þurfi til, eða m.ö.o. með reglugerð.

Í gildandi lögum er tala kennara við skólann takmörkuð, en það þykir ekki rétt að gera slíkt áfram, enda hefur reynslan af slíkum lagaákvæðum ekki verið góð. Því er ekki gert ráð fyrir slíkum takmörkunum í þessu frv., heldur ætlazt til þess, að starfsmannatala skólans fari eftir þeirri þörf, sem er á hverjum tíma, að mati menntmrn. og yfirstjórnar skólans.

Rétt er að síðustu að vekja athygli á því nýmæli í þessu frv., að lagt er til, að Íþróttakennaraskóli Íslands annist alla íþróttakennslu við skólana á Laugarvatni. Þetta er gert, til þess að hægt sé að velja sérmenntaða kennara í hinum ýmsu greinum íþróttanna til kennslu við Íþróttakennaraskóla Íslands og ætti jafnframt að tryggja nemendum skólanna á Laugarvatni fjölbreytta íþróttakennslu. M.ö.o. hér er um tilraun að ræða til að auðvelda meiri verkaskiptingu en ætti sér stað, ef hver hinna mörgu skóla á Laugarvatni hefði sinn sér íþróttakennara og tryggja betri nýtingu þeirra, sem við íþróttakennslu fást á skólasetrinu á Laugarvatni.

Þá er rétt að geta þeirra ákvæða, sem nú er lagt til að verði lögfest, en þau hafa hingað til aðeins verið venjubundin — að nokkrir þættir í starfi skólans eigi sér stað utan Laugarvatns, enda verður þetta auðveldara með bættum samgöngum. Skíðakennsla hefur farið fram við skíðaskálann á Hellisheiði og nú nokkur undanfarin ár á Seljalandsdal í Skutulsfirði eða í Hlíðarfjalli við Akureyri, auk þess sem um hefur verið að ræða skoðunar— og kynnisferðir til skóla í Reykjavík. Það hefur gefið mjög góða raun og þykir því rétt að lögfesta þetta í þessu frv.

Með þessu móti vona ég, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir aðalatriðum þessa frv. og leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari 1. umr., vísað til 2. umr. og hv. menntmn.