26.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

298. mál, Þjóðleikhús

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt að breyta þurfi lögum um Þjóðleikhús, sem eru frá 1947 og þar af leiðandi 24 ára gömul og til greina þurfi að taka þá reynslu, sem fengizt hefur á þessu tímabili. Þess vegna vil ég leyfa mér að fagna því, að frv. er nú komið fram til endurskipulagningar á þessum málum. Hins vegar vil ég mjög kvarta undan því, hversu naumur tími er hér ætlaður til athugunar á þessu stórmáli, sem ég vil nefna svo. Ég vonast til þess, að hæstv. menntmrh. ætlist ekki til þess, að Alþ. afgreiði þetta mál á þeim skamma tíma, sem eftir er til umráða, því þegar ég sá dagskrá þessa fundar, sem yfir stendur, í morgun, þá sá ég, að fram var komið frv. um Þjóðleikhús, og fór hingað niður í alþingishús til þess að fá að sjá þetta frv. En þá var það ekki til. Þetta var kl. 10. Þegar menn komu svo hingað ti1 þingfundar, þá lá þetta frv. að vísu hér á borðum manna, en af sjálfu leiðir, að enginn tími hefur gefizt til athugunar á þessu frv. nú og tæplega er við því að búast, að hann gefist á þeim skamma tíma, sem eftir er af þinghaldi, sem nú mun fullráðið, að ljúki fyrir páska. Ég óska eftir því, að það komi fram hér við þessa umr., hvort til þess er ætlazt, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi.

Það eru mörg nýmæli í þessu frv. og talsvert margar breytingar. Það er breytt skipan þjóðleikhúsráðs, fjölgað í því og það skipað með öðru móti en nú er. Þjóðleikhússtjóra skal t.d. ráða til 4 ára í senn. Ég hygg, að það sé nú til bóta og legg ég þó engan dóm á starf núverandi þjóðleikhússtjóra með þeim orðum. En ég hygg, að það sé rétt stefna að miða að því, að menn verði ekki alltaf ellidauðir í embættum sínum, heldur gefist valdhöfum hverju sinni kostur á að skipta þar um, eftir því sem þurfa þykir. Og ekki á það sjálfsagt sízt við störf að listamálum, eins og hér um teflir, þar sem breytingar eru hraðar og kröfur tímanna breytilegar og breytast ört.

Ég skal nú ekki þreyta hv. þdm. á langri ræðu um þetta atriði, en ég sé, að inn í þetta frv. er sett nánast alveg utan úr heiðloftinu, að komið skuli á fót sérstökum leiklistar–, sönglistar– og listdansskóla ríkisins. Um þetta hef ég og við nokkrir þm. flutt æði oft frv., sem raunverulega miðaði að því að stofna þennan skóla, en ég sé ekki, að til móts við þá hugmynd sé komið nema að mjög óverulegu leyti með þeim ákvæðum 20 gr., þar sem segir, að komið skuli á fót sérstökum leiklistar–, sönglistar– og listdansskóla og að menntmrn. setji nánari ákvæði um hann í reglugerð. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég held, að þingið verði að glíma við það að setja þessum skóla lög. En ég skal ekki ræða þetta frekar, ef svo er, sem mér virðist, að þetta mál sé aðeins sýnt á þessu þingi, en eigi ekki að ganga fram. Annars mun ég þá segja eitthvað fleira um það.