02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

11. mál, fiskiðnskóli

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur mikið verið um það rætt að stofna þyrfti fiskiðnskóla hér á landi. Mér telst svo til, að nýlega sé afstaðið 10 ára afmæli fiskiðnskólamálsins hér á hv. Alþ. og má með nokkrum sanni segja, að það sé þá við hæfi nú á 10 ára afmælinu að minnast þess á verðugan hátt. Okkur flm. fannst vel viðeigandi að minnast afmælisins með flutningi frv. til l. um fiskiðnskóla.

Það er upphaf fiskiðnskóla málsins hér á hv. Alþ., að við flm. þessa frv., hv. þm. Jón Skaftason og ég, fluttum á þinginu 1959—60 till. ti1 þál. um þetta mikilsverða efni, að Alþ. og ríkisstj. beittu sér fyrir stofnun skóla fyrir fiskiðnaðarmenn. Á næstu þingum 1960, 1961, 1962 og 1963 var málið flutt enn og aftur og svo fór að lokum, að Alþ. samþykkti 30. apríl 1964 till. til þál., sem þannig hljóðar með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa n. í samráði við Fiskmat ríkisins, Fiskmatsráð og helztu samtök fiskiðnaðarins til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla í landinu. Skal n. m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumála fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

Samkv. þessari ályktun var gert ráð fyrir, að n. yrði skipuð svo tímanlega, að hún gæti lagt till. sínar fyrir næsta Alþ. Af því gat þó ekki orðið, þar sem n. var ekki skipuð fyrr en 27. nóvember 1964 og tók til starfa seint í janúar 1965. Þessi fiskiðnskólanefnd lauk störfum 8. des. 1966 og lét þá ríkisstj. í té álit og till. Mér er ekki kunnugt um, að ríkisstj. hafi formlega kynnt Alþ. þessar till. og þaðan af síður, að ríkisstj. hafi flutt þetta mál hér í frv.–formi.

Það er því sízt ofmælt, sem segir í grg. fyrir þessu frv. nú, að ríkisstj. hafi haft till. fiskiðnskólanefndar að engu og virðist staðráðin í að láta sitja við algert aðgerðaleysi í fræðslumálum fiskiðnaðarmanna. Ef ríkisstj. ætlar að hafa það sér til afbötunar í þessu máli, að efnt hafi verið til tiltekinna námskeiða á þessu sviði að undanförnu, þá held ég, að það sé næsta fátæklegt framlag til þessa mikla máls að koma upp raunverulegum fiskiðnskóla. Í 1eiðurum stjórnarblaða hefur nýlega mátt sjá þá fullyrðingu viðhafða, að námskeið þessi væru vísir að fiskiðnskóla. Ég held, að slík fullyrðing fái ekki staðizt. Fiskiðnaðarnámskeiðin, sem haldin eru á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, eru ekki vísir að fiskiðnskóla frekar en verknámskeiðin, sem kennd voru við sjútvrn. og haldin voru hér fyrst 1947 og síðan um fjölda ára allt fram undir þennan dag undir yfirstjórn fiskmatsstjóra. Hvorug þessara námskeiða eru eða voru vísir að fiskiðnskóla. Námskeið sjútvrn. voru virðingarverð tilraun til þess að bæta úr brýnni þörf á þeim tímum, þegar skilningur á föstu skólastarfi var minni en nú er, en námskeið Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins eru varla annað en mjög lítil fjörlegt kák, sem verður eingöngu til þess að tefja nauðsynlegan undirbúning að stofnun myndarlegs og gagnlegs fiskiðnskóla, t.d. með því skipulagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Eins og ég hef sagt, þá er þetta frv. samið af fiskiðnskólanefnd, sem ríkisstj. skipaði samkv. till. eða ályktun Alþ. á árinu 1964 og nm. voru ekki af verri endanum. Þetta voru allt sérfræðingar í fiskiðnaði eða starfandi að fiskiðnaði og fiskframleiðslumálum með einum eða öðrum hætti. Formaður n. var Hjalti Einarsson verkfræðingur, sem þá var starfsmaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og er kannske enn og ég hygg, að hann sé að allra dómi einn færasti sérfræðingur okkar í fiskvinnslufræðum. Aðrir nm. voru Bergsteinn Bergsteinsson fiskmatsstjóri, Jón Árnason alþm. og útgerðarmaður, Jón Skaftason alþm. og fulltrúi í síldarútvegsnefnd, Margeir Jónsson útgerðarmaður, dr. Sigurður Pétursson gerlafræðingur, dr. Þórður Þorbjarnarson forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Tryggvi Jónsson forstjóri niðursuðuverksmiðju í Kópavogi, Leó Jónason síldarmatsstjóri og Sveinn Björnsson forstjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands.

Það voru þessir menn, sem fyrir 4 árum urðu samála um að leggja til við ríkisstj., að stofnaður yrði fiskiðnskóli á Íslandi. Þetta eru mennirnir, sem sömdu frv. það, sem hér liggur fyrir. Í álitsgerð þeirri, sem n. sendi frá sér ásamt till. að lagafrv. um fiskiðnskóla, segir m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Það er samdóma álit fiskiðnskólanefndar, að fiskvinnslufræði sé orðið mjög sérhæft fag og tilfinnanlegur skortur sé á kunnáttumönnum í þeirri grein. Fjölbreytni í framleiðslu er þegar orðin mikil. Hún mun fara vaxandi og stofnun fiskiðnskóla er því að verða knýjandi nauðsyn. Það skal því ítrekað, að það er skoðun n., að ábyrgðarstöður í fiskiðnaði þurfi að verða eftirsóknarverðar í þjóðfélaginu og þær eigi að skipa vel menntaðir fiskvinnslufræðingar. Undirstöðukunnáttuna eiga þeir að fá í fiskiðnskólanum.“

Þannig mælti fiskiðuskólanefnd og einnig sagði nefndin með leyfi hæstv. forseta:

N. telur nauðsynlegt, að þeir, sem fiskvinnslu stjórna og fisk meta, hafi góða alhliða menntun, sem sé ekki minni en menntun þeirra, sem vinna önnur hliðstæð ábyrgðarstörf í þjóðfélaginu. Í nútíma þjóðfélagi er fiskvinnsla flókin atvinnugrein, sem krefst æ meiri kunnáttu og vísindalegra starfsaðferða. Slík kunnátta og vinnubrögð verða ekki lærð til hlítar nema í skóla.“ Og enn heldur n. áfram: „Fyrir 20—30 árum var venjan sú í fiskvinnslu, að kennslan fór fram í fiskvinnslustöðvunum, þannig að ungir menn lærðu af þeim eldri. Enda þótt slík vinnubrögð hafi oft gefizt vel, verður að telja, að slíkar kennsluaðferðir fullnægi ekki þörfum nútímans á þjálfuðum og menntuðum starfskröftum.“

Síðan greinir n. frá því, að sérskólar í fiskiðnaði hafi verið stofnaðir víða um lönd og nefnir í því sambandi Noreg, Japan og Kanada, en ég vildi bæta við, t.d. Sovétríkjunum, en ég þykist mega fullyrða, að Sovétmenn séu framarlega, að því er tekur til menntunar fiskvinnslu— og fiskiðnfræðinga og þar leggja menn ekki síður áherzlu á hagnýtt fiskvinnslunám en æðri fiskiðnaðarvísindi og háskólanám í þessum greinum.

Eins og sjá má, þá er þetta frv. í alls fimm köflum og14 greinum. Í 1. gr. frv. er minnzt á, hvert sé aðalmarkmið skólans, en það er að veita fræðslu í fiskiðngreinum og útskrifa fiskvinnslufræðinga, eins og fiskiðnskólanefndin hefur túlkað það orð og viljað orða það. Þá er gert ráð fyrir því, að þessi skóli sé sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn ráðh. og skuli vera í eigin húsakynnum og gert ráð fyrir því, að þarna fari fram bæði bókleg og verkleg kennsla í tvö ár og við skólann sé sjálfstæð heimavist. Síðan er gerð grein fyrir því, hvernig stjórn skólans skuli skipuð, þar sem gert er ráð fyrir 8 manna skólanefnd, sem skipuð sé eftir sérstökum tilnefningum af ráðh.

Í III. kaflanum er minnzt á, hvert sé markmið skólans og þar segir, að nemendur skuli að afloknu prófi öðlast undirstöðukunnáttu, bóklega og verklega, til þess að geta tekið að sér verkstjórn, eftirlitsstörf, matsstörf, verkþjálfun, vinnuhagræðingu, stjórn fiskvinnslustöðva og önnur hliðstæð störf í fiskiðnaðinum. Þetta eru í raun og veru þær stöður, sem fiskvinnslufræðingarnir eiga helzt að skipa og sýnist mér, að þarna sé upp talið flest af því, sem til greina kemur af þeim störfum, sem hér eru í fiskiðnaði.

Eins og ég sagði áðan, þá er gert ráð fyrir því, að skólatíminn sé ful1 tvö ár samkv. þessu frv. fiskiðnskólanefndarinnar og gert ráð fyrir því, að umsækjendur hafi gagnfræðapróf og séu orðnir 17 ára. Síðan er gerð nánari grein fyrir því, hvaða námsgreinar skuli stunda í skólanum og í 12. gr. er það upp talið, hverjar séu helztu verklegu greinarnar. Það er meðferð á nýjum fiski, ísun fisks, flökun, frysting, söltun, síldarsöltun, herzla, reyking, niðursuða, framleiðsla fiskrétta, lifrarbræðsla, fiskmat, vinnurannsóknir og svo ýmsar aðrar námsgreinar, sem skólastjóri eða skólastjórn teldi nauðsynlegt að kenna. Einnig er gert ráð fyrir bóklegu námi. Eitt fagið er þar kallað fiskvinnslufræði og auk þess efnafræði, eðlisfræði, fiskifræði, gerlafræði og vinnurannsóknir, verzlunar— og landafræði, lög og reglur um fiskvinnslu og fiskmat og svo ýmsar aðrar námsgreinar, sem skólastjórn kynni að telja heppilegt, að stundaðar yrðu í skólanum.

Þetta er nú í höfuðatriðum efni þessa frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Ég held, að nauðsyn fiskiðnskólanámsins liggi alveg í augum uppi og þess gerist í rauninni engin þörf að fara að tíunda öll þau rök, sem annars mæla með þessu máli. Þetta er eitt þeirra mála, sem mæla með sér sjálf. Hins vegar verður ekki komizt hjá því að gagnrýna ríkisstj. fyrir afskipti hennar af málinu, eins og nú er komið. Ég hef leyft mér að hafa uppi slíka gagnrýni að nokkru og beini henni fyrst og fremst til ríkisstj. sjálfrar, því að augljóst er, að hún hefur legið á þessu máli árum saman og tafið allar nauðsynlegar aðgerðir í því. Þessi gagnrýni mín beinist miklu síður að hv. stuðningsmönnum ríkisstj. innan þings og utan. Mér er vel kunnugt, að ýmsir mætir menn í stjórnarflokkunum hafa lagt þessu máli lið bæði í ræðu og riti, þó að þeir virðist ekki hafa haft afl til þess að knýja hæstv. ríkisstj. til aðgerða. Ég er viss um það, að allir þm., sem sæti eiga í þessari hv. d., eru í hjarta sínu jafn sannfærðir um nauðsyn þessa máls og við flm. frv. Ég er viss um, að allir hv. þdm. taka undir röksemd fiskiðnskólanefndar um það, að stofnun fiskiðnskóla á Íslandi sé knýjandi nauðsyn. Og ef það er knýjandi nauðsyn, þá er það jafnbrýnt, að Alþingi láti til sín taka í málinu. Alþingi getur haft úrslitaáhrif í þessu máli. Það er á valdi Alþingis að ákveða stofnun fiskiðnskóla. Alþ. getur lagt fyrir ríkisstj. að hefjast handa, enda er í rauninni fyrir hendi ákveðinn vilji Alþ. í þessu máli, þar sem er þál. frá 1964. Það er þegar búið að vinna undirbúningsstarf að stofnun fiskiðnskólans með starfi fiskiðnskólanefndar og það verður ekki séð, að miklu verði bætt við það starf. Það er þegar fyrir hendi nægilega traustur grundvöllur undir stofnun skólans og því ekki eftir neinu að bíða. Eða eftir hverju eru menn að bíða? Eins og ég hef sagt, er ég viss um, að þetta mál á mikið fylgi hér á hv. Alþ., ekki síður hjá fylgismönnum ríkisstj. en hjá okkur í stjórnarandstöðu. Ég held m.a., að það sé sönnun fyrir því, að við höfum ekki hreyft þessu máli ófyrirsynju, að einn af þm. ríkisstj., hv. 3. þm. Sunnl., hefur flutt frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Mér er kunnugt um áhuga þessa hv. þm. á þessu máli.

Ég ætla ekki að ræða ýtarlega um efni þessa frv. hv. 3. þm. Sunnl. Við fljótan yfirlestur virðist mér lítið bera á milli um höfuðatriði málsins. Hv. þm. leggur til, eins og gert er í þessu frv., að stofnaður verði sérstakur ríkisrekinn skóli, sem hafi það hlutverk að brautskrá fiskvinnslufræðinga og námið sé bæði bóklegt og verklegt. Það, sem á milli ber, eru allt minni háttar atriði, sem ég geri ekki að umræðuefni. Ég geri ráð fyrir, að frv. hv. 9. þm. Sunnl. verði tekið til umr. fljótlega, e.t.v. í dag, því að það er nú á dagskrá og mér finnst eðlilegt, að bæði frv. fari til sömu þn. Ég mun leggja það til, að þessu frv. verði nú að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. og beini því hér með til hæstv. forseta. Þangað ætti frv. hv. 3. þm. Sunnl. að mínum dómi einnig að ganga.XNV

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason): Herra forseti. Fiskiðnfræðslumálin hafa ekki verið í verkahring menntmrn. nema síðan um síðustu áramót. Þau voru áður í verkahring sjútvrn. og með hliðsjón af því mundi ég óska eftir því við hv. flm. þessa frv. og flm. frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum, að þeir breyti till. sinni og leggi til, að frv. fari til menntmn. Það er í samræmi við núgildandi lagaákvæði um Stjórnarráðið. Hin till. virðist mér vera byggð á eldri skipun, sem breytt hefur verið með nýjum l. um Stjórnarráðið. Nú heyra allir skólar í landinu nema búnaðarskólar undir menntmrn. Þessi skóli mundi, ef og þegar hann verður stofnaður, heyra undir menntmrn. og mér finnst tvímælalaust eðlilegt, að sú n., sem fjallar um önnur frv. um skóla, sem undir menntmrn. heyra, fjalli líka um þetta frv. Ég skýt þessu hér með að hv. flm.

Annars kvaddi ég mér aðallega hljóðs til þess að segja nokkur orð um það, sem gerzt hefur í þessu máli síðan menntmrn. var falið að fjalla um það. Þegar á s.l. vetri kynntum við í rn. okkur rækilega það, sem þegar hafði verið gert í þessu máli, nál., sem fyrir lá og annan undirbúning. Við komumst að þeirri niðurstöðu, að málið hefði ekki enn hlotið fullnægjandi undirbúning til þess að við í rn. treystum okkur til þess að undirbúa frv. í sumar til þess að leggja fyrir þetta þing.

Í raun og veru er allt fiskiðnfræðslumálið tvíþætt. Annars vegar er um það að ræða, hvernig eigi að mennta verkstjóra og aðra, sem verkstjórn og eftirlits— og matsstörf hafa á hendi í frystiiðnaðinum. Það er um þetta mál, sem þessi tvö frv. fjalla. En vandamálið er stærra og viðtækara en þetta. Það er líka spurningin um það, hvernig eigi að koma fræðslu um fiskiðnað og fiskverkun inn í verknám almenna skólakerfisins og gagnfræðaskólana. Það er ekki síður mikilvægt, að í sjálfu skólakerfinu, jafnvel á skyldustiginu, en þó einkum á framhaldsstiginu, í verknáminu og framhaldsdeildum gagnfræðaskólanna, þar komist inn einhver fræðsla um fiskverkun og jafnvel fiskveiðar. Þetta mál hefur enn verið tiltölulega lítið athugað, en það gefur auga leið, að það þarf auðvitað að samræma bæði slíkt nýtt nám í skólum, sem nú eru fyrir hendi og nýjan fiskiðnskóla fyrir verkstjóra og matsmenn og samræma hann skólakerfinu að öðru leyti.

Ein spurningin er sú, hvort fela ætti þessa verkstjóra— og matsmannafræðslu Tækniskólanum, sem þegar starfar, í stað þess að stofna alveg nýjan skóla, sem tækist þessa fræðslu á hendur. Ef matsmannafræðslan ætti að vera í Reykjavík, þá kemur þetta atriði til sérstakrar athugunar, að fela hana beinlínis Tækniskólanum, þ.e.a.s. að stofna nýja deild við Tækniskólann, sem hefði þessa fræðslu með höndum, líkt og t.d. Tækniskólinn hefur tekið að sér kennslu meinatækna og þar fram eftir götunum. Ef hins vegar fiskiðnskólinn á að vera í Vestmannaeyjum t.d. eða annars staðar en í Reykjavík, þá gefur auga leið, að hann verður að vera sjálfstæður. Allt þetta hefur verið athugað talsvert. En ég sá það í vor, eða við vorum sammála um það í menntmrn., að málið hefði alls ekki hlotið þann undirbúning, að við gætum í rn. gert till., sem frambærilegar væru fyrir Alþ., á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir lágu. Þess vegna skipaði ég á s.l. sumri sérstaka n. til þess að kanna stöðu tæknimenntunarinnar innan skólakerfisins og eðlileg tengsl hinna ýmsu fræðslustiga. Og þessari n. var sérstaklega falið að kanna fiskiðnfræðsluvandamálið, bæði möguleika á fiskiðnfræðslu innan núverandi skólakerfis og athugun á menntun verkstjóra og matsmanna í fiskiðnaði og þá um leið að athuga, hvort stofna ætti sérstakan skóla í þessu skyni, eða hvort fela ætti þessa fræðslu Tækniskólanum. Þessi n. er starfandi núna, henni tókst ekki að ljúka störfum, áður en þing kom saman. Í n. eiga sæti Andri Ísaksson, deildarstjóri skólarannsóknadeildar menntmrn.; forseti Verkfræði og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, Þorbjörn Sigurgeirsson; skólastjóri Tækniskóla Íslands, Bjarni Kristjánsson; skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms, Magnús Jónsson; formaður iðnfræðsluráðs, Óskar Hallgrímsson; skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík, Þór Sandholt; skólastjóri Vélskólans, Gunnar Bjarnason og formaður Félags tæknifræðinga, Stefán Guðjohnsen tæknifræðingur. Ég óskaði eftir því í skipunarbréfinu, að þessi n. hraðaði störfum sem allra mest og hefði samstarf við n. þá, sem í bréfinu segir, að nú starfi að endurskoðun laga um fræðslu barna og laga um gagnfræðanám, en sú n. hefur þegar eða er þessa dagana endanlega að ljúka störfum. Ég á von á því, að þessi n. ljúki störfum í haust eða í öllu falli fyrir jól og þá muni þar koma till. um fiskiðnskólamálið og fiskiðnfræðslumálið í skólunum, sem ég vona, vegna þess hve málið er lengi búið að vera á döfinni, að verði loksins í því formi, að unnt verði að sýna þær hinu háa Alþingi. Ég vil skjóta þessu til þeirrar n., sem fær þessi frv. bæði til meðferðar, að hún kynni sér, hvað þessu máli líður hjá þessari tæknimenntunarnefnd og ég hygg, að það væri bezt og farsælast fyrir góða framgöngu málsins, að menntmn. afgreiddi málið ekki fyrr en hún fær að sjá hugmyndir eða till. tæknimenntunarn. í þessu mjög svo mikilsverða máli.

Ég skal með ánægju lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel hina brýnustu nauðsyn vera á því, að verkstjóra— og matsmannafræðslu verði komið upp. Um það skal ég ekkert segja á þessu stigi, hvort æskilegt sé, að hún sé í sérstökum skóla, ekkert segja, hvort æskilegt sé, að hún sé í Reykjavík eða í Vestmannaeyjum eða í Tækniskólanum. Aðalatriðið er það, að þessari fræðslu verður að koma á og það fyrr en seinna. Og ég tel rétt að stefna að því, að hún geti hafizt strax næsta haust. En jafnframt og það er líka verkefni þessarar n., er nauðsynlegt að auka fræðslu um fiskveiðar og sérstaklega fiskvinnslu innan verknámsfræðslunnar, sem nú fer fram í skólakerfinu og gefa þessum höfuðatvinnuvegi okkar aukið rúm frá því, sem nú er. Að því tel ég tvímælalaust, að beri að stefna.

Jón Skaftason: Herra forseti. Það vantar ekki, að þegar um þetta mál er talað, bæði hér innan sala hv. Alþ. og eins á mannfundum annars staðar, þá séu allir sammála um, að hér sé um mikilvægt og brýnt hagsmunamál þjóðarinnar að ræða. En það stingur allmjög í stúf við þá reynslu, sem við höfum af framkvæmdum í þessum efnum og þá sérstaklega nú seinustu 6—7 árin, eftir að skriður komst á þetta mál með skipun þeirrar n., sem hér hefur verið vikið að og framlagningu þess frv., sem hún samdi. En frá þeim tíma og allt til þessa dags hefur raunverulega lítið sem ekkert gerzt í þessum málum, sem umtalsvert er.

Sú ræða, sem hæstv. menntmrh. hélt áðan, var mér að nokkru kunn, af því að ég minnist þess, að hann flutti svo að segja nákvæmlega sömu ræðu, þegar þetta mál var til umr. á síðasta þingi vegna fsp. frá mér um það efni. Þá staðhæfði hæstv. ráðh., eins og hann reyndar gerir nú, að málið hefði engan veginn hlotið þá athugun og þá rannsókn, sem nauðsynleg væri til þess að frambærilegt væri að leggja það fyrir hv. Alþ. Nú er hæstv, ráðh. vafalaust manna kunnugastur því, að með þessu er hann að fella áfellisdóm um samráðh. sinn og samflokksmann, hæstv. núv. sjútvrh., sem hefur haft frv. frá fiskiðnskólanefndinni undir höndum allt frá árinu 1966, án þess, að því er virðist, að gera nokkurn hlut í því að kynna það, hvað þá að koma því á framfæri á hv. Alþ. En það er ekki sízt þeirra mál, flokksbræðranna, hvernig frammistaða hæstv. sjútvrh. í þessu máli er metin og hygg ég, að betri eða óvilhallari dóm um frammistöðu hæstv. sjútvrh. í þessu efni verði tæpast hægt að fá en þann, sem hæstv. menntmrh. lét uppi áðan um undirbúningsleysi málsins.

Hæstv. menntmrh. er með þá afsökun, sem hann raunar hafði í fyrra, að ekki væri ljóst, hvort heppilegt væri, að fiskiðnskóli væri sjálfstæð stofnun, sjálfstæður skóli í skólakerfi okkar, eins og fiskiðnskólanefndin var öll sammála um, að heppilegt væri, — allir þeir menn, sem í fiskiðnskólanefndinni sátu, voru um það sammála — eða hvort bregða bæri á það ráð að setja þetta mikilvæga nám inn í Tækniskólann. Hann talaði enn fremur um, að það þyrfti að vera samhengi í þessari menntun í hinu almenna skólakerfi og það þyrfti að taka afstöðu til þess, hvernig ætti að koma kennslu í fiskvinnslumálefnum inn í hið almenna skyldunám skólanna. Nú vil ég halda því fram, að þótt segja megi, að viss rök hnígi að því, að ekki væri óeðlilegt, að sumir þættir fiskiðnfræðslunnar færu fram í Tækniskóla Íslands, þá séu þau rök þó þyngri á metunum og hafi augljósa kosti umfram það, að stofna til sjálfstæðs fiskiðnskóla, eins og fiskiðnskólanefndin var öll sammála um. Þetta leiðir m.a. af því, að allir kunnugir þessum málefnum eru sammála um, að fiskiðnskóla þurfi að reka í sambandi og samvinnu við starfandi frystihús. Bezt væri að sjálfsögðu, að það yrði gert í sama húsnæðinu, ef það einhvers staðar væri fyrir hendi, a.m.k. í næsta nágrenni þess. Í öðru lagi kemur svo það, sem við hér á hv. Alþ., hvar í flokki sem við erum, höfum verið með miklar áhyggjur af og segjumst allir vilja í einhverju um breyta og það er sú þróun, að yfirleitt hafa skólar landsmanna allir komið hingað til Reykjavíkur, eða svo til allir. Tækniskólinn er hér, eins og menn vita og það eru engin rök, nema síður væri, að það sé nauðsyn á því, að fiskiðnskóli eða kennsla á þeim fræðum þurfi líka að vera í Reykjavík til viðbótar allri þeirri skólastarfsemi, sem hér fer fram. Við í fiskiðnskólanefndinni vorum allir sammála um, og það er í frv. því, sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum hér, sem er algerlega í samræmi við það frv., sem fiskiðnskólanefndin undirbjó — í því er ákveðið, að skólinn skuli vera á Suðvesturlandi. Og ég fyrir mína parta og fleiri í fiskiðnskólanefndinni höfum látið þá skoðun okkar uppi, að við teljum, að þessum skóla sé bezt fyrir komið í Keflavík af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki að rökstyðja hér, af því að ég vil ekki lengja umr. með því að fara að telja þau augljósu rök, sem til þess liggja.

Ég held, að þetta stóra mál undirstriki vel, að ekki einungis á æðstu stöðum meðal ráðamanna, heldur og víðast um þjóðfélagið þurfi að knýja fram gjörbyltingu á því hugarfari, sem landsmenn almennt því miður hafa eða virðast hafa til fræðslu í sambandi við fiskvinnslu. Við vitum, að kröfur markaðanna um vöruvöndun eru sífellt harðnandi og fiskvinnsla og fiskiðja í víðtækustu merkingu er, eins og fyrri flm. vék hér að áðan, er að verða sérgreint skólafag víðast hvar með þjóðum, sem vilja starfa af skynsemi að þessum málefnum. Það hlýtur að koma að því hér fyrr en síðar, að sá hugsunarháttur lúti í lægra haldi með þjóðinni almennt, að það sé nægilegt í þessum efnum, að t.d. eldri matsmaður, sem starfar við frystihús, kenni yngri manni, sem kemur inn algerlega ómenntaður, það sem hann hefur lært vegna starfa síns undanfarandi ár. Þessum málum verður aldrei kippt í lag, ef sá hugsunarháttur á að verða viðurkenndur í verki, að ekki sé öðruvísi staðið að þessum fræðslumálum sjávarútvegsins, en gert hefur verið til þessa. Við fengum smá aðvörun um, hvað það getur kostað þjóðina sem heild, ef við ætlum að halda áfram sama sofandahættinum um þetta og verið hefur. Ég á hér við þá skemmdu vöru, sem upplýst var, að seld var á Bandaríkjamarkaði nú fyrir nokkru síðan og vakti talsvert umtal og blaðaskrif hér.

Þessi afskiptasemi eða þessi léttúð í sambandi við framleiðslumál okkar í sjávarútveginum speglast víðar í þjóðlífinu. Það er t.d. eftirtektarvert, að í íslenzkri fræðslulöggjöf, skilst mér, að til séu um 60 löggiltar iðngreinar. En í allri fræðslulöggjöfinni er ekki viðurkennt, að til sé iðngrein, sem heitir fiskiðnaður. Það mun ekki vera stafkrók að finna, er lýtur að þeim mikilvæga málaflokki. Og þó á þessi þjóð kannske ekki meira undir öðru um langa framtíð, en því að okkur takist að þjálfa og fræða starfsfólk fiskiðnaðarins það vel, að við getum í krafti þeirrar þekkingar, sem þetta fólk hefur og vegna þess að við eigum að geta fengið gott hráefni hér við land, framleitt betri vöru, sem við seldum dýrar en aðrir keppinautar okkar og á þann hátt haldið uppi þeim lífskjörum, sem við höfum kynnzt á Íslandi síðustu tvo áratugina og viljum allir reyna að halda. Það eru engir smáræðis hagsmunir, sem eru í húfi, að eitthvað sé gert í þessum málum, svo að um muni.

Ég athugaði litillega, hvað þau fyrirtæki væru mörg, sem þyrftu nauðsynlega á því að halda, að menntaðir yrðu bæði verkstjórar og matsmenn og jafnvel framkvæmdastjórar í sambandi við fiskiðnaðar málefni. Mér sýnist, að í landinu muni nú vera starfandi á milli 90—100 hraðfrystihús, um 200 aðilar, sem framleiða saltfisk á marga markaði, um 180—190 skreiðarframleiðendur, eða þeir voru það til skamms tíma, það hefur kannske eitthvað breytzt í þeim efnum, vegna borgarastyrjaldarinnar í Nígeríu. Við munum hafa um 60—70 síldar— og fiskimjölsverksmiðjur í landinu. Við höfum um 15 niðursuðuverksmiðjur í landinu, við höfum tvær lýsishreinsunarstöðvar í landinu og eina lýsisherzlustöð og þar á ofan höfum við upp undir 200 söltunarstöðvar í landinu. Sú mikilvæga starfsemi, sem fram fer í öllum þessum fyrirtækjum og er að langmestu leyti undirstaða þeirra lífskjara, sem við Íslendingar njótum, hún líður öll fyrir það; að það vantar sérþjálfað kunnáttufólk til þess að vinna að þessum verkum. Og fiskiðnskólinn er fyrsta og veigamesta skrefið, sem við getum stigið til þess að bæta úr í þessum efnum.

Nú munu vera starfandi í sambandi við fiskiðnaðinn um 20 verkfræðimenntaðir menn. Flestir þeirra, eða rúmur helmingur, starfar á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Við þyrftum vissulega að hafa fleiri verkfræðinga og verkfræðimenntaða menn, sem störfuðu á þessu sviði, af því að við þyrftum að hafa fleiri rannsóknastofnanir en þá einu, þar sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er. En hlutverk fiskiðnskólans hefur ekki af okkur flm. eða þeim, sem t.d. skipuðu fiskiðnskólanefndina á sínum tíma, verið hugsað slíkt, að þar yrðu framleiddir háskólamenntaðir menn eða þar væru verkefni fyrir háskólamenntaða menn. Hlutverk hans er fyrst og fremst, eins og vikið hefur verið að áður, að mennta menn til þess að geta orðið matsmenn, verkstjórar, framkvæmdastjórar og eftirlitsmenn í þessum fræðum. Það er þar, sem kreppir fyrst og fremst að í þessum efnum. Það er þar, sem slysin geta orðið stærst og okkur dýrust og það er að þessu hlutverki, sem fiskiðnskólinn mundi fyrst og fremst vinna. Hitt er svo annað mál, að víða með þjóðum,— sem lengra eru komnar og eru ríkari en við, fer mikill og verulegur hluti fiskiðnfræðslunnar fram í háskólunum. Og það væri hugsanlegt, að hér við okkar háskóla, Háskóla Íslands, þar sem hefur verið stofnaður vísir að efnafræðideild, mætti taka inn í þá deild eða í samvinnu við hana vissan þátt menntunar í fiskiðnfræðslu og þá fyrst og fremst fyrir fólk, sem ætlaði að starfa í Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eða öðrum hliðstæðum stofnunum, ef þær verða til hér í landinu.

Ég vil svo ekki lengja þessar umr. Ég vil undirstrika, að hér er um mjög mikilvægt málefni að tefla, sem af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur verið sýnt vítavert afskiptaleysi á undanförnum árum. Hún hefur algerlega sofið á verðinum og afsakanir eins og þær, sem hæstv. menntmrh. hafði hér frammi áðan, verða ekki teknar lengur gildar af hugsandi mönnum um þessi mál. Nú er það krafa stærri hóps, en nokkru sinni í þessu þjóðfélagi, að einhverjar framkvæmdir verði í þessum efnum, af því að mönnum dugir ekki lengur óljóst tal um eitthvert undirbúningsleysi, sem sagt er, að sé þröskuldur í vegi þessa máls.

Guðlaugur Gíslason: Herra forseti. Ég tel það vel, að þetta mál um fiskiðnskóla sé komið hér inn á hv. Alþ. til umr. og væntanlega til einhverrar endanlegrar afgreiðslu. Ég get vel tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að þetta mál hefur legið allt of lengi niðri. Það komst á það hreyfing, sem hér hefur verið skýrt frá, er fyrir nokkrum árum síðan var skipuð n., sem vann að mínum dómi mjög gott starf og skilaði ýtarlegu áliti, að ég hygg fyrir 4 árum. En síðan hefur ekki neitt um málið heyrzt síðan á síðasta þingi, að fsp. var gerð um það og aftur nú, að þessu hefur verið hreyft í því frv. til l., sem hér er til umr.

Ég þarf ekki að þessu sinni að tala lengi um málið, vegna þess að eins og fram hefur komið, þá er ég með annað frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum og mun að sjálfsögðu gera grein fyrir málinu, þegar það kemur til umr. En mér þótti rétt nú við þessa 1. umr. um þetta mál að gera stutta grein fyrir því, hvers vegna ég kom fram með sérstakt frv., en flutti ekki brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég las þetta frv. mjög gaumgæfilega, þegar það var afhent þm. og sá, að ef ég ætti að geta fylgt því, þá þyrfti að gera á því að mínum dómi mjög víðtækar breytingar, ef það ætti að þjóna því markmiði, sem Vestmannaeyingar hafa gert sér hugmyndir um í sambandi við fiskiðnskóla. Ég er t.d. ekki sammála flm. eða þeirri n., sem skilaði því áliti, sem frv. þetta er byggt á, að það skuli endilega vera í l., að skólinn skuli starfa í eigin húsakynnum, þar sem fram fari bæði bókleg og verkleg menntun og þar sé einnig aðstaða til heimavistar fyrir nemendur. Ég hygg, að það sé kannske þetta ákvæði, sem mjög hefur orðið til þess, að frv. eða álit n., sem afhent var sjútvrh. á sínum tíma, hefur ekki séð dagsins ljós hér í sölum Alþ. — það sé kannske þetta ákvæði, sem þar hefur nokkuð tafið, því að ef það á að vera fyrsta skrefið að byggja slíka stofnun, eins og þarna er gert ráð fyrir í 3. gr. þessa frv., þá hygg ég, að allir, sem nokkuð hafa kynnt sér þetta mál, sjái, að þá erum við komnir með stofnun, sem kostar a.m.k. tugi millj. ef ekki stærri upphæð. Ég tel, að þetta mál sé orðið það aðkallandi, að fiskiðnskóli verði að fara af stað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, bæði til kennslu í bóklegu námi og einnig í verklegu námi. Ég tel, að það megi ekki bíða eftir því að hafizt verði handa um byggingu fyrir skólann, þó að það sé að sjálfsögðu mjög æskilegt og þó að ég sé sannfærður um, að það komi á síðari stigum málsins, en þá endar það með því, að byggt verður sérstakt fiskvinnsluhús fyrir slíkan skóla sem við erum hér um að ræða. Og ég tel, að það þurfi ekki endilega að byrja á slíkri byggingu, heldur eigi skólinn að fara af stað við þær aðstæður, sem eru við hendi víða á landinu, bæði hér á Suðvesturlandi, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að skólinn verið staðsettur og í Vestmannaeyjum og víðar.

Það má að sjálfsögðu fara margar leiðir í sambandi við stjórn skólans. Ég tel það ekkert atriði, en einhvern veginn finnst mér, að 8 manna skálanefnd, skipuð mönnum frá ýmsum hagsmunasamtökum útgerðarinnar, sé ekki sú skólanefnd, sem ég hefði talið eðlilegasta. Við vitum það vel, að innan fiskiðnaðarins er nokkur togstreita á milli ýmissa greina. Það otar þar að sjálfsögðu hver sinni iðngrein fram og ég tel, að í frv. um fiskiðnskóla eigi ekki að fara inn á þá braut að telja það sjálfsagt, að skólanefnd fiskiðnskólans sé skipuð mönnum úr hinum ýmsu greinum. Þetta verður skólamál og þó að það að sjálfsögðu verði alltaf í mjög nánum tengslum við fiskiðnaðinn og þá menn, sem þar starfa, þá tel ég þó ekki, að það sé endilega nauðsynlegt, að skólanefndir séu skipaðar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir.

Varðandi staðsetningu skólans, þá vita allir um mína afstöðu til þess hluta málsins. Ég hef áður látið það koma fram hér á Alþ., að ég tel, að skólinn eigi að vera staðsettur í þeirri verstöð, sem langstærst er, hvað útgerð vélbáta og fiskvinnslu áhrærir, en það er eins og kunnugt er í Vestmannaeyjum. En ég ætla þó ekki að fara að rökstyðja það nánar. Ég mun gera það, þegar það frv. verður tekið ti1 umr. hér, sem ég hef flutt um sérstakan fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Það er ósköp eðlilegt, að við séum ekki sammála um þetta í öllum atriðum, þeir menn, sem áhuga hafa fyrir þessu máli og þarf það ekki að valda neinum töfum á afgreiðslu málsins að mínum dómi. Ég tel t.d., að 9. gr., sem gerir ráð fyrir tveggja ára skóla í frv., ætti að vera nokkuð á annan veg og kemur það fram í því frv., sem ég hef lagt fram, að ég tel þetta of stuttan tíma. Fyrir 17 ára pilta, sem koma út úr gagnfræðaskóla, tel ég, að 6 mánaða verkleg þjálfun og það bóklega nám, sem gert er ráð fyrir, sé ekki nægileg undirstaða til að útskrifast úr þessum skóla. Þeir hafa ekki orðið nægilega verkþjálfun eða reynslu og það mundi kannske valda þeim erfiðleikum að fá stöðu, sem þeir mundu telja við sitt hæfi, ef þeir útskrifuðust úr skólanum aðeins 19 ára gamlir með ekki nema 6 mánaða verklegt nám á baki sér. Það hefði verið að mínum dómi æskilegt, að menn hefðu beinlínis þurft að skila vottorðum um, að þeir hefðu unnið svo og svo lengi við fiskiðnað, áður en þeir væru teknir gildir sem nemendur í fiskiðnskólann. En ég hef fallizt á þau rök, sem bent hefur verið á í þessu sambandi, að það getur verið verra að slíta námið þannig í sundur, þó að þetta sé að vísu ekki gert í sumum iðngreinum öðrum. Það geti verið verra að slíta námið í sundur, þannig að heppilegra mætti telja, að þeir, sem áhuga hafa haft fyrir að fara í fiskiðnskóla, færu þar í áframhaldandi nám, þegar þeir hafa lokið sínu námi í gagnfræðaskólum.

En það, sem hæstv. ráðh. kom hér inn á, er hann gerði grein fyrir störfum þeirrar n., sem hann hefur skipað til að skoða þetta mál betur, þá er það án efa mjög gott, að slík n. skuli vera starfandi og hugmyndir séu um það að fella þetta inn í æðri menntun. En ég tel, að það sé bara næsta stig fiskiðnskólamálsins, en það þurfi fyrst og fremst að koma á nú þegar ég mundi segja þegar á næsta hausti — fiskiðnskóla, sem útskrifaði menn með þá fræðslu, bæði bóklega og verklega, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og því frv., sem ég hef einnig lagt fram. Hitt kemur að sjálfsögðu á síðara stigi að fella fiskiðnfræðsluna inn í æðra menntakerfi landsins og ég tel, að sú hugmynd, sem ráðh. er með, megi ekki verða til þess að tefja fiskiðnskólamálið, sem nú hefur verið hreyft hér á Alþingi.

Hæstv. ráðh. lagði til, að frv. yrði vísað til menntmn., ekki sjútvn. Þó að skólamálin almennt heyri að sjálfsögðu undir menntmn., þá tel ég, að þetta mál sé þess eðlis, að það sé eðlilegra, að það fái athugun í sjútvn., því að þar eru þó aðilar, sem kunnugir eru fiskiðnaðinum, þekkja allar aðstæður þar og ættu að vera mjög dómbærir um það, inn á hvaða leið skuli fara í þessum málum. Þannig að ég vil láta það koma fram, að ég tel að bæði þetta frv., sem hér hefur verið til umr., og einnig það frv., sem ég hef lagt fram, eigi að fá athugun í sjútvn. frekar heldur en í menntmn.

Eins og ég sagði í upphafi, þá skal ég ekki fjölyrða meira um málið að þessu sinni, ég mun gera það, þegar að því kemur, að ég geri grein fyrir því frv., sem ég hef lagt hér fram, um sérstakan fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum.

Sverrir Júlíusson: Herra forseti. Út af því máli, sem hér er til umr., langar mig að segja nokkur orð. Mér finnst það mjög miður, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera í salnum til að hlusta á, hvað þm. segja um þetta mál, en hann getur að sjálfsögðu lesið það, sem sagt verður, en það er nú svo, að sumir hafa heyrnarminni og aðrir sjónminni. Það hefur komið fram hjá flm. þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., að það séu 10 ár, síðan þessu var fyrst hér hreyft á þinginu og það mun rétt vera. Ég man það, að áður en ég kom á þing fyrir 7 árum, þá var ég í fiskmatsráði, fiskimálanefnd og Landssambandi ísl. útvegsmanna — á þessum þremur stöðum — búinn að mæla eindregið með því og af fullum hug, að það yrði athugað um að setja á stofn fiskiðnskóla á landinu. Þáltill. var svo ekki samþ. fyrr en á þinginu 1963–1964 og var ég einmitt í allshn. Sþ., þegar gengið var frá þessu máli.

Ég hef satt að segja alltaf vænzt þess, að það mundi verða meira en nefndaskipanir og álitsgerðir, sem út úr þessu kæmi. Vissulega er stórt og mikið álit frá fiskiðnskólanefnd, sem ég skal ekki segja, að sé í öllum atriðum það, sem við treystum okkur til að samþykkja í dag, en það er áreiðanlega mikill fróðleikur í því, sem hægt .er að vinna úr og getur verið undirstaða þess, sem gera þarf. Ég segi það, að ég er því mjög fylgjandi, að þetta mál komist af athugunarstigi fyrr en seinna. En aðeins til þess að undirstrika, að þetta er ekki það, sem mér hefur komið í hug í dag, þá vil ég lesa hér upp kafla úr ræðu, sem ég flutti fyrir rúmu ári á landsfundi Sjálfstfl. um sjávarútvegsmál og þess háttar og kom þar inn á iðnskóla. Ég sagði m. a.:

„Menn hafa mjög mikið um það rætt, að skólakerfi landsins væri ekki í nógu góðum tengslum við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar og hafa þeir nokkuð til síns máls, ekki hvað sízt, að því er varðar kennslu í þéttbýli. Að mínu viti gegnir nokkru öðru máli í smærri byggðarlögum, þar sem unglingarnir alast upp við að vinna þessi verkefni og í sveit, þar sem verkefnin eru alltaf við höndina. Ég man, hvað ég varð undrandi fyrir nokkrum árum, þegar háttsettur háskólaborgari sagði mér, að hann hefði aldrei séð lóðaröngul. Ég tel, að það sé brýn nauðsyn, að hagnýt fræði um undirstöðuatvinnuvegi okkar verði í það minnsta meira kennd og kynnt t.d. í gagnfræðaskólunum, en verið hefur til þessa, m.ö.o. að hagnýt verknámskennsla verði tekin upp í ríkari mæli en verið hefur. Í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum um sjávarútveginn og framtíðarverkefni, er þar bíða úrlausnar, tel ég, að sjávarútvegurinn þurfi í mjög ríkum mæli í framtíðinni á vel menntuðum háskólagengnum mönnum að halda við úrlausn hinna mörgu tækni— og vinnsluverkefna, svo sem á sviði skipatækni, fiskifræði, fiskiðnfræði, haffræði, efnaverkfræði, véla— og kælitæknifræði og ýmissa rannsóknarfræða. En á það vil ég leggja áherzlu, sem ég hef drepið á áður, að allir þessir aðilar þurfa að hafa sem nánasta samvinnu og samstarf við þá menn, sem um árabil hafa alizt upp við þessi störf og vita oft ótrúlega mikið um það, sem við í dag köllum vísindi og þá vil ég einnig á það benda, að í þessum efnum dugar engin 30—36 tíma vinna. En eitt vil ég þó láta koma fram, að við þessar 200 þús. sálir, sem byggjum þetta land, skulum ekki vera svo miklir draumóramenn að halda, að við getum í nánustu framtíð sett á stofn við Háskóla Íslands allar námsgreinar, sem þörf er á til að veita atvinnuvegum okkar alla tækni— og vísindamenntun og þjónustu, sem þeir þarfnast. Þar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og leita í nánustu framtíð til vizku brunna nágrannaþjóðanna, eins og hingað til. Aftur á móti tel ég, að full þörf sé á, að fiskiðnskóli verði settur á stofn hér á landi, svo fljótt sem kostur er á, en hann þarf ekki nauðsynlega að vera reistur í þéttbýliskjarnanum og hef ég nú um sinn verið með í huga stað, þar sem byggja mætti á fiskiðnfræði, sem fyrir er og ætti að koma að góðum notum. Fiskiðnskóli mundi að sjálfsögðu taka við því hlutverki, sem fiskmat ríkisins hefur af veikum mætti staðið fyrir um nokkur undanfarin ár og verður þá framhald af þeirri viðleitni, sem sjútvrn. hefur falið Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins að koma á stofn nú í haust og veita forstöðu.

Það væri að vísu freistandi að ræða þetta nánar, en tímans vegna verð ég að láta hér staðar numið.“

Þetta sagði ég þá og það var við þær aðstæður. En það kemur einmitt fram þarna, að það sé mikil þörf á því að mennta þjóðina í sambandi við þetta, en það þarf einnig að byrja á byrjuninni. Ég segi, að byrja á byrjuninni. Enda þótt það séu ýmsar brotalamir í sambandi við þetta, þá hefur meðferð á fiski verið kennd aðilum, sem sjá um rekstur vinnslustöðva. Fisksölufyrirtækin eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusambandið, S.Í.S. og fleiri og fleiri hafa einmitt lagt fram mikla fjármuni til þess að kenna þetta. Það breytir því ekki, að það þarf einmitt að byrja á því að innræta bæði góða meðferð, eins og hv. 2. þm. Reykn. minntist á hér áðan, í gagnfræðaskólum. Ég viðurkenni það, að þetta kom fram hjá hæstv. menntmrh., þessar hugsanir, að það þyrfti að taka þetta allt föstum tökum og byrja á því stigi, en ég get ekki varizt þeirri hugsun eftir þá ræðu, sem hann flutti hér í fyrra sem svar við fsp. um þetta mál og við yfirlestur á þeirri ræðu, sem ég las núna um daginn, að þá finnst mér, að það sé raunverulega ekki alveg hinn rétti andi í sambandi við athugun á þessu máli. Ég er ekki að segja, að í öllum atriðum sé hægt að fara eftir því frv., sem hér liggur fyrir frá hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2, þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, og einnig má vel vera að það frv., sem hv. 3. þm. Sunnl. hefur flutt og minntist á hér áðan, það þurfi eitthvað að samræma í þessu og athuga það. En á framkvæmdastig þarf þetta að koma fyrr en síðar. Við vitum það, að hv. þm. Guðlaugur Gíslason mun hafa flutt þetta m.a. vegna þess, að í Vestmannaeyjum hefur verið samþ. að leggja fé til þess að koma á stofn svona skóla. Ég veit það, að í Reykjaneskjördæmi og sérstaklega í Keflavík er einnig mikill áhugi fyrir þessu og iðnskólanemendur héldu fund um þetta í fyrra og vilja mjög vel, að þetta sé athugað. Nú skýrði hæstv. menntmrh. frá því, að það væri ný n., sem hefði verið skipuð til þess að athuga um þetta frekar og ég verð að segja það, að ég saknaði þess mjög, að hvorki fiskmatsstjóri né nokkur frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var í þeirri n. Það er ekki af því, að ég beri neitt vantraust til þessara aðila, þeir eru áreiðanlega vel hæfir til sinna verka, en að mínu viti þá mundu þeir þurfa að fá leiðbeiningu frá þeim, sem hafa verið í sem nánustum tengslum við sjávarútveginn.

Ég skal ekki við þessa umr. orðlengja þetta mjög mikið, en ég held, að í huga hæstv. menntmrh. sé meira um það að ræða að veita æðri menntun í þessum efnum. Við þurfum vissulega á að halda mönnum með æðri menntun, fiskiðnfræðingum og doktorum og verkfræðingum og það má vel vera að það verði, áður en mjög langt um líður, hægt að stofna embætti við verkfræðideild Háskólans til þess að kenna þessi efni. En þetta er mjög langt og mikið nám. Við Íslendingar eigum t.d. fiskiðnfræðing, sem var hvorki meira né minna en 8 ár að læra þessar fræðigneinar vestur í Ameríku fyrir mörgum árum. Það sem var í mínum huga, var að það yrði stofnaður fiskiðnskóli, sem veitti undirstöðukennslu við meðferð fisks, svo kunnátta í þessum efnum mundi verða almennari en nú er hjá ungu fólki, þegar það kemur út í vinnslustöðvarnar. Ég veit, að það eru uppi hugmyndir um, að það eigi að stefna að því að setja á stofn fiskiðnskóla, fiskiðnfræðingaskóla o.s.frv. og það eru vissulega athyglisverðar hugmyndir, sem ég hef séð um það, að það verði byrjað á byrjuninni og námið verði í 5 liðum og það verði viss réttindi, sem hvert námsár veitir, eftir að komið er á annað eða þriðja námsár. Ég held, að við verðum að sjálfsögðu að leita talsvert til Norðmanna og það væri alls ekki úr vegi, að við tækjum þá okkur til fyrirmyndar í sambandi við kennslu í fiskiðnaðinum.

Ég sagði í þessari ræðu, sem ég vitnaði í áðan, að ég teldi það ekki endilega víst, að það væri nauðsynlegt að þetta væri í þéttbýlinu. Ég skal ekki halda fast við það og ef sveitungar mínir í Keflavík mynduðu aðstöðu til þess að koma þessu upp, þá mundi ég fagna því mjög. Ég hef kannske verið með það í huga, að Norðmenn hafa þann hátt á, að þeir hafa fiskiðnskóla í Vardö, sem er á 70. breiddargráðu og er 4—5 þús. manna bær.Þar kenna þeir í fyrsta lagi verkstjórum 4 mánuði og þar er aldursmarkið 35 ár til þess að fá inngöngu í skólann. Það er aðeins til þess, að þeir geti fullkomnað sig í sinni þekkingu í sambandi við þau störf, sem þeir hafa unnið. Það mætti kannske einmitt líkja þessu við þau námskeið, sem haldin hafa verið á vegum sjútvrn. á undanförnum árum. Í fyrra var settur á stofn skóli undir skólastjórn Sigurðar Haraldssonar. Milli 30 og 40 menn munu hafa sótt hann og hafa þeir áreiðanlega haft gott af, þótt stuttur tími væri.

En svo er næsta stigið, þ.e. 10 mánaða námskeið og það fær enginn að fara á það yngri en 18 ára. Það námskeið veitir ekki svo ýkjamikil réttindi. Það kennir meðhöndlun á fiski, bæði skreið, saltfiski, skelfiski o.s.frv. og helmingur tímans fer í bóklegt nám. Síðan er sex mánaða námskeið, sem þessir aðilar geta farið í þessum skóla og veitir það þeim þá rétt til verkstjórnar, matsréttindi o.s.frv. Það eru 10 Íslendingar, sem hafa sótt þennan skóla. Það munu vera 3 Íslendingar þar núna, en 10 munu í það heila hafa sótt þennan skóla. Hafa allir þeir, sem ég hef hitt af þessum aðilum, lokið upp einum munni um það, að þeir hafi haft mjög gott af þessu og þetta sé ágætur skóli. Eftir því sem mér er tjáð, þá eru núna uppi hugmyndir um það, að þessi skólaganga veiti aðilunum rétt að fara í matvælaiðnskóla og ég veit, að það er einn skóli í Þrándheimi í Noregi, sem útskrifar matvælaiðnfræðinga, ekki eingöngu í fiski, heldur einnig í kjöti og þess háttar. Það má segja að þetta allt saman þarf tíma til athugunar, en þeir sem taka að sér athugun á þessu, verða að kafa verulega ofan í það. Ég hef í mínum huga álítið, að þessi skóli væri einmitt líkur tækniskóla, en mér finnst hæstv. menntmrh. leggja höfuðáherzlu á, að þessi fræði verði kennd þar. Nei, það þarf að byrja á byrjuninni, það er mitt álit. Þessir skólar tveir, sem ég hef minnzt á, eru ríkisskólar, en í Stavanger er skóli, sem kennir niðursuðufræði og það eru einstaklingar, sem reka hann. Það er náttúrlega alls ekki hægt fyrir okkur að gera þetta allt undir einu þaki og koma þessu öllu fyrir á einum og sama stað. Það þarf að byrja á byrjuninni. Til viðbótar við þetta hefur mér verið tjáð, að í Lófóten í Noregi væri verið að gera tilraun með iðnfræðslu í fiskmeðferð og það er ekki langt síðan það byrjaði, en það er kannske næst þeirri hugmynd, sem iðnskólanemendur í Keflavík voru með í huga í fyrra, þegar þeir héldu sinn fund. Þetta þarf vissulega að athuga, en það er náttúrlega orðinn langur tími, sem þetta er búið að vera í athugun og ég segi það, að í heild er ég því mjög fylgjandi, að til framkvæmda komi. Ég er ekki að segja, að ég sé fylgjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir, algjörlega eins og það liggur fyrir og ekki kannske frekar frv. hv. 3. þm. Sunnl. eins og það liggur fyrir, en að málið komist af umræðustiginu, mundi ég telja mjög mikla nauðsyn og það fyrr en síðar.

Flm. (Ingvar Gíslason): Herra forseti. Ég tel, að þessar umr., sem hafa orðið nokkuð langar, hafi líka orðið gagnlegar, þó að eitt og annað skorti á niðurstöðurnar, til þess að við getum verið ánægðir með þær. Það kannske sannar bezt, það sem ég sagði hér í frumræðu minni um áhuga ríkisstj., að það hefur lengst af verið þannig, meðan þessar umr. hafa staðið nú, á annan klukkutíma, að hér hefur varla sézt nokkur ráðherra í salnum. Lengst mun þó, held ég, hæstv. landbrh. hafa setið undir þessum umr., en auðvitað var hann búinn að fá nóg af þeim, eins og hæstv. menntmrh. virtist líka gera, þó hann hafi í upphafi tekið þátt í umr., en mér skilst, að hann fari með þessi mál núna. Nú sé ég, að hæstv. utanrrh. er kominn í salinn og líklega þá sem fulltrúi ríkisstj. til þess að fylgjast með þessu mikilsverða máli. Ég man nú ekki, hvort hann fór með þetta mál á sínum tíma, þó minnir mig það, að sem sjútvrh. hafi hann e.t.v. skipað n., sem upphaflega fór með þetta mál hér á vegum Alþ., fiskiðnskólanefndina frá 1964. Ég man ekki betur, en að hann hafi þá verið sjútvrh., en fljótlega upp úr því tók eftirmaður hans, hæstv. ráðh. Eggert G. Þorsteinsson, við þessum málum og líklega hafa þau lengst af verið á hans vegum, en nú vill svo til að hæstv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason kvað vera búinn að taka við þessum málum og hann er að vísu búinn að flytja hér eina ræðu um þetta efni, en svo er hann farinn út úr þingsalnum, áður en umr. er lokið og nokkur niðurstaða fæst í þessu máli. Þó hafa komið hér fram margs konar sjónarmið, sem vissulega hefði verið hollt fyrir ráðh. að hlusta á.

Það er náttúrlega erfitt að fara að taka til umr. ræðu hæstv. menntmrh., að honum fjarstöddum, en því fer fjarri, að ég hafi verið ánægður með margt af því, sem hann hafði að segja. Þó virtist mér það vera niðurstaðan af ræðu hans, að það væri stefnt að því af hálfu hans og ríkisstj., að hægt yrði að taka upp kennslu í fiskiðnfræðum, þ.e.a.s. verkþjálfun fyrir verkstjóra og slíka, á næsta hausti. Gott er, ef satt er. Hins vegar virtist mér af ræðu hæstv. ráðh., að hann og ráðunautar hans vissu ekki enn, í hvaða formi þessi kennsla skyldi vera. Ég held þess vegna, að það standi í öllum aðalatriðum, það sem við höfum lagt til hér, við hv. 2. þm. Reykn., að heppilegast muni vera að halda sig að áliti fiskiðnskólanefndarinnar. Það er áreiðanlega sá bezti undirbúningur, sem þetta mál hefur fengið hingað til og eins og ég sagði í frumræðu minni, þá hef ég enga trú á því, að þetta mál breytist verulega til batnaðar, þó að því verði hent á milli n. og rn. og stofnana nú næstu misseri eða e.t.v. ár. Ég sé ekki, að svo verði, því eins og ég segi, þá hefur þetta mál fengið mjög góðan undirbúning og verið rækilega kynnt stjórnvöldum og það er raunverulega ekki verið að gera annað nú en flækja þetta mál, draga það á langinn og drepa því á dreif.

Hæstv. menntmrh. minntist á það, að það þyrfti að gera eitt og annað hér í verkmenntun eða verknámi á gagnfræðastigi o.s.frv. Þessi skóli, sem við flytjum frv. um, fjallar engan veginn um það, hvaða nám skuli stunda á gagnfræðastigi. Það er mál út af fyrir sig. Ég er því alveg sammála, að það er mikil nauðsyn á því að taka verknámið til endurskoðunar og að gera verknámsdeildir gagnfræðaskólanna miklu virkari en þær eru og raunverulegar verknámsdeildir, en ekki að þær séu kannske bekkir fyrir tornæmari nemendur, eins og nú virðist vera framkvæmt í ýmsum gagnfræðaskólum. Vissulega er þörf á því að breyta þarna til, en þessar vangaveltur mega ekki verða til þess, að menn horfi fram hjá aðalmálinu, sem vitanlega er það, að við fáum það þjálfaða starfslið í frystihúsin og fiskvinnslustöðvarnar, sem brýn nauðsyn er til. Við erum áreiðanlega að því leyti til mjög á eftir öðrum þjóðum, sem reka slíkan iðnað og hljótum og verðum að taka þær til fyrirmyndar í þessu efni. Það hefur líka komið fram hér, eins og raunar oft áður, að við stöndum ekki vel að vígi með menntun starfsfólks í fiskiðnaðinum, sem er þó okkar höfuðatvinnugrein.

Hv. 3. þm. Sunnl. flytur frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Ég minntist á það í ræðu minni áðan og taldi þá, að það væri mjög lítill munur á þessum frv., því, sem við flytjum, hv. 2. þm. Reykn. og ég og því frv., sem hann flytur og ég hygg nú, að ég breyti ekki skoðun minni um það, að þessi munur er ekki meiri en svo, að ef hans till., þar sem á milli ber, þykja fýsilegri, þá held ég, að það væri fyllilega á valdi þn. að breyta því. Það ber nú ekki meira á milli en svo, því um öll höfuðatriðin, markmið skólans o.s.frv., ber lítið eða ekkert á milli. Um það atriði, hvort skólinn eigi að starfa í eigin húsakynnum eða kannske í leiguhúsnæði til að byrja með, þá finnst mér þetta ekki skipta öllu máli, en þó hygg ég, og raunar kom það fram í ræðu hv. þm., að vitanlega verði að lokum svo, að skólinn hljóti að starfa í sínum eigin húsakynnum og hafa sína eigin fiskvinnslustöð — ráða sem sagt sínum húsum og sinni aðstöðu að öllu leyti sjálfur. Það tel ég ákaflega mikið atriði og ég held, að þó auðvitað sé rétt að fara af stað með allri gætni og skynsemi, þá verðum við þó að hafa hug til þess, Íslendingar að búa þannig að þessum skóla frá upphafi, ef við á annað borð reisum hann, að það sé sómasamlegt miðað við það, hvað í húfi er og miðað við það hlutverk, sem honum er ætlað, en það er að efla fiskiðnað okkar, sem er undirstöðuatvinnugreinin í landinu.

Um staðsetningu þessa skóla skal ég ekki verða fjölorður. Við flm. þessa frv. ákváðum það að leggja til grundvallar að öllu leyti álit fiskiðnskólanefndarinnar og þar á meðal að leggja þetta frv. fyrir óbreytt, eins og hún hafði samið það. Ég tel, að það sé það góður nauturinn að þessu frv., að við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir það að bjóða upp á það og ég vil endurtaka það, að ég hef enga trú á því, að það muni neitt lagast eða breytast svo til batnaðar, þó að það gangi nú á milli nýrra n., að það svari kostnaði að láta málið bíða. Hvað varðar staðsetningu þessa skóla, þá breyttum við heldur ekki þeirri grein frv., sem um það fjallar. Og þó að ég sé þm. Norðlendinga, þá sé ég enga ástæðu til þess að fara að gera það að neinu sérstöku kappsmáli, að þessi skóli verði þar niður settur út af fyrir sig. Ég tel það höfuðatriðið, að við fáum slíkan skóla í landið og vissulega þyrfti hann að vera þar í sveit settur, þar sem fjölbreytt fiskframleiðsla á sér stað. Það er án efa mikið atriði og vissulega eru slíkir staðir víða um landið og þeir eru hér suðvestanlands rétt sem annars staðar, ekki endilega í Reykjavík. Það eru til fleiri staðir. Hins vegar ef Sunnlendingar geta ekki komið sér saman um staðarvalið, þá get ég bent þeim á, að við fyrir norðan mundum vel þiggja það að fá fiskiðnskólann settan niður þar.

Ég skal nú ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. En í tilefni af því, að hæstv. menntmrh. lagði til, að þetta mál gengi til menntmn., þá vil ég fyrir mitt leyti segja það, að ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því. Þó tel ég, að sú till., sem ég gerði, um að málið gengi til sjútvn., sé fullt eins eðlileg. En ég skal ekki gera þetta að ágreiningsefni og jafnvel fela það á vald hæstv. forseta að skera úr því.

Umr. (atkvgr.) frestað.

A 12. fundi í Nd., 4. nóv., var fram haldið 1. umr. um frv.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 27 shlj. atkv. og til sjútvn. með 23 shlj. atkv.

Nefndarálit kom ekki, og frv. var ekki á dagskrá tekið framar.

20. Námskostnaðarsjóður. Á 2. fundi í Nd., 13. okt., var útbýtt:

Frv. til 1. um námakostnaðarejóð [15, mál] (þmfrv., A. 15).

A 5. fundi í Nd., 26. okt., var frv. tekið til 1. umr.

Flm. (Sigurvin Einarason) : Herra forseti. Frv. það, sem við hv. 3. þm. Norðurl. v. flytjum á þskj. 15, fluttum við einnig á síðasta þingi, en það varð þá ekki útrætt. Efni frv. er í fáum orðum eftirfarandi:

Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist Námskostnaðarsjóður. Hlutverk sjóðsins á að vera að veita þeim skólanemendum námsstyrki, sem dvelja fjarri heimili sínu við nám. Tekjustofnar sjóðsins eiga að vera annars vegar framlag á fjárlögum, hins vegar 5% gjald á söluvörur Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins, svo og á öl og gosdrykki. Stjórn sjóðsins á að vera kosin af Alþ. Hún á m.a. að annast fjármál sjóðsins og úthluta námsstyrkjum. Það á að vera meginsjónarmið við úthlutun námsstyrkja að jafna svo sem verða má námskostnað þeirra nemenda, sem dvelja fjarri heimilum sínum og hinna, sem nám stunda heiman frá sér daglega. Þetta er aðalefni frv.

Það munu flestir viðurkenna það, að menntun er lífsnauðsyn. Æskufólk hvar sem er í landinu á að hafa jafnan rétt til náms í þeim menntastofnunum, sem þjóðfélagið hefur komið upp. Þar á ekki einn að hafa forréttindi fram yfir annan og þar á heldur enginn að vera hornreka, sem hæfileika hefur til náms. En skólunum verður ekki dreift um landið eins og einhverjum líkamlegum nauðsynjum manna. Alltaf verður mikill fjöldi æskufólks að sæta því að vistast að heiman verulegan hluta árs til skólanáms. Þetta veldur þeim nemendum miklum kostnaði umfram hina, sem nám stunda í heimangönguskóla. Þegar þessi kostnaður er orðinn slíkur, að foreldrar neyðast til þess að neita börnum sínum um skólamenntun, er mikil alvara á ferð, þá er þjóðfélagið farið að bregðast þeirri skyldu sinni að sjá öllum ungmennum fyrir sama rétti til þessara andlegu lífsnauðsynja — til skósanáms.

Á síðasta þingi sendi menntmn. þessarar hv. d. frv. um Námskostnaðarsjóð nokkrum aðilum til umsagnar. Það var mjög liðið á þing og ég ætla, að það hafi aðeins verið komnar umsagnir frá Stúdentaráði Háskólans og Búnaðarfélagi Íslands, áður en þingi lauk. Báðar þessar umsagnir voru jákvæðar og mæltu með frv. Auk þess sendi Búnaðarfélag Íslands samþykkt, sem gerð hafði verið á Búnaðarþingi á s.l. vori, þar sem einnig var mælt með frv. Þá hafa verið gerðar fundarsamþykktir víða um land, þar sem lýst er nauðsyn þess að jafna þennan fjárhagslega aðstöðumun nemenda við nám, þ.á.m. hafði þing Sambands ísl. sveitarfélaga gert slíka samþykkt nú á s.l. sumri.

Það virðist því vera almenn skoðun manna utan þings, að hér sé um aðkallandi réttlætismál að ræða að koma á námsstyrkjakerfi þeim skólanemendum til handa, sem engra styrkja njóta, en bera þungar fjárhagsbyrðar umfram aðra skólanemendur í landinu. Og Alþ. sjálft hefur reyndar viðurkennt þessa þörf á námsstyrkjum með smávægilegri fjárveitingu, sem tekin var upp á síðasta þingi, þótt sú fjárveiting sé reyndar varla nema viðurkenningin ein. Það er nú senn komið heilt ár síðan sú fjárveiting var samþykkt, en námsstyrkjum er engum farið að úthluta enn og mér er tjáð af fulltrúa í menntmrn., að þeim verði ekki úthlutað, fyrr en til komi önnur fjárveiting á þessu þingi og þá báðum fjárveitingunum úthlutað í einu.

Ég gat þess í þingræðu í fyrra, að sú 10 millj. kr. fjárveiting, sem þá var samþykkt til að jafna aðstöðumun nemenda, væri svo litilfjörleg, að enginn yrði öfundsverður af því að eiga að skipta henni milli allra þeirra skólanemenda í landinu, sem siðferðilegan rétt ættu til námsstyrkja. Ég hef orðið helzt til sannspár um þetta atriði, þar sem nú þarf að draga saman tveggja ára fjárveitingu, svo að unnt sé að skipta. En í ofanálag á að útiloka alla nemendur skyldunámsstigsins frá námsstyrkjum og auk þess alla nemendur í öðrum skólum, ef þeir eru í heimavist, að því einu undanteknu, að þeir geta komið til greina að fá einhvern smávægilegan ferðastyrk. En þeim, sem þessari tilhögun ráða, er ekkert láandi og ég er ekki að saka þá um neitt í þessu efni. Fjárveitingin er nefnilega svo lítil, að það verður að grípa til einhverra slíkra ráða sem þessara, til þess að það sé hægt að skipta þessari upphæð. En þetta ætti að vera nægileg vísbending um það, hvort fjárhagsleg vandamál skólanemenda verða leyst með slíkri fjárveitingu sem þessari.

Sá mikli mismunur, sem er á námskostnaði skólanemenda eftir því, hvar þeir eru búsettir langt frá skólum, svo að þeir verði að hverfa að heiman, eða þeir eru búsettir mjög nálægt skólaveggjunum — sá mismunur er fyrir löngu farinn að hafa þau áhrif, að í hið lengra og dýrara nám fara fyrst og fremst þeir, sem gengið geta í skólana heiman frá sér daglega, af því að þeim verður námið miklu ódýrara en hinum. Og því lengur, sem þróunin helzt í þessa átt með sívaxandi námskostnaði á verðbólgutímum, því hraðar nálgast sú skipan alveg sjálfkrafa, að skólarnir verði aðallega fyrir þá, sem búa í næsta nágrenni við þá. Hins vegar munu þó allir viðurkenna, að skólarnir eigi að vera jafnt fyrir allt æskufólk í landinu, hvar sem það er búsett. En það er ekki nóg að viðurkenna þetta, þegar þróunin gengur í öfuga átt, án þess að ráðin sé bót á því.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það nú á þessu hausti, hvernig nemendur menntaskólanna skiptast í byrjun þessa skólaárs nú í haust í heimangöngunemendur, þ.e.a.s. þá sem geta sótt skólana daglega heiman frá sér og í dvalarnemendur, sem ég kalla, þ.e. þá, sem verða að vistast að heiman, meðan þeir eru við námið. Þeir skólastjórar, sem ég hef leitað til í þessum efnum, hafa verið mjög fljótir og greiðir í því að láta mér í té sem allra beztar upplýsingar um þetta efni og á örfáum dögum tókst mér að fá þær frá mjög mörgum skólum, fyrst og fremst öllum menntaskólunum og auk þess frá Háskóla Íslands og frá all mörgum skólum öðrum hér í Reykjavík. Af þessari athugun kemur margt athugavert í ljós. Í menntaskólum Reykjavíkur, þar með talin menntadeild Kennaraskólans og lærdómsdeild Verzlunarskólans, eru nú í haust 2.248 nemendur af 2.941 menntaskólanemanda í öllu landinu, eða 76%. Þegar þess er nú gætt, að utan Reykjavíkur býr um 60% þjóðarinnar, en þar er ekki skólarými fyrir menntaskólanemendur nema fyrir 24% af þeim, .sem stunda það nám, þá verður ekki sagt, að landsbyggðin utan höfuðborgarinnar sé of hlaðin af menntaskólum og því engin vanþörf á, að fram komi till. um menntaskóla annars staðar, en í höfuðstaðnum einum. Af þessum 2.248 menntaskólanemendum í Reykjavík er 1.891 nemandi, eða 84%, af svokölluðu Reykjavíkursvæði, þ.e.a.s. úr höfuðstaðnum og því nágrenni hans, þar sem nemendur geta sótt skólana daglega og þurfa þess vegna ekki að vista sig að heiman við nám, 84% af öllum þessum menntaskólanemendum eru af þessu svæði. Í Háskóla Íslands eru hlutföllin þau, að samtals eru þeir stúdentar nú í haust, sem stunda nám hér heima, 1.555, en með þeim, sem stunda nám erlendis, 1.619. Og af þessum 1.555 nemendum, sem stunda nám hér heima, eru af Reykjavíkursvæðinu, þessu sem ég nefndi áðan, 1.182, eða 76%. En rektor háskólans getur þess í bréfi, sem fylgdi þessum upplýsingum til mín, að tölurnar virðist gefa til kynna, að stúdentar taki sér lögheimili í Reykjavik, eftir að nám er hafið, m..a. af þeirri ástæðu, að nærri helmingur þeirra sé í hjónabandi.

Háskólastúdentar hafa notið námslána um alllangt árabil, en áður voru það námsstyrkir. Auk þeirra njóta nú námslána nemendur í menntadeild Kennaraskólans, nemendur í Tækniskóla Íslands og nemendur í framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri, þ.e.a.s. þegar þessir nemendur eru að komast á lokastig í náminu. Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem ég hef fengið frá skrifstofu Lánasjóðs ísl. námsmanna, hafa námslán á síðasta skólaári handa einhleypum stúdentum við nám hér heima á fyrsta námsári numið um 25–40 þús. eftir ástæðum. Það eru algengustu upphæðirnar og er þá miðað við 40% umframfjárþarfar þeirra, sem svo er kölluð. Stundum hafa þessi lán þó verið mun hærri, en þetta og í örfáum tilvikum hafa þau verið lægri. Þessi námslán hafa reynzt stúdentum algerlega ófullnægjandi, um það munu allir kunnugir menn hafa verið sammála. Mér sýnist, að stjórnvöld séu þessarar skoðunar líka, því að nú á að hækka þessi námslán verulega, enda hefur líka náms— og framfærslukostnaður stúdentanna hækkað mikið frá í fyrra. Eftir þessum upplýsingum frá skrifstofu Lánasjóðs ísl. námsmanna virðist mér, að gert sé ráð fyrir, að námslán stúdenta á þessu nýbyrjaða skólaári geti orðið um það bil 60% af umframfjárþörf á 1. og 2. námsári, 65% á 3. og 4. námsári, 70% á því 5., 80% á því 6. og 90% af umframfjárþörfinni á 7. námsári. Það er því mjög líklegt, að námslán handa einhleypum stúdent við nám hér heima geti þess vegna orðið á þessu nýbyrjaða skólaári um 60–100 þús. kr., eftir því hve langt hann er kominn í námi. Hafi svo stúdentinn aftur á móti barn á framfæri, hækka námslánin verulega. Ég ætla, að þau geti hækkað um ein 20—30 þús., ef stúdent hefur eitt barn á framfæri. En þrátt fyrir þessa hækkun námslánanna er það vafalaust, að stúdentar verða ekkert ofhaldnir eins og nú er komið dýrtíð. En þegar litið er á þessar staðreyndir, hvernig þó er búið að stúdentum við nám, hvernig er þá komið hag nemenda í öðrum skólum landsins, sem engin námslán hafa og enga námsstyrki hafa og ekkert hafa upp á að hlaupa nema sínar eigin tekjur ef foreldrarnir hafa ekki ráð á að hlaupa undir bagga? Ég held, að það þurfi ekki að fjölyrða um það, að þeirra hagur er næsta bágborinn.

Þegar þetta mál var til umr. á síðasta þingi, lét ég þess getið, að ekki lægju fyrir upplýsingar um það, hversu margir skólanemendur í landinn yrðu að vistast að heiman og þess vegna væri örðugt að gera áætlun um fjárþörf til námsstyrkja í heild. Við flm. töldum þá og við teljum enn í grg. þessa frv., að líklegt megi telja, að þessir nemendur séu um eða yfir 6 þús. í landinu öllu. Eftir að þessu frv. var nú útbýtt á Alþ., barst mér bréf frá menntmrn. Var rn. að svara bréfi frá mér frá 30. júní s.l., þar sem ég spurði m.a. um þetta, hvað þessir skólanemendur, sem þurfa að vistast að heiman, mundu vera margir í landinu í heild. Og í svarinu kemur fram, að á skólaárinu 1968–1969 voru þessir nemendur, senn dvöldu fjarri heimilum sínum við nám, 5.847. Eru þá nemendur í Háskóla Íslands ekki meðtaldir og ekki nemendur, er njóta launa á starfstímantum né þeir, sem sóttu stutt námskeið. Þar sem þetta eru tveggja ára gamlar upplýsingar, er sýnilegt, að nú er fjöldi þessara nemenda sjálfsagt yfir 6.000, eins og við flm. gerðum ráð fyrir.

Svo er um þetta mál eins og mörg önnur, að mest veltur á því, að fé sé fyrir hendi til námsstyrkjakerfisins og það fé sé til frambúðar. Þess vegna er hér gert ráð fyrir föstum tekjustofni til handa Námskostnaðarsjóði. Fjárþörf er mikil, því er ekki að neita. Þótt allir nemendur barnaskóla væru strikaðir út úr þessu frv., sem ég tel þó ekki rétt að gera, hefði samt fjöldi annarra skólanemenda, er rétt til námsstyrkja ættu samkv. þessu frv., verið um 3.640 fyrir tveimur árum, en sennilega nálægt 4.000 núna. Og þótt hver nemandi í þessum skólum fengi námsstyrk að meðaltali ekki nema 1/3 hluta þeirrar upphæðar, sem stúdentar fá á þessu skólaári í námslán, yrði heildarupphæðin samt um 100—110 millj. kr.

Að sjálfsögðu er eðlismunur á námsstyrk og námsláni, en meðan á náminu stendur, kemur hvort tveggja nemandanum að sama gagni, því að það er fyrst að námi loknu, sem stúdentar þurfa að fara að greiða vexti og afborganir af námslánum. Vextir eru 5% og lánán greiðast upp á 15 árum eftir að náminu er lokið. Þar sem það eru háskólalærðir menn, sem verða að endurgreiða námslánin, er ekki ósennilegt, að þeir búi við eitthvað betri launakjör en allur þorri annarra manna og eigi þeir því eitthvað hægara um hönd með greiðslu lánanna. Og þó er því ekki að neita, að endurgreiðsla námslána getur orðið mönnum þung í skauti. Ákvæði þessa frv. um tekjustofna Námskostnaðarsjóðs eru þau sömu og voru í frv. á síðasta þingi. Ekki hefur bólað á nokkurri gagnrýni á þá tekjuöflun, enda munu menn ekki kvarta undan 6% gjaldi á munaðarvörur, þar sem þær hafa ekki hækkað í verði nema um 50—60% á sama árafjölda og helztu matvörutegundir hafa hækkað um 150—200%.

Herra forseti. Ég hef nú gert hér grein fyrir efni þessa frv. og sýnt hér fram á þá miklu nauðsyn að koma á námsstyrkjum handa þeim nemendum í skólum landsins, sem verst eru settir. Þar sem frv. er nú flutt í byrjun þings, má vænta þess, að það fái þinglega afgreiðslu, enda verður áherzla á það lögð. Utan þings hefur málið mikinn stuðning og ég vænti þess, að svo muni einnig reynast hér innan þings. Ég vona því fastlega, að efnislega nái þetta frv. samþykki þingsins, en breytingar á frv. geta að sjálfsögðu komið til greina.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.

Umr. (atkvgr.) frastað.

Á 6. fuudi í Nd., 27. okt., var fram haldið 1. umr. um frv.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 27 shlj. atkv. og til menntmn. með 27 shlj. atkv.

A 55., 56., 58., 59., 60., 61., 63., 64. og 66. fundi í Nd., 3., 4., 8., 11., 15., 17., 18. og22. marz, var frv. tekið til 2. umr.

Forseti tók málið af dagskrá.

Á 67. fundi í Nd., 23. marz, var frv. enn tekið til 2. umr. (A. 15, n. 380 og 403, 404).

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal): Herra forseti. ég vil taka það fram í upphafi, að ég hef rökstudda von um það, að menntmrh. geti mjög fljótlega komið hér, af því að hann hefur sjálfur áhuga á að vera við þessa umr. og taka þátt í henni.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er um Námskostnaðarsjóð. Nú á síðustu árum hefur athygli Alþ. og raunar þjóðarinnar allrar mjög beinzt að því, að ungmenni hafa mismunandi góða aðstöðu ti1 að sækja skóla eftir því, hvar búseta þeirra er á landinu. Alþ. hefur sýnt áhuga sinn með því að veita fyrst á fjárl. 1970 10 millj. kr. til að styrkja námsfólk, sem varð að sækja skóla fjarri heimilum sínum og á fjárl. fyrir 1971 voru 15 millj. veittar í sama skyni. Ekki fylgdi það ákvörðunum Alþ., hvernig ætti að úthluta þessu, nema hin almenna skilgreining, til hvers féð væri ætlað og hefur því menntmrn. orðið að þreifa sig áfram um leiðir til þess að úthluta þessu fé. Hefur komið í ljós, að það er engan veginn einfalt mál að finna leiðir til þess að úthluta slíkum fjármunum, hvort sem það eru 10—15 millj. eða meira, og má segja, að það sé unnið að þessu á algeru byrjunarstigi nú á öðru ári, sem slíkar fjárveitingar eru veittar.

Hv. flm. þessa frv. eru samt það stórhuga, að þeir vilja nú þegar ákveða allmikla fjáröflun, sem að vísu er nú m.a. með því að taka hluta af ágóða Áfengisverzlunarinnar, svo og að ríkissjóður leggi fram ákveðna upphæð fyrir hvern íbúa landsins og verður því ekki sagt, að hér sé um sérlega frumlegar eða nýjar fjáröflunarleiðir að ræða, heldur tvær þær lindir, sem sótt er í fyrir svo að segja öll góð mál, sem hér eru rædd. Þeir hafa enn fremur viljað setja upp ákveðinn sjóð til þess að annast þetta hlutverk.

Menntmn. hefur klofnað í afstöðu sinni til þessa máls og eins og svo oft áður, er ekki ágreiningur um þá þörf, sem þarna er fyrir hendi og ekki ágreiningur um það, að Alþ. eigi að gera það, sem það framast getur til þess að bæta úr þeirri þörf. Meiri hl. menntmn. hefur tekið þá afstöðu, að það sé of snemmt að ákveða framtíðarskipan þessara mála með lagasetningu um sjóð og starfsemi hans. Nú sé verið í annað skipti að úthluta fé í þessum tilgangi, það sé að fást í fyrsta skipti örlítil reynsla af fangbrögðum við þetta erfiða viðfangsefni og það sé rétt að hinkra við og sjá, hver þessi reynsla verður, áður en mál þessi eru sett í það fast form að mynda sjóð og setja um hann löggjöf. Á þessum grundvelli er það till. meiri hl., að frv. sé vísað til ríkisstj.

Nú hefur það gerzt, eftir að það kom í ljós í n., að hún mundi klofna um málið, að þar var ekki þörf á frekari umr. og eftir að meiri hl. skilaði sínu áliti skilaði minni hl. ekki aðeins álitsgerð, heldur og till. Og í þessari till. er málinu breytt frá því að fjalla um erfiðleika þeirra nemenda, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur, í það að bæta þar við „eða eiga við erfiðar fjárhagsástæður að búa af öðrum ástæðum.“ Upphaflega er málið flutt eingöngu um þá nemendur, sem eiga í erfiðleikum vegna þess, að þeir verða að dveljast fjarri heimilum sínum. En með þessari einu till., sem kemur fram svona seint, er málinu raunverulega gerbreytt og það er stækkað margfaldlega með því, að þar eru teknir með allir þeir, sem eiga við erfiðar fjárhagsaðstæður að búa af öðrum ástæðum.

Nú skal ég síður en svo andmæla því, að þetta sé kannske kjarninn í málinu öllu, það er, hvernig eigi að jafna aðstöðu manna, hvort sem aðstöðumunurinn stafar af búsetu eða öðrum ástæðum. Það hafa að vísu verið í l. alllengi ákvæði, sem fyrirskipa ríkisvaldinu, eða heimila því a.m.k., að jafna slíkan mun, en þau ákvæði hefur aldrei verið unnt að framkvæma. Og eitt af stóru atriðunum í sambandi við lagasetningu um skipan skólamála, sem bíður næstu þinga verður að finna þessu eitthvert form. En ég vil benda á það, hversu lausar hugmyndir flm. þeirra, sem skipa minni hl. menntmn., eru í sambandi við þetta, að málið skuli geta vaxið svona gífurlega í höndum þeirra, svona rétt á meðan þeir skrifa niður fjögurra línu till., eftir að búið er að afgreiða málið í n., og eftir að meiri hl. er búinn að skila áliti sínu. Þetta er sem sagt kjarni ágreiningsins.

Þetta frv. er sett fram af mjög góðum vilja, það efast ég ekkert um. Það er sett fram af mjög einlægri ósk um það að reyna að ýta áfram allri viðleitni til að jafna aðstöðu nemenda. En þegar málið vex svo í höndum flm., sem hér sýnir, þá tek ég það sem dæmi þess, að hugmyndir þeirra séu ekki verulega fast mótaðar og hitt muni vera hyggilegra, sem við leggjum til, að mál þetta verði örlitið betur athugað, bæði af yfirvöldum og hér á Alþ. — að það verði fengin meiri reynsla, áður en við setjum lög um það, á hvern hátt við ætlum að glíma við þessi verkefni. Það er þegar, eins og ég sagði í upphafi, búið að veita á tveimur árum 25 millj. kr. í fyrsta skipti til þess að koma til móts við þetta vandamál og það er þegar verið að vinna að því og það er þegar verið að safna saman reynslu og þekkingu, þannig að málið stendur engan veginn kyrrt. Það er ,sem sagt till. meiri hl. menntmn., að málinu verði vísað til ríkisstj.

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson) : Herra forseti. Þetta frv. um Námskostnaðarsjóð er eitt af fyrstu málum þingsins. Frv. var útbýtt 13. okt., þ.e. annan fundardag þessa þings. Því var vísað til hv. menntmn. 27. okt., og nál. var síðan útbýtt tæpum fjórum mánuðum síðar, eða 22. og 25. febr. Málið hefur verið síðan hér á dagskrá 10 daga í röð, en kemur nú fyrst til umr.

Um nokkurt skeið hafa menn trúað því, að það væri sameiginleg skoðun landsmanna, að æskufólk eigi að búa við sem jafnasta aðstöðu til menntunar, hvar sem það er búsett á landinu. Það eigi engin ungmenni að gjalda þess, að þau búi svo langt frá þeim skóla, sem þau vilja sækja, að heimangöngu verði ekki við komið. En þeir nemendur, sem verða að hverfa að heiman og dveljast 7—9 mánuði ánsins ár eftir ár, við nám fjarri heimili sínu, verða að sjálfsögðu að bera miklu meiri námskostnað en hinir, sem geta stundað skólanámið án þess að flytja að heiman. Jafnrétti æskufólks til menntunar viðurkenna allir í orði — bókstaflega allir, sem ræða eða rita um þessi mál. Ég sagði þeir viðurkenna það allir í orði. En nú virðist vera að koma í ljós, að það ætla sér ekki allir að viðurkenna þetta jafnrétti í verki. Það geta hv. þm. séð á þeim tveimur nál. í þessu máli, sem liggja nú hér fyrir. Eins og hv. þm. er kunnugt, er meginefni þessa frv. það, að stofnaður verði sjóður, er hafi það hlutverk að veita námsstyrki því æskufólki, er verður að dveljast fjarri heimilum sínun við nám. Með brtt., sem minni hl. menntmn. flytur á þskj. 404 við þetta frv., er lagt til, að þessar styrkveitingar nái einnig til skólanemenda, sem eiga við örðugan fjárhag að búa af öðrum ástæðum en búsetu. Nú hefur hv. frsm. meiri hl. menntmn. gert að sérstöku umtalsefni þessa brtt. og telur, að hún valdi því, að það komi ekki til greina að fara að samþykkja frv. núna. En það vill nú svo til, að þessi brtt. var ekki komin fram, þegar hann og aðrir í meiri hl. n. mæltu gegn því, að frv. yrði samþ., svo að það er einkennileg afstaða sem hv. frsm. tekur nú, að hann taldi fyrst ástæðu til þess nú að vera á móti frv., af því að þessi brtt. kom fram, en var samt á móti því, áður en hún kom fram. Þetta er alveg sérstakt viðhorf. Þessa nauðsyn á jafnrétti æskufólks, sem ég minntist á, hefur hæstv. ríkisstj. orðað mjög skilmerkilega að mínum dómi í grg. með frv. sínu um skólakerfi, en þar segir hæstv. ríkisstj. á þessa leið í grg. þess frv., með leyfi forseta:

„Í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna sinna, hlýtur opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum, að bera afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur nemenda og forráðamanna þeirra valdi ekki misrétti um aðstöðu ungmenna ti1 menntunar. Þessi skylda mun vera almennt viðurkennd í landinu, bæði af almenningi og kjörnum leiðtogum þjóðarinnar.“

Þetta er fallega sagt, það vantar ekki. Og meira að segja ríkisstj. segir, að það þurfi líka að taka þarna með þá sem eiga við erfiðar fjárhagsástæður að búa og það er í samræmi við brtt. okkar í minni hl. n. Já, það er fallega orðað þetta í grg, hjá hæstv. ríkisstj. Ég er ekki viss um, að aðrir orði þetta betur. En þá er eftir að vita, hvað hæstv. ríkisstj. meinar með þessum hátíðlegu ummælum sínum. Ætlar hún að kappkosta að ná þessu jafnrétti, sem hún er að tala um? Og ef hún ætlar sér það, hvernig ætlar hún sér að gera það? Fulltrúar stjórnarflokkanna í menntmn. leggja til, að þessu frv. verði vísað frá. Og þeir gerðu enga tilraun til að á frv. breytt, þrátt fyrir það að frv. lá hjá n. í hér um bil fjóra mánuði. Ég efast svo sem ekkert um, að nm. meiri hl. n. eru að framkvæma vilja ríkisstj. Það mun varla fara á milli mála, a.m.k. ættu menn að geta tekið eftir því, ef hæstv. menntmrh. tekur hér til máls, hvort hann muni ekki tala ~lveg í samræmi við meiri hl. n. um þetta mál. En hvað ætlast þá ríkisstj. fyrir til þess að afstýra þessu misrétti, sem æskufólk býr við? Þessu misrétti, sem hún gerði að sérstöku umtalsefni í grg. með frv. sínu um skólakerfið? Hún segir, að það sé afdráttarlaus skylda ríkis og sveitarfélaga að afstýra þessu misrétti — afdráttarlaus skylda. Og hvað gerir hún til þess að afstýra því?

Ég sé ekki, að það geti verið nema um tvennt að ræða, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Annaðhvort telji hún alveg fullnægjandi þá málamynda námsstyrki, sem teknir voru upp í fjárlög í fyrra og nú aftur á þessu ári, eða hún meini bókstaflega ekkert með þessu tali sínu um jafnrétti æskufólks til menntunar. En þá er rétt að spyrja Eru þá ekki núverandi námsstyrkir fullnægjandi? Þarf nokkuð meira? Það er kannske þetta, sem meiri hl. n. og ríkisstj. á við. Upphæðin var 10 millj. kr. á fjárl. í fyrra. Hún er 15 millj. kr. á þessu ári, þó að ríkisstj. ætlaðist reyndar ekki til, að hún yrði nema 12 millj. Fyrir tveimur árum voru nemendur í skólum landsins öðrum en háskóla, þeir sem urðu að dvelja fjarri heimilum sínum við nám, 5.847, samkv. skýrslu frá menntmrn. Af þessum 5.847 nemendum voru 2.209 í barnaskólum. Þetta var fyrir tveimur árum. Þessi fjöldi er að sjálfsögðu kominn eitthvað á sjöunda þús. nú. Hvað kemur í hlut að meðaltali, efskipta á 15 millj. kr. á milli þeirra? Það verður í hæsta 1agi um 2.500 kr. á nemanda. Ef nemendur í heimavistarbarnaskólum eru strikaðir út, eins og gert var með orðalagi í fárveitingarinnar, gætu þessi námsstyrkir orðið um 3.800 kr. að meðaltali á nemanda, miðað við núv. fjölda þessara nemenda í landinu.

Ég býst við, að ríkisstj. hafi þótt þetta heldur lágt, eða ég gizka á það, að henni hafi þótt þetta heldur lágt, því að hún fann upp reglu, sem skyldi gilda við úthlutun þessara námsstyrkja. Og aðalreglan er ,sú, að engir nemendur í heimavistum skólanna á landinu, hvar sem þeir eru, skyldu fá dvalarstyrki — engir. Hins vegar mátti veita þeim dálitla ferðastyrki, of ferðakostnaðurinn fór yfir ákveðið lágmark. Þessi regla, sem ríkisstj. setti, hefur gert strik í reikninginn. Með henni voru hreinlega útilokaðir frá dvalarstyrkjum, 3/4 hlutar þeirra nemenda í framhaldsskólum landsins, sem dveljast fjarri heimilum sínum við nám. Það munar ekki um það. Nú leit þetta allt, betur út með deilinguna. 10 millj., sem átti með réttu að úthluta s.l. vor fyrir tæpu ári síðan, þeim var úthlutað nú um síðustu áramót og þó ekki alveg að fullu. Og þá reyndust það svo, að 984 nemendur fengu námsstyrki. Þessum námsstyrkjum var reyndar skipt í tvennt, þó að manni finnist nú, að það sé erfitt að vera að skipta í tvennt þessum námsstyrkjum, en þeir eru kallaðir bæði ferðastyrkir og dvalarstyrkir, rétt eins og ferðakostnaður sé ekki námskostnaður. En sem sagt, 984 fengu þessa styrki og var upphæðin að meðaltali á nemanda 9.214 kr. (Gripið fram í) Það var með ferðastyrknum, það munaði ekki um það, það voru tveir styrkir, 9.214 kr. En samt leit nú þetta ekki nógu vel út, að einn fjórði hluti þessara þurfandi nemenda fengi styrki og hinir ekki neitt. Þá kom það til að veita ferðastyrki hinum, sem ekkert fengu. Þá var farið að úthluta ferðastyrkjum, þeim sem ekkert höfðu fengið og þeir reyndust 387 nemendurnir, sem fengu þá, en sjálfsagt hefur fjöldi slíkra nemenda verið eitthvað um eða yfir 3.000. Þeir reyndust 387, sem urðu þessarar rausnar aðnjótandi. Og hver var svo upphæðin að meðaltali á nemanda í þessum hóp? Það urðu 1.323 kr. á nemenda — segi og skrifa 1.323 kr. á nemenda.

Það er afdráttarlaus skylda að tryggja æskufólki jafnrétti til menntunar, segir ríkisstj. Hún er að rækja það með 1.323 kr. Þetta voru 10 millj. í fyrra, nú er upphæðin 15 millj. á þessu ári, en á móti því kemur mikil hækkun á námskostnaði nemenda annars vegar og svo fjölgun nemenda í landinu hins vegar, svo að það er ekki víst, að úthlutunin verði miklu glæsilegri á þessu ári en hún var í fyrra.

Nú hlýtur maður að spyrja: Er þetta námsstyrkjakerfi þá nægjanlegt að dómi hæstv. ríkisstj. og að dómi hv. alþm. til að tryggja æskufólki jafna aðstöðu til menntunar í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna —sinna, svo að notað sé orðalag ríkisstj. sjálfrar? Eru þeir alþm., sem vilja vísa þessu frv. frá, þeirrar skoðunar? Ef þeir eru ekki þeirrar skoðunar, hverrar skoðunar eru þeir þá?

Eins og ég nefndi, var það um einn fjórði hluti nemenda í framhaldsskólum, sem dvöldust fjarri heimilum sínum við nám, er fékk námsstyrki, ef námsstyrki skyldi kalla nú um síðustu áramót. Og upphæðin var rúmar 9.000 kr. að meðaltali á nemanda. Ekki bólar á nokkurri viðleitni af hálfu stjórnarvalda til að breyta þessari stefnu, til að rækja þessa afdráttarlausu skyldu sína, að tryggja æskufólki jafnrétti til menntunar. Þvert á móti vísa stjórnarsinnar á bug þeim till., sem felast í þessu frv.

En hvernig metur þá hæstv. ríkisstj. fjárþörf háskólastúdenta, sem stunda nám hérna heima? Ekki eru þeir í eðli sínu neitt öðruvísi menn en nemendur annarra skóla. Háskólastúdentar áttu lengi í baráttu fyrir auknum námslánum, enda voru kjör þeirra harla bágborin. Loks kom að því á s.l. ári, að hæstv. ríkisstj. sannfærðist um, að námslánin yrðu að hækka verulega. Nýjar reglur voru svo settar um þessi námslán þeirra. Aðalreglan er sú, að náms– og framfærslukostnaður háskólanemandans við nám hér heima, ef hann er einhleypur, er áætlaður á þessu ári, 1971, 155 þús. kr., en auk þess 35 þús. kr. fyrir hvert barn á framfæri hans. Eigin tekjur nemandans eru síðan dregnar frá áætluðum námskostnaði og er þá fundin svokölluð umframfjárþörf. Geta stúdentar fengið námslán, 60—90% af þeirri upphæð, eftir því hversu langt er komið náminu. Við þetta bætast sérreglur um umreikning og niðurfærslu á eigin tekjum, ef stúdent hefur börn á framfæri, eða ef hann hefur hraðað námi sínu. Verða þá námslánin hærri, en aðalreglur segja til um. Í des. s.l. var úthlutað námslánum til 22 háskólastúdenta. 17 þeirra fengu lán vegna eins árs náms og var upphæð námslána þessi: einn fékk 25 þús. kr. námslán, annar 30 þús., þriðji 70 þús., fjórði 75 þús., fimmti 80 þús., tveir fengu 85 þús. kr. hvor, tveir fengu 90 þús. kr. hvor, tveir fengu 95 þús. kr. hvor, tveir fengu 100 þús. kr. hvor, tveir fengu 115 þús. kr., einn fékk 150 og einn fékk 175 þús. kr. Þá fengu 5 stúdentar námslán vegna hálfs árs náms og voru upphæðirnar þessar: Einn þeirra fékk 35 þús. kr., annar fékk 40 þús., tveir fengu 50 þús. kr. hvor og einn fékk 65 þús. Meðaltal námslánanna vegna eins árs náms var þess vegna 92 þús. og 600 kr. á nemanda.

Þrátt fyrir þessi námslán eru háskólastúdentar sannarlega ekki of haldnir, því að náms— og framfærslukostnaður þeirra er mun meiri en námslánin og eigin tekjur til samans, hvernig sem þeir fara svo að því að brúa það bil. En séu menn þeirrar skoðunar, að háskólastúdentar megi halda vel á sínu til þess að komast af, hvernig eru þá fjárhagsástæðum nemenda í öðrum framhaldsskólum landsins, sem fá um 9 eða 10 þús. eða kannske 12 þús. kr. námsstyrk, að maður nú ekki tali um alla hina, sem fá enga fjárhagsaðstoð af neinu tagi og það er meginþorri framhaldsskólanemenda í landinu? Á nú þetta að vera framkvæmdin á þeim fagurmælum ríkisstj. í grg. frv. um skólakerfið, að lýðræðisríki beri afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur æskufólks valdi ekki misrétti í aðstöðu til mennta? Ætlar ríkisstj. og stuðningslið hennar að rækja þessa afdráttarlausu skyldu sína með því t.d. að vísa þessu frv. frá, þessari efnu alvarlegu tilraun, sem gerð hefur verið til þess að draga úr því misrétti, sem æskufólk á nú við að búa?

Meiri hl. menntmn. segir í nál. sínu og það tók hv. frsm. meiri hl. n. fram hér áðan, að nú sé að fást fyrsta reynsla af framkvæmd þessa réttlætismáls að veita æskufólki námsstyrki til að jafna aðstöðu mun þess til menntunar. Það sé of snemmt, eiginlega alltof snemmt, að ákveða framtíðarskipan þessara mála, eins og hv. frsm. orðaði það hér áðan og bezt að öðlast meiri reynslu af því, hvernig þetta gerist. Það er eins og meiri hl. n. sé með eitthvert lítt þekkt og hættulegt læknislyf í höndunum, sem þeir nm. vilja að vísu reyna á sjúklingum, en aðeins örlitla inntöku í einu, svona í tilraunaskyni. Samt kalla þeir þetta réttlætismál. Þeir vilja sannarlega fara varlega með réttlætið. Þeir vilja ekki hafa það í of stórum skömmtum. Þannig var það líka haft með háskólastúdentana, þar var smáskammta réttlætinu beitt árum saman, þar til stúdentar voru orðnir svo aðþrengdir, að ríkisstj. lét undan og hækkaði verulega námslánin. Það þarf að öðlast meiri reynslu af núv. námsstyrkjum, segir meiri hl. n. Er ekki komin reynsla á það, hversu mikla fjárhagsaðstoð háskólastúdentar þurfa? Er sú reynsla ekki nægjanleg ti1 þess að vita, hversu mikið nemendur annarra skóla þurfa? Þarf einhverja sérstaka rannsókn á það, þegar um menn er að ræða í sams konar skólum og á sama stað? Ætli það þurfi sérstaka reynslu, kannske nokkurra ára reynslu á það, hvort 9 þús. eða 10 þú;s. eða 12 þús. kr. styrkur sé ekki meira en nóg til dæmis handa nemanda í Reykjavík utan af landi, þegar háskólastúdent við hliðina á honum fær 100 þús. og dugir honum skammt? Þarf að bíða einhvern ákveðinn tíma til að fá vitneskju um þetta? Þarf einhverja sérstaka rannsókn á það, hvort heimavistarnemandi þurfi nokkurn námsstyrk, hvort hann sé ekki vel settur með það að fá ekki einn einasta eyri í dvalarstyrk, eins og menntmrn. hefur úrskurðað og auglýst á s.l. sumri um úthlutun lánanna s.l. ár? Hvað getur annars valdið því, að stjórnarsinnar vilja heldur viðhalda þessu misrétti, sem ríkjandi er í aðstöðu æskufólks til menntunar, en að fallast á efnisatriði þessa frv. til að draga verulega úr þessu misrétti? Þefir hefðu auðveldlega getað breytt frv. að eigin vild, ekkert var því til fyrirstöðu. En þeir báru það ekki við, þrátt fyrir fjögurra mánaða umhugsun. Frv. var meira að segja aldrei lesið yfir í menntmn. Svo ákveðnir voru stjórnarsinnar í því frá upphafi, að það skyldi ekki ganga fram. Þá gátu þeir auðvitað flutt eigið frv. svipaðs efnis, ef þeir vildu eitthvað gera í málinu, til þess að þurfa ekki að samþykkja frv. frá frams+oknarmönnum. Þeir gerðu það ekki heldur. Þá hefur mér dottið í hug, að þeir vilji heldur halda í misréttið en að missa af peningunum, sem til námsstyrkjanna eiga að fara. En hvaðan eiga þessir peningar að koma? Hv. frsm. meiri hl. n. gat um það hér áðan og hneykslaðist á því, að það skyldi eiga að taka af ágóða Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins. Það á nú ekki að fara að taka neitt af núv. ágóða, því að það eru ákvæði í frv. um það að leggja 5% álag á þessar vörur. Þessi aðaltekjustofn Námskostnaðarsjóðs samkv. frv. á að vera 5% álag á áfengi og tóbak. Er það þá þessi 5% hækkun, sem úrslitunum á að ráða um afgreiðslu frv.? Ríkisstj. hefur reyndar gætt vel hagsmuna neytenda þessara vara í heilan áratug. Frá 1. jan. 1960 til 1. jan. 1970 var meðaltals verðhækkun á helztu tegundum áfengis og tóbaks 127%. Á þessum sömu 10 árum hækkuðu hins vegar matvörur í verði um 303%. Þarna hefur þess verið vandlega gætt, að neyzla þessara munaðarvara drægist ekki saman, enda hefur neyzla Íslendinga á áfengi s.l. ár orðið , sú mesta, sem verið hefur á þessari öld. Það er von, að þeir vilji slá skjaldborg um þann hagnað, sem þessi mikla neyzla færir ríkisstj. og þá verði jafnrétti æskufólks að lúta í lægra haldi, þegar um svo dýrmæta hluti er að ræða. Ég skal játa, að það er erfitt að trúa því, að svona lágkúruleg sé afstaða stjórnansinna til jafnréttis æskufólks, að þetta hafi ráðið andstöðu þeirra gegn þessu frv., en einhverju verður maður að trúa.

Ég hef um nokkurt skeið álitið, að innan Sjálfstfl. væru þm., sem mundu vilja veita þessu máli lið og ég hafði fulla ástæðu til þess vegna blaðaskrifa, sem hafa ótvírætt bent í þessa átt. Ég minni sérstaklega á leiðara í Morgunbl. 15. jan. s.l. Það er ekki langt síðan. Og yfirskriftin á þessum leiðara var „Réttlætismál.“ Í þessum leiðara segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt því, að stórt átak verður að gera í byggingamálum menntaskólastigsins á næstunni, svo og fjölga námsleiðum á framhaldsskólastiginu, eins og þegar er byrjað á, er þýðingarmesta verkefni í menntamálum okkar vafalaust það að jafna menntunaraðstöðuna, þannig að námsfólk hafi jafna aðstöðu til menntunar, hvar sem það er búsett á landinu. Því miður hefur mjög skort á, að svo hafi verið um langt árabil. Það er augljóst, að það kostar verulega fjármuni að taka sig upp og flytjast að heiman til framhaldsnáms, hvort sem er í menntaskóla, háskóla eða aðra framhaldsskóla. Margir foreldrar úti á landsbyggðinni hafa tekið þann kostinn að flytjast búferlum til höfuðborgarinnar, þegar börnin þeirra hafa verið komin á þann aldur, að þau voru að hefja menntaskólanám. Þessi staðreynd á vafalaust meiri þátt í fólksflutningum frá hinum dreifðari byggðum en margan grunar. Á fjárlögum ársins 1970 var í fyrsta sinn tekin inn fjárveiting til að jafna þennan aðstöðumun. Sú fjárveiting nam 10 millj. kr. En í ár verður varið í sama skyni 15 millj. kr. Þetta er talsvert fé, og vafalaust þarf að gera enn betur, ef vel á að vera. Jöfnun á aðstöðumun til menntunar verður framkvæmd með ýmsum hætti. En jöfnuði er hægt að ná með styrkveitingu til námsfólks utan af landsbyggðinni. Það er einnig hægt að ná þessu sama marki með því að fjölga framhaldsskólum úti um land, koma þar upp heimavistum og tryggja nemendum þannig húsnæði og mat með viðunandi hætti. En hvernig sem það er gert, er augljóst, að hér er á ferðinni réttlætismál, sem þjóðin verður að veita fyllstu athygli á næstu árum. “

Þetta er um réttlætismálin og hæstv. ríkisstj. kallar þetta líka réttlætismál. Þannig hljóðaði þessi kafli í leiðara Morgunbl. Nú liggur þetta réttlætismál fyrir og við sjáum bráðum, hvernig höfundarnir að þessari miklu hugsjón, sem fram kemur í grg. stjórnarfrv., framkvæma það að framfylgja þessu réttlætismáli.

En Morgunbl. skrifaði oftar en einu sinni um þetta, því að hálfum mánuði .seinna, 29. jan., birtist leiðari í Morgunbl. með yfirskriftinni: „Ranglæti, sem verður að leiðrétta.“ Mogginn var ekki af baki dottinn. Hann sá, hversu málið var alvarlega. Já, ranglæti, sem verður að leiðrétta og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nær allir þeir þm., sem þátt tóku í umr. um skólamálafrv. ríkisstj. á Alþ. í fyrradag, fögnuðu sérstaklega þeim ákvæðum, sem varða jafna menntunaraðstöðu unglinga, hvar sem þeir eru búsettir í landinu. Var lögð rík áherzla á, að þessi ákvæði mættu ekki vera nafnið tómt, heldur yrði að fylgja þeim eftir í framkvæmd. Gunnar Gíslason gerði þessi mál .sénstaklega að umræðuefni í ræðu, er hann flutti í umr. Hann komist m.a. svo að orði: „Við, sem búum í sveit, nöfum orðið að sæta því, að börn okkar hafa ekki sótt skóla nema 3 mánuði á vetri. Að vísu fá sveitabörn á margan hátt menntun, með því að komast í snertingu við móðurjörð og dýralíf, en börn okkar hafa farið á mis við ýmislegt nám, sem börn í þéttbýli hafa notið, t.d. söngkennslu og tónlistarnám, íþróttakennslu og handíða. Ég legga ríka áherzlu á það, að öll ungmenni í landinu eigi þess jafn kost að stunda nám og öðlast fræðslu.“

Þetta var haft eftir Gunnari Gíslasyni. Svo heldur leiðarinn áfram:

„Sú staðreynd, að menntunaraðstaða ungs fólks er mjög mismunandi eftir því, hvar það býr á landinu, hefur verið mjög til umræðu síðasta misseri, og menn hafa vaknað til vitundar um það, að í þessum efnum hefur mikið ranglæti viðgengizt árum saman. Fyrir rúmu ári veitti Alþ. í fyrsta skipti fé til að jafna þennan aðstöðumun með ,styrkveitingu til nemenda, sem stunda framhaldsnám og fárveiting til þess var hækkuð talsvert við afgreiðslu fjárlaga í des. s.1. En þetta er aðeins fyrsta sporið til þess, að allir búi við það sama. Hvað sem líður fjárhag foreldra eða búsetu, þarf mjög mikið átak. Þetta misrétti hefur ekki aðeins ríkt í framhaldsnámi. Eins og Gunnar Gíslason benti á, hafa börn í sveitum alls ekki fengið sömu kennslu í skyldunámi og þau, sem í þéttbýli búa. Hér er bæði um að kenna skorti á skólahúsnæði og skorti á góðum kennurum og margt fleira mætti tilnefna. En óhætt er að fullyrða, að það er eitthvert stærsta verkefnið á sviði menntamála okkar í dag að þurrka út þettia misrétti. Þess vegna er það fagnaðarefni, að á þetta er lögð mjög rík áherzla í skólamálafrv. ríkisstj. og þess verður að vænta, að ríkisstj. og Alþ. muni fylgja þessari stefnuyfirlýsingu eftir í reynd með myndarlegum og raunhæfum aðgerðum.“ Svona hljóðaði nú þessi leiðari.

Ég treysti mér ekki til þess að orða ályktun um þessi mál öllu gleggra, en hér er gert í leiðurum Morgunbl. og grg. ríkisstj. fyrir skólafrv. sínu. Nú hafa hv. þm. tækifæri til að sýna, hvernig þeim vilja afnema þetta ranglæti, sem viðgengizt hefur árum saman, hvernig þeir ætla að þurrka út misréttið, sem þeir hafa réttilega talað um. Ætla þeir að gera það með því að vísa þessu frv. frá, án þess að gera tilraun til að koma með nokkrar till. í staðinn? Vegna þeirra ræðuhalda og blaðaskrifa um þessi mál, sem átt hafa sér stað að undanförnu, eru foreldrar skólanemenda víðs vegar um land þeirrar skoðunar, að á Alþ. sé enginn ágreiningur um að afnema ranglætið, að þurrka út misréttið. Ég er viss um, að fólkið í landinn lítur svo á, að á Alþ. séu allir sammála um að gera það. En hvað ætli þessir foreldrar segi nú, þegar þeir sjá það svart á hvítu, hvernig stjórnarsinnarnir snúast í þessu máli?

Um brtt. okkar í minni hl. n. á þskj. 404 þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Með henni er lagt til að veita skuli námsstyrki nemendum, sem búa við erfiðan fjárhag, þó að ekki sé það vegna óhagstæðrar búsetu. Það ætti öllum að vera ljóst, að þar sem þrjú, fjögur eða kannske fimm börn í sömu fjölskyldu þurfa að sækja skóla samtímis, geta fjárhagsástæður valdið því, að neita verður börnunum um skólagöngu að meira eða minna leyti. Og slíku má þjóðfélagið ekki una. Þar sem hv. frsm. meiri hl. n. var að tala um, að þessi brtt. kollvarpaði eiginlega öllu, þá er það ósköp fjarri lagi, því að ef þessi sjóður kæmist á, eins og hann er hugsaður í þessu frv., hefði hann veruleg fjárráð og gæti hlaupið auðveldlega undir bagga, þar sem lakastar væru ástæður hjá barnmörgum fjölskyldum. Þetta er því ekkert annað en tylliástæða, enda var hann og allt hans lið í menntmn. á móti frv. frá upphafi, áður en hann hafði hugmynd um þessa brtt.

Ég skal svo, herra forseti, ekki orðlengja meira um þetta mál að sinni, það verður kannske tækifæri til að taka til máls aftur. En ég vil að lokum láta í ljós þá von, að það hneyksli gerist ekki, að þessu máli verði vísað frá, svo alvarlegum augum lít ég á málið í heild.

Umr. frestað.

Á 68. fundi í Nd., 24. marz, var frv. tekið til frh. 2. um.r.

Forseti tók málið af dagskrá.

Á 69. fundi í Nd., 25. marz, var .fram haldíð 2. umr. um frv.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason): Herra forseti. Í þessu frv. er hreyft mjög merkilegu nauðsynjamáli — því máli, hvernig hægt sé að stuðla að því, að ekkert ungmenni þurfi að fara á mis við menntun vegna bágborins efnahags eða slæmrar aðstöðu til þess að sækja skóla. Hins vegar er þetta mál mun flóknara, en fram kemur í frv., brtt., sem fram við það er komin og grg. og segi ég þetta vegna þess, að þessi mál hafa verið til mjög rækilegrar athugunar í menntmrn. undanfarin tvö ár og eru enn, án þess þó að rn. hafi, enn sem komið er, tilbúnar endanlegar hugmyndir eða till. um, hvernig úr þessum vanda skuli bæta og tryggja sem bezt réttlæti. Að málið er flókið og vandasamt kemur ekki hvað sízt fram í því, að 1. flm. frv., hv. 1. þm. Vestf. Sigurvin Einarsson, hefur sjálfur ásamt fleiri hv. þm. í menntmn. flutt brtt. við sitt eigið frv. Í frv. var gert ráð fyrir því, að hlutverk Námskostnaðarsjóðs skyldi vera að veita námsstyrki þeim nemendum í skólum landsins, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur, m.ö.o. markmið frv. var einvörðungu að stefna að því að bæta úr skorti eða kostnaðarauka, sem þeir verða fyrir, sem hafa erfiða aðstöðu til þess að sækja skóla. Hins vegar er vandamálið auðvitað miklu stærra og víðtækara. Það þarf einnig að huga að þeim áhrifum, sem mismunandi efnahagur hefur á aðstöðu manna til þess að sækja skóla, og miðar brtt. að því að betrumbæta frv. að því leyti.

Það er nokkuð óvenjulegt, að aðalflm. frv. flytji brtt. við sitt eigið frv. Það er afar lítill vandi að halda smáræðustúf um þetta, en ég geri það ekki. Ég tel málið vera miklu vandasamara og í rauninni meira alvörumál en svo, að ástæða sé til þess að við hafa nokkurt gamanmál í því sambandi eða gera nokkra tilraun til þess að efna ti1 umr. af því tagi, sem af því mundi hljótast. Erindi mitt er að segja frá því, að þetta mál allt í heild er í athugun í menntmrn. í framhaldi af því, að fyrir tveimur árum var tekin upp fjárveiting í tilraunaskyni, 10 millj. kr., til þess að nota til námsstyrkja, sem áttu að jafna aðstöðu manna til þess að sækja skóla. Samdar voru umfangsmiklar reglur til þess að tryggja það, að þessi litla fjárveiting kæmi að sem beztum notum. Við samning þeirra reglna og framkvæmd þeirra komu í ljós margvísleg og mjög flókin vandamál. Það reyndist afar erfitt að nota þessar 10 millj. þannig, að viðunandi mætti teljast, ekki aðeins vegna þess, að upphæðin var lítil, heldur komu ótal framkvæmdaörðugleikar í ljós — m.ö.o., hugmyndir manna um það, hvað væri jöfnuður á aðstöðu til þess að hljóta menntun, gátu verið mismunandi og mátti færa rök fyrir mismunandi skoðunum í því efni. Þessi upphæð var aukin í 15 millj. á þessu ári, og er nú verið að semja reglur um það, hvernig þessum 15 millj. skuli úthlutað. Það verður án efa unnt að sníða ýmsa agnúa af þeim reglum, sem settar voru í fyrra, af því að upphæðin jókst úr 10 millj. í 15 millj., en það verður engan veginn hægt að tryggja það réttlæti í þessum efnum, sem æskilegt er talið, með þessari upphæð. Og jafnvel þó að hún yrði tvöfölduð, yrði samt um að ræða ótalmörg álitamál, sem taka þyrfti ákvörðun um og er þetta mál allt í rækilegri athugun.

Þetta vildi ég láta koma fram, að það er fullur vilji af hálfu menntmrn. og af hálfu ríkisstj. til þess að halda áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið lagt út á — stíga hvert sporið á fætur öðru í þá átt, sem við teljum, að stefni að auknum jöfnuði Ekki aðeins á aðstöðunni til þess að sækja skóla, heldur einnig til þess að bæta úr því misrétti, sem mismunandi efnahagur kann að valda á getu ungmenna til þess að sækja skóla.

Ég vil geta þess, að núverandi þjóðfélagskerfi gerir ýmsar ráðstafanir til þess að jafna þann mun, sem er á efnahag manna, og þann mun, sem er á aðstöðu manna til þess að sækja skóla. Þar vil ég fyrst og fremst vekja athygli á því, að hér er skólavist ókeypis frá því, að skyldunám hefst og þangað til lengsta háskólanámi lýkur. Þetta á sér engan veginn stað í öllum nálægum löndum og raunar færri nálægum löndum en fleiri. Í þessu er fólgið meginframlag islenzka ríkisins til þess að gefa öllum, sem hug hafa á skólanámi, kost á því að hljóta það nám. En það er engan veginn svo, að við þetta sé látið sitja. Um er að ræða ýmiss konar ráðstafanir á félagsmálasviðinu, sem m.a. er ætlað að auðvelda fjölskyldum sem hafa fyrir börnum að sjá, það að láta þau hljóta skólamenntun. Tilgangur fjölskyldubóta, sem greiddar eru til og með 15 ára aldri og tilgangur barnalífeyris, sem nú er ætlunin að hefja að greiða allt að 16 ára aldri, er m.a. sá að auðvelda barnmörgum fjölskyldum að láta börn sín sækja skóla. En í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að þegar fjölskyldubætur á sínum tíma og barnalifeyrir voru miðaðar við 15 ára aldur, hefur án efa þar verið höfð hliðsjón af því, að skólaskylda var þá til 15 ára aldurs og er það enn. Nú eru uppi áætlanir um, eins og hv. þm. er kunnugt, að lengja skólaskyldu til 16 ára aldurs. Ég tel alveg rökrétta afleiðingu af því vera, að bæði barnalífeyrir og fjölskyldubætur séu lengd um eitt ár, eins og nú er raunar fyrirhugað og nái þannig a.m.k. til skólaskyldunnar.

En meira er gert en þetta til þess að jafna efnahagsmun í þessu sambandi og það er atriði, sem almenningi og jafnvel alþm. virðist ekki vera fullkunnugt um. Gildandi skattalög veita heimild til verulegs frádráttar vegna barna, sem eru í skóla, og getur sá frádráttur orðið allt að 39 þús. kr. vegna hvers skólanemanda, sem foreldrar hafa á framfæri í skóla. Hér er auðvitað um að ræða mjög mikilvægt framlag af hálfu ríkisins til þess að jafna efnahagsmun foreldra, sem eiga börn í skóla. Það er líka um að ræða verulegar ráðstafanir nú þegar til þess að jafna aðstöðumuninn og vil ég í því :sambandi nefna niðurgreiðslu á fæði í heimavistum og greiðslu á flutningi nemenda frá heimili til skóla. Þetta er sú aðstoð til jöfnunar á aðstöðumun, sem var í gildi, áður en 15 millj. km. styrkurinn kom til skjalanna. Hann kemur síðan til viðbótar því. Að því er snertir það nám, sem er lengst og dýrast, háskólanámið, þá er, eins og allir vita, í gildi mjög viðtækt kerfi ti1 námslána og námsstyrkja ti1 þess að bæta úr efnahagsmun, sem kann að vera hjá þeim aðilum, sem vilja stunda háskólanám.

Ég bendi á, að nú þegar hafa verið gerðar og eru gerðar margvíslegar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til þess að jafna efnahagsmun og aðstöðumun þeirra, sem vilja sækja skóla allt frá barnaskóla og til loka háskólanáms. Engu að síður er mér algerlega ljóst, að það, sem þegar hefur verið gert, er ekki nóg og þess vegna hefur athugunum á þessu máli verið haldið áfram í menntmrn. og þess vegna get ég í sjálfu sér mjög vel skilið og læt í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga, sem kemur fram á þessu máli með flutningi þessa frv. og þeirrar brtt., sem við það hefur þegar verið flutt. Þær hugmyndir, sem fyrst og fremst eru uppi um þetta efni, eru þær að láta greiðslu fjölskyldubóta og barnalífeyris fylgja skólaskyldunni, eins og þegar hefur fyrsta sporið verið stigið í áttina að. Það er í alla staði eðlilegt, að menn njóti bæði fjölskyldubóta og barnalífeyris fyrir börn, meðan þau eru í skylduskóla og það ætti að vera verulegt framlag til þess að auðvelda foreldrum þá fjárhagsbyrði, sem af því er að hafa börn á skyldunámsstigi og raunar er ekki nema sjálfsagt, að ríkið komi til móts við barnmargar fjölskyldur í þessu efni, þegar það skyldar börn og unglinga til þess að vera í ríkisskóla.

Ég tel, að mjög sómasamlega hafi verið séð fyrir þörfum háskólastúdenta, eins og ástand .ána- og styrkjamála er nú og þó sérstaklega miðað við þær áætlanir, sem uppi eru um áframhald á aukningu á opinberum framlögum í Lánasjóð ísl. námsmanna, þ.e.a.s. að gefnar hafa verið bindandi yfirlýsingar um það, hver stefna ríkisvaldsims skuli vera í þeim efnum, og ég tel, að þar þurfi ekki um að bæta. En eftir stendur framhaldsskólastigið, þ.e.a.s. nemendur, sem eru í framhaldsskólum eftir að hafa lokið skyldunámi og þangað til þeir kunna að hefja háskólanám. Það er vandinn. Og þetta stig mundi vera þriggja ára stig, ef frv. um grunnskóla og skólakerfi nær fram að ganga á næsta þingi, sem ég vona, að verði. Og þá tel ég, að samfara lögfestingu þeirra frv. um 1engingu skólaskyldunnar um eitt ár þurfi að koma sérstakar ráðstafanir til þess að aðstoða þá nemendur, sem stunda vilja framhaldsnám, sem gera má ráð fyrir að verði í framtíðinni enn þá fleiri en þeir hafa verið að undanförnu.

Þessi vandi um stuðning við framhaldsskólanemendurna hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þess, að tala framhaldsskólanemendanna hefur farið vaxandi á undanförnum árum, stórvaxandi og það hefur auðvitað kallað á auknar ráðstafanir gegn vandanum og aukið stærð hans. En það má hins vegar ekki verða ti1 þess, að menn hrökkvi frá því að gera tilraun til þess að leysa hann. Þetta mætti gera með ýmsu móti. Ég skal ekki ræða það í einstökum atriðum, en aðeins nefna þær hugmyndir, sem helzt hafa verið uppi í því sambandi. En þær eru að gera ráð fyrir, að í raun og veru haldi greiðsla fjölskyldubóta og barnalífeyris áfram allt til loka þess tíma, sem þeir eru í skóla, m.ö.o., að allir nemendur í framhaldsskólum skuli hljóta hliðstæða aðstoð og felst í greiðslu fjölskyldubóta til barna og unglinga, meðan þeir eru í skylduskólanum og greiðsla barnalífeyris fari fram, á meðan menn eru í skylduskólanum og þá geri ég ráð fyrir því, að næsta spor verði að færa greiðslu fjölskyldubóta upp um eitt ár, þ.e.a.s. samræma greiðslu fjölskyldubóta skólaskyldualdrinum. Síðan tel ég, að í stað þess að heimila þann skattafrádrátt, sem nú er heimilaður vegna nemenda í skóla, þá eigi að hætta honum, en ríkið að taka tilsvarandi fjárhæð og sparast við það og leggja í Námskostnaðarsjóð ásamt upphæð, sem svarar til fjölskyldubóta og barnalífeyris fyrir nemendur á framhaldsskólastiginu og hefja síðan sjálfstæðar fjárveitingar í sjóðinn. Ef þetta þrennt dugir ekki, upphæð, sem svarar til fjölskyldubóta á nemendur, sem eru í framhaldsskólum, upphæð, sem svarar til barnalífeyris til nemenda, sem eru í framhaldsskólum og upphæð, sem svarar til þess, sem ríkið sparar við það, að skattfrádrætti er hætt vegna nemenda í framhaldsskólum. Það hafa þegar verið gerðar áætlanir um, hversu miklum fjárhæðum þetta mundi nema. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara svo ýtarlega út í málið að nefna það hér, en þær eru verulegar. Og þeim mætti síðan jafna á alla nemendur, sem eru við ná í framhaldsskólum. Þar vaknar sú mjög viðkvæma spurning, hvort jafna eigi slíkri upphæð jafnt á alla nemendur í framhaldsskólum eða taka tillit til efnahags foreldranna. Eins og menn vita er ekki tekið tillit til efnahags foreldranna eða aðstandenda við úthlutun lána og styrkja úr Lánasjóði ísl. námsmanna. En það er mjög umdeilt atriði. Stefna stúdentanna sjálfra hefur verið sú að taka ekki tillit til efnahags aðstandenda, en svo mörg rök, sem má færa fyrir báðum sjónarmiðum í því tilliti, má færa enn fleiri rök fyrir ólíkum sjónaniðum í þessu efni, ef um væri að ræða styrk eða laun til framhaldsskólanemenda, svo að ég skal ekki fara 1engra út í það að ræða það efni hér.

Grundvallarhugmyndin, sem verið er að fjalla um og hugleiða alla kosti og galla við, er sem sagt þessi, að eftir að skólaskylda hefur verið lengd um eitt ár og eftir að einu ári hefur verið bætt við fjölskyldubætur, eins og nú er meiningin að gera við barnalífeyrinn, þá verði tekið að greiða til framhaldsskólanemenda hliðstæðar upphæðir og fjölskyldubætur, barnalífeyrir og skattahlunnindi nú nema auk fjárveitinga úr ríkissjóði, sem mundu verða ákveðnar hverju sinni. Ástæðan til þess, að ég tel miklu réttlátara að hætta við skattafrádrátt vegna nemenda, sem nú á sér stað og nemur verulegum upphæðum, en taka í staðinn upp beinar greiðslur úr ríkissjóði til nemendanna, er sú, að nú hagnast menn þeim mun meir á skattafrádrættinum, sem þeir hafa hærri tekjur. Núverandi kerfi ívilnar í raun og veru þeim tekjuhærri miðað við hina tekjulægri, vegna þess að frádrátturinn lækkar skattinn hlutfallslega meira, eftir því sem tekjurnar eru hærri og menn komast hærra í skattstigann, svo að sú upphæð, senn ríkið núna ver til námsfólks í formi skattafrádráttar, nýtist að mínu viti miklu, miklu verr en hún ætti að nýtast.

Þetta eru þær grundvallarhugmyndir, sem á döfinni eru um þetta efni og ég er sannfærður um, að ef þær komast til framkvæmda í einu eða öðru formi, yrði bætt úr þeirri gloppu, sem er á núverandi kerfi til aðstoðar við nemendur, þ.e.a.s. annars vegar við nemendur á skyldustiginu og hins vegar við nemendur á háskólastiginu. Ég geri mér vanir um, að fullnaðarathugun á þessum efnum geti verið lokið eftir nokkram vikur og þá munu að sjálfsögðu niðurstöður þeirra athugana liggja fyrir í rn. til ráðstöfunar fyrir þá, sem þar fara með foráð, þegar kosningu er lokið. Málið er ekki nógu vel undirbúið til þess, að við getum mælt með því, að þetta þing taki afstöðu til þes, og þess vegna hefur meiri hl. menntmn. lagt til, að þessu máli

yrði vísað til ríkisstj., en ég tel, að málið geti fyrir næsta þing orðið svo rækilega undirbúið, að hverjir þeir, sem þá fara með völd, geti lagt fram um það mjög rökstuddar og ýtarlegar till. A.m.k. er unnið að því, að svo geti orðið. Það er m.ö.o. málið sjálft, sem í mínum og okkar augum skiptir mestu máli, að sé rækilega kannað og skynsamleg og ábyrg lausn á því undirbúin.

Ég skal að síðustu lýsa yfir því, að verði þessu máli vísað til ríkisstj., mun hún skoða það sem staðfestingu Alþ. á því, að þeim athugunum, sem þegar eru í gangi á þessu mikilvæga máli, skuli haldið áfram og hverjir svo sem fara með völd í rn., skulu undirbúnar till. lagðar fyrir næsta þing um lausn á þessu vandamáli. M.ö.o., ég vil undirstrika það, að verði málinu vísað til ríkisstj., felst í því jákvæð afstaða Alþ. og áskorun á ríkisvaldið um það að finna jákvæða lausn á þessu vandamáli.

Ingvar Gíslason: Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið til 2. umr. um sinn og eitt og annað verið sagt í því sambandi. Nú hefur hæstv. menntmrh. flutt hér ræðu, þar sem hann vill leysa þetta mikla mál, sem hér er formað í frv. um Námskostnaðarsjóð, með auknum Fjölskyldubótum og barnalífeyri. Að öðru leyti tók hæstv. ráðh. jákvætt undir höfuðefni þessa máls eða það markmið, sem þetta frv. stefnir að. Því miður er þessi lausn hæstv. ráðh. um það að leysa þessi mál með auknum fjölskyldubótum og barnalífeyri svo nýlega tilkomin hugmynd, að það er dálítið erfitt að ætla sér að ræða hana. Vel má vera, að í þessu felist einhver lausn, en fljótt á litið sé ég ekki, að þar sé um heppilegri aðferð að ræða en við flm. frv. bendum á með stofnun sérstaks Námskostnaðarsjóðs, sem hafði það markmið að greiða beinlínis þann kostnað, sam sannanlega hlýzt af því, að börn og unglingar verða að sækja skóla fjarri heimilum sínum, auk þess .sem nýtt kæni til, ef samþ. yrði brtt. frá minni hl. menntmn. um það að gera nemendum kleift að sækja skóla, sem af fjárhagsástæðum geta ekki sótt skóla, þó að þeir búi nálægt þeim. Sem sagt, ég hygg, að það þurfi að athuga mjög gaumgæfilega og nánar þessa hugmynd hæstv. ráðh. um það að leysa málin með fjölskyldubótum og barnalífeyri. Mér lízt þannig á, að þar sé sízt um færari leið eða betri að ræða fyrir almenning en það, sem við höfum bent á.

Þetta mál um að jafna aðstöðumun til náms hefur verið til umr. hér á hv. Alþ. nú um lant skeið og víða verið rætt í þjóðfélaginu og það má segja, að hér sé um viðurkennt vandamál að ræða, sem úr þurfi að bæta. Þetta nál var fyrst vakið hér á Alþ. árið 1965, þegar þrír þm. Framsfl. fluttu till. til þál. um ráðstafanir til þess að draga úr þessum mun. Síðan hefur málið verið til umr. með einum eða öðrum hætti hér á hv. Alþ. öll þessi ár og nú síðast er þess að minnast, að þetta mál er sérstaklega tekið fyrir í skólamálafrv. ríkisstj., sem fram komu í vetur og þar er lögð á það sérstök áherzla, að nauðsynlegt sé að stefna að því að jafna þennan aðstöðumun, og má telja, að það sé eitt höfuðatriði þessara frv. Að vísu eru ýmsar leiðir til úrbóta í því að jafna aðstöðumun nemenda til náms og hæstv. ráðh. hefur komið hér inn á sumar þeirra, eins og það að byggja skóla sem víðast um landið. Það er að sjálfsögðu ein leiðin og sú leið er yfirleitt farin hér á landi og hefur verið farin ætíð. En einnig er hægt að jafna hinn fjárhagslega aðstöðumun, sem leiðir af því, að nemendur verða að sækja skóla utan heimilis, með beinum fjárframlögum. Og þriðja atriðið er svo það, sem minni hl. menntmn. bendir á, það er að styrkja þá nemendur til náms, sem ekki geta stundað nám vegna fátæktar.

Það er búið að ræða svo mikið og almennt um þetta mál, að ég veit ekki, hvort ástæða sé til að fara um það fleiri orðum að því leyti. En mig langar til í sambandi við þessar umr. að minna á það, að námsaðstoð hér á landi er mun minni en nú tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, a.m.k. á þeim Norðurlandanna, sem búa við svipuð skilyrði og við, sem eru þá fyrst og fremst Noregur og Svíþjóð. Þar nær námsaðstoð til miklu fleiri námsmanna, en gerist hér á landi. Það má segja, að við séum alltaf í sama farinu að því leyti, að námsaðstoðin nær fyrst og fremst til háskólastúdentanna og þeirra, sem eru í lengra námi, en aftur á móti verða aðrir nemendur og hinn fjölmennari hópurinn, þarna út undan. Og það er einmitt það, sem við höfum viljað leiða athygli að með þessu frv., að úr þessu þurfi að bæta. Námsaðstoðarkerfið þarf að vaxa og það þarf að ná til miklu fleiri sviða en nú gerist. Að því leyti getum við lært af frændum okkar á Norðurlöndum, ekki sízt af Svíum og Norðmönnum, því að báðar þessar þjóðir eru komnar mjög langt á þessu sviði og Svíar líklega manna lengst. Þeir hafa verið frumkvæðisþjóð í þessum efnum, að jafna aðstöðumun til náms og forustuþjóð. Um allmörg ár hafa gilt lög og reglur í Svíþjóð um mjög víðtæka námsaðstoð, sem ekki nær aðeins til háskólastúdenta og annarra langskólamanna, heldur til allra framhaldsskólanemenda og raunar nemenda á lægri skólastigum. Og þarna er um að ræða bæði námslán og bein námslaun samkv. þeim l., sem gilda í Svíþjóð um þessi efni. Eins og eðlilegt má teljast, þá njóta háskólastúdentar og þeir, sem eru líkt settir og háskólastúdentar, hvað beztra kjara í þessu sambandi og þar er beinlínis gert ráð fyrir því, að samanlögð lán og laun svari normal námskostnaði, þannig að nemandi geti gefið sig óskiptan að náminu. Þetta er um þær reglur eða þau lög, er gilda um námsaðstoð í Svíþjóð, að segja.

En ef við lítum líka til Noregs, því að Norðmenn hafa sett sér mjög víðtækar reglur um þessi efni, þá er um það að segja, að þar hefur orðið gerbreyting nú á síðustu árum og Norðmenn hafa tekið þessi mál mjög föstum tökum. Þeir hafa sífellt verið að byggja ofan á námsaðstoðarkerfi sitt. Þar var byrjað svipað og hjá okkur, að styrkja háskólastúdenta og námslánasjóður Noregs var stofnaður fyrir um það bil 25 árum og var þá fyrst og fremst ti1 styrktar háskólastúdentum, en eftir 1956 hefur þessi sjóður verið stórefldur og hann hefur smám saman verið látinn ná til fleiri námsmanna. Og það síðasta, sem ég veit til að gerzt hafi í Noregi í þessum efnum, er það, að í júli 1969 voru sett ný lög um námsaðstoð til nemenda, sem stunda nám í framhaldsskólum og sérskólum, auk þess sem í hinum almennu fræðslulögum eru ákvæði um það, að allur aukakostnaður vegna náms barna og unglinga á skyldunámsstigi sé greiddur af hinu opinbera, þ.e.a.s. dvalarkastnaður, ferðakostnaður og fæðiskostnaður.

Af þessu má sjá, að .námsaðstoð í Noregi er miklu viðtækari en gerist hér á landi, og er það ekkert sambærilegt. Þannig að fólk, sem stundar nám í gagnfræðaskólum, í lýðháskólum, í menntaskólum, á ýmsum tæknilegum undirbúningsnámskeiðum, — slíkir nemendur geta notið námsaðstoðar og þannig koma undir þetta margs konar sérskólar, eins og húsmæðraskólar, fóstruskólar, búnaðar—, garðyrkju— og skógræktarskólar, námskeið í meðferð landbúnaðarvéla, stýrimannaskólar, loftskeytaskólar, vélstjóraskólar, matsveinaskólar, verkstæðisskólar, norski niðursuðuskólinn, listiðnskólinn, eða handiðaskólinn norski, listaskólar, verzlunarskólar og kennaraskólar einnig. Þess er líka að geta, að Norðmenn hafa í sínum lögum ákvæði um það, að styrkja megi efnalitla nemendur af þessum sjóði. Það er heimilt að styrkja nemendur, sem eiga efnalitla foreldra, svo að ákvæðið sé tekið beint upp sem eiga efnalitla foreldra, þótt þeir búi hjá þeim. Á þetta fyrst og fremst við nemendur upp að 12. skólaári. Einnig er heimilt að styrkja efnalitla háskólastúdenta og sérskólanemendur eftir þessari grein, ef þeir eiga við sérstaklega erfiðan fjáhag að stríða og þunga framfærslubyrði. Og þetta er til viðbótar þeim möguleikum, sem stúdentarnir hafa tld lána úr námslánasjóði. En þessi norsku lög, frá 10. júní 1969, sem ég var að minnast á, heita í lélegri þýðingu: Lög um stuðning við æskufólk, sem stundar framhaldsnám. Og þetta eru mjög víðtæk lög. En eins og ég sagði áðan, þá er einnig gert ráð fyrir því í grunnskóladögunum norsku, að börn og unglingar á skyldunámsstigi njóti ókeypis skólanáms að öllu leyti. En samkvæmt lögunum um stuðning við æskufólk, sem stundar framhaldsnám, eru þar bæði ákvæði um styrki og námslán. Þar er að finna ákvæði um ferðastyrki til nemenda, um dvalarstyrki þeirra, sem verða að sækja skóla utan heimilis, styrk til efnalítilla, .styk vegna skólagjalda og bókakaupa o.s.frv., styrk til listnáms, námslán og fleira, sem geta mætti um. Þannig að augljóst er, að námsaðstoðarkerfið í Noregi er mun víðtækara en gerist hjá okkur og ég fæ ekki betur séð en Norðmenn séu komnir miklu lengra á því sviði að greiða allan aukakostnað, sem leiðir af skyldunámi. En það er einmitt sú hugsun, sem ekki sízt liggur á bak við það frv., sem hér er flutt, að allur slíkur aukakostnaður verði greiddur af hinu opinbera og fyrr getum við ekki talað um ókeypis skólavist á Íslandi eða um fullkomið lýðræði, demókratiseringu, í okkar fræðslukerfi.

Svo að ég víki beint að frv. um Námskostnaðarsjóð, sem hér liggur fyrir, þá er efni þess það, að lagt er til að lögfesta reglur um jöfnun aðstöðumunar í námi og er lagt til að afla fjár í þessu skyni með sérstökum hætti. Það er ekki meiningin að leggja byrði á ríkissjóð alfarið, án þess að sjá fyrir tekjum í þennan sjóð. 1. flm. frv. hefur gert mjög rækilega grein fyrir því, en svo virðist sem meiri hl. hv. menntmn. hafi ekki gert sér grein fyrir þessu atriði, að þarna er um að ræða sérstaka fjáröflun, sem full ástæða er til þess að vekja athygli á og ræða. En sú fjáröflun, sem þarna er um rætt, er annars vegar, sérstakt álag á áfengis— og tóbaksvörur og á öl og gasdrykki. Með þessu álagi má gera ráð fyrir, að fá megi verulegt fé, lík;ega svo að skiptir tugum milljóna. Þá er einnig gert ráð fyrir sérstöku framlagi úr ríkissjóði, sem mundi nema um 30 millj. kr., ef þessi ákvæði yrðu lögfest. Nú er þegar búið að ákveða að greiða úr ríkissjóði 15 millj. kr. þannig að hækkunin á beinu framlagi ríkissjóðs yrði þá ekki nema um þessar 15 millj. og fæ ég ekki séð, að þar sé um neina sérstaka ofrausn að ræða.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál almennt, en ég tel það miður farið, að hv. menntmn. skyldi ekki taka frv. öðrum tökum og ræða það með öðrum hætti. Það má vel vera, eins og oft er um frv., sem fram eru lögð, að þau eru ekki alfullkomin og það getur verið ástæða til að breyta þeim og oft er það svo, að þegar n. leggja sig fram, tekst þeim að bæta frv., sem fram eru lögð. Við höfum fyrir okkur ýmis dæmi um það, án þess að ég ætli að nefna nokkur sérstök. Þó vil ég nefna frv. um Fiskvinnsluskólann, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram um daginn. Það hefur gengið með miklum hraða, ánægjulegum hraða, í gegnum þá þn., sem hafði málið til meðferðar og með þeim hætti, að ég tel, að frv. hafi stórlega batnað í meðförum n. Sama held ég, að hefði mátt ske í hv. menntmn., að hefði þetta frv. okkar um Námskostnaðarsjóð verið rætt með sama hugarfari, hefði sjálfsagt mátt bæta úr einhverjum á göllum, sem á því kynnu að vera og afgreiða það hér jákvætt og samhljóða út úr deildinni.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð að sinni, en endurtek það, að mér þykir miður, að hv. menntmn. skyldi ekki sjá sér fært að mæla með samþykkt frv.

Magnús Kjartansson: Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. menntmn. og hæstv. menntmrh. hafa vakið athygli á því, að frá minni hl. menntmn. hafi komið fram brtt. við það frv., sem upphaf1ega lá fyrir og tel ég, að með þeirri brtt., hafi eðli málsins verið breytt mjög verulega. Mér þykir rétt að segja um þetta nokkur orð, vegna þess að þessi brtt. er frá mér komin. Ég bar það upp við hv. alþm. Sigurvin Einarsson og Eystein Jónsson, hvort þeir gætu ekki fallizt á að breyta frv. á þá 1und, að hlutverk Námskostnaðansjóðs yrði ekki aðeins það að veita námsstyrki nemendum í skólum .landsins, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum, meðan á námi stendur, heldur yrði þar bætt við, að þeir nemendur, sem eiga við erfiðar fjárhagsaðstæður að búa af öðrum ástæðum, ættu einnig rétt á framlögum úr þessum sjóði. Þessir tveir hv. þm. féllust á þetta sjónarmið og við flytjum þessa till. sameiginlega. Hins vegar taldi ég það mikið prinsipmál, að þetta atriði yrði fellt inn í frv. einnig. Það er grundvallaratriði í lýðræði á Íslandi að tryggja öllum jafnan rétt til náms. Það eru margar aðstæður, sem torvelda það, að hægt sé að tryggja mönnum þennan rétt. Það er þetta ástand, sem menn þekkja, að fjölmargir nemendur verða að fara langar leiðir brott frá heimilum sínum til þess að stunda skóla, en það er einnig þannig ástatt í okkar þjóðfélagi, að nemendur, sem búa í nágrenni við skólann, hafi ekki alltaf efni á að stunda þar nám.

Ég hef nokkrum sinnum spurt um það hér á þingi og raunar einnig í menntann., hvort ekki hafi verið framkvæmd einhver könnun á því, hvernig aðstæður stúdenta eru, þ.e.a.s. úr hvaða stétt stúdentinn er kominn. Mér hefur skilizt, að einhver gögn um þetta muni vera til í menntmrn., en mér hefur ekki tekizt að fá neina vitneskju um þetta. Samt hygg ég, að þetta mundi koma í ljós, ef þetta væri kannað gaumgæfilega. En því fer mjög fjarri, að t.d. Reykvíkingar hafi raunverulegt jafnrétti til náms í menntaskólum hér af þessum ástæðum, að það er stór hópur af fjölskyldum, þar sem svo er ástatt fjárhagslega, að þeir hafa ekki efni á, að ungt fólk geti stundað nám, eftir að skyldunámi lýkur. Það verður auðvitað að leiðrétta þetta misrétti engu síður en það misrétti, sem stafar af .því, að ýmsir búa mjög fjarri þeim skólum, sem börn eða unglingar verða að sækja.

Ég skal segja það hreinskilnislega, að ég tel ekki, að þetta frv. til l. um Námskostnaðarsjóð leysi þann mikla vanda, sem við okkur blasir. Ég tel ekki, að það gangi of langt, eins og hæstv. ríkisstj. eða þeir flokkar, sem hana styðja, virðast ætla, heldur að það gangi til muna of skammt. Ég hef ekki trú á því, að þó að þetta frv. yrði samþ., mundi það leysa þann stóra vanda, sem hér er við að eiga. Hann er miklu stærri en svo. Engu að síður væri þetta ákaflega mikilvægt skref, og mér finnst það furðumikið fálæti hjá stjórnarflokkunum að afgreiða þetta mál algerlega á neikvæðan hátt án þess að sýna nokkra tilburði til þess að koma ti1 móts við sjónanmið flm.

Ég vil minna á það, að fyrir nokkrum vikum hafnaði meiri hl. þessarar d. frv., sem ég hafði flutt ásamt hv. alþm. Þórarni Þórarinssyni um framlög í Lánasjóð ísl. námsmanna. Það frv. var einvörðungu flutt til þess að Alþ. staðfesti stefnu, sem hæstv. menntmrh. hafði gert grein fyrir hér á þingi, þ.e.a.s. að auka þennan sjóð svo á þremur árum, að hann næði upphaflegu markmiði sínu. Hæstv. ráðh. hafði sagt, að þetta væri stefna ríkisstj., en engu að síður var því hafnað, að þetta yrði fellt hér í lög og meðal þeirra, sem höfnuðu því, var hæstv. ráðh. sjálfur. En aðalröksemdin, sem þá kom fram frá frsm. menntmn., var sú, að þeir, sem fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna, væru þrátt fyrir allt miklu betur settir en ýmsir aðrir, sem ekki hefðu aðgang að þeim sjóði. Og hann minntist á þá nemendur, sem væru í námi milli skyldunámsstig síns og háskólastigsins. Hann taldi, að það væri ekki hægt að leggja fram meira fé í þessu skyni vegna þess, að þeir væru að hjálpa þessum mönnum. En núna örskömmu síðar koma þessir sömu menn og hafna því, að nokkuð nýtt sé gert til stuðnings við þetta fólk. Þetta eru ekki heilindi. Það er ósköp auðvelt að standa hér og mæla fögur og bjartnæm orð. En þegar á reynir, þá kemur í ljós, hvað er á bak við orðin og því miður er það ekki neitt í þessu dæmi.

Ég hygg, að það sé nærri því áratugur, sem þetta mál hefur verið rætt hér á þingi — á hverju einasta þingi - og þar hafa þm. úr dreifbýlinn haft forustu og lagt sérstaka áherzlu á aðstöðumun vegna búsetu. Það eina, sem komið hefur verið til móts við þessi sjónarmið, er upphæð, sem tvívegis hefur verið á fjárl., fyrst 10 millj. kr. og nú 15 millj. Við heyrðum hæstv. menntmrh. lýsa því áðan, hversu erfitt verk hefði verið að úthluta þessum 10 millj. af nokkru skynsamlegu viti og það skil ég ákaflega vel. Til þess að úthluta slíkri upphæð, þannig að til gagns mætti koma, þyrfti hæstv. menntmrh. að búa yfir svipaðri kraftaverkaorku og Jesús Kristur, því að þessi upphæð er svo fjarri allri þeirri nauðsyn, sem við blasir á þessu sviði. En þó að lítið hafi fengizt gert í þessu máli hér á Íslandi, hefur verið mikið í þessu gert í nágrannalöndunum, eins og raunar hefur verið minnst á hér áður í ræðu Ingvars Gíslasonar hv. alþm. Ég hef kynnt mér dálítið, hvernig þetta kerfi er, t.d. í Svíþjóð. Þar er um að ræða aðstoð við námsmenn, sem skipt er í tvo þætti. Annars vegar er aðstoð við námsmenn undir 20 ára aldri, þ.e.a.s. námsmenn á menntaskólastigi eða þar undir. Þar er um að ræða menntaskóla og aðra skóla af ýmsu tagi, sem koma á eftir skyldunámsstiginu. Síðan þar fyrir ofan, er um að ræða aðstoð á háskólastigi, en munurinn á þessum tveimur þáttum er sá, að undir 20 ára aldri er fyrst og fremst um styrki að ræða, en eftir 20 ára aldur eykst hlutfall lánanna.

Það kom fram hér hjá hæstv. ráðh. áðan, að sú hugmynd væri uppi, að barnalífeyrir og fjölskyldubætur héldu áfram, þegar ungt fólk væri við nám. Þetta kerfi er búið að vera í Svíþjóð frá því 1965. Það er haldið áfram að greiða fjölskyldubætur með börnum, sem stunda nám í menntaskólum eða öðrum hliðstæðum skólum og raunar upp á háskólastig einnig. Og þessa aðstoð fá allir. Þar er um að ræða 100 sænskar kr. á mánuði, eða um 1.700 kr. íslenzkar á mánuði. Auk þess eru í skólum á þessu stigi ókeypis bækur, og þar er um verulega upphæð að mæða, eins og menn vita. Og það er einnig mjög algengt í skólum í Svíþjóð, að þar er ein máltíð á dag ókeypis. Auk þess er í Svíþjóð lagður fram ferðakostnaður og hann er þannig, að hann á að geta staðið undir öllum ferðalögum þeirra nemenda, sem verða að sækja nám utan heimabyggðar sinnar. Það eru settar um þetta sérstakar reglur miðað við það, hvað fjarlægðin er mikil, allt niður í 6 km. Auk þess er um að ræða sérstaka styrki, þar sem farið er eftir efnahag aðstandenda námsmanna. Það eru um þetta flóknar reglur, sem ég vil ekki fara að rekja hér, en þar er aðalreglan sú, að þeir, sem fá þennan rétt, fá 100 sænskar kr. aukalega á mánuði, eða 1.700 íslenzkar kr. Og á árinu 1969–1970 voru það 197 þús. nemendur á þessu stigi, menntaskólastigi eða hliðstæðu stigi, sem fengu þennan styrk, og nam upphæðin yfir 2.000 millj. ísl. kr. Þarna er um að ræða mjög umfangsmikla styrktarstarfsemi, eins og menn sjá. Auk þess er svo greiddur sérstakur dvalarkostnaður fyrir þá nemendur, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum og það er reiknað með því, að sá dvalarkostnaður hrökkvi bæði fyrir mat og húsnæði. Þar er um að ræða 125 kr. sænskar á hvern námsmánuð, eða um 2.400 ísl. kr. Við þetta bætast svo sérstakir styrkir, sem veittir eru, ef um mjög erfiðar fjárhagsaðstæður er að ræða og þeir geta komizt upp í 75 sænskar kr. á mánuði, eða 1.275 kr. Þessa sérstöku styrki fengu á árinu 1968—1969 11.300 nemendur á þessu stigi og þetta nam um 119 millj. ísl. kr. Og enn er til í þessu kerfi sá möguleiki, að nemendur undir 20 ára aldri geti einnig fengið námslán, svo að hér er um að ræða kerfi, sem er orðið býsna fullkomið og hefur verið í Svíþjóð frá 1965.

Það er sannarlega ekki þannig ástatt, að við þurfum að ganga hér um í einhverri þoku og getum ekki áttað okkur á því, hvernig eigi að taka á þessum vandamálum. Við höfum reynslu annarra þjóða, þ.á.m. þeirra þjóða, sem eru mjög nálægar okkur og við höfum mikil samskipti við. Ég trúi ekki öðru en hæstv. menntmrh. og embættismenn hans hafi fulla vitneskju um þetta sænska kerfi. Hliðstætt kerfi er einnig í Noregi, eins og greint var frá hér áðan, og á síðasta ári voru sett ný lög í Danmörku um mjög víðtækt styrktarkerfi eða stuðningskerfi við námsmenn, sem byggt er á sömu grundvallarreglum og í Svíþjóð, þ.e.a.s. umskipti eru við 20 ára aldur. Á milli skyldunámsins og 20 ára koma til styrkir, en eftir 20 ára aldur koma meira til lán. Þessi lög eru tiltölulega ný. Þau voru sett seint á síðasta ári og það er enn verið að semja við þau reglugerðir og því verður ekki lokið fyrr en um mitt þetta ár, en það er talið, að þarna verði um mjög umfangs mikla bót að ræða. Samt hygg ég, að t.d. Danir eigi mun auðveldara með að sækja framhaldsskóla en Íslendingar, vegna þess hvernig byggð er háttað í landi þeirra. Þetta er mun alvarlegra vandamál hér hjá okkur og það er mikil grundvallarnauðsyn, að tekið verði á þessu máli af fullri alvöru.

Ég verð því miður að segja það eins og er, að ég legg ekki mikið upp úr þeim fögru orðum, sem hæstv. menntmrh. mælti hér áðan um nauðsyn umbóta á þessu sviði og lýsingum hans á því, hve mikið hefur verið að þessu unnið innan rn. Menn segja margt fagurt, þegar kosningar eru framundan og ég held, að það sé sérstök ástæða til þess að gjalda varhug við loforðum, sem gefin eru fyrir kosningar, en ekki á að efna fyrr en .eftir þær. Hæstv. ráðh. hefur enga möguleika til þess núna að tala um það, hvað það merki að vísa máli til ríkisstj. Það eru engar líkur á því, að hann gegni húsbóndastörfum í menntmrn. eftir nokkra mánuði. Ef hann hefði haft hug á því, að Alþ. hefði markað einhverja stefnu, sem hefði getað bundið þá ríkisstj., sem tæki við eftir kosningar, þá er tækifæri til að gera það núna. Og ef hann hefði haft þann raunverulega áhuga, sem hann talar um, hefði hann átt að hlutast til um það, þegar þetta frv. kom fram í upphafi þingsins, að þessir sérfræðingar, sem hann telur hafa verið að fjalla um þetta mál, könnuðu þetta frv., gerðu við það brtt., umsteypu því, ef þeir vildu, en gerðu eitthvað til þess að leysa málið og létu sér ekki aðeins nægja að vera með fögur orð.

Jónas Árnason: Herra forseti. Sennilega hefur hv. síðasti ræðumaður ekki gert sér ljóst, að hæstv. menntmrh. er ekki staddur í salnum og raunar enginn hæstv. ráðh., því að hann beindi máli sínu í lok ræðu sinnar beint til ráðh. Það er ekki við því að búast, þegar menn standa hér í ræðustól, að menn geri sér ljóst, hve margir ráðh. eru staddir í salnum. Við höfum ekki augu í hnakkanum. En ég verð að segja það, að mér finnst ástæða til þess að víta það, að við þurfum að standa sér og halda ræður og hlusta á ræður dag eftir dag og iðulega langtímum saman, án þess að nokkur hæstv. ráðh. sé staddur í salnum. Að sjálfsögðu flytjum við ræður okkar ekki hvað sízt til þess að hafa áhrif á þá. —Ég biðst nú afsökunar, ég sé, að hæstv. utanrrh. situr hér í hliðarherbergi — en við flytjum að sjálfsögðu ræður okkar ekki hvað sízt til þess að hafa áhrif á þá, sem mestu ráða um stjórn landsins. Menn segja kannske, að hæstv. ráðh. séu að stjórna landinu. En ég spyr þá, hvað erum við að gera hér? Er þetta orðinn einhvers konar málfundaklúbbur?

Ég vek máls á þessu hér, vegna þess að ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er ekki sú, að ég ætli enn einu sinni að fara að halda ræðu um það mál, sem hér er til umr., þ.e.a.s. mismunandi aðstöðu ungs fólks til náms á Íslandi. Það hef ég margsinnis gert eins og við margir fleiri þm. utan úr dreifbýlinu, sem þekkjum vel þetta vandamál. Ég sakna þess, að hæstv. menntmrh. er ekki í salnum, vegna þess að ástæðan til þess, að ég stend hér upp núna, er fyrst og fremst sú ræða, sem hann flutti hér áðan. Þetta var ein af þeim ræðum hæstv. ráðh., sem einkennast mjög af orðinu „rækilegur“. Þetta orð kom fyrir aftur og aftur í ræðu hæstv. ráðh., bæði sem lýsingarorð í öllum kynjum, — það hafði farið fram rækileg athugun í málinu, rækilegt mat á mismunandi aðstöðu ungs fólks til náms, átt sér stað rækilegur undirbúningur og einnig kom það oft fyrir sem atviksorð — málið hafði verið rækilega athugað og ekki bara í eina viku eða einn mánuð, því málið hefur verið rækilega athugað undanfarin tvö ár. Og þessi rækilega athugun stendur enn.

Ég stend hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við það frv., sem hér liggur fyrir. En ég hefði látið nægja að greiða því atkv., ef ekki hefði verið þessi ræða. Mér hefur nefnilega virzt, að þegar hæstv. ráðh. ræðir mál, sem þannig hafa verið unnin, að það nálgist hvergi nærri merkingu þessa orðs, „rækilegur“, þá noti hann þetta orð þeim mun meira í ræðum sínum um þau. Og eins og við vitum, þá er síður en svo, að þeir, sem eiga að njóta góðs af þessari rækilegu athugun, hafi fengið að sanna það í reynd, að hún hafi borið rækilegan árangur. Ég vil sem sé endurtaka það, að mér virðist yfirleitt, að það sé maðkur í mysunni, þegar hæstv. ráðh. flytur þessar ræður sínar. Og það er að mínum dómi vægast sagt hlálegt, þegar verið er að tala um þessar 10 millj. í fyrra og 15 millj. núna, ,sem einhverja lausn á þessu máli. Því fer svo víðs fjarri, að með þessum 10 millj. í fyrra eða 15 ~niilj. nú í ár hafi komið í ljós rækilegur árangur af hinni rækilegu athugun.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. og þær brtt., sem hv. minni hl. flytur við það. En svona ti1 fróðleiks fyrir hæstv. menntmrh., sem nú er kominn í salinn, þá flutti ég þessa ræðu vegna þ:ess, að mér virðist, að slælega hafi verið unnið að máli þessu, árangurinn af hinni rækilegu athugun hafi alls ekki verið í hlutfalli við það, hversu oft þetta orð kemur fyrir í ræðum hæstv. ráðh. um málið. Og þegar hæstv. ráðh. segir í lok ræðu sinnar, að með því að samþykkja till. hv. meiri hl. n. að vísa málinu ti1 ríkisstj., þá mundu alþm. vera að staðfesta það, að þeir vilji, að þessi rækilega athugun haldi áfram, þá virðist mér, að fengizt hafi sönnunin fyrir því, hve mikil þörfin er einmitt fyrir samþykkt þessa frv. og þá um leið þörfin fyrir áminningu til hæstv. ráðh. af hálfu hv. þm. um það, að þeim finnist, að ekki hafi nógu rækilega verið að þessum málum unnið.

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson): Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að hæstv. menntmrh. var í einu og öllu sammála meiri hl. menntmn., enda lét ég þess getið hér áður, að þessi meiri hl. n. mundi hafa tekið þessa afstöðu í samræmi við vilja hæstv. ráðh. Eins og hv. síðasti ræðumaður tók réttilega fram, þá lagði hæstv. ráðh. ákaflega mikla áherzlu á að skýra fyrir þm., hversu rækilega hann hefði látið rannsaka málið frá upphafi og hversu rækilega eigi að rannsaka málið eftir kosningar. Nú er málið ekki alveg nýtt. Fyrir tveimar árum eða á þinginu 1969 fluttum við 4 framsóknarmenn till. ti1 þál. um, að Alþ. skori á ríkisstj. að skipa mþn., er geri till. um fjárhagslegan stuðning við nemendur á skyldunáms— og framhaldsskólastigum, sem óhjákvæmilega verða að vista sig til langs tíma fjarri heimilum sínum o.s.frv. Málið er því ekki nýtt og hæstv. ráðh. hefur þess vegna haft tækifæri yi1 þess að hugsa rækilega um málið og undirbúa það vel. Í þessari till. var lagt til, að sett yrði mþn. í málið. Nú eru menn kannske farnir að sjá, hvaða þýðingu það hafði, að meiri hl. allshn., sem afgreiddi þá till., breytti henni þannig, að það var engin n. sett í málið og ekki heldur þetta höfuðverkefni, sem í till. okkar stóð, að henni væri ætlað að vinna, heldur var ríkisstj. falið að kanna eða gera yfirlit um kostnað ríkisins við skyldunám og framhaldsskóla sundurliðað við heimavistarskóla og aðra skóla. Þessi hluti till. mun hafa komið frá hæstv. ráðh., eftir því sem ég veit bezt. En í endi till. var þó sagt: „Einnig komi fram af yfirlitinu, hver aðstöðumunur nemenda er, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna við nám, og hinna, sem sækja skóla frá heimilum sínum og hafa þar alla vist.“Þannig var till. ~samþ. og af því að þessi endir varð þó á henni, vildu flm. till. sætta sig heldur við að fá þetta samþykkt en ekki neitt.

En ef hæstv. ráðh. hefur kynnt sér þessa þál., sem samþ. var 14. maí 1969 eða fyrir tæpum tveimur árum, get ég ekki betur séð en hann hafi alveg vanrækt það, sem stendur í till. — gersamlega vanrækt það. Það átti að koma fram yfirlit, sem sýndi aðstöðumun nemenda við nám. Það hefur aldrei verið gert. Hæstv. ráðh. lagði mikið kapp á að sýna fram á, hvað það væri geysilega flókið og erfitt verk að kanna það, 'hvernig ætti að veita skólanemendum í landinu fjárhagslegan stuðning. Á þessu væru svo margir agnúar, svo mörg tilbrigði og erfiðleikar á alla lund, að það þyrfti langan tíma að undirbúa slíkt. Hvernig var það með námslánin til háskólastúdenta, reglurnar ,sem tóku gildi núna í haust? Ég held, að það hafi ekki valdið neinum afskaplegum erfiðleikum að koma þeim reglum á og ekki eru stúdentar neitt öðruvísi menn en aðrir. Og hafi verið hægt að koma tiltölulega fljótlega á reglum um úthlutun námslána til stúdentanna, af hverju var þá ekki hægt á tveimur árum að setja reglur um úthlutun námsstyrkja handa framhaldsskólanemendum í landinu? Ég held, að það sé bókstaflega út í hött, sem hæstv. ráðh. er að mikla svona fyrir öðrum. Hann er ekkert að mikla það fyrir sér. Hann veit það sjálfur, að þetta er mjög auðvelt verk, ef nokkur vilji er fyrir því að gera það. En viljinn er enginn til hjá honum. Það vitum við náttúrlega allir og það, sem verra er, hann veit það sjálfur.

Hæstv. ráðh. taldi það einkennilegt og eiginlega alveg nýtt fyrirbrigði, að flm. frv. flytji brtt. við sitt eigið frv. Ég held, að þetta hafi gerzt á hverju einasta þingi í þau l5 ár, sem ég er búinn að vera á þingi. Og mér er sagt, að núna fyrir fáum dögum hafi ríkisstj. komið á framfæri við fjhn. Nd. 30—40 brtt. við skattafrv. hennar sjálfrar. Það munar ekkert um það, enda er ekkert við það að athuga. Ég held, að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh. að koma með slíkar till. og biðja n. að flytja þær eða flytja þær sjálfur. Nei, það er ekkert merkilegt við það, þó að minni hl. n. flytji brtt. við frv. og nú er það ekki minni hl. n., sem flytur frv., svo að þetta er líka rangt hjá hæstv. ráðh. Það er minni hl. menntmn., sem flytur brtt. við frv., sem flutt er af öðrum en n. Það er alveg sama, hvar maður drepur niður fingri, það er eins og ekkert geti haldið hjá hæstv. ráðh. í þessum ræðum hans.

Þá tíundaði hann það sérstaklega, að nú hefði fjárveitingin verið aukin úr 10 millj. í 15 millj., og ég sé frétt í blaði, sem var kastað inn í forstofuna hjá mér fyrir nokkrum dögum og var gefið út fyrir norðan, það heitir Norðanfari. Þar er fréttaklausa, þar sem stendur, að 1.400 nemendur hlutu styrki núna um áramótin. Ég skal taka það fram, að ég er ekki kaupandi blaðsins, því var bara fleygt inn þarna og ég fór að gæta að, hvað þetta væri. Ég hugsa helzt, að það hafi verið látið þarna inn í þeirri von, að ég kysi flokkinn, en ég er ekki farinn að kaupa blaðið enn þá. Ég sakna þess, að í þessari fréttakilkynningu var ekki sagt frá því, hvað þriðjungur þessara, sem hlutu styrkinn, fengi mikið. Ef einhver góður sjálfstæðismaður er nú hér inni, sem gæti kamið þessari leiðréttingu til blaðsins, þá væri það gott. Það voru nefnilega 1.323 kr., sem þriðjungurinn af nemendunum fengu. Mikið væri nú gott, ef blaðið segði frá því næst. Þá segir í þessari fréttatilkynningu: „Við umr. um fjárlagafrv. kom fram brtt. frá meiri hl. fjvn. þess efnis, að þessi liður yrði enn hækkaður um 3 millj., úr 12 millj. í 15 millj: Það var ríkisstj., sem ~agði til, að styrkurinn yrði ekki nema 12, en meiri hl. fjvn. kom því upp í 15. Er það ekki rétt, að minni hl. fjvn. hafi lagt til, að styrkurinn yrði 25 millj.? Mig minnir þetta.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þetta frv. er flutt. Þetta frv. fluttum við sömu flm. á síðasta þingi, þá var það svæft og hefði sennilega verið svæft núna líka, hefði ég ekki gengið dálítið bart eftir því, að það kæmi ti1 umr. Á fjárl. fyrir árið 1970, sem voru afgreidd í desember árið 1969, var þetta mál afgreitt og var þá búið að vera mjög til umr. almennt í blöðum og hér á hv. Alþ. vegna till., sem við höfðum flutt um þetta. Þá flutti ég þá brtt. við fjárl., að þessar 10 millj., sem þá var ætlunin að samþykkja, skyldu hækka upp í 25 og það var nafnakall um till., ef ég man rétt. Allir stjórnarsinnar felldu þá till., þ.á.m. hæstv. menntmrh., og þess vegna urðu það ekki nema 10 millj. þá. Ég held þess vegna, að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta, að tvö þing í röð er stjórnarliðið búið að koma í veg fyrir, að þessi fjárveiting verði meiri en hún hefur verið, 10 millj. í fyrra o,g 15 millj. núna í ár.

Þá nefndi hæstv. menntmrh. þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar til þess að jafna aðstöðumun æskufólks til menntunar í landinu og hann nefndi, að skólavist væri ókeypis í landinu. Er það ekki jafnt fyrir alla, hvort sem þeir eru fátækir eða ríkir? Ég hélt, að þetta væri ekki til þess að jafna aðstöðumun, þ.e.a.s. í ríkisskólunum er sjálf kennslan náttúrlega ókeypis. Þá nefnir hann barnalífeyri. Hverjir fá barnalífeyrinn? Það eru ekkjur, .sem fá hann, ekki ekkjumenn, sem t.d. fá ekki enn í dag einn einasta eyri í barnalifeyri. Og þetta á að hafa verið til þess að greiða fyrir menntun barna að láta feður þeirra aldrei fá einn eyri í barnalífeyri. Eitthvað er nú þetta vafasamt hjá hæstv. ráðh.

Loks nefndi hann það þriðja, sem gert væri til þess að börnin geti gengið í skóla. Það voru fjölskyldubætur. Eru þær ekki jafnar, hvar sem menn eru í landinu? Er það nokkur jöfnun á aðstöðumun? Fékk hæstv. ráðh. ekki fjölskyldubætur með sínum börnum, þegar þau voru á þeim aldri, alveg eins og ég með mínum? Ég held, að það hljóti að vera. Hann bjó reyndar hérna við skólavegginn. Að fjölskyldubæturnar hafi verið til þess að jafna aðstöðumun æskufólks til menntunar, það er fjarri .sanni.

Loks nefndi hann það fjórða. Það var skattfrádráttur vegna menntunar barna. Ég skal viðurkenna það, að ég man ekki eftir ákvæðum skattalaga um þetta atriði. Ég held, að þau séu þó ekki ákveðnari en það, að það sé heimilt að taka tillit til þess, ef bön eru við nám, en skattstjóri er alls ekki skyldur að gera það. Er það ekki rétt? Já, ég hélt það. En hvað hefur nú þetta að segja? Ætli verkamaður hafi ekki 16—17 þús. kr. laun á mánuði? Það hefur nú einn ágætur þm. sagt mér, að þeir komist eiginlega margir upp í 20 þús. kr. á mánuði. Ef það væri, að verkamaður eða láglaunamaðurinn kæmist upp í 20 þús. kr. meðaltal á mánuði og hefði 240 þús. kr. tekjur, brúttótekjur, hvað ætli það verði mikill skattafrádrátturinn hjá honum vegna námskostnaðar barnanna? Hann kemst ekki í neinn skatt og vantar mikið til. Persónufrádráttur hjóna með 4 börn er núna, ef ég hef reiknað rétt, 296 þús. En þó að þessi húsbóndi hafi 240 þús. kr. árslaun, er langt frá því, að hann komist í neinn skatt. Hvaða gagn hefur hann þá af þessum skattfrádrætti? Það eru þeir, sem eru hálaunaðir, sem hafa gagn af því, ekki hinir. Ekki er þetta til að jafna aðstöðuna, heldur þvert á móti.

Annað er það, sem mér þótti einna merkilegast við ræðu hæstv. ráðherra og það var það, hvað hann lagði mikla áherzlu á það, að hann hefði áhuga á þessu máli. Það yrði að jafna þennan aðstöðumun, það yrði að auka styrki og hann bókstaflega kom hér með hátíðleg loforð um, að þetta skyldi rannsakað rækilega eftir kosningar. Gat hæstv. ráðh. ómögulega gert þetta fyrir kosningar? Dugðu honum ekki þessi tvö ár til þess að koma sér niður á reglur um úthlutun styrkja og hve mikið þyrfti, ti1 þess að það munaði eitthvað verulega um þá? Nei, hann gat það ekki, hann varð að geyma það, þangað til eftir kosningar. Hann hugsar sjálfsagt sem svo: ,;Ef Guð lofar, að ég sé áfram ráðherra,“ því að annars þarf hann ekki að vera að lofa neinu. Hann getur ekki lofað neinu fyrir aðra.

Ég sagði það í ræðu minni hér síðast, að ég hefði gert mér vonir um stuðning við þetta mál frá a.m.k. sumum sjálfstæðismönnum hér í hv. d. Og ég gat þess, að ég byggði það á blaðaskrifum, sem hefðu orðið um þessi mál og birtust í Morgunblaðinu. Því miður voru fáir á fundi þá, nú eru fleiri á fundi og ég ætla aðeins að endurtaka örfá orð upp úr Morgunblaðinu til glöggvunar þeim hv. sjálfstæðismönnum, sem hér eru viðstaddir.

Í leiðara Morgunblaðsins, 15. jan. s.l., er því lýst mjög rækilega, hversu þörfin sé mikil á að jafna aðstöðumun ungmenna til náms og leiðarinn endar á þessum orðum, með leyfi forseta: .. . „en hvernig sem það er gert, er augljóst, að hér er á ferðinni réttlætismál, sem þjóðin verður að veita fyllstu athygli á sex næstu árum.“ Það er að jafna með þeim aðstöðumuninn. En enn þá betur finnst mér, að Morgunblaðið hafi komizt að orði í leiðara, sem birtist 29. jan., fyrir tæpum mánuði, þar sem segir, þegar búið er að lýsa þessari misjöfnu aðstöðu æskufólks til náms: „Menn hafa vaknað til vit undar um það, að í þessum efnum hefur mikið ranglæti viðgengizt árum saman.“ Og enn fremur: „en þetta er aðeins fyrsta sporið,“ þ.e. a. s. styrkveitingarnar til þess, að allir búi við það sama, hvað . em líður fjárhag foreldra eða búsetu. Enn fremur segir í þessum leiðara: „En óhætt er að fullyrða, að það er eitthvert stærsta verkefni á sviði menntamála okkar í dag að þurrka út þetta misrétti. Ég sagði það þá og endurtek það enn, að mér finnst þetta vel mælt og réttilega á allan hátt, en það er kannske vert að minna á síðustu orðin í þessum leiðara: „og þess verður að vænta, að ríkisstj. og Alþ. muni fylgja þessari stefnuyfirlýsingu eftir í reynd með myndarlegum og raunhæfum aðgerðum.“

Ég mun ekki trúa því, fyrr en atkvgr. fer hér fram, að allir sjálfstæðismenn rétti upp höndina með því að vísa þessu máli til hæstv. menntmrh. Ég mun ekki trúa því. Og ég á ákaflega erfitt með að skilja það, að flokkur, sem hefur lagt svo mikla áherzlu á að kynna það fyrir þjóðinni, hvað honum sé það mikið hjartans mál að koma á meiri jafnræði við menntun æskufólks í landinu en nú er, fari eftir einhverjum fyrirmælum hæstv. menntmrh. um það að vísa þessu máli frá. Ég á bágt með að trúa því, segi ég og ég mun ekki gera það, fyrr en ég sé, hvernig atkv. falla. Ég skal svo ekki tefja þessar umr. lengur, nema þá sérstakt tilefni gefist til.

Halldór E. Sigurðsson: Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi upplýsa vegna þess, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vestf. í sambandi við frásögn blaðsins Norðanfara af afgreiðslu á þeirri fjárveitingu, sem ákveðin var til styrktar nemendum úr strjálbýli við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin í vetur. Á þskj. 279 fluttum við í minni hl. fjvn. till. um það, að hækka þessa fjárveitingu úr 12 millj. kr. í 25. Í framsöguræðu, sem ég flutti hér í hv. Alþ. fyrir þessari till. okkar, skýrði ég m.a. frá því, að á fundi sveitarstjónarmanna, sem haldinn var í sep~. s.l., hefði hæstv. menntmrh. sagt frá því, að 12 millj. kr. væru ætlaðar til þessa verks, en áreiðanlega mundi það verða hækkað í meðförum Alþ. Við í minni hl. höfðum reynt að fá þessu þokað nokkuð ti1 betri vegar í fjvn., en það tókst ekki, og kenndi ég hæstv. ríkisstj. um það. Ég lét orð að því liggja, að ég treysti hæstv. menntmrh. til þess að standa við orð sín um þessa fjárveitingu. Undir umr. bauð hann okkur minnihlutamönnum samkomulag í þessu máli, að ef við vildum taka till. okkar til baka, skyldi hann beita sér fyrir því, að þessi fjárveiting yrði hækkuð úr 12 millj. í 15 millj. kr. og fjvn. flytti þá till.

Þar sem okkur var ljóst, minnihlutamönnum í fjvn., að ekki var um betri kost að velja en að þoka þessu til um 3 millj. kr., varð það að samkomulagi, að við drægjum okkar till. ti1 baka og fjvn. í heild flytti till. um l5 millj. kr. fjárveitingu. Þetta gerði fjvn. og samkvæmt þskj. 286 er þessi brtt. sú fyrsta á því þskj. frá fjvn. í heild, en ekki frá meiri hl., eins og Norðanfari sagði frá. Ég sá þetta í blaðinu Norðanfara, því að þeir, sem að þeirri útgáfu standa, hafa sýnt mér þá vinsemd að senda mér þetta blað og ég hafði nú hugsað mér að senda þeim leiðréttingu, sem ég því miður hef gleymt, en ætla þó að gera það hér eftir og treysti því, að þeir vilji hafa það, sem sannara reynist, og birta leiðréttingu á þessari frásögn, sem því miður er röng.

Pálmi Jónsson: Herra forseti. Inn í þessar umr. hefur blandazt tal um störf n., sem fjallað hefur um úthlutun þeirra 10 millj., sem á síðasta ári voru ætlaðar til þess að jafna aðstöðu nemenda í ,trjálbýli, og síðasti hv. ræðumaður gerði einnig grein fyrir, að þessi fjárhæð hefur nú verið hækkuð í fjárl. yfirstandandi árs í 15 millj. Hv. 1. þm. Vestf. vék að störfum n., sem úthlutar þessu fé og gerði heldur lítið úr þeim styrkjum, sem þarna koma fram. Hv. þm. nefndi, að þriðjungur þeirra nemenda, sem hlotið hefðu styrk, hefðu einungis fengið kr. 1.323 hver. Með því að hv. þm. nefndi ekki annað, en þennan hluta styrkþega, má skilja þetta á þann veg, að með þessu væri gerð tilraun til að halla réttu máli, því að auðvitað hefði hann átt að geta einnig hinna, sem hærra fengu. Hið rétta er, að alls var úthlutað til nálægt 1.500 nemenda, en skýrsla um það liggur ekki endanlega fyrir enn þá, vegna þess að styrkbeiðnir, sem komu fram seint og allt fram á þetta ár, hafa verið afgreiddar allt til þessa, en nú verður þó að segja, að það fé, sem til þessa var ætlað, er þtotið. Til mótvægis við það, sem hv. þm. nefndi, má nefna, að helmingur styrkþega hlaut 10.647 kr. í styrk, en meðaltal allra styrkja var rúmlega 7.000 kr. Styrkirnir voru, sem kunnugt er, bæði ferðastyrkir og dvalarstyrkir og það leiðir af sjálfu sér, að þeir sem fengu einungis ferðastyrki, hlutu mun lægri fjárhæð.

Á yfirstandandi ári er ætlað að verja 15 millj. til þessara hluta og hafa þegar verið send út umsóknareyðublöð. Umsóknir eru að berast til rn. og úthlutun er þegar hafin til þeirra skóla, sem ljúka kennslu fyrr en almennt gerist. Stefnt verður að því af hálfu n. að ljúka þessari úthlutun það tímanlega, að nemendur geti fengið þessa styrki áður en þeir hverfa heim úr skólum í vor. Reglum um úthlutun hefur nokkuð verið breytt. Þar er gert ráð fyrir að taka upp ferðastyrki til tveggja ferða í stað einnar áður, þannig að nemendur fái nú ferðastyrk fyrir ferð heim í jólaleyfi. Enn fremur er ferðastyrkur hækkaður um 20% vegna hækkana á fargjöldum. Dvalarstyrkur verður hins vegar óbreyttur eða 1.200 kr. á mánuði, en með því að hækka ferðastyrkina umfram dvalarstyrkina, þá má ætla, að komið sé meir til móts við þá nemendur, sem langt þurfa að sækja og hafa þar með erfiðustu aðstöðuna til þess að sækja skólanám. Reglunum hefur auk þess nokkuð verið breytt á þann veg, að þetta fé nýtist sem bezt í samræmi við hinn eiginlega tilgang þess, þ.e.a.s. til þess að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem verst skilyrði hafa til þess að sækja skóla og leggja í mestan kostnað við það.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, vegna þess að ég á sæti í þeirri n., sem fjallar um úthlutun þessa fjár og með tilliti til þeirra orða, sem ég greip úr ræðu hv. 1. þm. Vestf.

Matthías Bjarnason: Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nema aðeins um nokkur orð. Ég vil taka það fram, að ég er einn þeirra þm., sem vilja stefna að því að jafna þann aðstöðmun, sem er fyrir nemendur í strjálbýli að stunda nám, og ég er í megin efnum sammála því, að það sé stefnt að því að stofna Námskostnaðarsjóð. En ég er ekki sammála því að lögbinda þetta nú á þessu þingi, það er annað árið, ,sem framlagið er veitt á fjárl. til greiðslu námskostnaðar og það hefur verið, eins og hefur komið fram hér áður í þessum umr., 10 millj. fyrra árið og 15 millj. á yfirstandandi ári, en það þarf auðvitað að hugsa betur fyrir tekjum slíks sjóðs eða tekjustofni. En það er eitt, sem ég er algerlega á móti, sem er í þessu frv. og ég vil láta það koma fram. Ég er á móti því að lögbinda það, að 5% af söluverði allra vara Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins fari í Námskostnaðarsjóð, Í raun og veru er ég undrandi yfir því, að þeir .-menn, sem eru algjörir reglumenn bæði á vín og tóbak og vilja alls ekki, að slík verzlun eða starfsemi sé í okkar landi, skuli blanda hugsjónarmálum sínum saman við það að láta brennivín og tóbak standa að meginhluta undir þessari fjáröflun. Og ég veit það, að jafnfróðir menn og 1. flm. þessa frv. er, gætu vel fundið betri og eðlilegri tekjustofn en þennan.

Ef við athugum, hvernig þessi mál standa núna, hver framlögin eru, sem eru 15 millj. og hvað hv. flm. leggja til, að sé lögboðið framlag samkv. þessu frv., þá er stökkið úr 15 millj. í 92 millj. Miðað við söluverð á áfengi og tóbaki árið 1969 samkv. ríkisreikningum, er það um 1.235 millj., sem mundi jafngilda um 62 millj. í sjóðinn, sennilega meira núna, og nálægt 30 millj. kr. í framlag ríkisins, 150 kr. á hvern íbúa landsins. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég tel það á engan hátt óeðlilegt og mjög athugunarvert að 1ögbinda framlag ríkissjóðs við ákveðna upphæð, sem væri miðuð við íbúatölu landsins, til að greiða í slíkan sjóð, sam stofnaður yrði. Ég er ekki sammála 1. flm. frv. í þeim efnum, að það sé hægt án þess að taka jafnframt til athugunar og það rækilegrar athugunar, svo að við notum marg umrætt orð menntmrh., öflun tekna til þess að standa bæði undir þessum útgjöldum ríkissjóðs og öðrum. Í raun og veru deilum við alls ekki um þörf þessa sjóðs, en ég held, að það sé nauðsynlegt bæði í þessum efnum og öðrum, sem við stefnum ti1 aukinna framfara á, að stíga ekki of stór skref í einu, þannig að við þurfum þá kannske næsta ár eða næstu ár að stíga skrefið til baka.

Ég er að mörgu leyti þakklátur hv. 1. flm. þessa frv. fyrir að hafa flutt það. Það verður auðvitað til þess að ýta undir framgang þessa máls og ég segi fyrir mitt leyti, að þótt ég geti ekki fallizt á þetta frv. af þessum ástæðum nú, þá er það ekki af illvilja til málsins, en ég tek það fram, að ég get greitt atkv. með því að vísa þessu máli til ríkisstj. í fullu trausti þess, að hún taki málið — hvort sem það verður þessi ríkisstj. eða sú sem við tekur — til rækilegrar athugunar og undirbúi löggjöf, sem hún leggi fyrir næsta Alþ. Ég hygg, að þegar menn vilja vera sanngjarnir í þessum málum, eigi þeir að geta fellt sig við þessa afgreiðslu, en þó því aðeins að þetta sé fyrir hendi. Mín meining er alls ekki að vísa þessu máli til ríkisstj. upp á það, að það yrði lagzt á það og ekkert gert meira í þessum efnum. Ég tel, að með þessari tveggja ára reynslu, sem fengin er af námsstyrkjunum, sé komið að því, að það eigi að undirbúa löggjöf. En ég vildi aðeins, að þetta sjónarmið mitt kæmi hér fram og sömuleiðis andúð mín á fyrri tekjuöflunarleiðinni, sem er í þessu frumvarpi.

Umr. frestað.

Á 70. og 71. fundi í Nd., 26. marz, var frv. tekið til frh. 2. u~.

Forseti tók málið af dagskrá.

A 75. fundi í Nd., 29. marz, var enn fram haldið 2. umr. um frv.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason): Herra forseti. Það hefur orðið að samkomulagi milli ríkisstj. og flm. þessa frv., að ríkisstj. skipi n. til þess að gera till. um það mál, sem frv. fjallar um, þ.e.a.s. aðstoð hins opinbera við námsmenn til þess að jafna aðstöðu þeirra til náms. Gert er ráð fyrir því, að í n. eigi sæti fulltrúar tilnefndir af þingflokkunum 5, auk fulltrúa frá menntmrn. og skal það vera hlutverk n. að undirbúa frv. um þetta efni, sem unnt verði að leggja fyrir næsta Alþingi.

Frsm. minn hl. (Sigurvin Einarsson): Herra forseti. Að fenginni þessari yfirlýsingu frá hæstv. menntmrh. um skipan mþn. til að undirbúa fyrir næsta þing 1öggjöf um námsstyrkjakerfi til að jafna aðstöðumun æskufólks til menntunar, þá teljum við flm. svo sterkar líkur fyrir því, að slík löggjöf verði sett á næsta þingi, að úr því sem komið er, getum við sætt okkur við þessa lausn að þessu sinni.

Umr. (atkvgr.) frestað.

Frv. var ekki á dagskrá tekið framar. 21. Söh1B~CatÍ7a;i.

A 2, fundi í Nd., 13. .okt., var útb$~tt:

Frv. til 1. am breyt, á 1. nr. 10 22. marz 1960, um eölaekatt [21. mál] (þmfrv., A. 21).

Á 4. og 5. fundi í Nd., 22. og 26. okt., var frv. tekið til 1. umr.

Forseti tók málið af dagskrá.

',Á 6. fundi í Nd., 27. okt., var frv. enn tekið til 1. nmr.

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) : Herra forseti. Á þskj. 21 hef ég ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni og Ágúst Þorvaldssyni leyft mér að flytja frv. til 1. um breyt. á 1. um söluskatt. Efni þessa frv. er að, að undanþiggja álagningu söluskatts mestu nauðsynjavörur almennings, svo sem nauðsynlegustu matvörur, raforku og vatn til húsahitunar. Svipað frv. var flutt á síðasta Alþ., en náði þá ekki fram að ganga. Hins vegar vona ég, að hv. þm. hafi nú lænt það mikið af reynslunni, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Frv. er flutt til þess að undirstrika það atriði í stefnu okkar framsóknarmanna, að ekki eigi að leggja skatta á mestu nauðsynjar og þeir eigi ekki að bera þyngstu skattana, sem minnst hafa gjaldþolið, eins og nú er, þar sem söluskattur er orðinn hæsti tekjustofn ríkisins. Í öðru lagi viljum við undirstrika það, að söluskattur á nauðsynjar er mikill verðbólgugjafi. Það eykur verulega verðbólguna í landinu að leggja á svo háan söluskatt eins og hér er lagður á allar vörur og ekki sízt þær, sem allir þurfa að nota. Verðbólgan ógnar nú atvinnu— og efnahagslífi þjóðarinnar og nokkrar umr. eru um það manna á meðal, hvernig við henni skuli snúast. Það er skoðun okkar flm., að ef þetta frv. eða frv. um svipað efni, sem flutt var á síðasta þingi, hefði verið samþ., þá mundi verðbólgan ekki ógna nú atvinnu— og efnahagslífinu eins og raun ber vitni um. Það skiptir verulegu máli um vöxt verðbólgunnar, hvort 11 % söluskattur er greiddur af öllu því, sem fólkið í landinu verður að neyta. Þetta frv. er því fyrsta og eina raunverulega málið, sem liggur fyrir þessu hv. Alþ. nú um baráttu gegn verðbólgu. Þetta er tilraun til þess að verjast verðbólgunni og koma í veg .fyrir það, að hún vaxi og æði jafnört áfram eins og nú er.

Að því var spurt hér á hv. Alþ. í fyrra, ef þessi breyting yrði gerð á tekjuöflun ríkissjóðs, hvernig ætti þá að afla teknanna. ég vil svara því til, eins og greinilega kemur fram í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1971, að einmitt vegna þess, hvað verðbólgan hefur vaxið gífurlega, þá hækka útgjöld fjárlagafrv. eins og þau gera. Þess vegna vil ég undirstrika það, að þó að mér sé ljóst, að þetta rýri tekjur ríkissjóðs, þá dregur það úr vexti verðbólgunna og það er betra fyrir ríkissjóð að láta af nokkrum hundruðum millj. kr. í tekjur, heldur en þurfa að hækka útgjöldin um milljarða eins og nú á sér stað. Þess vegna undirstrika ég það og legg áherzlu á það, að auk þess sem hér er stefnt í rétta átt hvað stefnumarki viðvíkur, þá er einnig unnið að því að draga úr verðbólgunni með samþykkt þessa frv. Ég treysti því á fylgi hv. alþm. við það.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 22 shlj. atkv. og til fjhn. með 26 shlj. atkv.

Nefndarálit kom ekki, og frv. var ekki á dagskrá tekið framar.

22. Fiskveiðasjóður Íslan~ (frv. BP).

Á 3. fundi í Sþ., 15. okt., var t5~tbýtt frá Nd: Frv. til 1. um breyt. á 1. nr. 75 frá 13. maí 1966, um Fiskveiðasjóð Íslande [29. mál] (þmfrv., A. 29).

Á 12. fundi í Nd., 4. nóv., var frv. tekið til 1. .umr.

Forseti tók málið af dagskrá.

Á 19. fundi í Nd., 16. nóv., var frv. aftur tekið til 1. umr.

Flm. (Björn Pálsson): Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 75 frá 13. maí 1966, um Fiskveiðasjóð Íslands. Frv. er í fjónum greinum eða fimm greinum raunar. Ég flutti þetta frv. í fyrra og hélt þá framsöguræðu ítarlega um þetta. Ég ætla þess vegna ekki að vera langorður nú, vegna þess að ég veit, að langar ræður þreyta þm. og bæta ekkert fyrir málefninu.

Efni frv. er í stuttu mál það, að það er breytt um stjórn hjá Fiskveiðasjóði. Með þessu frv. er miðað við það, að þarna verði sjálfstæð stjórn, svipuð og hjá hinum bönkunum og þeir ráði svo framkvæmdastjóra, einn eða tvo. En nú er það þannig, að Landsbankinn kýs tvo, Útvegsbankinn tvo og Seðlabankinn einn. Ég veit ekki hvernig það er, hvort það eru bankaráðin, sem kjósa þessa menn, eða hvort bankastjórarnir sjálfir ákveða þetta, það skiptir ekki öllu, en staðreyndin er sú, að það eru 5 bankastjórar, sem sitja í stjórn Fiskveiðasjóðs og þeir ráða framkvæmdastjóra. Verði þetta frv. að lögum, þá er ætlazt til þess, að þingið kjósi tvo, Seðlabankinn einn, LÍÚ einn og Sjómannasambandið einn. Satt að segja finnst mér ekki nema eðlilegt, þegar tekið er af óskiptum hlut, eins og gert er nú, að sjómannasamtökin eigi þarna einn fulltrúa. Mér finnst enn fremur ekki nema eðlilegt, að útvegsmenn eigi einn fulltrúa. Meginhluti af því fé, sem Fiskveiðasjóður hefur, sem er orðið sennilega hátt í hálfan annan milljarð, er kominn beint eða óbeint frá útvegsmönnum. Það er þess vegna ekki til mikils mælzt, þó að þeir eigi þarna fulltrúa. Ég legg til í þessu frv., að Alþ. kjósi tvo. Um það má náttúrlega deila, en það er í samræmi við það, sem er í hinum bönkunum. Ríkissjóður á, eða telur sig eiga að ráða yfir Fiskveiðasjóðnum og ég get ekki skilið það, að alþm. séu á móti því, að þingið kjósi tvo menn. Annar gæti verið úr stjórnarliðinu og hinn þá úr stjórnarandstöðunni og þá hafa báðir aðstöðu til að koma fram tillögum og hafa eftirlit með rekstri sjóðsins. Og 1egg til, að Seðlabankinn hafi einn mann. Mér finnst það ekki ósanngjarnt. Ég lít á Seðlabankann sem fulltrúa ríkisstj. í fjármálunum og það er vitanlega ekki nema gott um það að segja, að ríkisstj. hafi einn fulltrúa. Hann getur þá gefið upplýsingar um þá hluti, sem snerta framkvæmdaatriði viðvíkjandi fjármálum af hendi ríkisvaldsins og það hefur oft orðið að leita til ríkisvaldsins með þessi mál.

Þó að ég flytji þetta frv., þá get ég búizt við, að það taki breytingum í meðferð, ef þetta verður að lögum. Og satt að segja, þá eru umdeilanleg atriði í frumvarpinu eins og það, hvort sjómannasamtökin eiga að eiga fulltrúa eða hvort útvegsmenn ættu að eiga tvo, o.s.frv. Það má vel vera, að það taki einhverjum breytingum og ég fyrir mitt leyti get vel gengið inn á það að vera með frv., þó að því yrði breytt. En aðalatriðið er þetta, að Fiskveiðasjóður fái sjálfstæða og óháða stjórn. Mér finnst engin ástæða til annars. Ég veit ekki betur en að verzlunarmenn landsins hafi sérstakan banka. Ég veit ekki betur en að iðnaðarmennirnir hafi sénstakan banka. Ég veit ekki betur en að bændurnir hafi sérstakan banka. Þetta er stærsti sjóður landsins. Sjávarútvegur er á margan hátt þýðingar mesti atvinnuvegur landsins og hvers á hann þá að gjalda að geta ekki haft sjálfstæða lánastofnun? Ég vil enn fremur, benda á það, að það er ákaflega óhagkvæmt fyrir útvegsmennina sjálfa, þegar þeir þurfa að reka erindi sín hér, að þeir koma upp í Fiskveiðasjóð, þeir tala við framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðsins, en hann getur engin svör gefið, því að hann ræður engu. Það er stjórnin, sem ræður. Ég álít, að framkvæmdastjórar þessa sjóðs eigi að hafa sama vald og bankastjórar, þannig að menn geti talað við þá eins og ráðandi menn. Þetta er miklu auðveldara fyrir þá, sem þurfa að fá þar lán, ef þeir hafa meiri völd. Nú er það svo, að það er verið að stofna ótal sjóði hér á landi. Þessir sjóðir eru farnir að lána meira og minna, t.d. ef á að ráðast í að kaupa skip eða reisa fiskvinnslustöð eða eitthvað slíkt. Þannig að völdin eru að dragast úr höndum lánastofnana og til þessara sjóða, sem hafa aðallega tekið til starfa á þessu svonefnda viðreisnarskeiði. Ég hygg, að bankastjórunum sé heldur lítið um það gefið, þeim finnist völdin vera að dragast úr sínum höndum til þessara sjóða. Það hefur komið fram í blaðaviðtali hjá einum bankastjóranum, að hann var að gera grín að þessum sjóðastofnunum. Persónulega hef ég heyrt þetta á sumum þeirra. Það er tvennt, sem þreytir og lamar þessa blessaða bankastjóra. Það er Seðlabankinn, sem er settur yfir þá og býr til lánsfjárkreppur og er víst á leiðinni með eina nú. Mér skilst, að bankastjórarnir megi ekki lána nema takmarkað nú. Og bankarnir bera sig frekar illa. Þykjast hafa lítil fjárráð. Svo eru það þessir blessaðir sjóðir. Bankarnir eru eiginlega á milli tveggja elda. Þeir eru farnir að ráða minna en þeir gerðu. En hvað sem því líður, - það má deila um þetta, - þá virðist mér óþolandi, að útvegsmenn eigi ekki nokkurn veginn sjálfstæða stofnun og að framkvæmdastjórar hennar hafi ekki svipuð völd og aðrir bankastjórar í landinu.

Ég veit ekki, hvað varð þess valdandi, að það var farið að breyta þessum lögum upphaflega. Yfirleitt var Fiskveiðasjóður vel látinn hjá útvegsmönnum. Bankastjórar Útvegsbankans höfðu einhverja yfirstjórn, en ég varð aldrei var við, að Elías Halldórsson — hann var framkvæmdastjóri – réði ekki því, sem hann vildi. Ég held a.m. k., að samkomulagið hafi verið mjög gott milli þessara manna og ég dreg í efa, að það hafi yfirleitt verið tekin af honum ráðin, en þetta breyttist, þegar þessi nýja stjórn kom. Þá fór það að koma í ljós hjá Elíasi, að hann hafði ekki endanlegar ákvarðanir og gaf ekkert út á það, þegar menn töluðu við hann. Ég skal ekkert fullyrða um; hvað hefur valdið þessu, en mér hefur skilizt eftir ýmsum leiðum, að þarna hafi komið til, að Landsbankinn þóttist eitthvað vera fyrir borð borinn og Útvegsbankinn réði meiru heldur, en eðlilegt væri. Milli bankanna varð víst einhver togstreita út úr þessu og endaði með samkomulagi, þannig að Landsbankinn fékk tvo menn í stjórnina, Útvegsbankinn tvo og Seðlabankinn einn, en sannleikurinn er sá, að í framkvæmdinni mun Seðlabankinn hafa ráðið hér um bil öllu þarna.

Þannig er þetta nú, þannig að út úr þessu varð hálfgerður óskapnaður. Nú hafa þessir menn unnið sér ýmislegt til ágætis. 16. gr. í fiskveiðasjóðslögunum er um gengistryggingar og hún hljóðar svo:

„Nú tekur sjóðurinn erlent fé að láni og lánar það innanlands og er þá heimilt að semja svo um við lántakendur, að þeir beri halla eða njóti hagnaðar, er verða kann vegna gengisbreytingar, þannig að vaxta— og afborgunargreiðslur hækki og lækki í íslenzkum krónum í hlutfalli við slíkar breytingar.“

Þarna er alveg skýrt fram tekið, að það má ekki lána með gengisáhættu peninga nema erlent fé. Eins og þið munið, þá gerði ég fsp. viðvíkjandi þessu atriði í fyrra og fékk greinargóða skýrslu frá framkvæmdastjóranum og bókhaldaranum og þar er sagt, að þegar gengisbreytingin er gerð 1961 þá skuldar Fiskveiðasjóður erlendis 105 millj. 229 þús., en er gengisbreytingin fer fram 1967, 87 millj. M.ö.o., að erlendar skuldir hafa lækkað um 18 millj. á þessum tíma. En allan þennan tíma lána þeir með gengisáhættu 3/5 af andvirði skipanna, þannig að ég lít svo á, að þarna hafi verið alveg ólöglega að farið. Það hafi verið lánaðir með gengisáhættu íslenzkir peningar. Í ársbyrjun 1967 er hætt að lána með gengisáhættu ,g þannig er það þangað til í maí 1968, en erlendar skuldir hækka á þessu tímabili úr 87 millj. upp í 172. En þá er lánað án gengisáhættu. Maður getur tæplega þverfótað, þegar maður kemur inn í þessa banka, fyrir lögfræðingum, og m.a. er það þannig í Fiskveiðasjóði. Þeir eru í hverri holu, ég held að þeir séu einir þrír. Nú gæti maður ætlazt til þess, að löglærðir menn — og nóg er af þeim í bönkunum — gerðu ekki ólöglega hluti. En ég sé ekki annað en að þarna hafi verið framið algert lögbrot.

Það var birt í útvarpi fyrir skömmu frásögn um einn vesalings kaupmann. Það var út af söluskatti og undandrætti. Hann varð að borga eitthvað á aðra millj. kr. fyrir undandrátt, vanigoldinn söluskatt og ýmiss konar útgjöld. Svo varð hann að borga í sekt 650 þús. kr. og þar að auki er hann dæmdur til að vera í 3 mánuði í tukthúsi, óskilorðsbundið. Ég er nú heldur góður í mér og mér fannst þetta of langt gengið og eiginlega nóg fyrir manntetrið að borga 650 þús. í sekt, þó að hann ætti ekki að vera 3 mánuði í tukthúsinu, af því að það er líka takmarkað húsrými hjá ríkisstj. Það er nóg af prófessorum, en eiginlega of lítið af tukthúsum, þannigað ég held, að það hefði nú verið hyggilegra fyrir báða, að manngreyið hefði fengið að verzla áfram og borga sína sekt, en sleppa við tukthúsið, ef hann borgaði sektina. Þeir eru nú strangir, þessir herrar. En þegar menn gera miklar kröfur til annarra, eins og ríkisstj. virðist gera og ríkisvaldið hér á landi, — ég er ekki nema gott um það að segja, að menn brjóti ekki lögin — þá þurfa menn líka að gera kröfur til sjálfs sín og þeirra fyrirtækja, sem þeir stjórna.

Nú hefur þetta skeð hjá þessum 5 bankastjórum og þessum óteljandi lögfræðingum, að þeir hafa reiknað út gengistap, 122 milljónir og deilt því niður á menn, sem tóku lán frá árinu 1961 og til 1967, deilt niður á okkur, sem tókum lánið á þessum tíma, 122 millj. króna. Það var ekkert erlent fé lánað á þessum .tíma, það voru borgaðar niður erlendar skuldir. En það voru komnar erlendar skuldir áður, 105 millj. M.ö.o., það er alveg farið öfugt að og þeir látnir borga, sem ekkert áttu að greiða. Það er ekki hægt að fá hæstv. sjútvrh. til þess að vera hér inni, eiginlega þyrfti ég að snúa máli mínu til hans. Hann er yfirmaður þessa sjóðs. Það er sennilega ekki hægt að fá hann til að vera hér, hann hefur ekki aðstöðu til þess.

Ég spurðist fyrir um þetta hér í fyrra hjá ráðherrum og þeir skrifuðu víst Fiskveiðasjóði. Ég veit ekki, hvernig svarbréfið var, en þarna hefur það skeð, að þeir hafa verið látnir borga gengismuninn, sem ekki áttu að borga hann, en hinir, sem raunverulega hefðu átt að borga hann eftir anda og bókstaf laganna, þeir sleppa alveg. Og ég veit ekki, hvort er réttlátara: að setja þennan kaupmanns garm í tukthúsið eða þá menn í tukthúsið, sem deila þarna ranglega niður 122 millj. Þetta er ekkert aukaatriði. Magnús Gamalvelsson á Ólafsfirði sagði mér, að hann hefði fengið 4 millj. kr. hækkun á fyrsta skipið, sem hann keypti. Næsta skip á eftir slapp alveg — ég skal ekki fara með, hvað verðið var, það skipti samt milljónum — en það slapp alveg. Nú eru þetta ill laun hjá fjmrh. og ósanngjörn, því að þetta hefur alltaf verið dyggur stuðningsmaður hans. Mér fyndist það eðlilegt, að hann gengi fram fyrir skjöldu til þess að þetta væri lagað.

Ég hef ekkert gaman af að standa í málaferlum, þó að ég hafi stundum neyðzt til þess og satt að segja vildi ég helzt komast hjá því. En þegar fimm bankastjórar koma saman og hafa sér til aðstoðar a.m.k. þrjá lögfræðinga, þá hefði ekki verið ofverkið þeirra að athuga, hvað væru lög og hvað ekki lög og náttúrlega nær það engri átt að láta kúga menn til að skrifa undir samning um, að 3/5 af láninu sé gengistryggt, þegar enginn eyrir af erlendu fé er tekinn til þess að lána í þessi skip. Þetta er algert lögbrot. En þeir, sem tóku lánin, vissu ekki, hve mikið erlent fé fór í það. Þeim var ekki hleypt í reikninga Útvegsbankans eða Fiskveiðasjóðsins. Þannig að þegar ég t.d. tók lánið, þá hafði ég ekki hugmynd um, hve mikið fé erlent var notað, eða hvort það var notað eða ekki. Þarna hefur því verið framið freklegt lögbrot og algerlega snúið við hlutunum. Ég hygg, að þetta hefði ekki komið fyrir, ef útvegsmenn hefðu haft þarna fulltrúa, a.m.k. ef einhver dugur hefði verið í honum.

Ég geri nú ráð fyrir því, af því að sjútvrh. er ekki hér, að ég neyðist til þess að leggja fram fsp. um það í þinginu, hvort ríkisstj. ætli ekkert að gera í þessu máli. Eðlilegast er náttúrlega, ef einhverjum af stofnunum ríkisins verður eitthvað á, lagalega eða á annan hátt, að það sé lagað, án þess að um það þurfi málaferli eða miklar deilur, en ég hef ekki séð bóla neitt á því. Svo er það mál út af fyrir síg, þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og sannleikurinn er sá, að útvegsmenn geta sér um kennt. Vextirnir voru hækkaðir upp í 6,5% og dráttarvextirnir upp í 12%. Það er siður hér, að ef einhver á erfitt, þá er honum refsað fyrir það. Nú gera menn það ekki að gamni sínu að borga ekki á réttum tíma afborganir og vexti af gjöldum sínum. En þeim, sem eiga í örðugleikum, á að hjálpa á þann hátt að láta þá borga 12% í dráttarvexti. Þetta er algerlega andstætt því, sem skynsamlegt er og réttlátt og ég hygg satt að segja, að sjóðsstjórninni hafi sjálfri ofboðið þetta svo, að þessu hafi ekki verið framfylgt. En við getum ekki þakkað okkur það. Við settum þessi vitlausu lög, eða réttara sagt stjórnarliðið, það ber ábyrgð á þessum lögum og það er ógerlegt að reka útgerð með þessum háu vöxtum. Það er ekki hægt og mun tæpast vera gert í nokkru landi. Og að bæta svo gráu ofan á svart með því að refsa þeim, sem eru í örðugleikum, með því að láta þá greiða okurvexti, það nær náttúrlega ekki neinni átt. Ég skal játa það, að gengislækkun hefur verkað jákvætt fyrir þá menn, sem ekkert gengistap hafa orðið að borga, en þessi mikla hækkun, sem kemur á þá, sem höfðu gengistryggðu lánin, hún getur ráðið úrslítum um, hvort viðkomandi útgerð ber sig.

Svo er annað atriði með þau skip, sem við erum að kaupa nú. Ég býst við, að það séu sæmilega gefnir menn, sem að því standa, en mér dettur ekki í hug, að þeir geri ráð fyrir því að þau verði nokkurn tíma borguð. Ég reikna ekki með, að þeim, sem eru að kaupa togara nú fyrir 150 millj. og jafnvel 200 með þeim vaxtakjörum, sem þeir verða við að búa og með gengisáhættunni, að þeim detti í hug, að útgerðin borgi þetta. Hitt er svo annað mál, að bæjarfélögin verða að hafa einhver tæki til að afla hráefnis, til að fólkið geti unnið og það er ekkert um annað að tala en að ráðast í þetta. En þessum mönnum, sem standa að þessum skipakaupum nú, þeim dettur vitanlega ekki í hug –með þeim sköttum, sem hvíla á útgerðinni og með þeim vaxtakjörum, sem hún býr við, — þeim dettur ekki í hug, að hún geti borgað kaupverð skipanna. Það er fjármálastefna, sem er að aukast fylgi, að taka lánin, ráðast í framkvæmdirnar, hvað sem það kostar. Ég geri ráð fyrir, að fólk sé neytt til þess, það er ekki um annað að tala. En þetta er dálítið hættuleg stefna.

Ég hef haldið því fram, að það væri réttast að búa eins vel að útgerðinni og hægt er, skattleggja hana eins lítið og hægt er, hafa vaxtakjörin eins hagkvæm og hægt er, en segja þeim svo, að þeir verði að standa á eigin fótum. En það hefur alltaf verið þannig, þegar verið er að semja fyrir hönd útgerðarinnar, að þá hafa alltaf komið einhverjir fleygar, aðrir skattar komið gegn eftirgjöf á kaupi, en svo koma bara kaupkröfurnar á eftir. Og þannig standa útgerðarmenn á eftir með fleiri skatta og jafnhátt kaup og þannig er þetta að verða nú. Það er búið að bæta síðan 1964 þremur eða fjórum stórum sköttum á ú~gerðina, en það mun líða að því, að hásetarnir nái sömu kjörum og þeir höfðu og raunar verða þeir búnir að ná sömu kjörum, þegar lífeyrissjóðurinn er tekinn með, þannig að þarna er farið inn á vafasama leið. Ég held því satt að segja, að það veiti ekkert af því, að stjórn Fiskveiðasjóðsins sé skipuð þannig, að útvegsmenn eigi þar fulltrúa, sem þeir geti treyst. Sjómannasamtökin geta gjarnan átt einn. Þingmenn ættu að vera færir um að kjósa tvo fulltrúa. Svo getur ríkisstj. haft sinn fulltrúa. Það má vera, að það séu skiptar skoðanir um þetta. Sumir vilja vafalaust, að Seðlabankinn hafi engan o.s.frv. Og út af fyrir sig, ,þó að ég leggi þetta frv. fram, tel ég víst, að því verði eitthvað breytt, svo framarlega, sem það verður samþ. En ég fullyrði, að það er vilji útgerðarmanna að eiga einhverja 'hlutdeild í stjórn sjóðsins. Ég hef margoft orðið var við það, bæði persónulega í samtölum við þá og eins hef ég orðið var við það á fundum. Hitt er svo annað mál — og þar geta útgerðarmenn sjálfum sér um kennt, þeir hafa ekki staðið nógu vel saman. Það er annar hlutur, sem er dálítið hættulegur og það er það, að stjórn þessara samtaka sé þeim megin, sem ríkisstj. er, því að þá verður alltaf þessi auðmýktartónn, þeir þora aldrei að setja hnefann í borðið eða hlífast við því. Ég er sannfærður um, að útvegsmennirnir, ef þeir hefðu verið nógu harðir í horn að taka, hefðu þeir fengið vextina lækkaða. Þeim hefði tekizt það, þegar Eysteinn Jónsson var fjmrh. Sannleikurinn er sá, að þótt Eysteinn Jónsson hafi aldrei gert út skip eða fengizt við útgerð, þá var meira vit í stjórninni á útgerðarmálum þá. Það voru allt að því helmingi færri skattar á útgerðinni og miklu ~lægri og þar að auki voru vextirnir miklu lægri. Ég fékkst við útgerð bæði þessi tímabil, og sannleikurinn var sá, að þó maður fengi færri krónur fyrir fiskinn, þá var betra að láta útgerðina bera sig þá heldur en nú. En þetta hefur orðið ofan á, fjölga sköttunum og hækka vextina. Svo koma útvegsmenn og segja við ríkisstj.: „Við getum ekki gert út.“ Þá er hlaupið til og fellt gengið, stolið af sparifjáreigendum og allt kerfið skekkt og traust íslenzku krónunnar eyðilagt.

Mín skoðun er sú, eins og ég tók fram áðan: Eins litla skatta og mögulegt er, eins lága vexti og hægt er og segja útgerðarmönnum að spjara sig, segja bara við ,þá: „Gengið verður ekki fellt ykkar vegna,“ fyrir utan það, að síðast var nú gengið fellt vegna ríkissjóðs, en ekki útgerðarinnar. Það vantaði aura í ríkissjóðinn, sem komu með fleiri krónum í söluskatti og innflutningsgjöldum. En þetta eyðist aftur, þegar launin hækka og öll hringrásin á fullri ferð. Það er þegar farið að tala um þessa verðbólgu nú, þetta er afleiðing af gengislækkuninni. Það er búið að tefja, að skriðan komi, í eitt til tvö ár og svo hlaut hún auðvitað að koma, þegar launasamtökin eru búin að sækja í sig veðrið. Það er engin sérstök verðbólguskriða á annan hátt en þann, að það er allt að breytast í samræmi við gengisfellinguna 1968. Það er það, sem er að gerast, þannig að ef við viljum stjórna okkar fjármálum af viti, þá verðum við að fara aðrar leiðir, heldur en við höfum farið nú undanfarin ár.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Þetta er ekki það flókið mál, að ég efast ekki um, að þm. geri sér grein fyrir því. Ég lít ekki á þetta sem pólitískt mál. Það er ekki fyrir neinn sérstakan flokk unnið. Þetta snertir ekki pólitík og ég álít, að allir flokkar gætu í raun og veru komið sér saman um svona hluti. En þarna er bara um það að ræða, að þessi á margan hátt þýðingarmesta stofnun okkar verði sjálfstæð stofnun, þar sem þeir aðilar, sem mest hafa til hennar að sækja, hafi a.m.k. tillögurétt, þó að þeir ráði ekki úrslitum. Og þetta er sú stofnunin, sem á mesta fjármuni í landinu. Ég hygg, að eignirnar nálgist hálfan annan milljarð, en það er eitthvað svipuð eign og allir bankarnir, eiga nettó í landinu, þannig að ég sé enga ástæðu til, að Fiskveiðasjóður sé undirlægja hjá helztu viðskiptabönkum landsins. Ég álít, að við eigum að efla þessa stofnun. Ég álit, að það mættum gjarnan renna ýmsir sjóðir til hennar, sem eru notaðir til þess að lána sjávarútveginum, og við eigum að gera hana að sjálfstæðri og vel stjórnaðri stofnun. Þessar 122 milljónir, sem var ranglega jafnað niður á útvegsmenn, það er eins og dropi í hafið fyrir Fiskveiðasjóð, þó að hann borgaði þær. Sannleikurinn er sá, að það þýðir ekkert að fjasa yfir því, þó að þeir lánuðu þessum aðilum ógengistryggt í ársbyrjun 1967. Það er mál út af fyrir sig. En þeir áttu bara ekki að láta aðra borga fyrir þá. Það var þeirra mál, hvort þeir lánuðu ógengistryggt. Þeir hafa e.t.v. haft lagalega heimild til þess, þó að það væri ekki gáfulega gert, þegar um erlent fé var að ræða. En þeir áttu bara ekki að láta saklausa menn borga það. Það eru rangindi. Þeir sem tóku lánin frá 1961-1966, þeir eru 1átnir borga gengistapið af lánum, sem voru 1ánuð fyrir árslok 1961.

Sannleikurinn er sá, að þessir bankastjórar og lögfræðingar, — það eru líklega þrír lögfræðingar og fimm bankastjórar, sem hafa verið þarna hver öðrum til aðstoðar, — þeir líta svo á, að þeir megi gera hvað sem þeim sýnist, það muni enginn segja neitt. Og sannleikurinn er sá, að útgerðarmenn eru svo kúgaðir, að þeir segja ekki neitt. Það er eingöngu af því, að ég þarf ekkert til þessara herra að sækja og ekkert lán að fá hjá þeim, að ég hef kjark til þess að standa hér og segja sannleikann, en flestir eru það skuldugir og kúgaðir, að þeir þora ekki að hreyfa sig, hvernig sem með þá er farið. Ég veit, að sjútvrh. hefur engan þátt átt í þessu. Ég veit líka, að Sverrir Júlíusson, væntanlegur forstjóri, hefur engan þátt átt í þessu. En þeir hafa tækifæri til þess að laga þetta, án þess að staðið sé í málaferlum. Og eins og ég sagði áðan, ég er friðsamur maður og leiðist ö11 málaferli og vil helzt aldrei fara í mál, en ef nauðsynlegt er — þó að ég sé farinn að eldast, þá býst ég við, að ég treysti mér til þess að stefna þessum herrum.

Matthías Bjarnason: Herra forseti. Ég vil gjarnan 1áta í ljós þá skoðun mína á þessu frv., að ég er í meginatriðum samþykkur því, en hins vegar er það ekki sama og að vera samþykkur að öllu leyti ræðu hv. flm., því að þegar ég kærði mig um og vildi eyða tíma þingsins, þá mundi ég nú geta leyft mér að gera allmargar aths. við þessa ræðu. En framsöguræðan fyrir frv. var í töluvert öðrum dúr heldur en frv. sjálft. Lögin um Fiskveiðasjóð, sem í gildi eru, eru frá 1966 og þá var gerð veruleg breyting á stjórn sjóðsins. Áður var stjórn sjóðsins í höndum bankastjórnar Útvegsbanka Íslands, en með þessum lögum frá 1966 var sú breyting gerð á, að stjórnin var skipuð fimm fulltrúum, tveim frá hvorum viðskiptabankanna, Útvegsbanka Íslands og Landsbanka Íslands, og einum frá Seðlabanka Íslands og er hann formaður sjóðsstjórnar. Rökin fyrir þessari breytingu á þessum tíma voru þau, að það mundi verða betri samvinna á milli viðskiptabankanna og Seðlabankans um stjórn Fiskveiðasjóðs heldur en áður var. Hins vagar kom þá fram sú skoðun, að eðlilegt væri, að útvegsmenn ættu fulltrúa í stjórn sjóðsins. Ég hef fyrir mitt leyti talið, að það hafi sýnt sig, að það hafi verið röng stefna, sem upp var tekin, að hafa fimm bankastjóra í stjórn Fiskveiðasjóðs og það sé mjög eðlilegt, að útvegurinn sjálfur eigi fulltrúa í stjórn stærsta framkvæmdasjóðs síns og þess vegna styð ég þetta frv. Og ég fagna því, að hv. flm. hefur gerzt örlitið rótækari í þessari breytingu heldur en hann var á s.l. ári, því að þá var hans kjarkur ekki meiri en það, að hann vildi aðeins fækka um tvo bankastjóra í stjórn sjóðsins, en hann hefur nú, þrátt fyrir það, að hann sé nú kominn af léttasta skeiði, sótt í sig veðrið og vill nú moka öðrum tveimur út samkvæmt þessu frv. og fagna ég þeirri breytingu sérstaklega hjá honum. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að fulltrúar sjómanna eigi aðild að stjórninni og ég tel líka eðlilegt, að Alþ. kjósi tvo fulltrúa, og þess vegna er nú frv. mjög nálægt þeirri skoðun, sem ég setti fram við umræður um þetta mál á síðasta þingi.

Það hefur orðið breyting á Fiskveiðasjóði síðan lögin voru sett 1966 með tilkomu stofnfjársjóðsins, en í hann leggja útvegsmenn og sjómenn fram 10% af andvirði fiskafurða og það eitt út af fyrir sig gerir bæði eðlilegt og skylt að breyta stjórn sjóðsins. Ég tel, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, ætti að fara mjög vandlega yfir gildandi lög og gera allmargar fleiri breytingar á lögunum um Fiskveiðasjóð, en ég hirði ekki að rekja þær hér á þessu stigi málsins, en ég fagna því, að bankastjórarnir fimm í stjórn Fiskveiðasjóðs báru þó gæfu til þess, þegar framkvæmdastjóri Fiskveiðasjóðs, sem verið hefur í áratugi, fer nú að láta af störfum, að velja mann til að veita Fiskveiðasjóði forstöðu, sem hefur verið í forustu fyrir sjávarútveginn í áratugi og þekkir sennilega betur en flestir, ef ekki allir aðrir, hvar skórinn kreppir að í sjávarútvegi og ég virði það við núverandi stjórn Fiskveiðasjóðs að hafa tekið hann fram yfir aðra úr hópi umsækjenda, án þess að ég ætli á nokkunn hátt að segja misjafnt orð um aðra umsækjendur eða efast um hæfni þeirra til þessa starfs. En mér finnst það koma úr hörðustu átt að heyra ávallt mótmæli við stöðuveitinguna, eins og einhver ákveðin stétt eigi einkarétt á því að eignast forustumenn á þessum sviðum. Starfsmannafélag bankamanna hefur mótmælt þessari ráðningu. Ég get ekki skilið, að það eigi að vera einhver sérréttindi fyrir bankamannastéttina að sitja fyrir í starf eins og forstjórastarf fyrir stærstu stofnun sjávarútvegsins í landinu. Ég tel það ekki síður eðlilegt, að forustumenn, menn með þekkingu á sjávarútvegsmálum, sitji að öðru jöfnu fyrir um slík störf. Mér finnst rétt, að þessi skoðun komi hér fram á Alþ. og þrátt fyrir þá skoðun, sem ég hef haft á stjórn Fiskveiðasjóðs, hvernig hún hafði verið skipuð, þá tel ég, að þetta hafi verið eitt það allra bezta, sem stjórnin gat gert og trygging fyrir því, að það verður litið á málefni sjávarútvegsins af réttsýni og skilningi í framtíðinni, eins og Fiskveiðasjóður hefur jafnan gert frá fyrstu tíð, enda er Fiskveiðasjóður óskabarn útvegsmanna almennt í landinu og sjávarútvegsins. Hann hefur verið ein þarfasta stofnun, sem sjávarútvegurinn hefur átt.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vænti þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, afgreiði það, því að ég tel, að þessi höfuðbreyting á lögum um stjórn Fiskveiðasjóðs eigi fullkomlega rétt á sér og eigi að fara í gegn á þessu þingi.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 27 shlj. atkv. og til sjútvn. með 28 shlj. atkv.

A 66., 67., 68., 69., 70., 71., 75., 82, og 87. fundi í Nd., 22., 23., 24., 25., 26. og 29. marz og2. og 5. apríl, var frv. tekið til 2. u2nr. (A. 29, n. 414, 580 og b91, 590).

Forseti tók málið af dagskrá, og var það ekki á dagskrá tekið framar.

23. Verðstöðvun.

A 3. fundi í Sþ., 15. okt., var útlyýtt frá Nd.: Frv, til 1. um verðstöðvun [30. mál] (þmfrv., A. 30).

Á 4. bg ~5. fnvndi í Nd., 22. og 26. okt., var frv. tekið til 1. uanr.

Forseti tók málið af dagskrá.

A 6. fundi í Nd., 27. okt., var frv. enn tekið til 1. umr.

Flm. (Lúðvík Jósefsson) : Herra forseti. Með frv. á þskj. 30 leggjum við þm. Alþb. í Nd. til, að nú þegar verði sett löggjöf um verðstöðvun. Meginefni frv. er í ranninni tekið upp úr eldri verðstöðvunarlögum, sem hér hafa verið sett. Þó eru atriðin varðandi verðstöðvun gerð í þessu frv. nokkru ákveðnari. Þarna er um nokkur fyrirmæli að ræða beinlínis um verðstöðvun, þar sem áður var um að ræða heimildir ti1 handa ríkisstj., svo að segja má, að þetta frv. er að öllum búningi nokkuð svipað því, sem hliðstæð frv. hafa verið samþykkt um áður hér á landi.

En aðalefnið er hins vegar það, eins og skýrt kemur fram í grg. frv., að gengið er út frá því, að ákveðin verði almenn verðstöðvun, sem miðist við 15. október nú á þessu ári og skuli gilda fram til 1. september á næsta ári. Það er þó gengið út frá því, að verðlagsyfirvöld og ~tjórnarvöld geti í einstaka tilfellum vikið frá þessari verðstöðvun, þar sem óhjákvæmilegt þykir. 'Það er einnig gert ráð fyrir því í frv., að breytingar á ýmsum opinberum gjöldum skuli falla undir verðstöðvunina, þar skuli sem sagt gilda hliðstæðar reglur og áður hafa gilt um álagningu nokkura opinberra gjalda. Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum hv. alþm., hvaða ástæður liggja til þess, að frv. sem þetta er nú flutt. Á þessu ári hafa gengið yfir óvenjulega miklar verðhækkanir og þessar verðhækkanir eru enn að ganga yfir og það er í rauninni öllum kunnugt, að fjöldamargir aðilar bíða enn eftir því að fá leyfi til þess að hækka verðlag á vörum og þjónustu, en hafa ekki fengið sín mál afgreidd enn að fullu, svo að það má enn búast við áframhaldandi verðhækkunum til viðbótar við það, sem komið er, nú á næstunni, verði ekki gerðar ,sérstakar ráðstafanir til, til þess að koma í veg fyrir þær. Glöggt dæmi um það, hvað þessar verðhækkanir hafa að segja, er það, sem nefnt er hér í þessu frv. eða í grg., að það er talið, að breytingar á almennu kaupgjaldi í landinu verði svo miklar, að sé miðað við það kaupgjald, sem almennt var greitt í maímánuði á þessu ári og síðan aftur við það kaup, sem sennilegt er, að eigi að greiða, þegar kemum fram í desembermánuð á þessu ári, þá má búast við því, að kauphækkunin verði í krónum talið í kringum 32% hækkun. Þó liggur það fyrir, að almennt kaupgjald verkafólks hefur ekki verið hækkað nema :sem nemur 15–18% og þrátt fyrir svona mikla hækkun á kaupi í krónum talið, er sem sagt ekki um að ræða hækkaðar rauntekjur þessa vinnandi fólks nema sem nemur kringum 15, 16 eða kannske í mesta lagi 18%. En kaupgjaldsbreytingar, sem verða á ekki lengri tíma, en þessum og nema kringum 32%, hljóta vitanlega að hafa sín áhrif í ýmsum greinum atvinnulífsins og er ákaflega hætt við, að það leiði til þess, að í vissum greinum geti orðið hér um vandræði að ræða.

Það er enginn vafi á því, að þær kauphækkanir, sem samið var um í júnímánuði á s.1. sumri og námu, eins og ég hef sagt, í kringum 15–18%, voru ekki meiri en rétt til þess að jafna þá kauplækkun, sem knúin hafði verið fram á árunum 1968 og 1969, en talið var, að á þeim tíma hefði raunkaup eða kaupmáttur launa raunverulega lækkað í kringum 18% hjá mjög mörgum aðilum, auðvitað nokkuð mismunandi eftir því, hvar þeir voru í launastiga. Þegar það er nú einnig haft í huga, hvernig aðstæður voru í okkar efnahagslífi um það leyti, sem þessar kauphækkanir voru gerðar, þá held ég, að það ætti ekki að leika neinn vafi á því, að það voru öll skilyrði til þess að geta staðið undir þessari kauphækkun, sem þá var samið um, án þess að til meiri háttar efnahagsörðugleika hefði átt að koma. Það lá þá fyrir, að um mjög verulega framleiðsluaukningu var að ræða í þýðingarmestu framleiðslugreinum þjóðarinnar og það lá einnig fyrir, að þýðingarmestu útflutningsvörur okkar höfðu hækkað mjög verulega í verði. Þessi bætta ytri aðstaða í efnahagslífinu átti að veita möguleika til þess að tryggja í reynd kauphækkunina. Og menn höfðu gert sér vonir um það, að atvinnureksturinn í landinu almennt séð gæti tekið á sig þessa kauphækkun, bæði með tilliti til þess, að kaupið hafði áður verið lækkað sem þessu nam og svo vegna breyttra ytri aðstæðna í efnahagsmálum, þá gæti atvinnureksturinn tekið á sig þessa kauphækkun, án þess að hann þyrfti yfirleitt að heimta meira sér til handa en áður var. En reynslan hefur hins vegar orðið þessi, sem allir vita, að verðsal hefur hækkað í flestum greinum mjög mikið frá því að þessir kaupgjaldssamningar voru gerðir. Verðlagsyfirvöldin í landinu hafa veitt heimild til verðhækkana, opinberir aðilar hafa breytt verði á vörum og þjónustu í ýmsum tilfellum, sem þeir ráða yfir og svo hafa þeir aðrir, sem ekki eru beint undir neinu verðlagseftirliti, ákveðið sjálfir verðhækkun ,sér til handa. Og því stöndum við nú frammi fyrir þessum miklu verðhækkunum og þeim vanda, sem þeim fylgir.

Við, sem stöndum að þessu frv., gerum okkur fyllilega grein fyrir því, að verðstöðvun ein út af fyrir sig leysir ekki allan þann vanda, sem við er að glíma í þessum verðbólgumálum. Hún er í eðli sínu aðeins frestun á tilteknum vanda. En við álítum, að þannig sé nú ástatt, að það sé nauðsynlegt að taka þennan frest, stöðva með beinu banni frekari verðhækkanir og snúa sér síðan að því að reyna að setja ákvæði um varanlegri ráðstafanir, sem gætu miðað að því að hamla gegn verðbólguvexti eða jafnvel að því að lækka verðlag í ýmsum tilfellum. Það er enginn vafi á því, að það eru uppi misjafnar skoðanir um það, til hvaða ráðstafana eigi helzt að gripa í þessum efnum. Í grg. frv. bendum við á nokkrar ráðstafanir, .sem við teljum, að ætti að grípa til. Við nefnum t.d. það, að það þurfi að setja hér lagaákvæði, sem miði að því, að það sé hægt að skattleggja verðbólgugróða. Á meðan það stendur, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu geta sannanlega stórgrætt á verðbólgunni, þá er mjög hætt við því, að þá verði þrýstingurinn á það, að verðbólgan fái að halda áfram, æðimikill. Það er að vísu rétt, að það getur verið nokkrum vanda bundið að setja réttlátar reglur um það, hvernig skuli skattleggja verðbólgugróðann og hvað skuli í rauninni í hverju einstöku tilviki flokkast undir verðbólgugróðann. En eigi að síður þarf að setja um þetta reglur, sem miði sterklega að því að koma í veg fyrir það, að einstaka aðilar geti grætt verulega á verðbólgunni. Við teljum, sem flytjum þetta frv., að það sé mjög erfitt að setja reglur í þessu skyni án þess að fyrst fari fram almenn eignakönnun í landinu og fyrir geti legið nokkuð rétt mat á því, hverjar eignir hinna einstöku aðila í landinu raunverulega eru. Ef slík eignakönnun færi fram, þá hefði þar með skapazt grundvöllur til þess að skattleggja á eftir verðbólgugróða, sem ti1 kynni að falla í einstaka tilfellum. Við bendum einnig á það í grg. frv., að við teljum, að það þurfi að setja ný lagafyrirmæli og nýjar reglugerðir, sem miði að því að koma í veg fyrir skattsvik eða að veita aðstöðu til þess að skattleggja þann hagnað, sem nú er skotið undan skattlagningu. Það fer ekkert á milli mála og verður varla véfengt hér af nokkrum, að um það er að ræða í allstórum stíl í okkar þjóðfélagi, að hagnaði sé skotið undan, þannig að hann komi ekki til skattlagningar. Ef snúið væri sér að því verkefni að koma í veg fyrir þessi skattsvik eða skapa aðstöðu til þess að skattleggja þennan hagnað, sem nú er skotið undan, þá mundi á þennan hátt falla til allmikið fé, allmiklar skattatekjur, sem hið opinbera gæti notað til þess að létta af öðrum sköttum, sem nú eru á lagðir og eiga sinn þátt í of háu verðlagi í landinu. Eða þá að þetta fjármagn yrði notað til beinna niðurgreiðslna á verðlagi eða á annan hátt til þess að reyna að standa gegn verðhækkunum. Þá bendum við á þá ráðstöfun í þriðja lagi, að það sé rétt að lækka eða sumpart fella að öllu leyti niður söluskatt og tolla á helztu nauðsynjavörum. Ef það væri gert, væri hægt að lækka verðlagið allverulega frá því, sem nú er. Á því er .enginn vafi, að hinn síhækkandi söluskattur, sem á hefur verið lagður hin síðari ár, hefur orðið til þess að almennar nauðsynjavörur hafa hækkað óhóflega mikið í verði. Við teljum, að það sé hægt að fara inn á þessa braut, þó að hér yrði um það að ræða, að tekjur ríkisins mundu að sjálfsögðu minnka við þetta, vegna þess að við álítum, að það sé hægt að afla þessara tekna á annan og hagkvæmari hátt og eðlilegri hátt jafnhliða því, sem við álítum einnig, að það sé hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á ýmsum sviðum.

Þá bendum við á það, að það ætti að gera núverandi verðlagseftirlit hald betra og virkara í framkvæmd, en það er. Það er okkar skoðun, að á undanförnum árum hafi verðlagseftirlitið sífellt verið að slappast og stefna stjórnarvalda hafi beinlínis miðað að því að gera verðlagseftirlitið allt lakara og lakara, en við álítum, að eins og nú er ástatt í okkar verðlagsmálum, þurfi einmitt að herða þar á ýmsum ákvæðum, það þurfi að gera heildarkerfið, verðlagseftirlitið, mun virkara en það er nú. Og þeir, sem hafa þar yfirumsjón með verðlags ákvörðunum og verðlagseftirliti, þurfi að hafa þar fullnaðarvald yfir enn þá fleiri verðákvörðunum en nú er.

Í fimmta lagi bendum við á þá ráðstöfun, sem þurfi að vinna að, að afnema sem mest eða lækka verulega hina fjölmörgu núverandi nefskatta. En það er enginn vafi á því, að þessir skattar eru í eðli sínu ósanngjarnir og orðnir óbærilega háir fyrir hinn óbreytta mann að greiða og þeir eru einn liðurinn í því að gera útgjöld hins almenna manns svo há, að það hlýtur vitanlega að segja til sín aftur í sambandi við annað, það, sem snertir þessi verðlagsmál almennt. Það er auðvitað enginn vafi á því, að ef ætti að fella niður nefskattana alla, þá.er þar um verulega háa fjárhæð að ræða. Ég hygg, að gert sé ráð fyrir í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, að þessir .skattar nemi í kringum 800 millj. kr. eða rúmlega 700 millj. kr og þá kemur auðvitað upp sú spurning, hvernig eigi að afla nýrra tekna í staðinn fyrir þessa, en þar bendum við m.a. á það, að við álítum, að hækka eigi ,skatta á hæstu eignum eða mestu eignum og það .é einnig hægt að hækka skatta til ríkisins, þar sem er um mestan beinan gróða að ræða í atvinnurekstrinum.

Í sjötta lagi bendum við á það, að það þurfi að fara fram gaumgæfileg athugun á núgildandi verðlagi almennt. Við teljum, að í mörgum greinum hafi verðlag það, ,sem nú gildir, verið ákveðið án þess að full rök hafi staðið til þess að ákveða það eins og það er. Við álítum því, að það eigi að rannsaka það mjög vandlega, þetta verðlag, sem nú gildir og færa það niðum í öllum þeim tilvikum, þar sem unnt er. Við erum ekki á þeirri skoðun, að það .eigi að slá því föstu, að það verðlag, sem nú gildir, sé rétt. Við álítum, að það sé einnig hægt með nákvæmri athugun á þessum málum að vinna þarna nokkuð til verðlækkana, sem gætu þá hamlað g:egn verðhækkunum almennt séð eða öðrum hækkunum.

Við höfum í þessum efnum tilnefnt hér sex atriði. Við vitum, að miklu fleeri geta hér vissulega komið til greina, en við álítum, að ef Alþ. snéri sér að því að setja lög og reglur t.d. um öll þessi atriði, þá væri stefnt í rétta átt til þess að hamla gegn hækkandi verðlagi og þá væri stefnt í þá átt að miða að verðlækkunum í ýmsum tilfellum. Þetta álítum við, að eigi að gera. Það eigi að vinna að því að setja lög og reglur um þetta á þeim tíma, sem vinnst á meðan verðstöðvunin er í gildi. Það er einnig okkar skoðun, að verðstöðvunin hefði það almennt gildi, eins og nú er ástatt, að þeir fjölmörgu aðilar, sem nú reyna eftir öllum hugsanlegum leiðum að fá samþykki fyrir því að hækka sitt verðlag, hættu þessum mikla þrýstingi sínum, þeir féllu frá kröfum sínum og yrðu að sætta sig við að bíða a.m.k. fram yfir verðstöðvunartímann með frekari kröfur. Þannig mundi verðstöðvunin verða til þess að slá nokkuð á þessa sívaxandi bylgju, sem alltaf er að rísa hærra .og hærra í þessum efnum.

Það er í rauninni furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa gert Alþ. enn grein fyrir því, hvað hún ætlast fyrir í þessum málum. Frá ríkisstj. hefur lítið ákveðið enn þá heyrzt um það, hvað til stendur að gera. Það er talað um það með óljósum orðum af hálfu ríkisstj., að það þurfi að stefna að verðstöðvun í áföngum, sem sagt, það er verið að reikna með því, að það megi nú bæta nokkru við enn af verðhækkunum, áður en numið sé alveg staðar. Það er mikið talað um það af hálfu ríkisstj., að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir víxlhækkanir. En hvers konar víxlhækkanir er hér verið að tala um? Spurningin mikla er sú, gáfu kauphækkanirnar á s.l. sumri, þar sem var um að ræða kauphækkun, sem sniðaði að því að jafna kaupið við það, sem það hafði áður verið eða fyrir kauplækkunina, gáfu þessar kauphækkanir tilefni til þess að miklar verðhækkanir ættu að ganga hér yfir? Eru menn á þeirri skoðun, að þær verðhækkanir, sem síðan hafa gengið yfir, séu þess eðlis, að það sé þá ekki réttmætt, að launþegar fái þær verðhækkanir bættar með hækkandi kaupi? Ef menn eru á þeirri skoðum, að það eigi nú að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, að launþegar fái í gegnum vísitölu uppbætur á laun hækkanir á sinu kaupi vegna þeirra verðhækkana, sem nú hafa orðið að undanförnu, þá hafa þeir raunverulega álitið, að sú kauphækkun, sem um var samið í sumar, hafi þá verið of mikil.og það þurfi að taka hana til baka aftur með hækkandi verðlagi. Þá hefur það einnig heyrzt frá hæstv. ríkisstj., að hún gæti hugsað sér, að þessi verðstöðvun í áföngum, sem ætti að koma, gæti verið framkvæmd jafnhliða framkvæmd á verðgæzlufrv., .sem lagt var hér fyrir síðasta Alþ., en það frv. gerði beinlínis ráð fyrir því, að þeir, sem með sölu á varningi og þjónustu hafa að gera, fengju til muna frjálsari hendur um verðákvarðanir en verið hefur. Dettur nokkrum manni það til hugar í alvöru, að ráðstöfun í þá átt að veita þessum aðilum enn þá meiri rétt til .ákvörðunar um verðlag og verð á þjónustu, muni draga úr verðhækkunum frá því, sem nú er?

En í sambandi við þessi mál þykir mér ástæða til þess að beina nú sérstökum spurningum til forsvarsmanna stjórnmálafsokkanna hér á Alþ. um afstöðu þeirra til þessa þýðingarmikla máls. Hver er í raun og veru afstaða stjórnmálaflokkanna á Alþ. nú til þessara verðlagsmála? Hver er afstaða Sjálfstfl.? Vill hann stöðva verðlagið, þar sem það er komið nú, um einhvern tíma eða treystir hann sér ekki til þess? Og hvaða ráðstafanir vill þá Sjálfstfl. gera í þá átt að hamla gegn hækkandi verðlagi og þeim afleiðingum, sem af því mundu leiða? Ja, ég spyr einnig: Hver er afstaða Alþfl. til þessa máls? Mér hefur skilizt það, að Alþfl. hafi gert um það samþykkt á sínu síðasta flokksþingi, að hann væri með verðstöðvun. En mér finnst full ástæða til þess að spyrja um það hér, þegar þetta mál er til umr., spyrja hæstv. viðskrh., formann Alþfl., um það, hver er afstaða Alþfl.? Er hann með því, að sett verði lög nú þegar um verðstöðvun, eins og mér skilst, að samþykktir Alþýðuflokksþingsins hafi borið vitni um, eða er eitthvert hik á Alþfl. í þessum efnum? Og hvaða tillögur hefur þá Alþfl. um viðnám gegn sívaxandi verðbólgu? Hvað vill hann gera? Getur það verið tilfellið, að Alþfl. líti svo á, að það væri gagnlegt í þessum efnum að samþykkja frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþ. um nýskipan verðgæzlumála? Telur hann, að það mundi gagna í þessum efnum? Eða getur það verið, að Alþfl. telji, að það verði eins og nú standa sakir að koma í veg fyrir víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi í þeirri merkingu, að það meigi ekki hækka kaupið frá því, sem nú er orðið, til þess að vega upp á móti þeim verðhækkunum, sem samþykktar hafa verið að undanförnu? Ég vil einnig beina mínum spurningum í þessum efnum til talsmanna Framsfl. Hvað vill Framsfl. gera í þessum efnum? Styður hann það, að nú þegar verði ákveðin verðstöðvun um einhvern tiltekinn tíma og sá tími síðan notaður til þess að gera ráðstafanir, sem gætu miðað að því að koma í veg fyrir sífellt vaxandi verðbólgu eða draga úr verðbólguvextinum? Eða hikar Framsfl. eitthvað í þessum efnum og telur ekki rétt að samþykkja verðstöðvun fyrr, en búið sé að gera ýmsar aðrar ráðstafanir? Það væri einnig kannske ástæða til þess að beina hér þessum spurningum til talsmanna flokks Frjálslyndra og vinstri manna. Styðja þeir verðstöðvun nú þegar eða er eitthvert hik á þeim? Telja .þeir, að það sé betra að láta verðlagið nokkurn veginn laust, eins og það hefur verið í reynd, á meðan sé verið að leita að öðrum ráðum, sem gætu unnið gegn verðbólgu?

Við Alþb: menn litum þannig á málið, að það sé nú þegar búið að heimila allt of miklar verðhækkanir og því eigi nú að nema staðar, stöðva frekari verðhækkanir með öllu, en við viðurkennum, að þetta er engin varanleg lausn á vandamálinu og því viljum við, að sá ~ími, sem vinnst í verðstöðvun, verði notaður til þess að settar verði reglur, sem mundu í reynd draga úr verðbólguhraðanum. Og við höfum reynt að gera hér nokkra grein fyrir því, á hvað við bendum sem tiltækustu úrræðin í :þessum efnum.

Það, sem sérstaklega vekur athygli manna, þegar þessi mál eru rædd, er það, að það er alveg augljóst mál, að ýmsir helztu talsmenn ríkisstj. láta mjög að því liggja í röksemdafærslu sinni, að sá verðbólguvandi, sem nú sé við að glíma hér á landi, stafi raunverulega af tvennu: Annars vegar af því, að kaupgjald hafi verið hækkað um of á s.l. sumri, það kaupgjald, sem verkalýðsfélögin þá sömdu um og hins vegar af hinu, að verð á landbúnaðarafurðum hafi hækkað of mikið nú í haust. Ég er á þeirri :skoðun, að kenningar, sem fari í þessa átt, séu algerlega rangar. Það var veruleg þörf á því að hækka laun hinna lægst launuðu í sumar og það voru allar aðstæður til þess í hagkerfinu að tryggja á varanlegan hátt þessar kauphækkanir. Og það er einnig mín skoðun, að á því hafi heldur ekki leikið neinn vafi, að bændastéttin í landinu átti að fá sambærilegar eða sams konar kauphækkanir sér til handa, og það hafi ekki verið ástæður til þess, að hér yrðu meiri verðhækkanir almennt séð í landinu, þrátt fyrir þessar breytingar, hækkun á launum verkamanna og bænda en svo, að það hefði ekki átt að skapa neitt vandamál í íslenzku efnahagslífi. Hitt er svo allt annað mál, hvort verð á landbúnaðarafurðum hefur hækkað á s.l. hausti verulega mikið meira en sem nam eðlilegri hækkun á kaupi bóndans og það hafi verið vegna þess, að ýmsar rekstrarvörur búanna hafa að undanförnu hækkað í öllu verðbólguflóðinu, það er allt annað mál. Það flokkast undir þær verðlagshækkanir, sem ég tel, að hafi verið óeðlilegar og átt hafi að koma í veg fyrir og hafi verið skylda stjórnarvalda að hamla gegn, en sem ekki var gert.

Ég vildi spyrja þá, sem efast um það, að það hafi verið samið um réttláta og eðlilega kauphækkun til verkamanna á s.l. sumri um það, hvers konar ástand þurfi í raun og veru þá að vera til staðar í efnahagslífinu, ef ekki hefur verið grundvöllur til þess að veita raunbæfar kauphækkanir til hinna lægst launuðu á s.l. sumri. Eða eru menn virkilega komnir á það stig að halda því fram, að í hvert skipti, sem um er að ræða kauphækkun, verði sú kauphækkun að ganga áfram út í hækkandi verðlag. Ég efast ekkert um það, að þetta sjónarmið er ríkjandi hjá ýmsum atvinnurekendum. Þeirra sjónarmið er einfaldlega það, að hafi þeir í eitt skipti fengið þá aðstöðu, að fyrirtæki þeirra hafi verið rekið með verulegum gróða, þá eigi þeir ekki að láta af þeim gróða á neinn hátt, þá eigi þeir að haga sínum vinnubrögðum .þannig. Komi þá til kauphækkunar, þá eigi þeir áfram að halda sömu gróðaaðstöðu og þeir áður höfðu og velta hinum nýju útgjöldum, hinu hækkaða kaupi aðeins af sér og út í hið almenna verðlag. Það hefur t.d. komið hér fram í umr. á þessu þingi, að olíufélögin þrjú hafi haft góðan eða hagstæðan rekstur á s.1. ári og jafnvel nefndar hér upphæðir um það, að þau hafi þá haft í gróða um eða yfir 100 millj. kr. Ef sú upphæð er rétt tilfærð og þá sennilega miðuð við reikninga fyrirtækjanna, þá tel ég nú alveg víst, að gróðinn sé miklum mun meiri en þar er skráð í reynd. Þá kemur þetta þannig fram, t.d. hjá þessum þremur stóru fyrirtækjum, að þau vilja halda þessari stöðu sinni um rekstrarafkomu og krefjast þess með nýrri verðlagningu að losna við öll óþægindi af hækkuðu kaupgjaldi eða yfirleitt öðrum kostnaði, sem kunni á þau að falla til hækkunar frá því, sem áður var og þau heimta því nýja verðlagningu, sem gefur þeim aðstöðu áfram til a.m.k. jafngóðrar afkomu og áður var. Það er mín skoðun, að það verði að brjóta á bak aftur kenningar, sem fara í þessa átt. Það verði að sannfæra atvinnureksturinn almennt um það, að til þess er ætlazt, að sá hagnaður, sem til fellur, t.d. fyrir hagstæð ytri áhrif, falli ekki síður ti1 vinnandi fólks við fyrirtækin en til fyrirtækjanna sjálfra og þau verði því að taka hér á sig nokkurn hluta af eðlilegum kauphækkunum, en þau eigi ekki að fá aðstöðu til .þess að veita af sér kauphækkuninni út í verðlagið með þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa fyrr en síðar fyrir atvinnulifið sem heild.

Eins og ég sagði, voru hér og hafa verið hér á þessu ári allar aðstæður til þess, að hægt væri að veita kauphækkanir, án þess að til meiri háttar erfiðleika hefði átt að koma í okkar hagkerfi. Verðhækkanirnar á útflutningsvörum þjóðarinnar hafa verið gífurlega miklar og í gegnum þær verðhækkanir hafa okkur áskortnazt fjárhæðir, sem eru svo miklar, að það var full aðstaða til þess að þær yrðu nýttar til kauphækkana. Eins og því var haldið fram áður, að það þyrfti að lækka launin, þegar hinar ytri aðstæður voru óhagstæðar, eins voru vitanlega sams konar rök fyrir því eða eru nú á þessu ári fyrir því að hækka kaupið um leið og þessar ytri aðstæður breytast okkur í hag. Í þessum efnum tel ég alveg nauðsynlegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir því, hvernig okkar verðmyndunarkerfi raunverulega er í framkvæmd. Það er enginn vafi á því, að eins og háttar hér hjá okkur, þá ráða ýmis stórfyrirtæki og ýmsar stofnanir nokkurn veginn ein verðlaginu á þýðingarmiklum vörum og þjónustu í landinu. Það er t.d. ekkert um það