26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Flm. (Sigurvin Einarason) :

Herra forseti. Frv. það, sem við hv. 3. þm. Norðurl. v. flytjum á þskj. 15, fluttum við einnig á síðasta þingi, en það varð þá ekki útrætt. Efni frv. er í fáum orðum eftirfarandi:

Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist Námskostnaðarsjóður. Hlutverk sjóðsins á að vera að veita þeim skólanemendum námsstyrki, sem dvelja fjarri heimili sínu við nám. Tekjustofnar sjóðsins eiga að vera annars vegar framlag á fjárlögum, hins vegar 5% gjald á söluvörur Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins, svo og á öl og gosdrykki. Stjórn sjóðsins á að vera kosin af Alþ. Hún á m.a. að annast fjármál sjóðsins og úthluta námsstyrkjum. Það á að vera meginsjónarmið við úthlutun námsstyrkja að jafna svo sem verða má námskostnað þeirra nemenda, sem dvelja fjarri heimilum sínum og hinna, sem nám stunda heiman frá sér daglega. Þetta er aðalefni frv.

Það munu flestir viðurkenna það, að menntun er lífsnauðsyn. Æskufólk hvar sem er í landinu á að hafa jafnan rétt til náms í þeim menntastofnunum, sem þjóðfélagið hefur komið upp. Þar á ekki einn að hafa forréttindi fram yfir annan og þar á heldur enginn að vera hornreka, sem hæfileika hefur til náms. En skólunum verður ekki dreift um landið eins og einhverjum líkamlegum nauðsynjum manna. Alltaf verður mikill fjöldi æskufólks að sæta því að vistast að heiman verulegan hluta árs til skólanáms. Þetta veldur þeim nemendum miklum kostnaði umfram hina, sem nám stunda í heimangönguskóla. Þegar þessi kostnaður er orðinn slíkur, að foreldrar neyðast til þess að neita börnum sínum um skólamenntun, er mikil alvara á ferð, þá er þjóðfélagið farið að bregðast þeirri skyldu sinni að sjá öllum ungmennum fyrir sama rétti til þessara andlegu lífsnauðsynja — til skólanáms.

Á síðasta þingi sendi menntmn. þessarar hv. d. frv. um Námskostnaðarsjóð nokkrum aðilum til umsagnar. Það var mjög liðið á þing og ég ætla, að það hafi aðeins verið komnar umsagnir frá Stúdentaráði Háskólans og Búnaðarfélagi Íslands, áður en þingi lauk. Báðar þessar umsagnir voru jákvæðar og mæltu með frv. Auk þess sendi Búnaðarfélag Íslands samþykkt, sem gerð hafði verið á Búnaðarþingi á s.l. vori, þar sem einnig var mælt með frv. Þá hafa verið gerðar fundarsamþykktir víða um land, þar sem lýst er nauðsyn þess að jafna þennan fjárhagslega aðstöðumun nemenda við nám, þ.á.m. hafði þing Sambands ísl. sveitarfélaga gert slíka samþykkt nú á s.l. sumri.

Það virðist því vera almenn skoðun manna utan þings, að hér sé um aðkallandi réttlætismál að ræða að koma á námsstyrkjakerfi þeim skólanemendum til handa, sem engra styrkja njóta, en bera þungar fjárhagsbyrðar umfram aðra skólanemendur í landinu. Og Alþ. sjálft hefur reyndar viðurkennt þessa þörf á námsstyrkjum með smávægilegri fjárveitingu, sem tekin var upp á síðasta þingi, þótt sú fjárveiting sé reyndar varla nema viðurkenningin ein. Það er nú senn komið heilt ár síðan sú fjárveiting var samþykkt, en námsstyrkjum er engum farið að úthluta enn og mér er tjáð af fulltrúa í menntmrn., að þeim verði ekki úthlutað, fyrr en til komi önnur fjárveiting á þessu þingi og þá báðum fjárveitingunum úthlutað í einu.

Ég gat þess í þingræðu í fyrra, að sú 10 millj. kr. fjárveiting, sem þá var samþykkt til að jafna aðstöðumun nemenda, væri svo litilfjörleg, að enginn yrði öfundsverður af því að eiga að skipta henni milli allra þeirra skólanemenda í landinu, sem siðferðilegan rétt ættu til námsstyrkja. Ég hef orðið helzt til sannspár um þetta atriði, þar sem nú þarf að draga saman tveggja ára fjárveitingu, svo að unnt sé að skipta. En í ofanálag á að útiloka alla nemendur skyldunámsstigsins frá námsstyrkjum og auk þess alla nemendur í öðrum skólum, ef þeir eru í heimavist, að því einu undanteknu, að þeir geta komið til greina að fá einhvern smávægilegan ferðastyrk. En þeim, sem þessari tilhögun ráða, er ekkert láandi og ég er ekki að saka þá um neitt í þessu efni. Fjárveitingin er nefnilega svo lítil, að það verður að grípa til einhverra slíkra ráða sem þessara, til þess að það sé hægt að skipta þessari upphæð. En þetta ætti að vera nægileg vísbending um það, hvort fjárhagsleg vandamál skólanemenda verða leyst með slíkri fjárveitingu sem þessari.

Sá mikli mismunur, sem er á námskostnaði skólanemenda eftir því, hvap þeir eru búsettir langt frá skólum, svo að þeir verði að hverfa að heiman, eða þeir eru búsettir mjög nálægt skólaveggjunum — sá mismunur er fyrir löngu farinn að hafa þau áhrif, að í hið lengra og dýrara nám fara fyrst og fremst þeir, sem gengið geta í skólana heiman frá sér daglega, af því að þeim verður námið miklu ódýrara en hinum. Og því lengur, sem þróunin helzt í þessa átt með sívaxandi námskostnaði á verðbólgutímum, því hraðar nálgast sú skipan alveg sjálfkrafa, að skólarnir verði aðallega fyrir þá, sem búa í næsta nágrenni við þá. Hins vegar munu þó allir viðurkenna, að skólarnir eigi að vera jafnt fyrir allt æskufólk í landinu, hvar sem það er búsett. En það er ekki nóg að viðurkenna þetta, þegar þróunin gengur í öfuga átt, án þess að ráðin sé bót á því.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það nú á þessu hausti, hvernig nemendur menntaskólanna skiptast í byrjun þessa skólaárs nú í haust í heimangöngunemendur, þ.e.a.s. þá sem geta sótt skólana daglega heiman frá sér og í dvalarnemendur, sem ég kalla, þ.e. þá, sem verða að vistast að heiman, meðan þeir eru við námið. Þeir skólastjórar, sem ég hef leitað til í þessum efnum, hafa verið mjög fljótir og greiðir í því að láta mér í té sem allra beztar upplýsingar um þetta efni og á örfáum dögum tókst mér að fá þær frá mjög mörgum skólum, fyrst og fremst öllum menntaskólunum og auk þess frá Háskóla Íslands og frá all mörgum skólum öðrum hér í Reykjavík. Af þessari athugun kemur margt athugavert í ljós. Í menntaskólum Reykjavíkur, þar með talin menntadeild Kennaraskólans og lærdómsdeild Verzlunarskólans, eru nú í haust 2.248 nemendur af 2.941 menntaskólanemanda í öllu landinu, eða 76%. Þegar þess er nú gætt, að utan Reykjavíkur býr um 60% þjóðarinnar, en þar er ekki skólarými fyrir menntaskólanemendur nema fyrir 24% af þeim, sem stunda það nám, þá verður ekki sagt, að landsbyggðin utan höfuðborgarinnar sé of hlaðin af menntaskólum og því engin vanþörf á, að fram komi till. um menntaskóla annars staðar, en í höfuðstaðnum einum. Af þessum 2.248 menntaskólanemendum í Reykjavík er 1.891 nemandi, eða 84%, af svokölluðu Reykjavíkursvæði, þ.e.a.s. úr höfuðstaðnum og því nágrenni hans, þar sem nemendur geta sótt skólana daglega og þurfa þess vegna ekki að vista sig að heiman við nám, 84% af öllum þessum menntaskólanemendum eru af þessu svæði. Í Háskóla Íslands eru hlutföllin þau, að samtals eru þeir stúdentar nú í haust, sem stunda nám hér heima, 1.555, en með þeim, sem stunda nám erlendis, 1.619. Og af þessum 1.555 nemendum, sem stunda nám hér heima, eru af Reykjavíkursvæðinu, þessu sem ég nefndi áðan, 1.182, eða 76%. En rektor háskólans getur þess í bréfi, sem fylgdi þessum upplýsingum til mín, að tölurnar virðist gefa til kynna, að stúdentar taki sér lögheimili í Reykjavik, eftir að nám er hafið, m.a. af þeirri ástæðu, að nærri helmingur þeirra sé í hjónabandi.

Háskólastúdentar hafa notið námslána um alllangt árabil, en áður voru það námsstyrkir. Auk þeirra njóta nú námslána nemendur í menntadeild Kennaraskólans, nemendur í Tækniskóla Íslands og nemendur í framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri, þ.e.a.s. þegar þessir nemendur eru að komast á lokastig í náminu. Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem ég hef fengið frá skrifstofu Lánasjóðs ísl. námsmanna, hafa námslán á síðasta skólaári handa einhleypum stúdentum við nám hér heima á fyrsta námsári numið um 25–40 þús. eftir ástæðum. Það eru algengustu upphæðirnar og er þá miðað við 40% umframfjárþarfar þeirra, sem svo er kölluð. Stundum hafa þessi lán þó verið mun hærri, en þetta og í örfáum tilvikum hafa þau verið lægri. Þessi námslán hafa reynzt stúdentum algerlega ófullnægjandi, um það munu allir kunnugir menn hafa verið sammála. Mér sýnist, að stjórnvöld séu þessarar skoðunar líka, því að nú á að hækka þessi námslán verulega, enda hefur líka náms— og framfærslukostnaður stúdentanna hækkað mikið frá í fyrra. Eftir þessum upplýsingum frá skrifstofu Lánasjóðs ísl. námsmanna virðist mér, að gert sé ráð fyrir, að námslán stúdenta á þessu nýbyrjaða skólaári geti orðið um það bil 60% af umframfjárþörf á 1. og 2. námsári, 65% á 3. og 4. námsári, 70% á því 5., 80% á því 6. og 90% af umframfjárþörfinni á 7. námsári. Það er því mjög líklegt, að námslán handa einhleypum stúdent við nám hér heima geti þess vegna orðið á þessu nýbyrjaða skólaári um 60–100 þús. kr., eftir því hve langt hann er kominn í námi. Hafi svo stúdentinn aftur á móti barn á framfæri, hækka námslánin verulega. Ég ætla, að þau geti hækkað um ein 20—30 þús., ef stúdent hefur eitt barn á framfæri. En þrátt fyrir þessa hækkun námslánanna er það vafalaust, að stúdentar verða ekkert ofhaldnir eins og nú er komið dýrtíð. En þegar litið er á þessar staðreyndir, hvernig þó er búið að stúdentum við nám, hvernig er þá komið hag nemenda í öðrum skólum landsins, sem engin námslán hafa og enga námsstyrki hafa og ekkert hafa upp á að hlaupa nema sínar eigin tekjur, ef foreldrarnir hafa ekki ráð á að hlaupa undir bagga? Ég held, að það þurfi ekki að fjölyrða um það, að þeirra hagur er næsta bágborinn.

Þegar þetta mál var til umr. á síðasta þingi, lét ég þess getið, að ekki lægju fyrir upplýsingar um það, hversu margir skólanemendur í landinn yrðu að vistast að heiman og þess vegna væri örðugt að gera áætlun um fjárþörf til námsstyrkja í heild. Við flm. töldum þá og við teljum enn í grg. þessa frv., að líklegt megi telja, að þessir nemendur séu um eða yfir 6 þús. í landinu öllu. Eftir að þessu frv. var nú útbýtt á Alþ., barst mér bréf frá menntmrn. Var rn. að svara bréfi frá mér frá 30. júní s.l., þar sem ég spurði m.a. um þetta, hvað þessir skólanemendur, sem þurfa að vistast að heiman, mundu vera margir í landinu í heild. Og í svarinu kemur fram, að á skólaárinu 1968–1969 voru þessir nemendur, senn dvöldu fjarri heimilum sínum við nám, 5.847. Eru þá nemendur í Háskóla Íslands ekki meðtaldir og ekki nemendur, er njóta launa á starfstímantum né þeir, sem sóttu stutt námskeið. Þar sem þetta eru tveggja ára gamlar upplýsingar, er sýnilegt, að nú er fjöldi þessara nemenda sjálfsagt yfir 6.000, eins og við flm. gerðum ráð fyrir.

Svo er um þetta mál eins og mörg önnur, að mest veltur á því, að fé sé fyrir hendi til námsstyrkjakerfisins og það fé sé til frambúðar. Þess vegna er hér gert ráð fyrir föstum tekjustofni til handa Námskostnaðarsjóði. Fjárþörf er mikil, því er ekki að neita. Þótt allir nemendur barnaskóla væru strikaðir út úr þessu frv., sem ég tel þó ekki rétt að gera, hefði samt fjöldi annarra skólanemenda, er rétt til námsstyrkja ættu samkv. þessu frv., verið um 3.640 fyrir tveimur árum, en sennilega nálægt 4.000 núna. Og þótt hver nemandi í þessum skólum fengi námsstyrk að meðaltali ekki nema 1/3 hluta þeirrar upphæðar, sem stúdentar fá á þessu skólaári í námslán, yrði heildarupphæðin samt um 100—110 millj. kr.

Að sjálfsögðu er eðlismunur á námsstyrk og námsláni, en meðan á náminu stendur, kemur hvort tveggja nemandanum að sama gagni, því að það er fyrst að námi loknu, sem stúdentar þurfa að fara að greiða vexti og afborganir af námslánum. Vextir eru 5% og lánin greiðast upp á 15 árum eftir að náminu er lokið. Þar sem það eru háskólalærðir menn, sem verða að endurgreiða námslánin, er ekki ósennilegt, að þeir búi við eitthvað betri launakjör en allur þorri annarra manna og eigi þeir því eitthvað hægara um hönd með greiðslu lánanna. Og þó er því ekki að neita, að endurgreiðsla námslána getur orðið mönnum þung í skauti. Ákvæði þessa frv. um tekjustofna Námskostnaðarsjóðs eru þau sömu og voru í frv. á síðasta þingi. Ekki hefur bólað á nokkurri gagnrýni á þá tekjuöflun, enda munu menn ekki kvarta undan 6% gjaldi á munaðarvörur, þar sem þær hafa ekki hækkað í verði nema um 50—60% á sama árafjölda og helztu matvörutegundir hafa hækkað um 150—200%.

Herra forseti. Ég hef nú gert hér grein fyrir efni þessa frv. og sýnt hér fram á þá miklu nauðsyn að koma á námsstyrkjum handa þeim nemendum í skólum landsins, sem verst eru settir. Þar sem frv. er nú flutt í byrjun þings, má vænta þess, að það fái þinglega afgreiðslu, enda verður áherzla á það lögð. Utan þings hefur málið mikinn stuðning og ég vænti þess, að svo muni einnig reynast hér innan þings. Ég vona því fastlega, að efnislega nái þetta frv. samþykki þingsins, en breytingar á frv. geta að sjálfsögðu komið til greina.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.