23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Námskostnaðarsjóð er eitt af fyrstu málum þingsins. Frv. var útbýtt 13. okt., þ.e. annan fundardag þessa þings. Því var vísað til hv. menntmn. 27. okt. og nál. var síðan útbýtt tæpum fjórum mánuðum síðar, eða 22. og 25. febr. Málið hefur verið síðan hér á dagskrá 10 daga í röð, en kemur nú fyrst til umr.

Um nokkurt skeið hafa menn trúað því, að það væri sameiginleg skoðun landsmanna, að æskufólk eigi að búa við sem jafnasta aðstöðu til menntunar, hvar sem það er búsett á landinu. Það eigi engin ungmenni að gjalda þess, að þau búi svo langt frá þeim skóla, sem þau vilja sækja, að heimangöngu verði ekki við komið. En þeir nemendur, sem verða að hverfa að heiman og dveljast 7—9 mánuði ánsins ár eftir ár, við nám fjarri heimili sínu, verða að sjálfsögðu að bera miklu meiri námskostnað en hinir, sem geta stundað skólanámið án þess að flytja að heiman. Jafnrétti æskufólks til menntunar viðurkenna allir í orði — bókstaflega allir, sem ræða eða rita um þessi mál. Ég sagði þeir viðurkenna það allir í orði. En nú virðist vera að koma í ljós, að það ætla sér ekki allir að viðurkenna þetta jafnrétti í verki. Það geta hv. þm. séð á þeim tveimur nál. í þessu máli, sem liggja nú hér fyrir. Eins og hv. þm. er kunnugt, er meginefni þessa frv. það, að stofnaður verði sjóður, er hafi það hlutverk að veita námsstyrki því æskufólki, er verður að dveljast fjarri heimilum sínum við nám. Með brtt., sem minni hl. menntmn. flytur á þskj. 404 við þetta frv., er lagt til, að þessar styrkveitingar nái einnig til skólanemenda, sem eiga við örðugan fjárhag að búa af öðrum ástæðum en búsetu. Nú hefur hv. frsm. meiri hl. menntmn. gert að sérstöku umtalsefni þessa brtt. og telur, að hún valdi því, að það komi ekki til greina að fara að samþykkja frv. núna. En það vill nú svo til, að þessi brtt. var ekki komin fram, þegar hann og aðrir í meiri hl. n. mæltu gegn því, að frv. yrði samþ., svo að það er einkennileg afstaða sem hv. frsm. tekur nú, að hann taldi fyrst ástæðu til þess nú að vera á móti frv., af því að þessi brtt. kom fram, en var samt á móti því, áður en hún kom fram. Þetta er alveg sérstakt viðhorf. Þessa nauðsyn á jafnrétti æskufólks, sem ég minntist á, hefur hæstv. ríkisstj. orðað mjög skilmerkilega að mínum dómi í grg. með frv. sínu um skólakerfi, en þar segir hæstv. ríkisstj. á þessa leið í grg. þess frv., með leyfi forseta:

„Í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna sinna, hlýtur opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum, að bera afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur nemenda og forráðamanna þeirra valdi ekki misrétti um aðstöðu ungmenna ti1 menntunar. Þessi skylda mun vera almennt viðurkennd í landinu, bæði af almenningi og kjörnum leiðtogum þjóðarinnar.“

Þetta er fallega sagt, það vantar ekki. Og meira að segja ríkisstj. segir, að það þurfi líka að taka þarna með þá sem eiga við erfiðar fjárhagsástæður að búa og það er í samræmi við brtt. okkar í minni hl. n. Já, það er fallega orðað þetta í grg, hjá hæstv. ríkisstj. Ég er ekki viss um, að aðrir orði þetta betur. En þá er eftir að vita, hvað hæstv. ríkisstj. meinar með þessum hátíðlegu ummælum sínum. Ætlar hún að kappkosta að ná þessu jafnrétti, sem hún er að tala um? Og ef hún ætlar sér það, hvernig ætlar hún sér að gera það? Fulltrúar stjórnarflokkanna í menntmn. leggja til, að þessu frv. verði vísað frá. Og þeir gerðu enga tilraun til að á frv. breytt, þrátt fyrir það að frv. lá hjá n. í hér um bil fjóra mánuði. Ég efast svo sem ekkert um, að nm. meiri hl. n. eru að framkvæma vilja ríkisstj. Það mun varla fara á milli mála, a.m.k. ættu menn að geta tekið eftir því, ef hæstv. menntmrh. tekur hér til máls, hvort hann muni ekki tala alveg í samræmi við meiri hl. n. um þetta mál. En hvað ætlast þá ríkisstj. fyrir til þess að afstýra þessu misrétti, sem æskufólk býr við? Þessu misrétti, sem hún gerði að sérstöku umtalsefni í grg. með frv. sínu um skólakerfið? Hún segir, að það sé afdráttarlaus skylda ríkis og sveitarfélaga að afstýra þessu misrétti — afdráttarlaus skylda. Og hvað gerir hún til þess að afstýra því?

Ég sé ekki, að það geti verið nema um tvennt að ræða, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Annaðhvort telji hún alveg fullnægjandi þá málamynda námsstyrki, sem teknir voru upp í fjárlög í fyrra og nú aftur á þessu ári, eða hún meini bókstaflega ekkert með þessu tali sínu um jafnrétti æskufólks til menntunar. En þá er rétt að spyrja Eru þá ekki núverandi námsstyrkir fullnægjandi? Þarf nokkuð meira? Það er kannske þetta, sem meiri hl. n. og ríkisstj. á við. Upphæðin var 10 millj. kr. á fjárl. í fyrra. Hún er 15 millj. kr. á þessu ári, þó að ríkisstj. ætlaðist reyndar ekki til, að hún yrði nema 12 millj. Fyrir tveimur árum voru nemendur í skólum landsins öðrum en háskóla, þeir sem urðu að dvelja fjarri heimilum sínum við nám, 5.847, samkv. skýrslu frá menntmrn. Af þessum 5.847 nemendum voru 2.209 í barnaskólum. Þetta var fyrir tveimur árum. Þessi fjöldi er að sjálfsögðu kominn eitthvað á sjöunda þús. nú. Hvað kemur í hlut að meðaltali, ef skipta á 15 millj. kr. á milli þeirra? Það verður í hæsta 1agi um 2.500 kr. á nemanda. Ef nemendur í heimavistarbarnaskólum eru strikaðir út, eins og gert var með orðalagi í fárveitingarinnar, gætu þessi námsstyrkir orðið um 3.800 kr. að meðaltali á nemanda, miðað við núv. fjölda þessara nemenda í landinu.

Ég býst við, að ríkisstj. hafi þótt þetta heldur lágt eða ég gizka á það, að henni hafi þótt þetta heldur lágt, því að hún fann upp reglu, sem skyldi gilda við úthlutun þessara námsstyrkja. Og aðalreglan er sú, að engir nemendur í heimavistum skólanna á landinu, hvar sem þeir eru, skyldu fá dvalarstyrki — engir. Hins vegar mátti veita þeim dálitla ferðastyrki, ef ferðakostnaðurinn fór yfir ákveðið lágmark. Þessi regla, sem ríkisstj. setti, hefur gert strik í reikninginn. Með henni voru hreinlega útilokaðir frá dvalarstyrkjum, 3/4 hlutar þeirra nemenda í framhaldsskólum landsins, sem dveljast fjarri heimilum sínum við nám. Það munar ekki um það. Nú leit þetta allt, betur út með deilinguna. 10 millj., sem átti með réttu að úthluta s.l. vor fyrir tæpu ári síðan, þeim var úthlutað nú um síðustu áramót og þó ekki alveg að fullu. Og þá reyndust það svo, að 984 nemendur fengu námsstyrki. Þessum námsstyrkjum var reyndar skipt í tvennt, þó að manni finnist nú, að það sé erfitt að vera að skipta í tvennt þessum námsstyrkjum, en þeir eru kallaðir bæði ferðastyrkir og dvalarstyrkir, rétt eins og ferðakostnaður sé ekki námskostnaður. En sem sagt, 984 fengu þessa styrki og var upphæðin að meðaltali á nemanda 9.214 kr. (Gripið fram í) Það var með ferðastyrknum, það munaði ekki um það, það voru tveir styrkir, 9.214 kr. En samt leit nú þetta ekki nógu vel út, að einn fjórði hluti þessara þurfandi nemenda fengi styrki og hinir ekki neitt. Þá kom það til að veita ferðastyrki hinum, sem ekkert fengu. Þá var farið að úthluta ferðastyrkjum, þeim sem ekkert höfðu fengið og þeir reyndust 387 nemendurnir, sem fengu þá, en sjálfsagt hefur fjöldi slíkra nemenda verið eitthvað um eða yfir 3.000. Þeir reyndust 387, sem urðu þessarar rausnar aðnjótandi. Og hver var svo upphæðin að meðaltali á nemanda í þessum hóp? Það urðu 1.323 kr. á nemenda — segi og skrifa 1.323 kr. á nemenda.

Það er afdráttarlaus skylda að tryggja æskufólki jafnrétti til menntunar, segir ríkisstj. Hún er að rækja það með 1.323 kr. Þetta voru 10 millj. í fyrra, nú er upphæðin 15 millj. á þessu ári, en á móti því kemur mikil hækkun á námskostnaði nemenda annars vegar og svo fjölgun nemenda í landinu hins vegar, svo að það er ekki víst, að úthlutunin verði miklu glæsilegri á þessu ári en hún var í fyrra.

Nú hlýtur maður að spyrja: Er þetta námsstyrkjakerfi þá nægjanlegt að dómi hæstv. ríkisstj. og að dómi hv. alþm. til að tryggja æskufólki jafna aðstöðu til menntunar í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna — sinna, svo að notað sé orðalag ríkisstj. sjálfrar? Eru þeir alþm., sem vilja vísa þessu frv. frá, þeirrar skoðunar? Ef þeir eru ekki þeirrar skoðunar, hverrar skoðunar eru þeir þá?

Eins og ég nefndi, var það um einn fjórði hluti nemenda í framhaldsskólum, sem dvöldust fjarri heimilum sínum við nám, er fékk námsstyrki, ef námsstyrki skyldi kalla nú um síðustu áramót. Og upphæðin var rúmar 9.000 kr. að meðaltali á nemanda. Ekki bólar á nokkurri viðleitni af hálfu stjórnarvalda til að breyta þessari stefnu, til að rækja þessa afdráttarlausu skyldu sína, að tryggja æskufólki jafnrétti til menntunar. Þvert á móti vísa stjórnarsinnar á bug þeim till., sem felast í þessu frv.

En hvernig metur þá hæstv. ríkisstj. fjárþörf háskólastúdenta, sem stunda nám hérna heima? Ekki eru þeir í eðli sínu neitt öðruvísi menn en nemendur annarra skóla. Háskólastúdentar áttu lengi í baráttu fyrir auknum námslánum, enda voru kjör þeirra harla bágborin. Loks kom að því á s.l. ári, að hæstv. ríkisstj. sannfærðist um, að námslánin yrðu að hækka verulega. Nýjar reglur voru svo settar um þessi námslán þeirra. Aðalreglan er sú, að náms– og framfærslukostnaður háskólanemandans við nám hér heima, ef hann er einhleypur, er áætlaður á þessu ári, 1971, 155 þús. kr., en auk þess 35 þús. kr. fyrir hvert barn á framfæri hans. Eigin tekjur nemandans eru síðan dregnar frá áætluðum námskostnaði og er þá fundin svokölluð umframfjárþörf. Geta stúdentar fengið námslán, 60—90% af þeirri upphæð, eftir því hversu langt er komið náminu. Við þetta bætast sérreglur um umreikning og niðurfærslu á eigin tekjum, ef stúdent hefur börn á framfæri, eða ef hann hefur hraðað námi sínu. Verða þá námslánin hærri, en aðalreglur segja til um. Í des. s.l. var úthlutað námslánum til 22 háskólastúdenta. 17 þeirra fengu lán vegna eins árs náms og var upphæð námslána þessi: einn fékk 25 þús. kr. námslán, annar 30 þús., þriðji 70 þús., fjórði 75 þús., fimmti 80 þús., tveir fengu 85 þús. kr. hvor, tveir fengu 90 þús. kr. hvor, tveir fengu 95 þús. kr. hvor, tveir fengu 100 þús. kr. hvor, tveir fengu 115 þús. kr., einn fékk 150 og einn fékk 175 þús. kr. Þá fengu 5 stúdentar námslán vegna hálfs árs náms og voru upphæðirnar þessar: Einn þeirra fékk 35 þús. kr., annar fékk 40 þús., tveir fengu 50 þús. kr. hvor og einn fékk 65 þús. Meðaltal námslánanna vegna eins árs náms var þess vegna 92 þús. og 600 kr. á nemanda.

Þrátt fyrir þessi námslán eru háskólastúdentar sannarlega ekki of haldnir, því að náms— og framfærslukostnaður þeirra er mun meiri en námslánin og eigin tekjur til samans, hvernig sem þeir fara svo að því að brúa það bil. En séu menn þeirrar skoðunar, að háskólastúdentar megi halda vel á sínu til þess að komast af, hvernig eru þá fjárhagsástæðum nemenda í öðrum framhaldsskólum landsins, sem fá um 9 eða 10 þús. eða kannske 12 þús. kr. námsstyrk, að maður nú ekki tali um alla hina, sem fá enga fjárhagsaðstoð af neinu tagi og það er meginþorri framhaldsskólanemenda í landinu? Á nú þetta að vera framkvæmdin á þeim fagurmælum ríkisstj. í grg. frv. um skólakerfið, að lýðræðisríki beri afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur æskufólks valdi ekki misrétti í aðstöðu til mennta? Ætlar ríkisstj. og stuðningslið hennar að rækja þessa afdráttarlausu skyldu sína með því t.d. að vísa þessu frv. frá, þessari einu alvarlegu tilraun, sem gerð hefur verið til þess að draga úr því misrétti, sem æskufólk á nú við að búa?

Meiri hl. menntmn. segir í nál. sínu og það tók hv. frsm. meiri hl. n. fram hér áðan, að nú sé að fást fyrsta reynsla af framkvæmd þessa réttlætismáls að veita æskufólki námsstyrki til að jafna aðstöðumun þess til menntunar. Það sé of snemmt, eiginlega alltof snemmt, að ákveða framtíðarskipan þessara mála, eins og hv. frsm. orðaði það hér áðan og bezt að öðlast meiri reynslu af því, hvernig þetta gerist. Það er eins og meiri hl. n. sé með eitthvert lítt þekkt og hættulegt læknislyf í höndunum, sem þeir nm. vilja að vísu reyna á sjúklingum, en aðeins örlitla inntöku í einu, svona í tilraunaskyni. Samt kalla þeir þetta réttlætismál. Þeir vilja sannarlega fara varlega með réttlætið. Þeir vilja ekki hafa það í of stórum skömmtum. Þannig var það líka haft með háskólastúdentana, þar var smáskammta réttlætinu beitt árum saman, þar til stúdentar voru orðnir svo aðþrengdir, að ríkisstj. lét undan og hækkaði verulega námslánin. Það þarf að öðlast meiri reynslu af núv. námsstyrkjum, segir meiri hl. n. Er ekki komin reynsla á það, hversu mikla fjárhagsaðstoð háskólastúdentar þurfa? Er sú reynsla ekki nægjanleg ti1 þess að vita, hversu mikið nemendur annarra skóla þurfa? Þarf einhverja sérstaka rannsókn á það, þegar um menn er að ræða í sams konar skólum og á sama stað? Ætli það þurfi sérstaka reynslu, kannske nokkurra ára reynslu á það, hvort 9 þús. eða 10 þú;s. eða 12 þús. kr. styrkur sé ekki meira en nóg til dæmis handa nemanda í Reykjavík utan af landi, þegar háskólastúdent við hliðina á honum fær 100 þús. og dugir honum skammt? Þarf að bíða einhvern ákveðinn tíma til að fá vitneskju um þetta? Þarf einhverja sérstaka rannsókn á það, hvort heimavistarnemandi þurfi nokkurn námsstyrk, hvort hann sé ekki vel settur með það að fá ekki einn einasta eyri í dvalarstyrk, eins og menntmrn. hefur úrskurðað og auglýst á s.l. sumri um úthlutun lánanna s.l. ár? Hvað getur annars valdið því, að stjórnarsinnar vilja heldur viðhalda þessu misrétti, sem ríkjandi er í aðstöðu æskufólks til menntunar, en að fallast á efnisatriði þessa frv. til að draga verulega úr þessu misrétti? Þeir hefðu auðveldlega getað breytt frv. að eigin vild, ekkert var því til fyrirstöðu. En þeir báru það ekki við, þrátt fyrir fjögurra mánaða umhugsun. Frv. var meira að segja aldrei lesið yfir í menntmn. Svo ákveðnir voru stjórnarsinnar í því frá upphafi, að það skyldi ekki ganga fram. Þá gátu þeir auðvitað flutt eigið frv. svipaðs efnis, ef þeir vildu eitthvað gera í málinu, til þess að þurfa ekki að samþykkja frv. frá framsóknarmönnum. Þeir gerðu það ekki heldur. Þá hefur mér dottið í hug, að þeir vilji heldur halda í misréttið, en að missa af peningunum, sem til námsstyrkjanna eiga að fara. En hvaðan eiga þessir peningar að koma? Hv. frsm. meiri hl. n. gat um það hér áðan og hneykslaðist á því, að það skyldi eiga að taka af ágóða Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins. Það á nú ekki að fara að taka neitt af núv. ágóða, því að það eru ákvæði í frv. um það að leggja 5% álag á þessar vörur. Þessi aðaltekjustofn Námskostnaðarsjóðs samkv. frv. á að vera 5% álag á áfengi og tóbak. Er það þá þessi 5% hækkun, sem úrslitunum á að ráða um afgreiðslu frv.? Ríkisstj. hefur reyndar gætt vel hagsmuna neytenda þessara vara í heilan áratug. Frá 1. jan. 1960 til 1. jan. 1970 var meðaltals verðhækkun á helztu tegundum áfengis og tóbaks 127%. Á þessum sömu 10 árum hækkuðu hins vegar matvörur í verði um 303%. Þarna hefur þess verið vandlega gætt, að neyzla þessara munaðarvara drægist ekki saman, enda hefur neyzla Íslendinga á áfengi s.l. ár orðið , sú mesta, sem verið hefur á þessari öld. Það er von, að þeir vilji slá skjaldborg um þann hagnað, sem þessi mikla neyzla færir ríkisstj. og þá verði jafnrétti æskufólks að lúta í lægra haldi, þegar um svo dýrmæta hluti er að ræða. Ég skal játa, að það er erfitt að trúa því, að svona lágkúruleg sé afstaða stjórnansinna til jafnréttis æskufólks, að þetta hafi ráðið andstöðu þeirra gegn þessu frv., en einhverju verður maður að trúa.

Ég hef um nokkurt skeið álitið, að innan Sjálfstfl. væru þm., sem mundu vilja veita þessu máli lið og ég hafði fulla ástæðu til þess vegna blaðaskrifa, sem hafa ótvírætt bent í þessa átt. Ég minni sérstaklega á leiðara í Morgunbl. 15. jan. s.l. Það er ekki langt síðan. Og yfirskriftin á þessum leiðara var „Réttlætismál.“ Í þessum leiðara segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt því, að stórt átak verður að gera í byggingamálum menntaskólastigsins á næstunni, svo og fjölga námsleiðum á framhaldsskólastiginu, eins og þegar er byrjað á, er þýðingarmesta verkefni í menntamálum okkar vafalaust það að jafna menntunaraðstöðuna, þannig að námsfólk hafi jafna aðstöðu til menntunar, hvar sem það er búsett á landinu. Því miður hefur mjög skort á, að svo hafi verið um langt árabil. Það er augljóst, að það kostar verulega fjármuni að taka sig upp og flytjast að heiman til framhaldsnáms, hvort sem er í menntaskóla, háskóla eða aðra framhaldsskóla. Margir foreldrar úti á landsbyggðinni hafa tekið þann kostinn að flytjast búferlum til höfuðborgarinnar, þegar börnin þeirra hafa verið komin á þann aldur, að þau voru að hefja menntaskólanám. Þessi staðreynd á vafalaust meiri þátt í fólksflutningum frá hinum dreifðari byggðum, en margan grunar. Á fjárlögum ársins 1970 var í fyrsta sinn tekin inn fjárveiting til að jafna þennan aðstöðumun. Sú fjárveiting nam 10 millj. kr. En í ár verður varið í sama skyni 15 millj. kr. Þetta er talsvert fé og vafalaust þarf að gera enn betur, ef vel á að vera. Jöfnun á aðstöðumun til menntunar verður framkvæmd með ýmsum hætti. En jöfnuði er hægt að ná með styrkveitingu til námsfólks utan af landsbyggðinni. Það er einnig hægt að ná þessu sama marki með því að fjölga framhaldsskólum úti um land, koma þar upp heimavistum og tryggja nemendum þannig húsnæði og mat með viðunandi hætti. En hvernig sem það er gert, er augljóst, að hér er á ferðinni réttlætismál, sem þjóðin verður að veita fyllstu athygli á næstu árum. “

Þetta er um réttlætismálin og hæstv. ríkisstj. kallar þetta líka réttlætismál. Þannig hljóðaði þessi kafli í leiðara Morgunbl. Nú liggur þetta réttlætismál fyrir og við sjáum bráðum, hvernig höfundarnir að þessari miklu hugsjón, sem fram kemur í grg. stjórnarfrv., framkvæma það að framfylgja þessu réttlætismáli.

En Morgunbl. skrifaði oftar en einu sinni um þetta, því að hálfum mánuði seinna, 29. jan., birtist leiðari í Morgunbl. með yfirskriftinni: „Ranglæti, sem verður að leiðrétta.“ Mogginn var ekki af baki dottinn. Hann sá, hversu málið var alvarlega. Já, ranglæti, sem verður að leiðrétta og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nær allir þeir þm., sem þátt tóku í umr. um skólamálafrv. ríkisstj. á Alþ. í fyrradag, fögnuðu sérstaklega þeim ákvæðum, sem varða jafna menntunaraðstöðu unglinga, hvar sem þeir eru búsettir í landinu. Var lögð rík áherzla á, að þessi ákvæði mættu ekki vera nafnið tómt, heldur yrði að fylgja þeim eftir í framkvæmd. Gunnar Gíslason gerði þessi mál sérstaklega að umræðuefni í ræðu, er hann flutti í umr. Hann komist m.a. svo að orði: „Við, sem búum í sveit, nöfum orðið að sæta því, að börn okkar hafa ekki sótt skóla nema 3 mánuði á vetri. Að vísu fá sveitabörn á margan hátt menntun, með því að komast í snertingu við móðurjörð og dýralíf, en börn okkar hafa farið á mis við ýmislegt nám, sem börn í þéttbýli hafa notið, t.d. söngkennslu og tónlistarnám, íþróttakennslu og handíða. Ég legga ríka áherzlu á það, að öll ungmenni í landinu eigi þess jafn kost að stunda nám og öðlast fræðslu.“

Þetta var haft eftir Gunnari Gíslasyni. Svo heldur leiðarinn áfram:

„Sú staðreynd, að menntunaraðstaða ungs fólks er mjög mismunandi eftir því, hvar það býr á landinu, hefur verið mjög til umræðu síðasta misseri, og menn hafa vaknað til vitundar um það, að í þessum efnum hefur mikið ranglæti viðgengizt árum saman. Fyrir rúmu ári veitti Alþ. í fyrsta skipti fé til að jafna þennan aðstöðumum, með styrkveitingu til nemenda, sem stunda framhaldsnám og fárveiting til þess var hækkuð talsvert við afgreiðslu fjárlaga í des. s.1. En þetta er aðeins fyrsta sporið til þess, að allir búi við það sama. Hvað sem líður fjárhag foreldra eða búsetu, þarf mjög mikið átak. Þetta misrétti hefur ekki aðeins ríkt í framhaldsnámi. Eins og Gunnar Gíslason benti á, hafa börn í sveitum alls ekki fengið sömu kennslu í skyldunámi og þau, sem í þéttbýli búa. Hér er bæði um að kenna skorti á skólahúsnæði og skorti á góðum kennurum og margt fleira mætti tilnefna. En óhætt er að fullyrða, að það er eitthvert stærsta verkefnið á sviði menntamála okkar í dag að þurrka út þetta misrétti. Þess vegna er það fagnaðarefni, að á þetta er lögð mjög rík áherzla í skólamálafrv. ríkisstj. og þess verður að vænta, að ríkisstj. og Alþ. muni fylgja þessari stefnuyfirlýsingu eftir í reynd með myndarlegum og raunhæfum aðgerðum.“ Svona hljóðaði nú þessi leiðari.

Ég treysti mér ekki til þess að orða ályktun um þessi mál öllu gleggra, en hér er gert í leiðurum Morgunbl. og grg. ríkisstj. fyrir skólafrv. sínu. Nú hafa hv. þm. tækifæri til að sýna, hvernig þeim vilja afnema þetta ranglæti, sem viðgengizt hefur árum saman, hvernig þeir ætla að þurrka út misréttið, sem þeir hafa réttilega talað um. Ætla þeir að gera það með því að vísa þessu frv. frá, án þess að gera tilraun til að koma með nokkrar till. í staðinn? Vegna þeirra ræðuhalda og blaðaskrifa um þessi mál, sem átt hafa sér stað að undanförnu, eru foreldrar skólanemenda víðs vegar um land þeirrar skoðunar, að á Alþ. sé enginn ágreiningur um að afnema ranglætið, að þurrka út misréttið. Ég er viss um, að fólkið í landinn lítur svo á, að á Alþ. séu allir sammála um að gera það. En hvað ætli þessir foreldrar segi nú, þegar þeir sjá það svart á hvítu, hvernig stjórnarsinnarnir snúast í þessu máli?

Um brtt. okkar í minni hl. n. á þskj. 404 þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Með henni er lagt til að veita skuli námsstyrki nemendum, sem búa við erfiðan fjárhag, þó að ekki sé það vegna óhagstæðrar búsetu. Það ætti öllum að vera ljóst, að þar sem þrjú, fjögur eða kannske fimm börn í sömu fjölskyldu þurfa að sækja skóla samtímis, geta fjárhagsástæður valdið því, að neita verður börnunum um skólagöngu að meira eða minna leyti. Og slíku má þjóðfélagið ekki una. Þar sem hv. frsm. meiri hl. n. var að tala um, að þessi brtt. kollvarpaði eiginlega öllu, þá er það ósköp fjarri lagi, því að ef þessi sjóður kæmist á, eins og hann er hugsaður í þessu frv., hefði hann veruleg fjárráð og gæti hlaupið auðveldlega undir bagga, þar sem lakastar væru ástæður hjá barnmörgum fjölskyldum. Þetta er því ekkert annað en tylliástæða, enda var hann og allt hans lið í menntmn. á móti frv. frá upphafi, áður en hann hafði hugmynd um þessa brtt.

Ég skal svo, herra forseti, ekki orðlengja meira um þetta mál að sinni, það verður kannske tækifæri til að taka til máls aftur. En ég vil að lokum láta í ljós þá von, að það hneyksli gerist ekki, að þessu máli verði vísað frá, svo alvarlegum augum lít ég á málið í heild.