25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi upplýsa vegna þess, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vestf. í sambandi við frásögn blaðsins Norðanfara af afgreiðslu á þeirri fjárveitingu, sem ákveðin var til styrktar nemendum úr strjálbýli við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin í vetur. Á þskj. 279 fluttum við í minni hl. fjvn. till. um það, að hækka þessa fjárveitingu úr 12 millj. kr. í 25. Í framsöguræðu, sem ég flutti hér í hv. Alþ. fyrir þessari till. okkar, skýrði ég m.a. frá því, að á fundi sveitarstjónarmanna, sem haldinn var í sept. s.l., hefði hæstv. menntmrh. sagt frá því, að 12 millj. kr. væru ætlaðar til þessa verks, en áreiðanlega mundi það verða hækkað í meðförum Alþ. Við í minni hl. höfðum reynt að fá þessu þokað nokkuð ti1 betri vegar í fjvn., en það tókst ekki, og kenndi ég hæstv. ríkisstj. um það. Ég lét orð að því liggja, að ég treysti hæstv. menntmrh. til þess að standa við orð sín um þessa fjárveitingu. Undir umr. bauð hann okkur minnihlutamönnum samkomulag í þessu máli, að ef við vildum taka till. okkar til baka, skyldi hann beita sér fyrir því, að þessi fjárveiting yrði hækkuð úr 12 millj. í 15 millj. kr. og fjvn. flytti þá till.

Þar sem okkur var ljóst, minnihlutamönnum í fjvn., að ekki var um betri kost að velja en að þoka þessu til um 3 millj. kr., varð það að samkomulagi, að við drægjum okkar till. ti1 baka og fjvn. í heild flytti till. um l5 millj. kr. fjárveitingu. Þetta gerði fjvn. og samkvæmt þskj. 286 er þessi brtt. sú fyrsta á því þskj. frá fjvn. í heild, en ekki frá meiri hl., eins og Norðanfari sagði frá. Ég sá þetta í blaðinu Norðanfara, því að þeir, sem að þeirri útgáfu standa, hafa sýnt mér þá vinsemd að senda mér þetta blað og ég hafði nú hugsað mér að senda þeim leiðréttingu, sem ég því miður hef gleymt, en ætla þó að gera það hér eftir og treysti því, að þeir vilji hafa það, sem sannara reynist og birta leiðréttingu á þessari frásögn, sem því miður er röng.