27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

21. mál, söluskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 21 hef ég ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni og Ágúst Þorvaldssyni leyft mér að flytja frv. til 1. um breyt. á 1. um söluskatt. Efni þessa frv. er að, að undanþiggja álagningu söluskatts mestu nauðsynjavörur almennings, svo sem nauðsynlegustu matvörur, raforku og vatn til húsahitunar. Svipað frv. var flutt á síðasta Alþ., en náði þá ekki fram að ganga. Hins vegar vona ég, að hv. þm. hafi nú lært það mikið af reynslunni, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Frv. er flutt til þess að undirstrika það atriði í stefnu okkar framsóknarmanna, að ekki eigi að leggja skatta á mestu nauðsynjar og þeir eigi ekki að bera þyngstu skattana, sem minnst hafa gjaldþolið, eins og nú er, þar sem söluskattur er orðinn hæsti tekjustofn ríkisins. Í öðru lagi viljum við undirstrika það, að söluskattur á nauðsynjar er mikill verðbólgugjafi. Það eykur verulega verðbólguna í landinu að leggja á svo háan söluskatt eins og hér er lagður á allar vörur og ekki sízt þær, sem allir þurfa að nota. Verðbólgan ógnar nú atvinnu— og efnahagslífi þjóðarinnar og nokkrar umr. eru um það manna á meðal, hvernig við henni skuli snúast. Það er skoðun okkar flm., að ef þetta frv. eða frv. um svipað efni, sem flutt var á síðasta þingi, hefði verið samþ., þá mundi verðbólgan ekki ógna nú atvinnu— og efnahagslífinu eins og raun ber vitni um. Það skiptir verulegu máli um vöxt verðbólgunnar, hvort 11 % söluskattur er greiddur af öllu því, sem fólkið í landinu verður að neyta. Þetta frv. er því fyrsta og eina raunverulega málið, sem liggur fyrir þessu hv. Alþ. nú um baráttu gegn verðbólgu. Þetta er tilraun til þess að verjast verðbólgunni og koma í veg fyrir það, að hún vaxi og æði jafnört áfram eins og nú er.

Að því var spurt hér á hv. Alþ. í fyrra, ef þessi breyting yrði gerð á tekjuöflun ríkissjóðs, hvernig ætti þá að afla teknanna. Ég vil svara því til, eins og greinilega kemur fram í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1971, að einmitt vegna þess, hvað verðbólgan hefur vaxið gífurlega, þá hækka útgjöld fjárlagafrv. eins og þau gera. Þess vegna vil ég undirstrika það, að þó að mér sé ljóst, að þetta rýri tekjur ríkissjóðs, þá dregur það úr vexti verðbólgunna og það er betra fyrir ríkissjóð að láta af nokkrum hundruðum millj. kr. í tekjur, heldur en þurfa að hækka útgjöldin um milljarða eins og nú á sér stað. Þess vegna undirstrika ég það og legg áherzlu á það, að auk þess sem hér er stefnt í rétta átt hvað stefnumarki viðvíkur, þá er einnig unnið að því að draga úr verðbólgunni með samþykkt þessa frv. Ég treysti því á fylgi hv. alþm. við það.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.