16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

29. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil gjarnan láta í ljós þá skoðun mína á þessu frv., að ég er í meginatriðum samþykkur því, en hins vegar er það ekki sama og að vera samþykkur að öllu leyti ræðu hv. flm., því að þegar ég kærði mig um og vildi eyða tíma þingsins, þá mundi ég nú geta leyft mér að gera allmargar aths. við þessa ræðu. En framsöguræðan fyrir frv. var í töluvert öðrum dúr heldur en frv. sjálft. Lögin um Fiskveiðasjóð, sem í gildi eru, eru frá 1966 og þá var gerð veruleg breyting á stjórn sjóðsins. Áður var stjórn sjóðsins í höndum bankastjórnar Útvegsbanka Íslands, en með þessum lögum frá 1966 var sú breyting gerð á, að stjórnin var skipuð fimm fulltrúum, tveim frá hvorum viðskiptabankanna, Útvegsbanka Íslands og Landsbanka Íslands, og einum frá Seðlabanka Íslands og er hann formaður sjóðsstjórnar. Rökin fyrir þessari breytingu á þessum tíma voru þau, að það mundi verða betri samvinna á milli viðskiptabankanna og Seðlabankans um stjórn Fiskveiðasjóðs heldur en áður var. Hins vegar kom þá fram sú skoðun, að eðlilegt væri, að útvegsmenn ættu fulltrúa í stjórn sjóðsins. Ég hef fyrir mitt leyti talið, að það hafi sýnt sig, að það hafi verið röng stefna, sem upp var tekin, að hafa fimm bankastjóra í stjórn Fiskveiðasjóðs og það sé mjög eðlilegt, að útvegurinn sjálfur eigi fulltrúa í stjórn stærsta framkvæmdasjóðs síns og þess vegna styð ég þetta frv. Og ég fagna því, að hv. flm. hefur gerzt örlítið rótækari í þessari breytingu heldur en hann var á s.l. ári, því að þá var hans kjarkur ekki meiri en það, að hann vildi aðeins fækka um tvo bankastjóra í stjórn sjóðsins, en hann hefur nú, þrátt fyrir það, að hann sé nú kominn af léttasta skeiði, sótt í sig veðrið og vill nú moka öðrum tveimur út samkvæmt þessu frv. og fagna ég þeirri breytingu sérstaklega hjá honum. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að fulltrúar sjómanna eigi aðild að stjórninni og ég tel líka eðlilegt, að Alþ. kjósi tvo fulltrúa, og þess vegna er nú frv. mjög nálægt þeirri skoðun, sem ég setti fram við umræður um þetta mál á síðasta þingi.

Það hefur orðið breyting á Fiskveiðasjóði síðan lögin voru sett 1966 með tilkomu stofnfjársjóðsins, en í hann leggja útvegsmenn og sjómenn fram 10% af andvirði fiskafurða og það eitt út af fyrir sig gerir bæði eðlilegt og skylt að breyta stjórn sjóðsins. Ég tel, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, ætti að fara mjög vandlega yfir gildandi lög og gera allmargar fleiri breytingar á lögunum um Fiskveiðasjóð, en ég hirði ekki að rekja þær hér á þessu stigi málsins, en ég fagna því, að bankastjórarnir fimm í stjórn Fiskveiðasjóðs báru þó gæfu til þess, þegar framkvæmdastjóri Fiskveiðasjóðs, sem verið hefur í áratugi, fer nú að láta af störfum, að velja mann til að veita Fiskveiðasjóði forstöðu, sem hefur verið í forustu fyrir sjávarútveginn í áratugi og þekkir sennilega betur en flestir, ef ekki allir aðrir, hvar skórinn kreppir að í sjávarútvegi og ég virði það við núverandi stjórn Fiskveiðasjóðs að hafa tekið hann fram yfir aðra úr hópi umsækjenda, án þess að ég ætli á nokkunn hátt að segja misjafnt orð um aðra umsækjendur eða efast um hæfni þeirra til þessa starfs. En mér finnst það koma úr hörðustu átt að heyra ávallt mótmæli við stöðuveitinguna, eins og einhver ákveðin stétt eigi einkarétt á því að eignast forustumenn á þessum sviðum. Starfsmannafélag bankamanna hefur mótmælt þessari ráðningu. Ég get ekki skilið, að það eigi að vera einhver sérréttindi fyrir bankamannastéttina að sitja fyrir í starf eins og forstjórastarf fyrir stærstu stofnun sjávarútvegsins í landinu. Ég tel það ekki síður eðlilegt, að forustumenn, menn með þekkingu á sjávarútvegsmálum, sitji að öðru jöfnu fyrir um slík störf. Mér finnst rétt, að þessi skoðun komi hér fram á Alþ. og þrátt fyrir þá skoðun, sem ég hef haft á stjórn Fiskveiðasjóðs, hvernig hún hafði verið skipuð, þá tel ég, að þetta hafi verið eitt það allra bezta, sem stjórnin gat gert og trygging fyrir því, að það verður litið á málefni sjávarútvegsins af réttsýni og skilningi í framtíðinni, eins og Fiskveiðasjóður hefur jafnan gert frá fyrstu tíð, enda er Fiskveiðasjóður óskabarn útvegsmanna almennt í landinu og sjávarútvegsins. Hann hefur verið ein þarfasta stofnun, sem sjávarútvegurinn hefur átt.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vænti þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, afgreiði það, því að ég tel, að þessi höfuðbreyting á lögum um stjórn Fiskveiðasjóðs eigi fullkomlega rétt á sér og eigi að fara í gegn á þessu þingi.