27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

30. mál, verðstöðvun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. flm. lýsti eftir afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessa máls, til þessa mikilvæga máls, sem frv. hans og hinna annarra flm. fjallar um. Af þessu tilefni vil ég aðeins láta þess getið, sem raunar hv. þdm. er áreiðanlega fullkunnugt, að undanfarnar vikur hafa átt sér stað viðræður milli fulltrúa ríkisstj., launþegasamtaka, atvinnurekendasamtaka og bændasamtaka um það, hvaða ráð væru tiltækileg og skynsamleg til þess að koma í veg fyrir þá víxlhækkun verðlags og kaupgjalds, sem fyrirsjáanleg er, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hana. Og mér skilst, að allir skynsamir menn séu á einu máli um, að enginn muni græða, en allir skaðast á þeirri þróun. Ríkisstj. hefur undanfarið verið að ræða þetta mikla vandamál og þingflokkar stjórnarflokkanna munu ræða það allra næstu daga. Ég get fullvissað hv. flm. um það, að ríkisstj. og stjórnarflokkunum er ekki síður ljóst en flokkum stjórnarandstöðunnar, að hér er um alvarlegt vandamál að ræða, sem nauðsynlegt er að taka föstum tökum. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra stétta, það er hagsmunamál þjóðar heildarinnar, að verðstöðvun verði komið á í einu eða öðru formi og það mál mun áreiðanlega koma til afgreiðslu innan tíðar.