27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

30. mál, verðstöðvun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að hv. þm. skuli vera ríkisstj. sammála um það, að það hafi verið gagnlegt og skynsamlegt að efna til viðræðna á milli fulltrúa ríkisvaldsins og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og bænda um það mikla vandamál, sem við erum væntanlega alveg sammála um, að við er að etja á þessu hausti í íslenzkum efnahagsmálum. Það er rétt að taka það alveg skýrt fram, að fyrir ríkisstj. vakti aldrei í þessu sambandi, að hér gæti orðið um neins konar samninga að ræða milli ríkisvaldsins annars vegar og fulltrúa vinnumarkaðarins og bænda hins vegar. Okkur var að sjálfsögðu algerlega ljóst, að Alþýðusambandið fer ekki með neinn samningsrétt fyrir hönd þeirra verkalýðsfélaga, sem gerðu kaupgjaldssamninga á s.l. sumri, og aldrei hefur verið eitt orð um það sagt, munnlega né skriflega, af hálfu nokkurs málsvara ríkisstj., að það væri meiningin með þessum viðræðum að komast að neins konar bindandi samkomulagi milli ríkisvalds annars vegar og fulltrúa launþega hins vegar um neins konar breytingu á þeim kjarasamningum, sem þegar hafa verið gerðir. Þeir eru gerðir af réttum aðilum og við höfum aldrei ætlað okkur þá dul, að þessi vettvangur væri vettvangur til þess að gera þar neins konar breytingu á. Tilgangurinn með viðræðunum var auðvitað sá, eins og margyfirlýst hefur verið, að safna upplýsingum, safna rækilegum upplýsingum um vandann, sem við blasir, þannig að það auðveldaði öllum aðilum, sem hlut eiga að máli, skynsamlega skoðanamyndun um málið. Og ef menn hefðu með athugunum sérfræðinga og hvers konar rannsóknum komizt að raun um það, hver vandinn væri og ef menn véfengdu ekki þær upplýsingar, sem til grundvallar lægju mati á vandanum, þá væri gagnlegt að skiptast á skoðunum um þær hugsanlegu leiðir, sem kæmu til greina til þess að ráða bót á honum. Það er sjálfsagt að segja það algerlega opinskátt, að fyrir ríkisstj. hefur með þessu það eitt vakað, að ef um mismunandi leiðir væri að ræða til þess að ráða bót á vandanum, þá vildi hún helzt velja þá leið, sem fulltrúum launþega fyrst og fremst væri að skapi eða þeir kysu helzt eða eins og einhvern tíma hefur verið orðað, væri minnst á móti skapi, sem er í raun og veru bara mismunandi orðalag sömu hugsunar. M.ö.o. það er um það að ræða og hlýtur að vera um að ræða margs konar valkosti og við töldum það vera skynsamlegt fyrir ríkisstj., eins og það væri skynsamlegt fyrir launþega, vinnuveitendur og bændur, að gera sér grein fyrir skoðunum hvers þessara fjögurra aðila á þeim leiðum, sem til greina kæmu.

Hann spurði um, hvort ríkisstj. hefði gefið einhverja ákveðna yfirlýsingu í tilefni af bréfi Alþýðusambandsins. Hún hefur ekki gert það, en hins vegar er mér ánægja að geta sagt frá því, að þær lausafregnir, sem hv. þm. hefur haft af því, hvað ríkisstj. hafi lagt til í þessum málum, eru staðlausir stafir, hún hefur enn ekkert lagt til. Þær lausafregnir, að hún hafi lagt til, að lausnin yrði fólgin í því að stífa vísitöluna um 5–6—7 stig, þ.e.a.s. að gera ráðstafanir til þess að launþegar fengju ekki bætt 5–6–7 stig af orðinni eða væntanlegri vísitöluhækkun, þessar lausafregnir eru algerlega úr lausu lofti gripnar, eins og allir, sem hér eiga hlut að máli, mundu geta borið vitni um, ef til þess kæmi.

Hv. þm. átelur ríkisstj. fyrir það að hafa ekki lagt fram tillögur enn fyrir hið háa Alþ., það hefði átt að ræða við Alþ. vandamálin í heild frekar en ræða þau við aðila utan Alþ. Það var áður búið að lýsa því yfir, að það hafi verið skynsamlegt að efna til viðræðna við aðila utan Alþ. Þær hafa staðið yfir í margar vikur. Hins vegar hefur Alþ. aðeins setið í tvær vikur, og ég tel það nú ekki sanngjarna gagnrýni að átelja ríkisstj. fyrir það að hafa ekki skýrt frá hugsanlegum hugmyndum sínum, þegar aðeins tvær vikur eru liðnar frá því að Alþ. kom saman. Ríkisstj. þarf auðvitað að ráðgast við sína stuðningsmenn um þetta vandamál. Það er skylda hennar, áður en hún varpar fram hugmyndum fyrir Alþ. og í þau mörgu ár, sem ég hef setið hér, minnist ég þess aldrei, að venja hafi verið að hefja málefnalegar umr. um flókin vandamál fyrr en málavextir liggja fyrir, fyrr en ríkisstj. er tilbúin til þess að segja sína skoðun á málinu og koma fram með sínar hugmyndir um málið. Þá er eðlilegur tími og eðlilegur vettvangur til þess að ræða efni málsins. En að þetta mál er flókið og vandasamt, kemur bezt og greinilegast fram í því frv., sem hv. Alþb.–menn hafa lagt fram. Ég skil ekki í, að nokkrir nema þá þeir sjálfir telji það vera fullnægjandi lausn á vandanum. Það þarf að taka á málinu með meiri yfirsýn og með meiri alvöru heldur en gert er í því frv.