29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Eins og kemur fram í grg. frv., þá fjallar það um þá breytingu á tekjuskatts— og eignarskattslögum, að persónufrádráttur einstaklinga og hjóna, frádráttur vegna barns og frádráttur vegna heimilisstofnunar og svo þrepin í skattstiganum, skuli breytast til hækkunar eða lækkunar í samræmi við framfærsluvísitöluna. Nú er sá háttur á þessu, að fjmrh. ákveður breytingar á skattvísitölunni án þess að vera bundinn af nokkrum ákveðnum reglum um það, hvernig hann framkvæmir þær breytingar.

Mér finnst rétt að rifja upp í stuttu máli sögu skattvísitölunnar. Það má segja, að hún hafi komið fyrst til framkvæmda á þingi 1953, en þá var gerð mjög víðtæk breyting á lögum um tekju— og eignarskatt, sem þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, beitti sér fyrir. Þá var það ákvæði sett í lögin, að tölur tekjuskattsstiga, þ.e.a.s. frádrættirnir og skattþrepin, skyldu breytast í samræmi við kaupgjaldsvísitölu, en á þeim tíma var kaupgjaldsvísitalan og framfærsluvísitalan í raun og veru eitt og hið sama. Ástæðan til þess, að þetta ákvæði var sett í lög, var sú, að laun höfðu þá hækkað mjög að undanförnu, ekki vegna þess að rauntekjur hefðu aukizt, heldur vegna þess að dýrtíð hafði aukizt í landinu og laun hækkað samkv. dýrtíðarvísitölu og þess vegna voru skattstigarnir í raun og veru komnir úr öllu samræmi við það, sem löggjafinn hafði upprunalega ætlazt til, þegar þeir voru settir og þess vegna þótti rétt, að það ákvæði yrði sett í lögin, að skattþrepin og frádrættirnir skyldu breytast í samræmi við þær breytingar, sem yrðu á kaupgjaldavísitölu eða framfærsluvísitölu, þannig að það yrði tryggt, að skattar hækkuðu ekki nema því aðeins að hækkun yrði á rauntekjum.

Mér finnst rétt að geta þess í þessu sambandi, að þó að þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, ætti frumkvæði að því á þinginu 1953, að þessi regla var sett í skattalögin, þá var búið að hreyfa þessari hugmynd áður hér á Alþ. og það gerðu tveir þáv. þm. Sjálfstfl. og núv. ráðh., Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson. Þeir fluttu þá sérstakt frv., sem hét ekki „um breytingar á tekju– og eignarskattslögum“, heldur „um lækkun skatta í lágtekjum“ og eitt höfuðatriði í því frv. var einmitt það, að skattstigarnir skyldu breytast í samræmi við framfærsluvísitölu. Hæstv. núv. forsrh., en þáv. þm., Jóhann Hafstein, flutti þá merka ræðu um þetta mál á Alþ. og lýsti því mjög rækilega, hvernig skattarnir hefðu farið hækkandi á undanförnum árum, án þess að Alþ. hefði gert nokkra breytingu á skattstigunum, heldur hefði það verið dýrtíðin, sem hefði alltaf verið að hækka þá, án þess að rauntekjur hefðu nokkuð aukizt. Og það var af þeirri ástæðu, sem hann og hv. meðflm. hans, Magnús Jónsson núv. fjmrh., fluttu þetta frv., sem þeir kölluðu ekki frv. um breytingu á tekjuskatts– og eignarskattslögunum, heldur frv. um lækkun skatta á lágtekjum, því að sjálfsögðu voru það lágtekjumennirnir, sem þeir voru fyrst og fremst að hugsa um, eins og reyndar er gert af okkur, sem stöndum að þessu frv.

Framhaldandi saga þessa máls var sú, að þetta ákvæði hélzt allt til ársins 1960 eða allan þann tíma, sem Eysteinn Jónsson var fjmrh. eftir að lögin voru sett, en þá var komin hér til valda ný ríkisstj., viðreisnarstjórnin svokallaða og það var eitt af aðalloforðum hennar að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Og í samræmi við það voru sett ný skattalög, þar sem skattstigum var verulega breytt frá því, sem var í gildandi lögum, á þann hátt, að það átti að vera nokkurn veginn tryggt, að því er talið var, að tekjuskattur yrði ekki lagður á almennar launatekjur eða meðallaun. Hins vegar var sú breyting jafnframt gerð, að skattvísitalan var alveg felld niður og það mun hafa verið gert í trausti þess, að ríkisstj. mun hafa treyst á, að hún væri alveg búin að ráða niðurlögum verðbólgunnar og dýrtíðarinnar og þess vegna væri óþarft að hafa þetta ákvæði áfram í lögum. En þetta fór nú á aðra leið. Dýrtíðin hefur sjaldan eða aldrei aukizt meira en á þessum tíma og þess vegna sótti hér í sama horfið og áður, að skattar fóru stórhækkandi vegna dýrtíðaruppbótanna, án þess að rauntekjur ykjust nokkuð. Og þess vegna var svo komið á árinu 1964, að skattar, tekjuskattur og útsvör, voru orðnir svo háir, að fram var látin fara athugun á því af hálfu ríkisstj. og sérstakra sérfræðinga, hvað ætti að gera til þess að auðvelda skattgreiðendum skattabyrðina. Niðurstaðan varð sú, að sérfræðingarnir lögðu til, að skattgreiðendum yrðu veitt sérstök lán, tveggja eða þriggja ára lán, til þess að geta greitt skattana. Ég skal nú ekki segja, hvort framkvæmd varð í þessum efnum, en þetta sýnir hins vegar ljóslega, í hvert óefni var hér komið. Þetta leiddi svo til þess, að á næsta þingi voru skattalögin tekin til gagngerðrar endurskoðunar og þá var skattstigum breytt í það horf, að það átti að vera talið nokkurn veginn tryggt, að almennar launatekjur væru undanþegnar tekjuskatti. Og ég er ekki fjarri því, að það hafi nokkurn veginn náðst með skattstigunum, sem þá voru settir, miðað við það ástand, sem þá var í þjóðfélaginu. Þá þótti rétt að taka upp hið gamla fyrirkomulag, skattvísitöluna, en í stað þess að hún hafði áður verið miðuð við kaupgjaldsvísitöluna eða framfærsluvísitöluna, þá var það ákvæði sett, að hún skyldi ákveðin af fjmrh. hverju sinni að fengnum tillögum kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra. Þetta mun nú hafa verið framkvæmt þannig, að tillagna kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra mun aldrei hafa verið leitað, og verður það að teljast ákaflega undarlegt og óviðeigandi, að lagaákvæðum um jafnmikilsvert mál skuli ekki hafa verið framfylgt hvað þetta atriði snertir, því að það gæti að sjálfsögðu haft veruleg áhrif á ákvörðun skattvísitölunnar af hálfu fjmrh., ef fyrir lægju ákveðnar tillögur frá kauplagsnefnd, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra um það, hver hún ætti að vera og þó sérstaklega frá kauplagsnefndinni. En þetta er sú óvenja, sem mjög er farin að tíðkast hér, að það er látið ógert af yfirvöldum og ekki sízt af ráðh. að fara nokkuð eftir því, sem lög mæla fyrir um, hvernig framkvæmd vissra mála skuli vera háttað. Fjmrh. hefur ekki aðeins vanrækt að leita álits þessara aðila, heldur hefur hann ákveðið skattvísitöluna.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er að koma hér í salinn og mér finnst því rétt að endurtaka það með nokkrum orðum, sem ég var að segja hér rétt áðan varðandi framkvæmd skattvísitölunnar, en ég var að átelja ráðh. fyrir það, að hann hefði ekki farið eftir gildandi ákvæðum skattalaganna um það, að aflað sé tillagna kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra um það, hver skattvísitalan ætti að vera hverju sinni. En það er ekki aðeins óviðeigandi, heldur í raun og veru alveg óverjandi af ráðh. eða hvaða embættismanni, sem þar á hlut að máli, ef hann fer ekki að eins og lög gera ráð fyrir í sambandi við…. (Gripið fram í.) Ja, ég hef leitað upplýsinga hjá þessum aðilum, t.d. hagstofustjóra og hann kannast ekki við það, að hans álits hafi nokkurn tíma verið leitað um þessi efni, hver kaupgjaldsvísitalan ætti að vera. Ég hygg, að sama gildi um kauplagsnefnd. En ef ég fer hér með rangt mál, þá vona ég það, að hæstv. ráðh. upplýsi það með því að gefa mér og hv. þm. upplýsingar um það, hverjar hafi verið tillögur kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra um þessi efni á undanförnum :árum. Ef það er rétt, að hæstv. ráðh. hefur leitað umsagna þessara aðila, ættu þær að geta legið fyrir og þá ættu þm. að geta haft aðgang að því að kynna sér, hverjar þær hafi verið. Ég vona, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. segir um þessi efni, en ekki ég, en hann sannar þá mál sitt með því að leggja fram skriflegar upplýsingar um tillögur þessara aðila á undanförnum árum um það, hver skattvísitalan hafi verið og hvernig þeir hafa lagt til, að það yrði gert. Því miður óttast ég það, að hæstv. ráðh. eigi ekki auðvelt með að útvega þessar skýrslur. En hann hefur sagt það hér, að þær lægju fyrir og þá mun hann að sjálfsögðu gera það. Ég skal svo ekki ræða þetta atriði frekar að sinni, en ég vænti þess, að við framhaldsumræður málsins gefi hæstv. ráðh. upplýsingar og leggi fram gögn, sem staðfesti það, að hann hafi hér farið með rétt mál. En mig minnir hins vegar, að svör hans um þetta efni væru nokkuð önnur í fyrra og hann hafi þá færzt undan því að halda því fram, að slíkra tillagna hafi alltaf verið leitað. En ef þetta er rangt með farið hjá mér, sem stafar af því, að þeir aðilar, sem ég hef leitað til, hafi ekki gefið mér réttar upplýsingar um þetta, þá skal ég að sinni sleppa ádeilu á hæstv. ráðh. fyrir þetta atriði og bíða þangað til hann leggur umrædd plögg fyrir Alþ.

En það, sem ég vildi svo segja áfram, er þetta og því getur hæstv. ráðh. ekki mótmælt, að hann hefur ákveðið skattvísitöluna af algeru handahófi á undanförnum árum og án þess að fara eftir nokkrum ákveðnum reglum. Það sést bezt á skattvísitölunni sjálfri, hvernig hún hefur verið frá ári til árs. En ég held, að hæstv. ráðh. geti ekki bent á neina reglu, sem hefur verið farið eftir í þeim efnum, heldur hreint handahóf. Fyrstu árin, sem hæstv. ráðh. tók ákvörðun um þetta, var það þannig, að þá virðist hann hafa fylgt nokkurn veginn framfærsluvísitölunni, en eftir að erfiðleikarnir ganga hér í garð eftir 1967 tekur hann ekki minnsta tillit til þess, hver kaupgjalds— eða verðlagsþróun hefur orðið í landinu og ég má segja, að eitt eða tvö árin hafi sama og engar breytingar orðið á skattvísitölunni, þrátt fyrir það að verulegar hækkanir yrðu á framfærsluvísitölunni og kaupgjaldsvísitölunni og þetta þýddi það, að menn urðu að taka á sig verulega auknar skattabyrðar án þess að rauntekjur þeirra hefðu nokkuð aukizt, og í sumum tilfellum höfðu rauntekjurnar verulega rýrnað eins og sést á skýrslum viðkomandi aðila um það á árunum 1968 og 1969, vegna þess að þá fóru launatekjur eða rauntekjur verulega minnkandi. En á þessum árum hækkuðu bæði útsvörin og tekjuskatturinn eigi að síður, a.m.k. hvað einstaklinga snerti. Þess vegna var líka svo komið á s.l. vetri, að skattvísitalan var ekki ákveðin nema 140 stig, en hefði átt að vera 173 stig, ef framfærsluvísitölunni hefði verið fylgt og miðað við meðaltal hennar árið 1964, þegar skattalögin voru sett á sínum tíma. Það vantaði sem sagt hvorki meira né minna en 33 stig til þess að skattvísitalan fylgdi framfærsluvísitölunni.

Nú hefur skattvísitalan fyrir næsta ár enn ekki verið ákveðin, en það hefur verið gefið til kynna í grg. fjárlagafrv., með óákveðnu orðalagi þó, að það muni verða tekið eitthvert tillit til hækkunar á meðaltekjum eða framfærsluvísitölu á þessu ári. En jafnvel þó að svo færi, að það yrði gert og teknar til greina þær verðhækkanir, sem orðið hafa á þessu ári, við ákvörðun skattvísitölunnar fyrir næsta ár, þá mundi samt vanta 33 stig upp á það, að hún fylgdi framfærsluvísitölunni miðað við grundvöllinn frá 1964. Og þessi mismunur mun verða mjög örlagaríkur við ákvörðun skatta á næsta ári, því að hann mundi þýða það, ef hann fengist ekki neitt leiðréttur, að meginhluti eða allt að 60% þeirra launahækkana, sem almenningur hefur fengið á þessu ári, mundi lenda í skatti, ef engin breyting fengist á þessu, eða m.ö.o. meginhlutinn af þessum tekjum mundi komast í það skattþrep, sem greidd eru af 27% í tekjuskatt og 30% í útsvar. Það mundu sem sagt fara nær 60% af launahækkunum þessa árs í tekjuskatt og útsvar, ef ekki fengist frekari breyting á skattvísitölunni, en boðað er í fjárlagafrv. Og það er m.a. til þess að fá leiðréttingu á þessu og til þess að koma í veg fyrir þetta, sem þetta frv. er flutt.

Ég hygg, að ég þurfi svo ekki að rekja þetta mál öllu meira að sinni. Ég held, að öllum hljóti að vera það ljóst, að það sé bæði réttlætismál og hagsmunamál fyrir skattþegna, að skattvísitalan á þessum verðbólgutímum sé látin fylgja einhverri ákveðinni reglu. Það sé ekki ákveðið af handahófi hjá fjmrh. hverju sinni, hver hún eigi að vera.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að, að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.