29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir góð og skýr svör, en því aðeins spurði ég, að mér þótti það merkilegt, að nú í októberlok bólar ekki á einu einasta af öllum þeim frv., sem ríkisstj. þarf að leggja fram, ef hún ætlar að koma þessu fram fyrir jól. Og það mega vera hröð vinnubrögð, ef þetta tekst, jafnvel þó að ekki líði langt héðan frá, þangað til frv. sýna sig hér á hv. Alþ. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann óski mér til hamingju með það, hvað ég sé orðinn ríkur, þá má hann líklega óska einhverjum fleiri slíks. Ég held samt sjálfur, að ég sé ekkert ríkari í október en ég var í september eða ég hef ekki komið auga á það. Eða heldur hæstv. ráðh. virkilega, að stjórnin sé alltaf að gera fólkið í landinu ríkara með verðbólgunni? Nei, það held ég, að sé einhver skekkja. Það er vitanlegt, að í krónutali hlýtur mat á eignum að breytast, ef þær á annað borð eru metnar eftir því, sem krónurnar minnka, en að menn verði ríkari fyrir að eiga tíeyringa eða fimmeyringa núna, sem áður voru krónur, það held ég, að sé ekki ríkidæmi, a.m.k. mundu fáir af hinum kapítalísku einstaklingum hér í landi sætta sig við það ríkidæmi.