02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

35. mál, siglingalög

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. nr. 35 flyt ég ásamt 2. þm. Vestf. frv. til l. um breyt. á siglingalögum nr. 66 31. des. 1963. Samhljóða frv. því, sem nú er flutt, fluttum við á síðasta þingi, en þar sem var orðið nokkuð áliðið þings, varð það ekki útrætt og kom ekki úr n. Það, sem hér er lagt til með frv. þessu, er það, að öll íslenzk skip, varðskip og öll fiskiskip, séu skyldug til að veita hvert öðru aðstoð, þegar um tjón er að ræða og skip þarf að draga inn til hafnar. Er hér átt við skip yfir 100 rúmlestir að stærð, því að allt frá 1938 hafa þessi ákvæði gilt um skip, sem eru tryggð hjá Samábyrgð Íslands og væri þetta til samræmis við það. Ég vil skýra frá því, eins og reyndar kemur hér fram í grg., að frv. þetta var samið af nefnd, sem sjútvrh. skipaði til þess að athuga, á hvern hátt væri hægt að draga úr kostnaði við tryggingar fiskiskipa. Þessu verkefni þeirrar nefndar var skilað í nóv. 1968 ti1 sjútvrn., en um það var ekki flutt stjfrv. Eins og segir í grg., er þetta frv. flutt með vitund sjútvrh. Ég vil aðeins skýra frá því, að allir aðrir þættir, sem þessi svokölluð tryggingamálanefnd lagði til, sem voru raunverulega auknar kvaðir á útvegsmenn eða að dregið var úr þeim réttindum, sem þeir fengu í gegnum tryggingarnar, hafa komið til framkvæmda, en þessi eini þáttur var eftir. Nú mætti spyrja: Er þetta svo stórt, að það sé ástæða til að flytja frv. um það þing eftir þing? Samkv. upplýsingum, sem lágu fyrir frá tryggingafélögunum, námu bætur vegna greiðslu fyrir svokallaða björgun og aðstoð á árunum 1964, 1966 og 1967 til jafnaðar á ári 2 millj. 556 þús. Nei, fyrirgefið, ég tók hér vitlausar tölur, nei, tjónið, sem þetta nam á þessu árabili nam 38 millj. 303 þús. og greiðslur vátryggingafélaganna námu 15.6% af þeirra útgjöldum. Það gefur auga leið; að þetta atriði verður til þess að auka mjög iðgjöldin, þegar tekið er tillit til tjónabóta við ákvörðun iðgjalda. Ég veit það, að þótt frv. þetta yrði samþ., mundi þessi upphæð að sjálfsögðu ekki hverfa, en það væri ekki langt úr vegi að áætla, að hún gæti kannske minnkað um þriðjung eða jafnvel 40% af þessu, þegar um það væri að ræða.

Nú hef ég fengið upplýsingar frá Íslenzkri endurtryggingu um það, að á árunum 1968 og 1969 námu þessar greiðslur fyrir aðstoð í 376 skipti 24 millj. 390 þús. kr. Og er þá miðað við verð gildi peninganna í árslok 1969. Hjá endurtryggjendum eru 188 bátar endurtryggðir og af þeim hluta eru 87 bátar, sem fengið hafa aðstoð í þessu skyni í 139 skipti, sem nálgast það að um 40% af flotanum hafi fengið þarna aðstoð. En sagan er ekki öll sögð enn. Og hún er sú, að það liggja 300–400 kröfur hjá endurtryggjendum óafgreiddar og nema þær kröfur um 2—15% af vátryggingarverði skipanna. Ef allar þessar kröfur væru greiddar eins og þær liggja fyrir, þá mundi það þýða 0.8% í iðgjöldum og þá sjá allir, hversu geigvænleg hækkun mundi verða, þegar til ákvörðunar kemur á iðgjöldum síðar. Það má vel vera, að í hugum manna sé það mikið atriði, að ekki megi skerða þann rétt, sem þriðji aðili hefur í sambandi við björgun. Í því sambandi leitaði nefnd sú, sem ég minntist á og Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur var formaður fyrir, álits Magnúsar Torfasonar og frumvarpsgreinin er raunverulega samin af honum. Ég vil taka það fram, að hann var því ekki að öllu leyti sammála, að þetta væri kannske hin rétta leið. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að þetta er sama ákvæði og gilt hefur allt síðan 1938, eins og ég sagði áðan, á skipum, sem eru tryggð hjá Samábyrgðinni, innbyrðis. Hér er talað um að útvíkka það til allra fiskiskipa og varðskipanna. Það er enginn að tala um það, að aðilum verði ekki vel greitt fyrir, þegar þeir, veita aðstoð og það er einnig í frvgr. gert ráð fyrir því, að ef um vafaatriði er að ræða, þá sé nefnd manna, sem fjalli um það og leggi sinn dóm á það, en ef menn vilja ekki við una, þá geta þeir leitað réttar síns hjá dómstólunum.

Með tilliti til þess, að þetta frv. var flutt hér í fyrra og þá reifað og umr. urðu nokkrar um það við 1. umr., þótt það kæmi ekki úr n., sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál, en ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.