11.11.1970
Efri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

4. mál, ríkisreikningurinn 1968

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þegar fjhn. hafði þetta frv. til meðferðar, voru á fundi n. rædd aðallega þau atriði, sem endurskoðunin hafði skotið til aðgerða Alþ. Það eru tvö atriði, sem þarna er um að ræða: Annars vegar ákvarðanir stjórnar Bjargráðasjóðs og hins vegar launagreiðslur til starfsmanna húsameistara ríkisins. Skal ég nú fara fáum orðum um þessi atriði hvort um sig.

Í 17. aths. ríkisendurskoðendanna er skotið til aðgerða Alþ. ákvörðunum stjórnar Bjargráðasjóðs um tvö atriði: 1) Ákvörðun um afslátt á húsaleigu fyrir leiguhúsnæði Bjargráðasjóðs til Sambands ísl. sveitarfélaga. 2) Ákvörðun um styrkveitingar úr sameignardeild sjóðsins.

Varðandi fyrra atriðið hefur ríkisendurskoðunin í fyrsta lagi litið þannig á, að stjórninni væri óheimilt að veita þann afslátt á húsaleigunni, sem um er að ræða, og í öðru lagi telur ríkisendurskoðunin, að þetta hafi ekki verið bókfært rétt. Það er bókfært á viðhaldskostnað hússins, en ríkisendurskoðunin telur, að réttara hefði verið að færa þetta sem sérstakan gjaldalið. Hér er auðvitað um bókhaldsatriði eitt að ræða, sem mér sýnist litlu máli skipta efnislega. Um hitt atriðið, þ. e. eftirgjöf á húsaleigunni, hef ég fengið upplýsingar bæði frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnúsi Guðjónssyni, sem mætti á nefndarfundi, þegar mál þetta var til umr., og enn fremur hef ég átt kost á að bera þetta undir starfsmann ríkisendurskoðunarinnar, en ágreiningur var um það í bjargráðasjóðsstjórninni, hvort þessi 40 þús., sem þarna er um að ræða, skyldu gefin eftir.

Nú er það upplýst, að í sjálfu sér var ekki ágreiningur um það, við hvað ætti að miða húsaleiguna. Eins og kemur fram í ríkisreikningnum, var miðað við 960 kr. ársleigu á m2, en upplýst hefur verið, að þessi tala er byggð á athugun, sem gerð var á því á vegum bjargráðasjóðsstjórnar, hvað mundi vera markaðsverð fyrir þetta húsnæði, en um það er, eins og ég sagði, ekki ágreiningur. Það, að Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir að fá þessa eftirgjöf eða gerði kröfu um það, byggðist á því, að á þessari hæð, sem er eign Bjargráðasjóðs, var húsnæði, sem ónotað var, og var þeirri húsaleigu, sem skyldi greiða fyrir það, jafnað á þá þrjá aðila, sem sameiginlega leigja þetta húsnæði, en það eru auk Bjargráðasjóðs, Samband ísl. sveitarfélaga og Lánasjóður sveitarfélaga. Ágreiningurinn var um það, að sveitarstjórnasambandið taldi sér ekki skylt að greiða meira en næmi því húsnæði, sem það hafði notað, en taldi rétt, að Bjargráðasjóðurinn, sem var eigandi húsnæðisins, bæri sjálfur það tap, sem af því leiddi, að hluti af húsnæðinu var ónotaður. Það, sem meiri hluti bjargráðasjóðsstjórnarinnar hefur fallizt á, er þá þetta, að sú húsaleiga, sem sveitarstjórnasambandið greiddi, skyldi aðeins miðuð við notað húsnæði. Í fjhn. virtist mér nú, hvað sem öðru liði, að sú skoðun væri ríkjandi, að eðlilegt væri, að það væri stjórn Bjargráðasjóðsins, sem hlyti að ákveða þetta — þurfi líka að ákveða þetta atriði.

Hitt atriðið, sem ágreiningur var um, var ákvörðun stjórnar Bjargráðasjóðsins um úthlutun til bænda vegna tjóns af grasbresti o. s. frv. úr sameignardeild sjóðsins. Hér er í rauninni um bókfærsluatriði eitt að ræða, en ég skal í örfáum orðum gera nánari grein fyrir því, sem kemur fram í ríkisreikningnum, um hvað þarna er að ræða.

Með l. um Bjargráðasjóð frá 1967 var stofnuð sérstök deild við sjóðinn, sem nefnist afurðatjónadeild. Og samkv. lögunum virðist ekki vafi á því, að þeir styrkir, sem hér er um að ræða, heyra undir afurðatjónadeildina. Hins vegar var ákvæðum eldri laga um sameignardeildina, sem áður hafði veitt styrki í þessum tilgangi, ekki breytt, og á þeim grundvelli ákvað sjóðsstjórnin að veita umrædda styrki úr sameignardeildinni.

Hér er í rauninni um lögfræðilegt spursmál að ræða, sem erfitt var fyrir fjhn. út af fyrir sig að úrskurða. Ástæðan fyrir því, að bjargráðasjóðsstjórnin ákvað að veita þessa styrki úr sameignardeild, var að hennar dómi sú, að afurðatjónadeildin hefði ekki næga peninga til þess að standa straum af þessu. En þar sem sameignardeildin hafði áður sinnt þessum verkefnum og ákvæðum um verksvið hennar hafði ekki verið breytt, taldi bjargráðasjóðsstjórnin sér þetta heimilt. Eðlilegt verður að telja í sjálfu sér, að úr því að þessi nýja deild var stofnuð, þá hafi hún ákveðnum verkefnum að gegna, sem séu þá sérstök, þannig að aðrar deildir séu ekki látnar veita slíka styrki, nema alveg sérstaklega standi á. Enn fremur má gjarnan upplýsa það, að ríkisendurskoðunin telur, að þetta fé hafi verið fyrir hendi í afurðatjónadeildinni. En jafnframt er rétt að geta þess, sem að mínu áliti gerir þetta að smámáli, að sá starfsmaður ríkisendurskoðunarinnar, sem ég hafði tal af, taldi, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að á yfirstandandi ári yrði þessi fjárhæð, sem veitt var úr sameignardeildinni — en að áliti ríkisendurskoðunarinnar ætti réttilega að veita úr afurðatjónadeildinni — endurgreidd frá afurðatjónadeildinni, því að sú breyting hefur orðið á, að á s. l. ári, eins og ríkisreikningurinn fyrir 1969 mun bera með sér, þá hefur verið halli á sameignardeildinni, en töluverður tekjuafgangur, sem nemur allmiklu meira en þeirri fjárhæð, sem hér er um að ræða, hjá afurðatjónadeildinni, þannig að þetta er hægt að færa til baka. Og ég mundi telja það eðlilegt. Með því væri málinu kippt í lag. En eins og ég sagði, er hér um bókhaldsatriði eitt að ræða í rauninni.

Þá kem ég að hinu atriðinu. Það mun vera 9. aths. hjá yfirendurskoðuninni, en það eru launagreiðslur til húsameistara ríkisins og tveggja starfsmanna hans, skrifstofustjóra og gjaldkera. Rétt er, að það sé hér upplýst, að það kom fram í samtali mínu við áðurnefndan starfsmann ríkisendurskoðunarinnar, en kemur e. t. v. ekki nægilega ljóst fram í ríkisreikningnum, að húsameistari sjálfur hefur endanlega greitt það, sem ríkisendurskoðunin gerði honum að endurgreiða. Hvað þetta snertir a. m. k., þá ætti hans mál að vera úr sögunni. Hins vegar hefur verið ágreiningur um hina starfsmennina tvo, sem ríkisendurskoðunin gerði að endurgreiða fjárhæðir, sem þeir höfðu fengið fyrir yfirvinnu. Þeim úrskurði var svo skotið til dómsmrn., sem embætti húsameistara ríkisins heyrir undir. Úrskurðurinn var á þann veg, að líta yrði þannig á, að þessir menn hefðu unnið eftirvinnu, sem mætti meta til jafns við það verk, sem þeim var gert að endurgreiða, og greiðslan því felld niður.

Eins og kemur fram í ríkisreikningnum, er hér um ágreining að ræða milli ríkisendurskoðunarinnar og fjmrn. annars vegar og dómsmrn. hins vegar. Ég mundi líta þannig á, hvað sem öðru líður, að hvað snertir þá hliðina, sem að starfsmönnunum snýr, eigi þeir að geta treyst því, að úrskurðurinn, sem rn. þannig hefur fellt, sé endanlegur, þannig að óeðlilegt væri, hvað sem menn hyggja um réttmæti þessa máls, að hér eftir væri farið að krefjast greiðslu af þeim. Og um hitt geta auðvitað verið skiptar skoðanir, hvers eigi að meta þá yfirvinnu, sem þessir menn hafa innt af hendi. En ég tel, að fjhn. hafi ekki haft neina aðstöðu til þess, þegar hér er um að ræða vinnu, sem hefur verið unnin fyrir nokkrum árum, að meta slíkt. Til þess þyrfti hún að kynna sér störf þessara manna og hvað þeir hafa unnið á þessum tíma. Ég tel ókleift fyrir fjhn. eða aðrar n. hv. Alþ. að rannsaka það mál, þegar svo langt er um liðið, þannig að hjá nefndinni kemur að sjálfsögðu ekki fram nein afstaða til þess, hvor þessara aðila, sem ágreiningur er á milli, hafi rétt fyrir sér. Ég tel, að það sé ekki aðstaða til þess að meta það.

En að öðru leyti tel ég, að ekki geti annað komið til greina en að Alþ. staðfesti ríkisreikninginn, eins og frá honum er gengið. Hvað snertir afgreiðslu málsins í n., þá mælir n. með því, að frv. verði samþ. eins og fram kemur í nál. á þskj. 108, en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til aths. við einstaka liði ríkisreikningsins.