04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

46. mál, menntaskólar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós nú við 1. umr. þessa máls, að ég tel, að Menntaskóli Austurlands eigi að rísa á Egilsstöðum. Ég er ekki einn um þá skoðun. Ég tel óhætt að fullyrða, að mikill meiri hluti manna á Austurlandi vill að menntaskólinn verði þar, telur það hagfeldast og á allan hátt eðlilegast eins og málið er vaxið. Ég vil biðja menn að taka eftir því, að hv. flm. færir engin rök fyrir því að taka Eiða fram yfir Egilsstaði nema þau, að það sé skóli á Eiðum, sem mætti leggja niður, gagnfræðaskóli á Eiðum, sem mætti rýma og þangað væri hægt að setja inn menntaskóla í þau húsakynni. Það var einhliða þessi ástæða, auk þess, að það hefði áður verið skóli á Eiðum langa hríð. Öllum er kunnugt, að Eiðar eru merkur skólastaður og þýðingarmikill í sögu Austurlands, en rökin voru eingöngu þau, að þar væri pláss, sem væri að losna og því væri hægt að notfæra sér það. Því væri það hagfellt. En alls ekki hitt, að Eiðar hefðu nokkuð fram yfir aðra staði sem menntaskólasetur. Að þessu kem ég síðar.

Það er skoðun þeirra flestra, sem þessi mál hafa skoðað, þ.á.m. kom það greinilega fram á aðalfundi sveitarstjórnasambands Austurlands, þar sem lögð var fram áætlun fyrir næstu ár um uppbygging menntamála í Austfirðingafjórðungi, að það verði að halda Eiðaskóla áfram um ófyrirsjáanlega framtíð og það gæti því alls ekki verið um að ræða að rýma þar neitt pláss fyrir eitt né annað. Kennsla á gagnfræðastiginu yrði að vera þar áfram fyrir þau byggðarlög, sem ekki geta haft gagnfræðaskóla heima hjá sér og fyrir framhaldsnám gagnfræðinga hliðstætt því, sem sett hefur verið upp utan menntaskóla í öðrum byggðarlögum og raunar er aðeins byrjað á Eiðum. Þessu hlutverki yrði Eiðaskóli að sinna. Það var í þeirri áætlun, sem þar var rædd og ítarlega skoðuð, gert ráð fyrir því, að 3 skólar yrðu á Austurlandi hliðstæðir, jöfnum höndum gagnfræðaskólar og skólar fyrir framhaldsnám gagnfræðinga, með svokölluðum fjölfræðideildum, þ.e. í Neskaupstað, á Höfn í Hornafirði og á Eiðum. Skyldunámið verði fært heim í byggðarlögin eins og hægt væri, en sameiginlegur menntaskóli fyrir allt Austurland.

Ég vil skýra frá, að það hefur farið fram könnun á viðhorfi sveitarstjórna á Austurlandi um skólastað fyrir menntaskóla, sem nefnd sú, er skipuð var á sínum tíma til þess að íhuga þetta mál, stóð fyrir. En sú nefnd var m.a. sett á fót fyrir frumkvæði alþingismanna af Austurlandi. Samkvæmt þeirri skoðanakönnun voru það forráðamenn 19 sveitarfélaga, sem vildu hafa menntaskólann á Egilsstöðum. Að baki þeim standa 4.009 íbúar. Forráðamenn 4 sveitarfélaga mæltu með Eiðum, og er íbúatala þeirra 2.251. 2 sveitarfélög mæltu með Neskaupstað og er íbúatala þeirra sveitarfélaga 1.654. En 8 sveitarstjórnir mæla með Egilsstöðum eða Eiðum og er íbúatala þeirra sveitarfélaga, sem stóðu að baki þeirra forráðamanna 1.496, Eitt sveitarfélag, þ.e.a.s. Reyðarfjörður, mælti með Reyðarfirði. En það var Neskaupstaður og Norðfjörður, sem mæltu með Neskaupstað. Af þessu sést, að forráðamenn 19 sveitarfélaga mæla með Egilsstöðum, en 4 með Eiðum og 8 með báðum þessum stöðum, þ.e.a.s. gera ekki upp á milli þeirra. Það kemur einnig fram, að það eru einungis forráðamenn þriggja sveitarfélaga á Austurlandi, sem ekki mæla með Egilsstöðum sem skólastað. Forráðamenn allra sveitarfélaga á Austurlandi utan þriggja hafa því mælt með Egilsstöðum sem skólastað fyrir menntaskóla. Má segja, að vilji Austfirðinga sé sæmilega skýr í þessu máli. Það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því, að allir séu sammála um málefni eins og þetta. Það er ekki við slíku að búast. Það koma svo mörg sjónarmið þarna til greina. Ég fullyrði, að þær sveitarstjórnir, sem mæltu með Eiðum, muni yfirleitt ekki hafa gert ráð fyrir því, að bygging menntaskóla á Eiðum þýddi, að gagnfræðaskólinn yrði lagður niður. Þeir hafa hugsað sér, að það yrði byggður nýr skóli á Eiðum, en gagnfræðaskólinn ekki lagður niður. Ég efast um, að slíkt hafi hvarflað að þeim, þegar þessi skoðanakönnun fór fram.

Ég vildi að það kæmi hér fram, hvernig þessi eftirgrennslan varð um þetta efni, en síðan vil ég færa nokkur rök fyrir því, hvers vegna ég og mjög margir fleiri viljum, að menntaskólinn komi á Egilsstaði. Egilsstaðir eru þannig í sveit settir, að þar um liggja allar leiðir, að segja má, innan Austfirðingafjórðungs og inn í fjórðunginn. Egilsstaðir liggja fast við góðan og batnandi flugvöll, einn af beztu flugvöllum landsins, sem einnig tengir staðinn við aðra landshluta. Egilsstaðir eru ekki aðeins tengdir traustum böndum við öll byggðarlög á Austurlandi, heldur einnig við aðra landshluta, og það er vitanlega gífurlega mikið atriði, vegna þess að menntaskóli af þessu tagi á að vera þannig, að hann geti verið eftirsóttur af fólki hvaðanæva af landinu. Egilsstaðir eru orðnir stórt kauptún og stórvaxandi og það er vitaskuld stórfelldur kostur að geta sett menntaskóla á slíkan stað. En t.d. um vöxt Egilsstaðakauptúns má geta þess, að það er nýbúið að samþykkja lánveitingu þangað í 16 íbúða blokk og allar íbúðirnar seldar, fyrirfram. Það leikur enginn vafi á því, að Egilsstaðir eru stórvaxandi byggðarlag. Þetta þýðir, að aðstaða til félagslífs fyrir, nemendur skóla af þessu tagi er mjög góð einmitt á Egilsstöðum. Á Egilsstöðum er örugg læknaþjónusta, það er verið að byggja fullkomna læknamiðstöð einmitt á Egilsstöðum. Þar er fullkomin verzlunarþjónusta og margs konar önnur þjónusta í bezta lagi. Það er mjög aðlaðandi fyrir kennaralið og aðra, sem þurfa að starfa við menntaskóla, að eiga heima á Egilsstöðum og yrði ólíkt léttara að fá vel hæfa kennara á slíkan stað en þann, sem væri að meira eða minna leyti einangraður frá því fjölbýlislífi, sem verður á stað eins og Egilsstöðum. Um þetta er ekkert að efast. Fyrir heimilin er þarna góð þjónusta, þarna eru barnaleikvellir, dagheimili og annað, sem mikið er lagt upp úr, að sé í fullkomnu lagi. Þá er það ákaflega stór þáttur í þessu máli, að á Egilsstöðum mundi verða hægt að fá leiguhúsnæði fyrir fjölda aðkomu nemenda, einstök herbergi. Það væri því hægt að komast af með miklu minni heimavistir á Egilsstöðum en ef skólinn væri á Eiðum, það er alveg augljóst mál. Íþróttahúsi og sundlaug þarf að koma upp á Egilsstöðum hvort sem er og væri þess vegna mjög mikil hagræðing að koma þeim stofnunum upp í einu lagi fyrir byggðina sjálfa og menntaskólann. Á Egilsstöðum eru nú þegar búsettir nokkrir menn með háskólapróf og sem ráða yfir annarri þekkingu, menn sem hægt væri að fá til þess að vinna að stundakennslu við menntaskólann. Þannig má í raun og veru nálega endalaust telja fram atriði, sem sýna, að það er bæði eðlilegra og hagfelldara að reisa menntaskólann á Egilsstöðum en á Eiðum, þótt sá staður hafi ýmislegt til síns ágætis.

Loks má geta þess, að á Egilsstöðum mundi skólinn liggja alveg sérstaklega vel við til afnota á sumrin til þess að taka á móti gestum, ferðafólki og mætti reka þar gistihús til stuðnings þeirri stórfelldu umferð, sem er á þessum slóðum og sífellt vaxandi. Þannig væri hægt að slá fleiri en eina flugu í sama höggi með því að velja skólanum stað í þessu stórvaxandi þéttbýlissvæði á miðju Austurlandi. Þetta munu vera nokkrar helztu ástæðurnar fyrir því, að svo margir telja sjálfsagt og eðlilegt að reisa skólann á Egilsstöðum.

Ég skal ekki fremur en hv. flm. tala langt mál um þetta efni, heldur aðeins drepa á örfá aðalatriði og kem að lokum að því aftur, hvort á Eiðum verði laust húsnæði fyrir menntaskóla. En það var einmitt á því, sem hv. flm. byggði sinn málflutning og sína till. Ég vísa í því efni til þeirrar athugunar, sem farið hefur fram á vegum sveitarstjórnasambandsins og ég vil taka það upp hér aftur, að nefnd sú, sem hefur unnið að þessum málum á vegum sambandsins, telur, að það verði í framtíðinni að vera 3 fullkomnir gagnfræðaskólar með heimavist á Austurlandi, sem sé á Eiðum, í Neskaupstað og á Höfn í Hornafirði og nefndin leggur áherzlu á, alveg stórkostlega áherzlu á, að Eiðaskóla megi þess vegna alls ekki leggja niður. Enn fremur leggur nefndin mikla áherzlu á, að framvegis verði að vera hægt að taka upp framhaldsnám fyrir gagnfræðinga á öllum þessum stöðum. Nefndin sýnir einnig fram á það með alveg óyggjandi rökum, að það er óhugsandi, að hægt sé í öllum byggðum Austurlands að koma í framkvæmd heima fyrir því námi, sem nú fer fram á Eiðum. Það sé með öllu óhugsandi. Það kemur greinilega fram, að um ófyrirsjáanlegan tíma verði að vera á Eiðum a.m.k. 2 deildir 3. bekkjar miðskóla og ein landsprófsdeild og tvær gagnfræðadeildir a.m.k. og helzt 2 framhaldsdeildir eftir gagnfræðapróf og þó enn meira í framtíðinni. Við verðum að gæta þess, að það er ekki hægt að hugsa sér, að allir, sem vilja fara í framhaldsnám, fari í menntaskóla. Það þarf að koma upp í fjórðungum landsins einnig framhaldsnámi með öðrum hætti.

Og til þess þurfum við að sjálfsögðu skóla, eins og ég hef komið hér inn á. Það er því ljóst, að yrði Eiðaskóla kippt í burt í núverandi mynd, eða í þeirri mynd, sem hann færist í með eitthvað breyttri skipan skyldunáms, hlyti að skapast algert öngþveiti á þeim skólastigum á Austurlandi. Það breytir engu í þessu sambandi og var vel skoðað á aðalfundi sveitarstjórnasambandsins í sumar, þar sem þessi mál voru ítarlega rædd, — það breytir engu í þessu sambandi, þó skyldunámið verði lengt um eitt ár. Það losar ekki Eiðaskóla frá því að starfa áfram fyrir framhaldsnám, sumpart á því stigi, sem við nú köllum gagnfræðastig og sumpart að framhaldsnámi fyrir gagnfræðinga.

Ég er hræddur um, að þessi hugmynd, sem hv. flm. er talsmaður fyrir, að hægt sé að losa Eiðaskóla og setja Menntaskóla Austfirðinga þar inn, hafi orðið málinu óþörf að því leyti til, að hún hefur tafið, að það yrði tekin ákvörðun um staðinn. Og ég tek undir það einmitt með hv. flm., að það hefur dregizt of lengi að taka ákvörðun um skólastaðinn, því að það er sannast að segja ekkert hægt að gera fyrr en búið er að ákveða, hvar skólinn skuli vera. Þess vegna er meira en mál til komið, að ákvörðun verði tekin um það efni. En ég tel, eins og ég hef þegar sagt í þessum orðum, að það eigi að ákveða menntaskólanum stað á Egilsstöðum.