04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2760)

46. mál, menntaskólar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að þegar ég sá þetta frv., sem hér er til umr., þá varð ég nokkuð undrandi á því, að þetta mál væri flutt hér inn á Alþ. og það á þann hátt, sem þarna er gert. Það er ekki aðeins það, að hér er lagt til af einum þm. af Austurlandi, að menntaskólanum skuli vera ákveðinn staður á Eiðum, heldur er það einnig, að í grg. frv. er sterklega látið að því liggja og ekki gat ég betur heyrt en hins sama gætti í þeim málflutningi, sem hv. flm. hafði hér í frammi, að í rauninni væri menntaskólamálið á Austurlandi stöðvað vegna óeiningar á Austurlandi um staðarval fyrir skólann. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla þessu algerlega. Það er allt annað, sem á stendur og skal ég nú víkja nokkru nánar að því. Það gefur náttúrlega alveg auga leið, þegar um það er að ræða, að koma eigi upp menntaskóla í heilum landsfjórðungi eins og Austurlandi, þar sem slíkur skóli hefur ekki verið fyrir, þá hljóta vitanlega á slíku landsvæði að vera uppi nokkuð mismunandi skoðanir um það, hvar hagkvæmast væri að byggja skólann. Skoðanir falla ekki svo gersamlega saman hjá mönnum í heilum landshlutum. En það er eitt, sem hefur komið alveg greinilega fram hjá þeim Austfirðingum öllum, sem um þetta mál hafa talað, þar sem ég hef verið mættur, fulltrúum hinna einstöku byggðarlaga, að þar hafa menn sagt allir einum rómi: „Við viljum fá menntaskóla á Austurland og við munum standa allir sem einn með honum, þar sem honum verður ákveðinn staður,“ Málið er þannig, að það er ekki á valdi okkar Austfirðinga að ákveða það, að ríkið skuli byggja skóla á einhverjum tilteknum stað. Sveitarstjórnirnar á Austurlandi geta ekki ákveðið það, að skólinn skuli vera á Eiðum. Vitanlega er hér um hreinan ríkisskóla að ræða og það er auðvitað ríkið sjálft, það er auðvitað ráðh. eða þá Alþ., sem verður að ákveða það, hvar á að byggja skólana. Sveitarstjórnarmenn á Austurlandi geta vitanlega látið uppi sínar skoðanir um það, hvar þeir teldu hagkvæmast að byggja skólann. Eins og hér hefur verið sagt, þá hafa fjórir staðir verið tilnefndir, þegar leitað hefur verið eftir hugmyndum manna á Austurlandi um það, hvar bezt væri að byggja skólann. Og þessir staðir eru, eins og kemur fram í grg. frv., Neskaupstaður, Reyðarfjörður, Eiðar og Egilsstaðir. Þeir sem tilnefndu Reyðarfjörð, voru Reyðfirðingar sjálfir og ekki aðrir og lái þeim hver sem vill, að þeir telja sinn stað vel fallinn til þess að rúma menntaskóla. En það kom ekki fram frekari stuðningur við þá tillögu í þessari könnun. Í Neskaupstað, þar sem er stærsta byggðarlagið á Austurlandi og þar sem er nú langstærsti gagnfræðaskólinn á Austurlandi, héldu skólamenn því fram, að það væri á margan hátt eðlilegast að byggja við þann skóla og byggja hann upp, en það vildu ekki aðrir styðja það, að menntaskólinn yrði þar, en íbúarnir í Neskaupstað og í Norðfjarðarhreppi, sem liggur þar rétt innar. En fólk frá öðrum stöðum, þeir sem báru ábyrgð á svörum sveitarfélaganna, þeir mæltu ekki með því. Hver vill lá þeim í Neskaupstað, skólamönnum þar, að þeir töldu fram ýmsa kosti, sem þar voru til staðar, því til framdráttar, að skólinn yrði staðsettur þar? En ég vil undirstrika það, að þessir skólamenn í Neskaupstað, sem mættu við umræður um þessi mál, þeir tóku skírt fram: Við munum styðja að vexti og gengi skólans á allan hátt, hvar sem honum verður ákveðinn staður. Nokkrir mæltu með Eiðum, en þeir voru mjög fáir, mjög fá sveitarfélög líka. Langsamlega flestir sveitarstjórnarfulltrúarnir mæltu með því, að skólinn yrði á Egilsstöðum. Á það var bent af einhverjum snjöllum manni, sem hafði einhvern áhuga á Eiðum, að ef t.d. ætti að reikna höfðatöluna, sem stæði á þak við sveitarstjórnarsamþykktirnar og ef t.d. Neskaupstaðarbúar vildu nú allir snúast til fylgis við þá, sem studdu Eiða, þá færu nú að verða álíka margir íbúar á bak við þá tillögu eins og hinir, sem studdu Egilsstaði. En fulltrúar frá Neskaupstað sögðu alveg hiklaust, að þeir hefðu enga löngun til slíks. Ég hef litið þannig á, að Austfirðingar væru búnir í þessu máli að gera þá eðlilegu könnun, sem þeir eiga að gera. Þeir eru búnir að leggja þessa spurningu fyrir alla sveitarstjórnarmenn um allt svæðið og það er búið að tilkynna menntmrh. fyrir löngu síðan um niðurstöðu þessara athugana. Svo er það vitanlega ráðh. að ákveða, hvar skuli byggja skólann.

Ég vil í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt, þar sem menn reyna að gera upp á milli þessara tveggja staða, Egilsstaða og Eiða, hiklaust segja það sem mína skoðun, að ég hef persónulega hug á því, að skólinn verði frekar á Egilsstöðum en á Eiðum. Og miðað við allar aðstæður, ef málið verður lagt fyrir mig, hvort sem það verður hér á Alþ. eða annars staðar, þá mun ég hiklaust greiða atkv. með því, að menntaskólinn verði byggður á Egilsstöðum. Mér dettur ekki til hugar, eða okkur í Neskaupstað, þó margir þar álíti, að það væri vel til fallið að hafa hann þar, að gera nokkrum manni það til geðs að tefja það á einn eða neinn hátt, að ráðizt sé í byggingu menntaskóla á Austurlandi. Því fer víðs fjarri. Það standa engar deilur á milli okkar eða nokkurra annarra um staðarval. Hitt var aðeins það eðlilega, að það komu fram mismunandi sjónarmið á því, hvar hagkvæmast væri að koma skólanum upp. Ég held líka, að flestir þeir, sem studdu hugmyndir um það, að skólinn yrði byggður á Eiðum, hafi raunverulega haldið, að á þann hátt mætti koma skólanum í gagnið með minnstum fjármunum. Það væri tiltækilegast að leysa vandann á þann hátt. En það er mín skoðun, að Eiðaskóli hafi ákveðnu hlutverki að gegna og við megum ekki missa hann úr gagnfræðaskólakeðjunni þar fyrir austan. Nú eru aðeins tveir gagnfræðaskólar starfandi á öllu Ansturlandi, þ.e.a.s. gagnfræðaskólinn í Neskaupstað og gagnfræðaskólinn eða alþýðuskólinn á Eiðum. Og það er enginn vafi á því, að þessa skóla þarf báða að reka áfram jafnhliða því, sem það kemur upp menntaskóli.

Ég álít fyrir mitt leyti, að það sé fyrir löngu kominn tími til þess, að menntmrn. og menntmrh. ákveði þessum skóla stað. Hann hefur fengið umsögn Austfirðinga um það, hvert þeirra álit er, þeirra rök liggja fyrir á borðinu og ég álít fyrir mitt leyti, að það sé engin ástæða til þess — nema þá að menntmrh. lýsi því yfir, að hann sé í algerum vandræðum með það að finna út, hvar hinn rétti staður eigi að vera, — engin ástæða til þess að fara að leggja þetta fyrir Alþ. og láta Alþ. segja til um það, hvort skuli byggja skólann á þessari lóð eða hinni. Ég álít, að þm. séu ekkert betur til þess fallnir að ákveða það heldur en menntmrh. sjálfur og hans starfsmenn, hafandi umsögn Austfirðinga í eins skýru máli og hægt er. Ein leið væri auðvitað fyrir menntmrh. í þessu efni. Það væri að varpa málinu til einhverra samtaka á Austurlandi og segja við þau viljið þið ekki bara ákveða — og gefa þeim þá leyfi til að ákveða staðinn. Þá mundu Austfirðingar gera það og vera búnir að því. En við skulum ekki láta það heyrast, því að það er margt — og það veit ég, að hv. flm. frv. þekkir mæta vel — það er alveg röng hugmynd, að því sé þannig farið, að það hafi dregizt að ákveða menntaskólanum á Austurlandi stað og það hafi dregizt með framkvæmdir í málinu, af því að Austfirðingar geti ómögulega komið sér saman um staðarval. Þeir eiga ekki samkv. neinum lögum rétt til þess að ákveða staðinn. Þeir hafa aðeins getað sagt það, þegar þeir hafa verið að spurðir í hinum ýmsu sveitarfélögum, hvar þeir teldu eðlilegast að hafa skólann. Og þetta hefur komið mjög skýrt fram í þeirra svörum. Ég held því, að hv. flm. frv. sé að villa hér um fyrir þm., þegar hann segir í sinni grg. um þetta mál, ein setningin er á þessa leið: „Mér leiðist þóf þetta“, rétt eins og við stöndum í einhverju eilífðarþófi fyrir austan og tefjum allt málið og af því þurfi hér að koma til, eins og þar stendur: „Hér þarf að höggva á hnút“ og við virðumst, Austfirðingar, hafa búið til einhvern rembihnút á þetta. Þetta er alrangt. Þannig liggur málið ekki fyrir. Nei, því miður er nú þetta mál þannig, að það er ekki nægilegur vilji eða skilningur til þess að ráðast í framkvæmdir við byggingu þessa skóla og það þykir kannske ýmsum gott að láta að því liggja, að það standi á öðrum en þeim að taka ákvörðun. En af því að ég heyrði, að hv. þm. gladdist yfir því, að hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefði hér tekið afstöðu til þess, hvar skólinn ætti að vera, þá vonast ég til þess, að hann gleðjist líka yfir því og ekki síður, þegar hann heyrir það, að ég mun styðja það alveg ákveðið, að menntaskólinn verði byggður á Egilsstöðum, alveg ákveðið og geri það hreinlega út frá þeim forsendum, sem fyrir liggja. Ég met það, það mikils að fá menntaskóla í fjórðunginn og ég veit, að það er ekki á mínu valdi eins eða skólamanna í Neskaupstað að ákveða neitt um þetta efni og get því prýðilega stutt það, að skólinn verði byggður þar. Ég álít því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, leysi engan hnút. Ef það gerir nokkuð, þá mun það veita þeim tækifæri, sem ekki eru viðbúnir að halda áfram með framkvæmd í þessu máli, þá mun það veita þeim rök fyrir því, að við Austfirðingar séum enn í hörðum deilum út af staðarvali um skólann. En það er það ekki. Það kann að vera, að það séu einhverjir örfáir menn, sem ég hef aðallega heyrt um getið nú í seinni tíð, sem virðast hafa einhverja mikla trú á því, að skólinn eigi frekar að vera á Eiðum, en annars staðar, en það hefur ekki komið fram í umræðum á Austurlandi um þetta mál fram til þessa, að þarna séu neinar harðar deilur á milli. Ég hafði nú því í rauninni viljað mælast til þess, að hv. þm., sem ég veit, að vill, að menntaskóli geti komið upp á Austurlandi sem fyrst, dragi þetta mál til baka og vinni með öðrum þm. Austf. að því að fá menntmrh. til þess að ákveða skólanum stað og þá fjárveitingu á komandi fjárlögum, sem þarf til þess, að hægt sé að fara að hefjast handa um það að koma skólanum upp.