04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

46. mál, menntaskólar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar, að hann styðji Egilsstaði sem skólastað, og tel það dálítinn atburð, að yfirlýsing hans í þá átt hefur komið hér fram. Hv. 3. þm. Austf. sagðist ekki hafa heyrt áður af mínum munni hreina afstöðu um það, hvar ég vildi hafa menntaskólann. Það undrar mig stórlega, að hv. þm. skuli segja þetta og mér þykir það stórum miður, að hann skuli segja þetta, því að hann hlýtur að vita betur. Hann hlýtur að vita, að ég hef undanfarið einmitt verið að reyna að fá hann, þegar tækifæri hefur gefizt, til þess að fallast á að styðja Egilsstaði sem skólastað. Það hefur aldrei verið neinn vafi á því, hvar ég hef staðið í þeim ágreiningi, sem um það hefur verið. Ég hygg, að ég hafi látið það uppi á einhverjum allra fyrsta fundinum, sem við áttum með menntaskólanefndinni eystra. Hitt er annað mál, að upphaflega fannst mér, eins og kom fram í frv., sem ég flutti með Einari Sigurðssyni, að Eiðar væru kannske eðlilegasti staðurinn. En undir eins og ég heyrði þau rök, sem fram voru færð fyrir því, að Egilsstaðir væru heppilegri, þá sannfærðist ég um, að svo væri og það væri á allan hátt sjálfsagt að reisa slíkan skóla á Egilsstöðum og ég hef reynt að vinna að því að fá sem flesta til þess að sameinast um það sjónarmið. Hv. þm. sagðist geta tekið undir margt af því, sem ég sagði um kosti Egilsstaðakauptúns sem skólastaðar, en síðan bætti hann við, að flestir kostirnir ættu líka við Eiða. En það er auðvitað algerlega rangt. Það sem ég nefndi, var einmitt það, sem Egilsstaðir hafa fram yfir Eiða og ég þarf ekki að endurtaka það hér. Egilsstaðir eru orðnir mikið og vænlegt þéttbýlissvæði, stórvaxandi, þar er læknamiðstöð, flugvöllur inni í byggðinni, samgöngumiðstöð og alls konar þjónusta fyrir það fólk, sem á heima á þessu þéttbýlissvæði, sem ekki er hægt að veita á Eiðum og stórum léttara að fá kennaralið að skólanum þar. Hægt að komast af með miklu, miklu minni heimavistir, en á Eiðum, sem er stórfelldur kostnaður o.s.frv. Ég fer ekki að endurtaka allt, sem ég sagði um þetta.

Hv. þm. sagði, að það þyrfti meira fé til þess að koma skólanum upp á Egilsstöðum, en á Eiðum, en ég tel, að þetta standi algerlega öfugt. Það þurfi mun minna fé til þess að koma skólanum upp á Egilsstöðum í hæfilegt horf, en á Eiðum. Og þar kemur einmitt til þetta stórfellda atriði, að það má hafa miklu minni heimavist á Egilsstöðum, en á Eiðum og raunar miklu minni búnað fyrir félagsmálastarf í skólanum, því að þar geta komið til sameiginlegar stofnanir fyrir skólann og byggðarlagið, t.d. eins og íþróttahús, sundlaug o.s.frv. Það er sem sé miklu ódýrara að koma upp góðum menntaskóla á Egilsstöðum, en á Eiðum. Það er ómögulegt að komast fram hjá þessum rökum. Þess er enginn kostur.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. hér, en mér þótti vænt um, að hv. þm. hörfaði nokkuð með þann málflutning sinn, að hægt væri að leggja gagnfræðanámið á Eiðum niður, enda hlýtur hann að sjá, skynsamur maður eins og hann er, þegar nánar er að gáð, að þess er ekki nokkur kostur. Hann fór því að gera því skóna í seinni ræðunni, að það þyrfti að hafa áfram eitthvert gagnfræðanám á Eiðum. Og það er einmitt það, sem þarf. Það þarf að hafa þar gagnfræðanám, sízt minna en verið hefur. Og helzt þyrfti að stórauka við á Eiðum, t.d. framhaldsnámi fyrir gagnfræðinga. Eins og ég benti á í minni fyrri ræðu, þá varð það niðurstaða skólamálanefndarinnar austfirzku, að það yrði að hafa slíkt nám a.m.k. á þremur stöðum á Austurlandi, Neskaupstað, Eiðum og Höfn í Hornafirði. Það fara ekki allir í menntaskóla, sem ætla sér að fara í framhaldsnám. Fjöldi fólks fer í annað nám og því verður að koma upp á Austurlandi. Það verður því ekki hægt að rýma neitt húsnæði á Eiðum fyrir menntaskóla og það er sorglegt, að þessi meinloka, sem sumir hafa verið haldnir undanfarið um það, að hægt sé að rýma þar fyrir menntaskóla, skuli hafa tafið fyrir því, að skynsamleg ákvörðun yrði tekin um staðarval fyrir menntaskóla á Austurlandi og þar með tafið fyrir málinu.

Hv. þm. sagði, að skólastjórinn á Eiðum mundi sjá betur þessi mál en aðrir á Austurlandi. Ég vil ekki á nokkurn hátt gera lítið úr því, að skólastjórinn á Eiðum sjái ýmsa þætti þessara mála skýrt, en ég vil þó með allri virðingu fyrir honum benda á, að það eru einnig fjöldamargir aðrir á Austurlandi, sem sinna skólamálum og þeir hafa komizt að allt annarri niðurstöðu um væntanlega þróun í þessu efni en skólastjórinn á Eiðum, alveg allt annarri niðurstöðu. Og ég þekki engan skólamann á Austurlandi, ég þekki ekki einn einasta skólamann á Austurlandi og ekki kom neinn fram á sveitarstjórnaráðstefnunni í sumar, sem hefur sama álit á þessu og skólastjórinn á Eiðum. Allir hinir kepptust við að leggja áherzlu á, að þessu væri einmitt alveg þveröfugt farið. Það mætti alls ekki gera ráð fyrir því, að Eiðaskóli gæti dregið saman seglin, þvert á móti yrði hann að magnast, enda er það augljóst mál, að eigi Eiðaskóli að verða einnig framhaldsskóli fyrir gagnfræðinga, þá verður skólastarfsemi þar að vaxa í stað þess að minnka.