05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

52. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að bera hér fram frv. um breyt. á l. nr. 89 frá 17. des. 1966 um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Flm. með mér að þessu frv. eru þeir hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, Ágúst Þorvaldsson, Magnús H. Gíslason og Sigurvin Einarsson. 1. gr. frv. er, þannig, með leyfi forseta :

Á eftir 3. málsl. 1. gr. laganna komi nýr málsliðum, svo hljóðandi:

Þó skulu tilraunir um innlenda fóðuröflun og heyverkun sitja fyrir öðrum verkefnum um fyrirgreiðslu.

2. gr. Í stað „1/3“ í 3. gr. laganna komi: 3/5.

Í 3. gr. laganna er þetta ákvæði um það, að það megi láta 1/3 af því ráðstöfunarfé, sem sjóðurinn hefur hverju sinni ti1 styrkveitinga, en með tilliti til þess, að sjóðurinn fari í vaxandi mæli að sinna rannsóknarverkefnum og enn fremur til þess að stuðla að uppbyggingu og endurbyggingu sláturhúsanna, þá finnst okkur, að þessi heimild sé of þröng eins og hún er í lögunum og leggjum til, að þessu sé breytt þannig, að nú verði það 3/5 hlutar.

3. gr. leggjum við til að verði þannig, að 4. gr. laganna orðist svo:

Framlag ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs skal ákveðið í fjárlögum hverju sinni. Þó skal framlagið aldrei nema lægri upphæð en 25 millj. kr. á ári. Leita skal umsagnar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands um, hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni og álitsgerðir þeirra skulu jafnan liggja fyrir, þegar fjvn. gerir tillögur sínar til Alþ, um framlög til sjóðsins.

Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi og var þá ekki meiri áhugi fyrir framgangi þess en svo, að það komst aldrei úr n. En það hefur svo gerzt, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt hér frv. um breytingu á þessum lögum, sem felur þó ekki í sér neina greiðslu til sjóðsins á næsta ári, enda þótt það væri upplýst í frv., að sjóðurinn hefði aðeins til ráðstöfunar á árinu 1970 8 millj. kr. og þá náttúrlega ekkert á næsta ári, ef þetta væri notað árið 1970. En miðað við það verkefni, sem sjóðurinn hefur, þá hljóta allir hv. þm. að sjá, hvers hann er megnugur með slíku fjármagni.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður samkv. 1. í des. 1966. Stofnframlag ríkissjóðs var 50 millj. kr., sem skyldu greiðast á fjórum árum. Fyrsta greiðslan fór til þess að greiða upp í þann halla, sem varð á útflutningssjóði árið 1966. Stofnfé sjóðsins var því raunverulega aldrei nema 30 millj. kr. Miðað við þau verkefni, sem sjóðnum eru ætluð lögum samkv., ná þeir fjármunir skammt til þess, sem til umráða eru, og því mikið nauðsynjamál að efla hann nú. Það hefur komið glöggt fram á liðnum árum, hvað bændur eru vanbúnir að mæta misjöfnu veðurfari, þrátt fyrir mikla ræktun og góðan tækniútbúnað víðast hvar. Í miklum óþurrkum eins og voru hér sumarið 1969 stór skemmdist og eyðilagðist með öllu mikið af heyi í stærstu landbúnaðarhéruðum landsins. Og nú á haustnóttum horfa margir bændur upp á það að verða að skerða bústofn sinn og það verulega vegna kalskemmda og sprettuleysis á liðnu sumri, en þrátt fyrir kalda veðráttu spratt víðast hvar grænfóður, a.m.k. hafrar, ef þeim var sáð nógu snemma.

Það er ekki mál bændanna einna, eins og sumir telja, hvernig til tekst með öflun fóðurs handa búpeningi landsmanna og hvernig gæði fóðursins eru. Gæði afurðanna eru að mestu undir því komin, hvernig fóðrið er. Og enginn vafi leikur á því, að það hefur veruleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar, að þessi þáttur framleiðslunnar, fóðuröflunin, sé í sem beztu lagi. Þar sem afkomuöryggi landbúnaðarins og gæði búvaranna byggjast fyrst og fremst á þessum tveimur þáttum, verður ekki séð, að önnur verkefni séu meira aðkallandi fyrir þjóðina að leysa og þar sem tilgangur Framleiðnisjóðs er að vinna að hagræðingu og framleiðniaukningu í landbúnaði, lítum við flm. svo á, að þótt mörg verkefni séu brýn, sem sjóðurinn þurfi að hjálpa til að leysa, þá eigi þetta verkefni að ganga fyrir öllu öðru. Á þessum sviðum er mörgum spurningum ósvarað og verður ekki svarað á viðhlítandi hátt, nema að undangengnum umfangsmiklum rannsóknum. T.d. er hraðþurrkun á heyi og grænfóðri á byrjunarstigi. Margir bændur tengja við hana miklar vonir, ekki sízt þar sem jarðhiti er fyrir hendi eða í næsta nágrenni. Sumir telja einnig, að það muni svara kostnaði að hraðþurrka hey og grænfóður með raf– eða olíuhitun. Það munu vera mörg atriðs í þessu sambandi, sem þarf að kanna af gaumgæfni og gera samanburðartilraunir með til að fá ódýrustu lausnina fram. Reynist þessi heyverkun hagkvæm við venjuleg skilyrði, mun hún valda gerbyltingu í landbúnaði okkar og skapa honum öryggi. Á sviði votheysverkunar þarf líka að gera umfangsmiklar tilraunir með verkunaraðferðir, bæði um tæknibúnað og byggingu og einnig um gæði fóðursins og bera saman þessar rannsóknir allar. Sumir telja, að það sé jafnvel hægt að verka vothey með því að hlaða því upp og setja plast utan um, en það vantar allar rannsóknir á þessu sviði og eins og árferðið hefur verið undanfarið, er það sýnilegt, að því þarf að hraða.

Áföllin, sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir síðustu árin, ættu að hafa aukið skilning almennings á því, hvað þá Alþingis, að nú þurfi að bregða við og leita eftir úrræðum til að koma í veg fyrir slík áföll eftir því sem hægt er. Það verður ekki gert nema með víðtækum rannsóknum og leiðbeiningarstarfsemi, sem kostar verulegt fjármagn. En til þess að tryggja það, að þær rannsóknir, sem ráðizt verður í, séu gerðar á skipulegan hátt og það fjármagn, sem til þeirra verður varið, nýtist sem bezt, komum við ekki auga á heppilegri eða eðlilegri leið, en að Framleiðnisjóður inni þetta hlutverk af hendi, enda í fullu samræmi við tilgang sjóðsins, sbr. 1. gr. laganna. Með því stofnframlagi, sem ríkissjóður lagði fram til Framleiðnisjóðs, er þess ekki að vænta, að hann geti valdið þeim verkefnum, sem í eðli sínu eru þannig vaxin, að hann ætti að sinna þeim, miðað við tilgang hans, markmið og þarfir. Óðaverðbólgan hefur minnkað framkvæmdamátt sjóðsins um meira en helming. Áföllin í landbúnaðinum síðustu árin kalla nú á mjög aukna starfsemi hans. Annars er hætt við, að heil byggðarlög leggist í auðn, verði tíðarfar með líkum hætti og síðustu ár og öflun fóðurs og verkun þess eins háð veðurfari og verið hefur. Þau verkefni, sem sjóðurinn hefur aðallega sinnt fram að þessu, eru endurbygging sláturhúsanna og að koma upp mjólkurtönkum. Mörg sláturhúsanna eru í þannig ástandi, að þau uppfylla engan veginn þær kröfur, sem nú eru gerðar til slíkra húsa miðað við kröfur erlendra aðila. Uppbyggingu sláturhúsanna og í sumum tilfellum endurbyggingu þarf að ljúka á fáum árum, en það verður ekki framkvæmanlegt nema verulegur hluti þess fjármagns, sem til þess þarf, verði veittur í óafturkræfum framlögum. Að öðrum kosti mundi slík fjárfesting hækka kjötverðið til neytendanna óhæfilega mikið. Það þarf einnig að stuðla að því að ljúka sem fyrst tankvæðingu í öllum stærri mjólkurframleiðsluhéruðum landsins. Það mundi lækka flutningskostnaðinn og auka hreinlætið. Margt fleira mætti nefna, sem er þess eðlis, að Framleiðnisjóður ætti að veita því stuðning, væri hann þess megnugur. En þar sem þau viðfangsefni, sem hér hefur verið fjallað um, eru stór og aðkallandi og ekki líklegt, að öðru verði hægt að sinna að neinu ráði á næstunni, er varla ástæða til þess að ræða þau frekar að þessu sinni.

Okkur flm. er ljóst, að það fjármagn, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða, er allt of naumt, þótt samþ. verði sú fjárveiting til sjóðsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., en ekki þótti vænlegt til árangurs að gera till. um hærri upphæð, enda auðvelt að hækka hana, ef meiri hl. fæst fyrir því hér í meðförum þingsins.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.